Morgunblaðið - 20.11.1991, Síða 35
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 20. NÓVEMBER 1991
35
fimm, Guðrúnu leikkonu, Ingi-
björgu upplesara, Helgu leikkonu,
Kristjáni og Stefáni, hljóðfæraleik-
urum, tengdabörnum og barna-
börnum innilegustu samúðarkveðj-
ur. Eftir langan og glæstan feril
er Þorsteinn Ö. Stephensen kvaddur
með söknuði, virðingu og aðdáun.
Starf hans og stefnumótun í leiklist-
arflutningi verður seint fullþakkað
og fullmetið; sem listamaður lyfti
hann okkur ögnina upp úr duftinu,
svo að við sjáum betur til sólar.
Sveinn Einarsson
Þá er hann afi okkar genginn
og aðeins minningin eftir hjá okk-
ur. En hvílík minning og hvílíkur
maður!
Þegar við strákarnir brutum okk-
ur leið inn í þennan heim og lentum
undir hans verndarvæng var hann
að sjálfsögðu kominn af besta aldri
og mikið til hættur að hafa sitt lifi-
brauð af list sinni. En þó hlutverk-
unum fækkaði og veikindi og van-
heilsa gerðu vart við sig, urðu verð-
leikar hans sem listamanns engu
síðri. Hæfileikar hans og hin gríðar-
lega sterku tök sem hann hafði náð
á leiklistinni komu vel fram í hans
daglega fari. Þá mátti einu gilda
hvort hann sagði okkur eina góða
hænusögu, fór með dýrindis skáld-
skap eða sagði okkur frá leikhús-
inu. Og alltaf átti hann athygli
okkar óskipta. Aldrei lét hann okk-
ur unglingana finna til vanmáttar
okkar í umræðum um listir og
menningu. Tilbúinn að hlusta á
okkur ekki síður en að miðla okkur
af sinni eigin reynslu og listfengi.
Sú ást sem hann hafði á sannri
leiklist lætur okkur ekki ósnortna.
Skap hans var stórt en rausnar-
skapurinn í okkar garð var alltaf
sá sami. Hann fylgdist með okkar
námi, hvatti okkur og deildi með
okkur okkar bestu stundum. Hann
var stundum sjálfum sér erfiður í
ósérhlífinni gagnrýni og þeirri sjálf-
skoðun sem einkennir oft jafn hæfi-
leikaríka listamenn sem hann var.
Hann var á margan hátt gæfumað-
ur og elskaður bæði í starfi og
heima við. Okkur bræðrunum virð-
ist þó hans mesta gæfa hafa verið
amma okkar, Dóróthea G. Breið-
fjörð, sem með gáfum sínum, krafti
og lífsþrótti studdi hann og styrkti
í hvívetna.
Við kveðjum hann afa „skafa”
með ást og aðdáun og þökkum hon-
um fyrir árin og ríkulegar minning-
ar.
Þorsteinn Guðmundsson,
Magnús Guðmundsson,
Stefán Þorvaldur Þórsson.
Á degi sem þessum, þegar Þor-
steinn Ó. Stephensen leikari er
kvaddur hinstu kveðju, er tregt
tungu að hræra, en hugurinn er
hjá honum.
Þorsteinn var leikari af guðs
náð, jafnvígur á gaman og alvöru
og svo snjall að honum lét jafn vel
að túlka afglapa sem gáfumenn.
Núna, þegar hann er látinn, er leik-
sviðið tómt, en endurminningar um
ógleymanlegar persónur, sem hann
skapaði á löngum ferli og rötuðu
allar beina leið til áhorfenda, fylla
tómið.
Leiðir okkar Þorsteins lágu fyrst
saman árið 1957 þegar Leikfélag
Reykjavíkur sýndi Browningþýð-
inguna eftir Terence Rattigan í
Iðnó. Á þessum árum var beðið
með óþreyju eftir hverri nýrri per-
sónusköpun frá hendi Þorsteins, en
túlkun hans á menntaskólakennar-
anum Crocker-Harris þótti tíðind-
um sæta og hefur jafnan verið talin
meðal merkustu afreka hans á leik-
sviðinu. F'yrir ungan pilt var það
hins vegar á við holla skólagöngu
að fá að stíga fyrstu sporin á leik-
sviðinu un'dir verndarvæng Þor-
steins, að ekki sé minnst á samveru-
stundirnar sem fylgdu í kjölfarið.
Þegar árin liðu varð kunningsskap-
ur okkar Þorsteins að vináttu og
er mér nær að halda að hann hafi
verið meiri vinur minn en ég átti
skilið.
Á Laufásveginum var ekki ein-
asta góður viðkomustaður fyrir þá
sem vildu skeggræða um umhverf-
ismál og byggðina í Kvosinni, held-
ur sannnefndur háskóli allra sem
leituðu fróðleiks um íslenska leiklist
að fornu og nýju.
Þorsteini var ekki tamt að ræða
opinskátt um list sína. Hann vissi
sem var að verkið lofar meistarann.
En þegar hann lét í ljósi skoðanir
sínar tafaði hann ekki fyrir daufum
eyrum. Hann var málsvari þagnar-
innar í leik og barðist gegn síbylj-
unni. Hann fór heldur ekki dult
með þá skoðun sína að hann kysi
fremur að beygja persónur leiksins
undir sig en elta þær uppi eftir
ytri einkennum. Hann hafði hóg-
værðina að leiðarljósi og skapaði
hveija persónuna á fætur annarri
þar sem jöfnuður ríkti með ástríðum
og mannviti og flutti jafnan list sína
af einhverju því áreynslulausasta
látleysi sem sést hefur á íslensku
leiksviði. Fyrir framan hljóðnemann
átti hann engan sinn líka. Hann
geislaði af sköpunargleði og hreif
meðleikendur sína með sér og lyfti
þeim í hæðir.
Áhugi Þorsteins á viðgangi leik-
listarinnar var snar þáttur í lífi
hans alla tíð og nutu margir góðs
af. Á síðari árum gerðist hann sér-
stakur vökumaður leiklistargyðj-
unnar, fylgdist af áhuga með nýj-
ungum og gladdist af einlægni þeg-
ar hæfileikaríkir einstaklingar
kvöddu sér hljóðs á leiklistarsviðinu.
Það segir sína sögu að fyrir rúmum
tveimur árum gerði hann sér ferð
upp í Borgarleikhús þeirra erinda
að afhenda ijórum ungum leikurum
styrki úr minningarsjóði frú Stef-
aníu Guðmundsdóttur við opnun
leikhússins. Eftir það sté nafni minn
ekki framar á leiksvið.
Að leiðarlokum langar mig að
hafa yfir vísu sem Olafur Jóhann
Sigurðsson orti og tileinkaði Þor-
steini:
Þú mikli reynir með rætumar djúpt í jörðu
og rammlega tengdar björgum vors foma
lands:
að vísu hefur haustið nálgazt og snert við
hörpu þinni af laufí, en samt er hún næm
og svarar himinblænum betur en aðrar.
Og betur en öðrum heilsar hann líka þér,
sviptignum reyni með ræturnar djúpt í jörðu
og roðnum síðdegis bjarma af kynlegri glóð.
Það er von mín og trú að nú
hafi himinblærinn heilsað leikaran-
um Þorsteini Ö. Stephensen með
sínum hætti.
Blessuð sé minning hans.
Þorsteinn Gunnarsson
Þorsteinn Ö. Stephensen var
stórbrotinn maður. Hann bjó yfir
visku enda var hann sífellt leitandi,
allt til hinsta dags, hafði brennandi
áhuga á öllu sem hann taldi skipta
máli í samtíðinni, horfði fram á
veginn en hafði líka fortíðina á
hraðbergi og reiðubúinn að draga
af henni lærdóma. Iiann var ljóð-
elskur og bóksinnaður, skáldmæltur
sjálfur, skemmtilegur og ljúfur, vin-
ur vina sinna og góður frændi..
Þorsteinn Ö. Stephensen var einn
verðugasti fulltrúi þeirrar kynslóðar
sem kom til sögunnar upp úr síð-
ustu aldamótum. Sú kynslóð gerði
sér glögga grein fyrir hinu huglæga
í tilveru íslensku þjóðarinnar. Þröng
viðskiptasjónarmið báru hana aldrei
ofurliði. Hún spurði einnig um önn-
ur gildi, menningarleg verðmæti og
tilfinningar. Þannig hafa boðberar
íslenskrar menningar löngum spurt.
Og málflutningur þeirra hefur feng-
ið hljómgrunn með þjóðinni. Þeir
skópu hinn íslenska málstað og á
honum byggði þjóðin tilveru sína.
Þannig hefur hún komist yfir erfið-
leika þegar á móti hefur blásið og
öll ytri skilyrði verið mótdræg.
Þorsteinn Ö. Stephensen helgaði
listinni líf sitt. Þar var sjónarhorn
hans vítt. Hann vildi rækta mann-
eskjuna, búa henni fijóan og gjöful-
an jarðveg. Hann var veitandi sem
gæddi umhverfi sitt lífi og fyllti það
reisn. Slíkur samræðusnillingur var
hann að stundum hafði ég á tilfinn-
ingunni að hann stæði í sérsam-
bandi við almættið. Með frásagnar-
list og seiðandi skopskyni hreif
hann okkur með sér svo allir
gleymdu stund og stað. Nálægð
hans var góð og miid. Og þannig
er minningin sem ég mun ætíð
geyma um þennan frænda minn og
góða vin.
Ögmundur Jónasson
t
Móðir okkar,
GUÐBJÖRG ERLENDSDÓTTIR,
Furugerði 1,
verður jarðsungin frá Dómkirkjunni fimmtudaginn 21. nóvember
kl. 15.00.
Þeim, sem vilja minnast hennar, er bent á Barnauppeldissjóð
Thorvaldsensfélagsins.
Kristfn Magnúsdóttir, Sigurbjörg Magnúsdóttir,
Erla Magnúsdóttir, Hrafnhildur Magnúsdóttir.
t
Alúðarþakkir færum við öllum þeim, sem sýndu okkur samúð og
hlýhug við andlát og útför
GUÐRÚNAR HANNESDÓTTUR,
Bólstaðarhlíð 42.
Fyrir hönd aðstandenda,
Gunnþórunn Hannesdóttir,
Valdimar Hannesson, Ingibjörg Magnúsdóttir.
Birting afmælis-
og minningargreina
Morgunblaðið tekur afmælis- og minningargreinar til birting-
ar endurgjaldslaust. Tekið er við greinum á ritstjórn blaðsins á
2. hæð í Aðalstræti 6, Reykjavík og á skrifstofu blaðsins í Hafn-
arstræti 85, Akureyri.
Athygli skal á því vakin, að grefnar verða að berast með góðum
fyrirvara. Þannig verður grein, sem birtast á í miðvikudagsblaði að
berast síðdegis á mánudegi og hliðstætt er með greinar aðra daga.
í minningargreinum skai hinn látni ekki ávarpaður. Ekki eru tek-
in til birtingar frumort ljóð um hinn látna. Leyfilegt er að birta til-
vitnanir í ljóð, tvö erindi, eftir þekkt skáld, og skal þá höfundar
getið. Sama gildir ef sálmur er birtur. Meginregla er sú, að minning-
argreinar birtist undir fullu nafni höfundar.
..... -.... ..........
Mér er ljúfsárt að minnast vinar
míns, Þorsteins Ö. Stephensen, nú
þegar hann hefur kvatt þennan
heim. Kynni okkar hófust fyrir ein-
um 65 árum þegar við að sumar-
lagi störfuðum við mælingar á veg-
um Reykjavíkurborgar. Þótt leiðir
okkar lægju ekki saman og oft
væri langt bil milli samfunda urðu
þessi kynni að vináttu sem aldrei
brást. Haustið 1933 vorum við sam-
skipa með Gullfossi til Kaupmanna-
hafnar þar sem hann hóf leiklist-
arnám við nemendaskóla Konung-
lega leikhússins en ég settist í við-
skiptadeild Kaupmannahafnarhá-
skóla. Sambandið var slitrótt. Þó
sátu Anna systir mín heitin og ég
í leikhúsinu þegar Skálholt eftir
Kamban var frumflutt, en þá sté
Þorsteinn fyrst á hinar dönsku „fjal-
ir” sem leikari. Anna þekkti Þor-
stein frá hátíðarsýningu á Fjalla-
Eyvindi árið 1930, en hún hafði
verið fengin hingað heim til þess
að leika Höllu en Þorsteinn lék
hreppstjórann og er mér minnis-
stætt að hún sagði eftir á að enginn
hefði gefið sér betri mótleik en hinn
lítt þekkti leikari Þorsteinn Ö.
Stephensen.
Og árin liðu en þegar mágur
minn heitinn, Poul Reumert, stofn-
aði „minningarsjóð frú Stefaníu
Guðmundsdóttur” til eflingar leik-
listinni á íslandi fól hann Þorsteini
Ö. Stephensen formennsku í sjóðs-
stjórninni og gegndi hann því starfi
af kostgæfni til dauðadags. Eftir
þetta urðu samfundir okkar fleiri
og jnnilegri.
Á hugann leita minriingar um
hinn dáða leiklistar- og drengskap-
armann. Þá er einnig hugsað til
eiginkonu hans, Dórótheu, sem ég
hef þekkt frá því ég fyrst man eft-
ir mér. Þetta eru bjartar minning-
ar. Ég fyllist þakklæti og óska þeim
báðum guðs blessunar.
Geir
------------------
Sigríður Jónasdótt-
ir en ekki Jónsdóttir
í minningargrein urn Sigrúnu
Jónasdóttur, sem birtist í Morgun-
blaðinu í gær, misritaðist nafn
hennar og hún sögð Jónsdóttir.
Er beðist velvirðingar á mistökun-
um.
+
Innilegar þakkir fyrir auðsýnda samúð og vinarhug við andlát og
útför móður okkar, tengdamóður, ömmu, langömmu og langa
langömmu,
GUÐBJARGAR JÓNSDÓTTUR,
Dalbraut 27,
Reykjavfk.
Lára Herbjörnsdóttir, Ásgeir Ármannsson,
Guðbjörg Vilhjálmsson, Guðmundur W. Vilhjálmsson.
barnabörn, barnabarnabörn
og barnabarnabarnabörn.
+
Innilegar þakklætiskveðjur til allra þeirra, er sýndu okkur samúð
og hlýhug við andlát og minningarathöfn eiginrhanns míns, stjúpa,
tengdasonar, bróður og tengdabróður,
BRYNJÓLFS LÁRUSSONAR,
Hliðarstræti 14,
Bolungarvík.
Hulda M. Þorkelsdóttir,
Þorkell Kristinsson,
tengdaforeldrar,
systur og tengdasystkin.
+
Hugheilar þakkir fyrir auðsýnda samúð við fráfall og jarðarför
ÞÓRU ÞÓRÐARDÓTTUR.
Guð blessi ykkur öll.
María A. Þórðardóttir,
Martha Ingimarsdóttir.
+
Hjartans þakkir til allra, sem sýndu okkur samúð og vinarhug við
andlát og útför
ISAKS EYLEIFSSONAR
fisksala.
Sérstakar þakkir til heimahjúkrunar Kópavogs.
Guð blessi ykkur öll.
Guðrún Elísabet Vormsdóttir,
Sigríður ísaksdóttir,
Baldvin ísaksson, Ingibjörg Hjaltadóttir
og barnabörn.
Innilegustu þakkir til allra þeirra, sem
sýndu okkur samúð og hlýhug við and-
lát og útför eiginmanns míns og föður
okkar,
PÉTURS WIENGKE,
Túngötu 18,
Reykjavik.
Ásta Kristinsdóttir,
Sigrún Pétursdóttir,
Bernhard Kr. Pétursson,
Þórdís Pétursdóttir.