Dagblaðið Vísir - DV - 15.04.1987, Blaðsíða 3
MIÐVIKUDAGUR 15. APRÍL 1987.
65
Flís í tungu
Ég lenti i því um daginn að lesa
stefnuskrár nokkurra stjórnmála-
flokka og eru þær aðallega ólíkar
símaskránni að því leyti að þar er
hlutunum ekki raðað samkvæmt
nýju stafrófsröðinni sem mun, að
sögn forráðamanna Pósts og sfma,
alveg örugglega koma í veg fyrir
að fólk finni í henni nokkurn skap-
aðan hlut, að minnsta kosti
það sem verið er að leita að.
Loksins komu sem sagt góð tíð-
indi frá þessari stofnun sem er
alltaf að loka símum, sem ekki er
hægt að vera án, í staðinn fyrir að
skrúfa fyrir póstburðarfólkið með
umslögin sín góðu en ekki alls fyr-
ir löngu var mér sagt að í nýjustu
hverfum borgarinnar væru hrygg-
skökkustu bréfberar í heimi og
fylgdi það sögunni að það væri
ekki vegna þess að þar væru gleði-
leg jó) á hverjum degi og farsælt
komandi ár.
Annars er mér alveg nákvæmlega
sama um síma og skrár því að hvor-
ugt hef ég á mínum snærum en
hins vegar er mér ekki alveg sama
um borgarfógetaembættið í
Reykjavík, mér er dálítið hlýtt til
þeirrar stofnunar frá því að ég stóð
þar í löngum biðröðum i gamla
daga og hafði tíma til að hugsa um
allt milli himins og jarðar.
Nú er hins vegar búið að tölvu-
væða borgarfógetann og hafa
biðraðirnar auðvitað lengst sem
því nemur.
Og svo gerðist það einn góðan
veðurdag að ég þurfti að skreppa í
þessa uppáhaldsstofnun mina og
láta þinglýsa skjali í nýju vélunum
þeirra og var í upphafi tekið skýrt
fram við mig að ég þyrfti að borga
gjöldin af skjalinu fyrirfram og
þótti mér þetta eðlileg og sjálfsögð
varúðarráðstöfun því að vel hefði
getað farið svo að ég hefði orðið
fyrir strætisvagni á leiðinni heim
eða borðað norskt súkkulaði og af
þeim sökum aldrei komist í biðröð-
ina til að ná í skjalið og þar með
hefði þae aldrei verið borgað og
því kannski legið þarna í mörg ár
án þess að nokkur tæki eftir því
að aldrei kom neinn til að bíða
lengi eftir skjalinu góða.
En aldrei þessu vant var engin
biðröð hjá borgarfógeta og þess
vegna fór ég að tala við stúlkuna,
sem var þarna við afgreiðslu, eink-
anlega vegna þess að ég kunni ekki
við að sjá konu svona gjörsamlega
biðraðalausa á þessum stað.
- Af hverju er svona dýrt að láta
þinglýsa svona ómerkilegu skjali,
sagði ég við stúlkuna til að reyna
að tefja hana við afgreiðsluna.
- Stimpilgjaldið er eitt og hálft
prósent af upphæðinni, sagði stúlk-
an án þess að depla auga og rétti
mér kvittun sem á stóð að ég mætti
ná í pappírana mína eftir fimm
daga.
- Eruð þið þá með marga menn
á ykkar snærum sem standa í röð
og gera ekkert annað en stimpla
þetta ómerkilega skjal allan guð-
slangan daginn á taxta opinberra
starfsmanna? spurði ég því að sam-
kvæmt mínum útreikningum hefði
það tekið einn mann heilan dag að
stimpla bréfið mitt á áðurnefndum
taxta.
- Ég er búin að stimpla bréfið,
sagði stúlkan, og peningarnir fara
í ríkissjóð. Að svo búnu yfirgaf hún
stúkuna sína þar sem biðröðin lét
einhverra hluta vegna á sér standa.
- Hún er ábyggilega einhvers
staðar i framboði þessi, hugsaði ég
á leiðinni út og fannst gott til þess
að vita að tölvutækninni skyldi
ekki hafa tekist að spilla opinberu
starfsmönnunum jafnvel þótt henni
hefði tekist að lengja biðraðirnar
Háaloft
Benédikt Axelsson
á þeim stað sem mörgum þóttu þær
nægilega langar fyrir.
Páskar
Sá sjö ára vildi fá eggið í Mikla-
garði, þetta stóra, þegar hann var
spurður hvernig páskaegg hann
langaði í en þegar ég sagði honum
að það væri annaðhvort úr beyki
eða mahóní sættist hann á það
næststærsta enda væri skömminni
skárra að fá illt i magann á páskun-
um en flís i tunguna.
Og nú eru páskarnir sem sagt á
næstu grösum, á morgun er skír-
dagur, hinn daginn föstudagurinn
langi, páskadagur á sunnudaginn,
annar í páskum á mánudegi og
sumardagurinn fyrsti á fimmtu-
degi.
Laugardaginn tuttugasta og
fimmta rennur síðan upp kosninga-
dagurinn bjartur og fagur og eins
og málum er háttað í þjóðfélaginu
á þessari stundu má búast við að
þá verði margir krossfestir hvort
sem þeir eiga það skilið eða ekki
en sem betur fer má líka búast við
hinu að þá rísi menn upp, jafnvel
hér um bil frá dauðum, og skjótist
inn á þing.
Vonandi verður vinkona mín hjá
borgarfógeta ein af þeim.
Gleðilega páska
Kveðja
Ben.Ax.
______________________________________38
Finnurðu
átta breytlngar?
Þessar tvær myndir sýnast í fljótu bragði eins. En á neðri
myndinni hafa fallið burt hlutar af myndinni eða þeir breyst,
alls á átta stöðum. Það er misjafhlega erfitt að finna þessar
breytingar en ef fjölskyldan sameinast um að leysa þetta trúum
við því að allt komi þetta að lokum.
Merkið með hring eða krossi þar sem breytingamar eru og
sendið okkur neðri myndina. Skilafrestur er tíu dagar. Að
þeim tíma liðnum drögum við úr réttum lausnum og veitum
þrenn verðlaun: Ferðaútvarpstæki með segulbandi frá Radíó-
bæ, Armúla 38 (verðmæti kr. 2.860,-), ferðaútvarp frá Radíóbæ
(verðmæti kr. 1.595,-) og heymartól frá Radíóbæ (verðmæti
kr. 1.295,-).
í þriðja helgarblaði héðan í frá birtast nöfh hinna heppnu
en ný þraut kemur í næsta helgarblaði.
Góða skemmtun!
Merkið umslagið:
„Átta breytingar - 39, c/o DV, pósthólf 5380, 125 Reykjavík.
Verðlaunahafar reyndust vera Kristján Öm Kristjánsson,
Barónsstíg 53, 101 Reykjavík (ferðaútvarpstæki, kr. 2.860,-);
Tryggvi Hallsson, Teigagerði 14, 108 Reykjavík (ferðaútvarp,
kr. 1.595,-); Amar Bergmann, Steinagerði 8, 108 Reykjavík
(heymartól, kr. 1.295,-).
Vinningamir verða sendir heim.
NAFN .......
HEIMILISFANG
PÚSTNÚMER .