Morgunblaðið - 04.11.1990, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - 04.11.1990, Blaðsíða 17
oooej ÍÍI-IÍIMMVÖVI .t' íltlOJS MORGUNBI-AÐIÐ -SGNNUI UR 'U IDíiOM 19909 N. Texti og myndir: Jóhanna Kristjónsdóttir „STYÐJIÐ þið Kúrdar hernám Kúveit? Hafið þið ekki þolað það mikla hörku af hálfu Iraka að þið skiljið að það hlýtur að vera þungbært fyrir Kúveita að láta innlima sig í Irak.“ Yehya Mohammad Al-Jaffar, fylkisstjóri í Arbil og næstæðsti maður Kúrdistan hikaði eilítið. „Kúrdistan er hluti íraks. Yið erum ein þjóð. írakar hafa lagt mikið til Kúrdistan og einkum í landbúnaði, við höfum fengið traktora, útsæði og áburð þannig að við getum eflt framleiðsluna stórlega. Við styðjum því okkar menn.“ Rólyndislegt fas og yfirvegun A1 Jaf- fars voru ekki sannfærandi Ég velti fyrir mér af hverju honum væri svona órótt sam- tímis því ég hlust- aði á frasakennd svör hans. Hann sagðist vera Kúrdi og það væri eigin- lega alveg liðin tíð að nokkur átök yrðu milli Kúrda og íraka. „En á leiðinni keyrðum við fram- hjá húsum í útjaðri Arbil sem virt- ust hafa verið sprengd í loft upp,“ sagði ég kurteislega. „Er það svona í gamni gert kannski?“ Hann leit spyrjandi á túlkinn, ræskti sig svo og sagði án þess að blikna: „Þetta voru gömul hús og heilsuspillandi fyrir fólk. Við ætlum að byggja ný nefnilega.“ Við höfðum nokkrir erlendir blað- amenn fengið að fara í dagsferð til Kúrdistan undir handleiðslu herra Jadonis sem hafði yfirumsjón með fjölmiðladeild upplýsingaráðuneytis- ins. Einnig voru nokkrir fleiri starfs- menn ráðuneytisins með í för; það þótti nauðsynlegt að hafa að minnsta kosti einn starfsmann á hverja 2-3 blaðamenn. Samt tókst okkur John Burns frá New York Times að týna herra Jadoni sem sýndi okkur þann sérstaka heiður að vera leiðsögumaður okkar á markaðnum. Markaðurinn hafði að sönnu ekki verið á þrautskipulagðri dagskrá en eftir nagg og nuð tókst að fá Jadoni til að leyfa okkur að ganga þar um í tuttugu mínútur. Þar var mikil mannþröng og þegar við uppgötvuðum að herra Jadoni var ekki í sjónmáli í nokkrar mínút- ur tókum við tali Kúrda einn, svo sem kom fram í frétt sem ég sendi meðan ég var í írak. Hann var óðfús að tala og sagði að leppstjórn Karims sem við hittum raunar seinna um daginn hefði látið sprengja húsin sem við höfðum séð. Fjöldi manns hefði beðið bana, þar á meðal konur og böm. „Um daginn var fylkisstjór- anum sýnt banatilræði og menn töldu sig rekja slóð sökudólganna í þessa húsalengju. Svo fundust þeir ekki í rústunum en aftur á móti lík kvenna þeirra og barna. Það hefur verið mjög ókyrrt hérna síðustu vik- ur. Ég er alveg hissa að þeir skuli koma með blaðamenn núna.“ Þar með var sem sagt komin skýr- ingin á hvað stjórinn var taugaó- styrkur, hugsaði ég. Hann á áreiðan- lega ekki sjö dagana sæla að vera hér í strengjabrúðuhlutverki stjórn- arinnar í Bagdad. í Arbil vorum við einnig -keyrð að barnaskóla þar sem krökkunum hafði verið stillt upp á skólalóðinni, augljóslega var koma okkar vel und- irbúin. Um leið og við birtumst fóru krakkarnir að klappa saman lófun- um og hrópa í samstilltum kór. Ég hugsaði með mér að þau væru kannski að fagna okkur útlending- unum. Lagði svo við eyru. „Við vilj- um úthella blóði okkar fýrir þig, Saddam. Við vitum að þú ert mest- ur, Saddam. Við viljum deyja fyrir þig og verða píslarvottar." Það var með algerum ólíkindum að hlusta og horfa á þetta. Börnin voru tryllt á svip og færðust öll í aukana þegar japanska sjónvarpslið- ið fór að taka myndir af þeim. Skóla- stjórinn sagði upphafinn á svip þeg- ar við urðum eitthvað vönkuð í fram- an. „Já, síðan við fengum aftur greinina á trénu sem breskir ruddar klipptu af báðu þau um að mega byija hvern skóladag með því að hylla Saddam Hussein, hinn mikla forseta okkar ...“ sagði hann. Ég spurði stóreygð hvort hann byggist við að við tryðum þessu. „Horfðu á börnin,“ sagði hann „þú hlýtur að heyra kraftinn og einlægnina í hróp- um þeirra." Það var og, hugsaði ég og sleit samræðum við skólastjó- rann. Við hö.fðum lagt af stað frá Bagdad klukkan fjögur um nóttina. Ég hafði minnst á það daginn eftir að ég kom að mig langaði að fara til Kúrdistan. Það svar fékkst að ferð væri í undirbúningi. Það lægi ekki fyrir hvenær hún yrði farin. „Það eru alls konar tæknileg vanda- mál sem þarf að leysa og svo verðum við að takmarka fjöldann. Við getum ekki leyft nema í mesta lagi tíu eða tólf að fara og það sækjast flestir eftir að fá að sækja heim Kúrdistan. Það er eins og allir haldi að þar sé eitthvað að sjá sem er neikvætt fyr- ir stjórnina," sagði herra Jadoni sár- leiður yfir því hvað blaðamenn hefðu neikvæðan hugsunarhátt. Hann sagði það myndi auka líkur mínar ef ég greiddi ferðina fyrirfram, þijú hundruð og fimmtíu dollara, takk fyrir. Ég yrði þó að skilja að kannski yrði ekki farið til Kúrdistan fyrr en eftir að ég væri farin og þeir gætu ekki endurgreitt mér ferð- ina. Ég ákvað að slá til, enda var ég þá ekki búin að átta mig á að verðlagið myndi á einni viku fara létt með að éta upp allan ferðasjóð- inn. Við vorum komin til Arbil, fylkis- höfuðborgar Kúrdistan, um tíuleytið og þá vorum við leidd inn á hótel og borinn í okkur kúrdiskur morgun- verður, brúnt soðbrauð, egg, ávextir og te. Kúrdarnir eru um margt ólík- ir írökum í útliti og klæðaburður karlanna sérstaklega er allt öðru- vísi, víðar rykkilínsbuxur og teknar saman um ökklana og sams konar treyja við. Konur voru margar klæddar upp á vestrænan máta en sums staðar þó í dæmigerðum kúr- dískum kjólum sem eru fagurlega ísaumaðir og skrautlegir. Þegar við höfðum nú heimsótt landstjórann áðurnefnda og farið í barnaskólann lá leiðin í kaþólska kirkju til að sýna okkur hversu mik- ið víðsýni ríkir hér í trúmálum. Þetta var falleg kirkja og presturinn útskýrði fyrir okkur hvað söfnuður- inn væri stór og hvenær kirkjan hefði verið byggð. Nokkrir Kúrdar voru á bæn, ég gekk um kirkjuna og fannst hún fallegj en það var eitthvað sem vantaði. Eg uppgötvaði von bráðar hvað það var. Hér var engin mynd af Saddam. Þó myndir Karlar á hljóðskrafi í Kúrdistan. Hameed Saeed, ritstjóri Bylting- arinnar. af honum og styttur séu bókstaflega út um allt eru þær hvergi fleiri en í borgum Kúrdistan. Þetta taldi ég tíðindum sæta. Ég gekk til guðs- mannsins sem var að kveðja blaða- mennina og stundi upp þessari spurningu minni. Ég heyrði kollega mína súpa hveijur. Kannski gekk þetta guðlasti næst. Presturinn hélt ró sinni. Sagði. „Það var minnst á það við mig. Ég benti á að í krist- inni kirkju væri það ekki viðeigandi. Ég hef engum þrýstingi verið beitt- ur.“ Rúsínan í pylsuenda heimsóknar- innar var svo fundur með Jafar Karim, æðsta manni Kúrdistan, og var hann haldinn í „þinghúsi" Kúrd- istan. Það var komin gremja í mann- skapinn, við máttum kannski búast við að ferðin yrði svona; við leidd eins og börn í bandi milli ákveðinna staða og allt í rígföstum skorðum. Atburðurinn við skólann hafði komið okkur í illt skap og ítalski blaðamað- urinn hafði farið að rífast við herra Jadoni sem var svona nokkurn veg- inn það tilgangslausasta sem hægt var að hugsa sér. Karim gekk ekki í salinn fyrr en- við vorum búin að fá okkur sæti og sjónvarpsvélar höfðu verið stilltar. Hann var í hermannabúningi, maður um fimmtugt, með litaða svarta hárkollu, kuldalegur í viðmóti, orð- Ijótur um rógburð og sögusagnir um að ekki væri allt í sómanum. Eitur- vopnaárásin var að undirlagi írana, írakar komu þar hvergi nærri. Eng- in vandamál í Kúrdistan. Allt í blóma og sóma. Hrokalegt fas Karims varð til að ýmsir espuðust upp. Hann haggaðist ekki þó ágengum spum- ingum væri beint til hans. „Komið ekki hingað með fyrirfram ákveðnar skoðanir," sagði hann. „Hlustið á fólkið, lítið í kringum ykkur og sjáið allar myndirnar af forsetanum. Myndum við hafa þær ef hann væri okkur ekki hjartfólginn." Hann heið ekki eftir svari, stóð upp og kvaddi stuttaralega. Hann tók í höndina á mér á leiðinni út, líklega af því ég var eina konan í hópnum. Ég fann hann var þvalur á hendinni. Hugsaði með mér. Hann er ekki jafn ömggur með sig og hann sýnist, karlskinnið. Það sem kom mér einna mest á óvart þessa viku sem ég var í írak var -að lífið virtist ganga að mestu leyti sinn vanagang. Skortur var ekki á matvælum öðrum en mjólk hvað sem öllu viðskiptabanni líður. Mikið berst af matvörum til landsins um Jórdaníu, en einnig frá Iran og Tyrklandi þó opinberlega styðji þau viðskiptabannið á írak. Á helgideg- inum, föstudegi, var straumur í moskuna, allar götur voru fullar af fólki, margir höfðu komið utan af landi í skemmtiferð og allar búðir virtust opnar og ekki vöntun á neinu. Þó tók ég eftir að sums stað- ar hafði litlum veitingastöðum, að- allega indverskum, verið lokað og slár voru fyrir stöku búðargluggum. „Það voru svo margir hræddir og flýðu,“ sagði Safa, fylgdarsveinninn minn þann daginn. Yfirleitt var þess^ gætt að skipt. væri um fylgdar- eða eftirlitsmann daglega svo að síður væri hætta á að einhver kynni tæk- just og manni yrði kannski sagt eitt- hvað _sem átti ekki að segja. En þar sem írakar eru fljótir að kynnast kom það raunar fyrir að ýmsir af jessum strákum hvísluðu „leyndar- máls“-upplýsingum að manni — stundum hafði þeim greinilega verið uppálagt að gera það, en hitt kom fyrir líka að þeir misstu út úr sér eitthvað sem þeir áttu áreiðanlega að þegja yfir. írakar fá ekki marga í heimsókn um þessar mundir en það mega þeir eiga að þeir blóðmjólka blaðamenn- ina sem þeir hleypa inn í landið. Þessa viku sem ég var í Bagdad voru um 40 blaða- og sjónvarpsmenn óar og í sendiráði íraks í Ámman sem er það eina sem hefur leyfi til að veita áritun — vitanlega eftir skipun frá Bagdad — var mér sagt að um 700 væru á biðlista. Síðustu vikurnar var um 10-15 veitt leyfi á viku hverri. Samtíma mér_voru fjór- ir starfsmenn, fulltrúar frá sjón- varpsstöðinni CNN, en tíu til viðbót- ar höfðu fengið synjun, 2 voru frá ríkissjónvörpum Finnlands, frá Tyrklandi, Égyptalandi, Spáni, Holl- andi og Mexíkó auk nokkurra starfs- manna útvarpsstöðva og blaða frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Sendiráðið í Amman hefur og fyr- irmæli um að láta blaðamenn vita á hvaða hóteli þeir skuli vera og ég held obbinn af liðinu hafi verið á Hótel A1 Rasheed. Það er fallegt hótel og hugnanlegt, herbergin rúm- góð og með síma sem stundum var hægt að hringja í og sjónvarpi sem venjulega var bilað. Áður voru næt- urklúbbar og hvers kyns veitinga- staðir á hótelinu en hefur öllum ver- ið lokað í sparnaðarskyni nema kaff- isjoppunni sem er opin allan sólar- hringinn. Þar var ágæt þjónusta og indverskur þjónn sem tók ástfóstri við mig, uppfyllti meira að segja þá ósk mína að útbúa írskt kaffi handa mér að kvöldverði loknum. Ekki veit ég hvemig hann útvegaði rjóma því hann er vart fáanlegur í Bagdad. Ráðuneytið fylgist mjög nákvæm- lega með hvaða blaðamenn koma og hvenær og það eru auðvitað send- ir menn að taka á móti hveijum og einum. Ekki þarf því að vandræðast yfir bið við vegabréfsskoðun, um það sjá þessir vinalegú ráðuneytisstarfs- menn. Blaðamönnum í írak skilst fljót- lega, ef þeir hafa þá einhveijar efa- semdir, að það borgar sig ekki að hafa í frammi einhveija töffstæla. Ef blaðámenn mynda án þess að hafa ráðuneytismann með sér getur það þýtt brottrekstrarsök. Þrír vora reknir umsvifalaust þessa daga sem ég var í landinu. Það varð mér mjög til hjálpar að Hameed Saeed, ritstjóri Bylting- arinnar, hafði lagt skilaboð til ráðu- neytisins um að hann vildi hitta mig þegar ég kæmi. Saeed er einnig skáld, formaður Arabíska rithöf- undasambandsins og síðast en ekki síst náinn vinur Saddams forseta. Ég kynntist honum lítillega í fyrri heimsókn til Iraks og fór vel á með okkur. í anddyri hótels A1 Rasheed hefur verið komið upp blaðamannamið- stöð, en ég arkaði framhjá og ákvað að skrá mig inn og skoða herbergið mitt áður en ég talaði við þá. Þá var allt í einu bankáð í öxlina á mér. Þar var kominn herra Jadoni. „Þú ert mjög velkomin til íraks,“ sagði hann. „Við erum hins vegar vanir því að blaðamenn snúi sér til okkar áður en þeir skrá sig sinn.“ „O, hvað ég kem niður eftir kortér," sagði ég ástúðlega. Herra Jadoni sagði það væri á móti reglunum. „En við erum með skilaboð frá Hameed Saeed til þín svo ég býst við það sé í lagi. Síðan hvenær þekkir þú hann?“ Það sýndi sig líka daginn eftir þegar ég fór að hitta Saeed vin minn að starfsmaður frá ráðuneyt- inu fékk ekki að koma inn og hlusta á samtal okkar og skraf. Hann varð að gera sér að góðu að sitja frammi á biðstofunni og múðraði ekki. Þegar ég kom heim á hótel horfðu starfsmenn ráðuneytisins á mig með pimilítilli lotningu og það var greini- legt að þeir tóku mig alvarlegar fyr- ir vikið. „Þið eruð vissir um að það séu ekki einhver skilaboð í dag frá forsetanum?" sagði ég hin kátasta og streymdi inn í kaffisjoppuna að fá mér salat og írskt kaffi. Ein- hverra hluta vegna fór þessi ágæti brandari minn fyrir ofan garð og neðan hjá þeim ráðuneytisdrengjum.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.