Dagur - 18.12.1980, Blaðsíða 19

Dagur - 18.12.1980, Blaðsíða 19
 og ég vafraði út á gólfið og hugðist dansa, en ég komst ekki langt, ekki lengra en að síðustu stólunum, þá datt ég og allt hvarf mér um stund. En svo vaknaði ég við það að lögreglan var að drösla mér út úr bílnum og heim að húsi foreldra minna. Einn lögregluþjónanna hafði farið á undan upp að húsinu og var búinn að banka á dyrnar. Foreldrar mínir komu bæði til dyra á náttklæðunum, þar sem svo ákaft var barið á svo ókristilegum tíma. Lögregluþjónarnir komu mér upp að dyrunum og létu mig þar í hendur föður míns sem varð vandræðalegur við, en hafði þó rænu á því að þakka þeim fyrir. Svo dró hann mig inn í húsið og lokaði dyrunum. Þegar inn ganginn kom, þá tók hann um handleggi mína og leit svo með fyrirlitningu á mig, löðrungaði mig svo tvisvar á hvorn vangann og sleppti mér svo, svo að ég hneig niður á gölfið. Móðir mín hafði fylgst með þessu, dauðhrædd, en nú steig hún fram og kraup á kné við hlið mér og tók utan um mig. Svo sagði hún reiðilega við föður minn, þér væri heldur nær að skammast þin en að fara svona með þinn eiginn son. Son minn, svaraði faðir minn hæðnislega, má ég leiðrétta þig, hann var sonur minn einu sinni. En þennan drykkjuræfil og þetta lítilmenni vil ég ekki eiga fyrir son, og að svo mæltu gekk hann upp stigann og inn í svefnher- bergið og skellti á eftir sér hurðinni. Það komu tár í augu móður minnar, en hún harkaði af sér og spurði mig blíðlega hvort ég gæti ekki staðið upp, og einhvern veginn tókst henni að reisa mig á fætur og koma mér upp stigann og upp í herbergið mitt. Þar klæddi hún mig úr og kom mér í rúmið og hlúði þar að mér. Svo dró hún stól að rúminu mínu og settist og tók um hönd mína. Ég var farinn að ranka við mér og það mikið að ég skammaðist mín, en svo reyndi ég að byrja að afsaka mig. En hún þaggaði niður í mér og sagði svo blíðlega. Reynir minn, ég veit að þú hefur þína galla og eins þína kosti en þú ert ungur og átt lífið framundan og getur þess vegna vanið þig af þessari óreglu. Nei, þú þarft ekki að lofa mér neinu, ég veit að loforð duga skammt og eru hverful. En ég veit að þú átt nóg viljaþrek til að hætta þessu og ég vona að þú gerir það, þín vegna. Svo kyssti hún mig á ennið og breiddi betur ofan á mig, slökkti ljósið og gekk út. Og nú brá svo við, að ég þessi harði gæi, sem alltaf stóð fremstur i öllurn barnabrekum og óknyttum, var farinn að gráta. Já ég grét, grét af skömm og reiði. Mig langaði til að öskra, en ég gat það ekki, til þess var ég of máttfarinn. Svo seig svefninn á brár mínar og ég sofnaði þungum svefni. Um hádegi, daginn eftir, vaknaði ég við þennan hræðilega höfuðverk og tungan var eins og sandpappír í óbragðinu í munni mér. Svo þurfti ég að kasta upp og skreið fram í baðherbergið. í speglinum þar mætti mér heldur óhrjáleg ásjóna, með úfið hár, svarta bauga undir augum og með annan vangann bólginn eftir löðrunga föður míns. Ég beygði mig niður að vaskinum og svolgraði í mig vatnið úr krananum og lét það leika um andlit mitt. Svo þerraði ég andlit mitt og hendur og gekk síðan niður í eldhús til að finna eitthvað við höfuðverknum. Þar sat faðir minn við borðið og starði tómlega út í loftið. Hann virtist ekki heyra til mín, þegar ég spurði hann hvort eitthvað væri að. Hann sat bara þarna en allt í einu fóru kippir um axlir hans, og hann grét þarna niður á borðið. Faðir minn hann grét, ég trúði þessu ekki, hann þessi stóri og sterki maður. Og hvar var móðir mín? En svo virtist hann gera sér grein fyrir því að ég væri þarna, og hann snéri sér þunglega að mér og leit á mig tómlegu augnaráði. Og svo sagði hann þessi orð. Móðir þín er dáin Reynir, hún dó í nótt, Reynir hún er dáin. Þessi orð, Bjarni minn, man ég ávalit síðan og þeim mun ég aldrei gleyma. Þessi yndislega kona, móðir mín, hún dó og það var mér að kenna. Hún hafði ofreynt sig á því að koma mér dauðadrukknum manninum í rúmið. Því drekk ég, það er til að reyna að gleyma, til að reyna að drekkja sorgum mínum. En mér tekst það aldrei. Eftir jarðarför hennar, var ég svo eirðarlaus, svo hræddur og um hverja helgi þá fór ég á skemmtistaði, og drakk mig fullan og lét lögregluna keyra mig heim. Og alltaf datt ég við stigann, á sama stað og móðir mín hafði ofreynt sig við að fara höndum um mig. Og mér fannst ég skynja návist hennar og finna hendur hennar fara blíðlega um mig. En svo um morguninn vaknaði ég við stigann, og fann raunveruleikann á ný. Ég reyndi hverja vinnuna á fætur annarri en festi mig aldrei við neitt og fór úr einum staðnum á annan. Faðir minn, sem var örvita af sorg skipti sér aldrei neitt af mér, fyrr en hann sagði mér, að hann hefði í hyggju að flytjast út á land, að hann hefði fengið læknisembætti í smábæ vestur á fjörðum. Og hann fór. Ég fór því að leita mér að íbúð og fann þessa hérna, og hér hef ég verið síðan. Húsmóðirin hefur marg hótað að fleygja mér út, en það hefur hún ekki gert enn. En hún fyrirlítur mig, og það gera sömuleiðis vinnufélagar mínir, vinnuveitandi minn, það fyrirlíta mig allir, jafnvel börnin gera það. En mér er sama, ég drekk og ég get ekki hætt. Jæja Bjarni minn, hér hefurðu nú sögu mína í stórum dráttum, og ég bið þig, ekki byrja að drekka, því að þá geturðu ekki hætt. En nú ætla ég að biðja þig að fara, því að ég vil ekki að þú þurfir að horfa upp á mig þennan drykkjumann. En ungi vinur, þakka þér innilega fyrir hjálpina, og ég met þig mikils því enginn hefur lagst svo lágt að hjálpa mér. Vertu sæll ungi vinur. Ég stóð hægt á fætur, tók í hönd hans og gekk út úr herberginu. Þegar út á götuna kom þá stansaði ég, og leit upp í gluggann. Hann var enn opinn. Svo gekk ég mína leið. En nokkrum mánuðum síðar, rakst ég á klausu í blaði þar sem stóð að, Reynis Sigurðssonar hefði verið saknað í meira en viku, og hefði ekki fundist. Ég lét hugann reika til samtals okkar og sögu hans og vissi þá að Reynir væri nú kominn til móður sinnar, og væri laus af áfengisbölinu. En svo reikaði hugur minn til annarra efna, og ég hvolfdi í mig úr glasinu, sem ég var að drekka úr og bað um meira. Og það sem ég var að drekka var .... vín. Fallhlífahermenn I í síðari heimstyrjöldinni þegar heldur var farið að halla á Breta, gripu þeir til þess ráðs að auglýsa eftir sjálfboðaliðum í herinn. Fengu þessir sjálfboðaliðar æði oft litla sem enga þjálfun áður en haldið var á vígstöðvarnar. Og þannig var ástatt fyrir fallhlífarhermönnunum í bresku flugvélinni sem sveimaði yfir óvinalandinu. Liðþjálfinn var að gefa mönnunum síðustu fyrir- mælin: „Strákar, þið stökkvið bara út og lálið ykkur falla góða stund. Þá kippið þið í spottann sem er hérna við bringuna á ykk- ur. Þá opnast fallhlífin og þið svífið hljóðlega til jarðar. Ef svo ólíklega vill til að fallhlífin opnast ekki þá skuluð þið toga í spottann sem lafir niður með vinstra hnénu. Þá opnast varafallhlífin og þið svífið örugglega til jarðar. Þar biður ykkar trukkur sem flyt- urykkur í fremstu víglínu." Þegar liðþjálfinn hafði þetta mælt stukku þeir út, hver eftir annan. Sá síðasti sem stökk lét sig falla góða stund og kippti svo í spottann sem lá við bringuna. En ekkert gerðist. I örvæntingu sinni þreif hann í spottann við vinstra hnéð, en spottinn slitnaði bara og ekkert gerðist. Þegar kappinn var að falla framhjá þeim síðustu heyrðist hann segja: „Bölvuð vitleysa er þetta, ætli það sé ekki lygi með trukkinn líka.“ Og hér er önnur saga af sömu fallhlífarhermönnunum. Þeir voru komnir aftur heim til föður- landsins og veitti sannarlega ekki af að æfa sig betur. í flugvélinni yfir æfingasvæðinu var liðþjálf- inn að gefa þeim síðustu fyrir- mælin: „Strákar, þið stökkvið bara út og látið ykkur falla góða stund. Þá kippið þið bara í spott- ann sem er hérna við bringuna á ykkur. Þá opnast fallhlífin og þið svífið hljóðlega til jarðar. Ef svo ólíklega vill til að fallhlífin opnast ekki, þá skuluð þið toga í spott- ann sem lafir niður með vinstra hnénu. Þá opnast varafallhlífin og þið svífið örugglega til jarðar.“ Þegar liðþjálfinn hafði þetta mælt stukku þeir út hver eftir annan. Sá síðasti sem stökk, lét sig falla góða stund og kippti svo í spottann sem lá við bringuna. En ekkert gerðist. I örvæntingu sinni þreif hann í spottann við vinstra hnéð, en spottinn slitnaði bara og ekkert gerðist. Þegar kappinn var að falla framhjá þeim síðustu heyrðist hann segja: „Úff, það er eins gott að þetta er bara æfing.“ Loks er hér þriðja sagan af sömu fallhlífarhermönnunum. Enn á ný eru þeir á sveimi yfir óvinalandinu og liðþjálfinn er að gefa þeim síðustu fyrirmælin: „Strákar, þið stökkvið bara út og látið ykkur falla góða stund. Þá kippið þið í spottann .. .“ „Já, já, við vitum allt um það“ greip einn hermaðurinn fram í f.yrir lið- þjálfanum. „En hvað eigum við að gera ef hvorug fallhlífin opn- ast? Nú eru tveir ágætis menn úr okkar hópi búnir að láta lífið vegna þess að fallhlífar þeirra brugðust.“ „Ja, það er nú það. Hvað eigið þið að gera?, svaraði liðþjálfinn. „f slíkum tilfellum verða menn að treysta á Guð. Þið verðið þá að blaka höndunum einshratt ogþiðgetiðog segja: Ó, Gabríel, ó, Gabríel. Þá svífið þið niður á trúnni einni saman.“ Menn gerðu sig almennt ánægða með þetta svar liðþjálf- ans og stukku út við svo búið. Segirsvo ekki meira af þeim í bili. En flugvélin sveimaði yfir þeim í nokkra stund til að sjá hvernig þeim mundi reiða af. Þegar hún hafði verið á lofti í tíu mínútur var allt í einu barið á dyrnar. Liðþjálfinn hrökk í kút, en opn- aði loks hurðina með eftirvænt- ingu. Þar var þá kominn einn af fallhlífarhermönnunum. Hann blakaði höndunum sem mest hann mátti og spurði liðþjálfann í örvæntingu: „Hvað hét hann aft- ur þessi náungi sem átti að ákalla?“ Sópransöngkonan Barbara Vigfús- son og píanóleikarinn Jóhannes Vigfússon halda Ijóóatónlcika í Borgarbíói á Akureyri laugardaginn 27. desember, eða 3ja í jólum, og hefjast tónleikarnir kl. 17. Tónleik- amir verða síðan cndurteknir á Dalvík sunnudagskvöldið 28. dcs- ember kl. 21. Barbara lauk einsöngvaraprófi frá Tónlistarháskólanum í Zúrich og hefur hlotið margháttaðar við- urkenningar og styrki. Hún hefur haldið tónleika í Þvskalandi. sung- ið í óperum við Óperuhúsið í Zúr- ich, og sungið fyrir útvarpið bæði í Köln og Zúrich. Eiginmaður henn- ar Jóhannes lauk einleikaraprófi á píanó frá Tónlistarháskólanum í Zúrich, og er jafnframt doktor í eðlisfræði. sem hann nam á sama stað. Jóhannes er Akureyringur að uppruna og vakti ungur mikla at- hygli fyrir ágæta námshæfileika og sérstakan árangur í píanónámi. Aðgöngumiðasala á Akureyri verður i Bókabúðinni Huld og einnig við innganginn. PAQMP-19

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.