Dagblaðið Vísir - DV - 21.05.1990, Side 14
14
Útgáfufélag: FRJÁLS FJÖLMIÐLUN HF.
Stjórnarformaður og útgáfustjóri: SVEINN R. EYJÚLFSSON
Framkvæmdastjóri og útgáfustjóri: HÖRÐUR EINARSSON
Ritstjórar: JÓNAS KRISTJÁNSSON og ELLERT B. SCHRAM
Aðstoðarritstjórar: HAUKUR HELGASON og ELlAS SNÆLAND JÖNSSON
Fréttastjóri: JÓNAS HARALDSSON
Auglýsingastjórar: PÁLL STEFÁNSSON og INGÓLFUR P. STEINSSON
Ritstjórn, skrifstofur, auglýsingar, smáauglýsingar, blaðaafgreiðsla, áskrift,
ÞVERHOLTI 11,105 RVlK.SÍMI (91 )27022 - FAX: (91)27079
Setning, umbrot, mynda- og plötugerð:
PRENTSMIÐJA FRJÁLSRAR FJOLMIÐLUNAR HF„ ÞVERHOLTI 11
Prentun: ÁRVAKUR HF. - Áskriftarverð á mánuði 1000 kr.
Verð I lausasölu virka daga 95 kr. - Helgarblað 115 kr.
Níu líf Arnarflugs
í auglýsingum sínum segist Arnarflug hafa níu líf.
Það má til sanns vegar færa. Eftir allan þann hama-
gang, íjaðrafok og örvæntingu, sem einkennt hefur
starfsemi Arnarflugs að undanförnu, hefur flugfélagið
loksins nýja vél til umráða og áætlun er orðin eðlileg.
Vonandi kemur ekki aftur babb í bátinn, enda má Arn-
arflug varla við frekari skakkaföllum á næstunni svo
að farþegar missi ekki endanlega þolinmæði sína. í
rauninni er aðdáunarvert að farþegar skuli hafa haldið
áfram að bóka sig með Arnarflugi þegar flug féll niður
eða seinkaði dag frá degi. Lífseigla þessa fyrirtækis er
með eindæmum sem á sér fyrst og fremst þá skýringu
að stjórnendur Arnarflugs og viðskiptavinir hafa mætt
áfóllunum af óvanalegri þrautseigju.
Sú þrautseigja á sér rætur í þeirri sannfæringu að
það sé samgöngumálum íslendinga fyrir bestu að hér
ríki samkeppni í farþegaflutningum til og frá landinu.
Eftir að íslendingar hættu að ferðast sjóleiðis til útlanda
eiga þeir þann einn kostinn að fljúga milli landa. Flugið
er lífæð og tengsl okkar við umheiminn. í svo mikil-
vægri atvinnugrein er það grundvallaratriði að um fleiri
en einn kost sé að ræða. íslendingar þurfa að hafa val
og þeir aðilar, sem annast flugið, þurfa og að hafa að-
hald af samkeppni. Einokun í flugmálum íslands er
spor aftur á bak, tímaskekkja sem vonandi er að verða
almenningi jafnt sem stjórnvöldum ljós.
íslendingar vilja auka ferðamannaþjónustu. Þeir vilja
skapa sjálfum sér besta fáanlega möguleika til að ferð-
ast. Ferðalög til útlanda eru dýr og hvorki þjónusta,
verðlag né fjölbreytni í flugsamgöngum geta þróast með
eðilegum hætti í skjóli einokunar. Það hefur og verið
fram á það sýnt að einmitt þegar aðeins eitt flugfélag
annaðist flugsamgöngurnar dróst farþegaQöldi saman
og valkostirnir voru færri.
í þeim hremmingum, sem Arnarflug hefur átt við að
glíma undanfarna daga, hefur utanríkisráðuneytið und-
ir forystu Jóns Baldvins Hannibalssonar komið snöfur-
mannlega til hjálpar, samkvæmt fréttatilkynningu Arn-
arflugs um helgina. Vonandi er það merki um að ríkis-
stjórnin hafi áttað sig á því hlutverki sem Arnarflug
gegnir. Er það vel, ekki síst vegna þess að stjórnvöld
hafa um árabil verið mjög tvístígandi í áfstöðu sinni til
stefnunnar í flugmálum og á stundum verið jafnvel
þrándur 1 götu fyrirtækisins.
Ljóst er að bandaríski sendiherrann og starfsmenn
hans hafa og komið við sögu þessa örlagaríku nótt og
ber að fagna þeim skilningi sem sendiherrann sýnir
málstað frjálsrar samkeppni.
Varla er við því að búast að erfiðleikar Arnarflugs
séu yfirstaðnir þótt leiguvélin sé komin í notkun. En
atburðarásin gefur tilefni til nokkurrar bjartsýni um
að stjórnendur Arnarflugs, stjórnvöld og auðvitað al-
menningur nái höndum saman um að skapa rekstrar-
skilyrði fyrir flugfélagið.
Hér er ekki verið að kasta rýrð á Flugleiðir, það ann-
ars ágæta þjóðþrifafyrirtæki. En Flugleiðum er að því
akkur, þegar til lengri tíma er htið, að annað flugfélag
sé rekið við hhð þess. Samkeppnin þarf að þrífast á
þessum vettvangi sem annars staðar þar sem um er að
ræða þjónustu við almenning.
Óvildarmönnum Arnarflugs hefur ekki orðið að ósk
sinni að knésetja það að þessu sinni. Flugvélin er kom-
in á loft. Níu líf Arnarflugs eiga enn rétt á sér í auglýs-
ingunum.
Ellert B. Schram
j
MÁNUDAGUR 21. MAÍ 1990.
„Heftun uppblásturs og binding jarövegs er eitt af stærstu verkefnum þeirra sem vilja búa í haginn fyrir
komandi kynslóðir," segir m.a. i greininni
Hugað að
hornsteinum
Nú stendur yfir sérstakt átak í
landgræðslu og mun ekki veita af.
Uppblástur og gróðureyðing eru
stærstu umhverfisvandamál okkar
íslendinga. Telja sumir að svo illa
sé komið fyrir ættjörðinni aö u.þ.b.
helmingur gróðurmoldar hafi fokið
á haf út frá því að land byggðist.
Sumir kenna ofbeit um og skella
skuldinni á sauðkindina og bænd-
ur. Aðrir vita að veðurfar hefur
breyst nokkuð frá landnámstíð og
það setur fjölbreytni og vexti gróð-
urs takmörk. Líklegt er þó að or-
sakir gróðureyðingarinnar séu
margþættar og víst er að þverrandi
gróður breýtir loftslagi og vaxtar-
skilyrðum gróðursamfélaga til
hins verra. Þannig rekur gróður-
eyðingin sinn eigin vitahring og
gerir nýjum gróðri sífellt erfiðara
að festa rætur og þrengir kjör þess
gróðurs sem fyrir er. .
Heftun uppblásturs og binding
jarðvegs er eitt af stærstu og mikil-
.vægustu verkefnum þeirra sem
vilja huga að umhverfmu og búá í
haginn fyrir komandi kynslóðir.
Erindi og erfiði
Alþingismönnum berst fjöldi
skriflegra erinda og er það vel. Það
er ein af mörgum leiðum til að
miðla þeim upplýsingum og tengja
þá viö það sem er á seyði í þjóðlíf-
inu. Vandinn er hins vegar sá að
flnna tíma til að lesa allt það efni
sem að okkur berst í bréfum, tíma-
ritum, fréttabréfum og margvísleg-
um skýrslum. Fæstum tekst að lesa
allt og flestir hljóta að velja úr það
sem sterkast höfðar til þeirra og
þeir telja sig hafa mesta þörf fyrir
að vita um.
Annar vandi er svo þeim á hönd-
um sem bæði hefur valið og lesið
en stendur ekki á sama um það
hvað um allan þennan pappír verð-
ur. Fljótlegast er að láta hann
renna í bréfakörfuna þangað sem
afurðir margra trjábola hafa ratað
á leið sinni út á öskuhauga. Ein
leið er að endumýta eftir mætti
umslög og auðar baksíður og bíða
þolinmóð eftir því að endurvinnsla
pappírs verði að veruleika hér á
landi.
Að vísu er endurunninn pappír
skammlífari en annar pappír og þvi
þarf að gæta vel að því til hvers
slíkur pappír er notaður. Nauðsyn-
legt er að taka mið af hagsmunum
sagnfræði og skjalavörslu og gæta
þess að það sem varðveita skal sé
ævinlega á þeim pappír sem hefur
mest endingargildi.
Um ársskýrslur og börn
Einu hef ég veitt athygli í lestri
mínum og flettingum á hinum fjöl-
breytilegu gögnum sem mér hafa
borist. Arsskýrslur stofnana, fyrir-
tækja og samtaka eru að verða
Kjallarinn
Guðrún Agnarsdóttir
þingkona Kvennalistans
glæsilegri með hverju árinu sem
líður og má hiklaust segja að þar
eru skýrslur ýmissa peningastofn-
ana og sjóða ekki af lakara taginu.
Þær eru yfirleitt úr afar vönduöum
pappír, öll hönnun og frágangur til
mikillar fyrirmyndar. Glæsilegar
ljósmyndir eða myndskreytingar
prýða þessar skýrslur jafnan og
eru sumar þeirra mjög listrænar.
Það er greinilega mörgum metnað-
armál að gefa út fallega ársskýrslu
og hlýtur aö vera mikið til þeirra
lagt.
Eg verð að segja það eins og er
að ég á oft erfitt með að henda þess-
um vænu skýrslum þó að þær séu
bæði gamlar og lesnar en það þarf
oft að gera fleira en gott þykir. Þeg-
ar ég svo sleppi hendinni af þeim
ofan í bréfakörfuna verður mér
hugsaö til blessaðra skólabarn-
anna. Þau hafa mátt una því í mörg
ár að ekki er til nægilegt námsefni
handa þeim. Kennararnir reyna
auðvitað að bregðast við bæði með
því að útbúa sjálfir námsefni en
einnig að fjölfalda það sem fyrir er.
Er þá ljósritunarvélin besti vinur-
inn hvað sem öllum lögum um höf-
undarrétt líður. Eitthvaö verða
börnin að fá. Þetta er að vísu ekki
á neitt sérstaklega vönduðum
pappír, oft er það bara vélritað og
því miður ekki myndskreytt. Verst
er þó að ekki rata þessi stöku blöð
alltaf inn í möppurnar sínar og
vilja því þvælast og bögglast í
skólatöskunum, jafnvel dreifa sér
um barnaherbergið í reiðuleysi. En
það er víst erfitt að fá nægilegt fé
til námsefnisgerðar, hún þykir dýr.
Svona leggjum við nú hornsteinana
okkar. Ég hef oft hugsað um það
hve gaman væri að gefa bömunum
svona fínar ársskýrslur, þótt það
væri ekki nema myndanna vegna.
Verst hvað þær eru oft óaðgengi-
legar fyrir þau.
Líka hef ég hugsað um það hvað
hægt væri að gera viö þann stafla
af nýtanlegum pappír sem fallið
hefur mér í skaut á sl. 1-2 árum.
Ekki endist mér tími eða andagift
til að skrifa á allar þessar baksíð-
ur. Hvort myndi ég móðga meira
böm eða fésýslumenn ef ég byði
þeim hann til að rissa á?
í heiðri skulu hornsteinar
Þegar við nú leggjum land-
græðsluátaki lið á vormánuðum er
okkur hollt að hugsa um það fyrir
hverja við gróðursetjum trén;
hverjir munu njóta þeirra. Það
mun væntanlega leiða hugann að
því hvernig við búum bömin okkar
að öðru leyti undir framtíðina,
hvert veganesti við veljum þeim
sem eiga að erfa hið skógi vaxna
land.
Vandað námsefni, lengdur, sam-
felldur skóladagur, einsetinn skóli,
fækkun í bekkjardeildum, máls-
verðir í skólanum. Allt eru þetta
sjálfsagðir hlutir sem lengi hafa
tíðkast í nágrannalöndum okkar.
Það er skrítið þjóðfélag sem telur
sig hafa efni á því að vanrækja slík
undirstöðuatriði og löngu kominn
tími til að foreldrar og aðrir for-
ráðamenn barna sameinist um að
fylgja eftir þessum brýnu hags-
munamálum. Það er auðvitað einn-
ig skylda stjórnmálamanna og á
þeirra ábyrgð að hrinda þessum
málum í framkvæmd. Stjórnmála-
menn, sem ekki sinna þörfum
barna, vanrækja í raun það sem
mestu varðar í samfélaginu og
svíkja framtíðina. Þeim þarf að
veita eftirminnilega ráðningu en
öðrum starfssystkinum þeirra, sem
sinna þessum mikilvægu málefn-
um, þarf að veita aðhald.
í verðskuldaðri umhyggju okkar
fyrir framtíð landsins verðum við
að hafa það hugfast að rækta ekki
síður börnin okkar en gróðurinn.
Til hvorugs megum við spara.
Guðrún Agnarsdóttir
„I verðskuldaðri umhyggju okkar fyrir
framtíð landsins verðum við að hafa
það hugfast að rækta ekki síður börnin
okkar en gróðurinn. Til hvorugs meg-
um við spara.“