Dagur - 23.11.1984, Blaðsíða 9

Dagur - 23.11.1984, Blaðsíða 9
23. nóvember 1984 - DAGUR - 9 vœng tík^ skáldskap « og sitthvað fleira í helgarviðtali Brynjólfur Bjarnason var alltaf harður á sinni línu og bandalögin hefðu orðið færri ef hann hefði fengið að stjórna. En Alþýðubandalagið varð til og þar var ég með, en mér þótti vistin þar aldrei góð. Síðan fylgdi ég Birni vini mín- um Jónssyni og Hannibal þegar þeir stofnuðu Samtök frjálslyndra og vinstri manna. Það varð ákaflega brátt um þá hreyfingu og menn tvístruðust. En ég stóð kyrr og sór þess dýran eið að kjósa aldrei framar." - Ertu ef til vill kominn í Framsókn? „Nei, nei, þó ég sé bendlaður við Dag er ekki þar með sagt að ég sé orðinn framsókn- armaður. Hins vegar hef ég alla tíð verið málsvari KEA og er það enn. Þar með get ég alls ekki skrifað upp á að framsókn eigi sam- vinnuhreyfinguna." - Er þín pólitíska ganga flótti frá útjaðri vinstri vængsins inn að miðjunni? „Nei, sko, ég held að þetta sé algerlega rök- rétt þróun. Mér finnst að maður sem tekur ein- hvers konar pólitíska trú á ungum aldri - og aldrei víkur frá henni, hvernig svo sem hún breytist - hljóti að hafa eitthvað undarlegt sál- arlíf. Menn verða að taka afstöðu á hverjum tíma, eftir sinni bestu vitund. Sú barátta sem ég tók þátt í var nauðsynleg á sínum tíma, en þegar við höldum áfram sömu vinnu- brögðunum eftir að við erum orðin rík, þá erum við klaufar. Og þau eru mörg klaufa- spörkin í okkar þjóðfélagi á síðustu áratugum. Það eru breyttir tímar, sem kalla á breyttar baráttuaðferðir. En eins og ég sagði þér áðan, þá veit ég ekki við hvað er miðað núna, þegar talað er um mannsæmandi lífskjör. Ég vissi það hundrað prósent 1934. Mér finnst fslensk pólitík í dag algjör skrípaleikur. Ég vil ekki tjá mig mikið um menn, en þó hef ég það á tilfinningunni að gáf- að fólk sæki á vinstri væng, eins og það hefur alltaf gert. En það er svolítið annað að vera gáfaður eða hagsýnn. Og ég get ekki gleymt þeirri ríkisstjórn sem jók skuldir mínar margfalt. Það hygg ég að ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen hafi gert og með honum á skút- unni var Alþýðubandalagið. Þar hefur „menn- tafólk" tekið völdin og snobbar gjarnan niður á við. Þetta er fólk sem þekkir ekki bakgrunn íslenskrar verkalýðsbaráttu og skilur ekki þankagang almenns launafólks í landinu. Þetta er fólk sem jafnvel er alið upp við allsnægtir, en vill sýnast annað en það er og komast til valda með styrk verkalýðsins." Fyrsta Ijóðabókin heldur slœm - Jæja, Kristján, nú vendum við okkar kvæði í kross og snúum okkur að skáldinu. Hvenær kom fyrsta ljóðabókin út og hvernig var henni tekið? „Fyrsta ljóðabókin mín kom út 1943, gefin út af Pálma H. Jónssyni í gustukaskyni, og það einkennilega var að þessari bók var vel tekið. Menn skrifuðu vel um hana. Þó\ar þetta held- ur vond bók. Ég kunni þá ekki að fara með prófarkir og bókin því ekki aldeilis laus við villur. Þetta var sveitarómantík. Oft stóð ég við engjaslátt heima í Bakkafirði, kaldur og blautur, og þráði ekkert frekar en að komast sem lengst í burtu, jafnvel á sjóinn. En ekki var ég fyrr kominn upp úr þessum flóum en ég fór að yrkja lofkvæði um engjadaginn, þar sem fólkið vann sælt og sveitt. Þetta þótti mér þá og þetta kvæði var talið gott. Meðal annars tók Jónas frá Hriflu það upp í tímarit sitt, sem hét Vaka, og þótti honum sem þetta væri hinn eini og sanni andi sveitamenningarinnar, enda þótti það nokkur dyggð þá að neita staðreynd- um. Þessi bók hét „Frá nyrstu ströndum", en sú næsta hét „Villtur vegar". Þá hafði ég yfir- gefið sveitina og var kominn hér á mölina. Þar með var kominn nýr tónn í kvæðin mín; bylt- ingartónn. Það var lengi vandamál mitt, að margir vildu teygja mig til sín, annað hvort til hægri eða vinstri. Þannig var ég jafnmikill vinur Krist- manns Guðmundssonar og Gunnars Bene- diktssonar í þau 11 ár sem ég bjó í Hveragerði. Báðir vildu leiða mig á sitt mál og ég var beggja vinur, en hvorugum trúr. Þannig hef ég reynt að gaufa mig áfram milli öfganna. Síðan rak hver ljóðabókin aðra. „Lífið kallar" kom út 1950. Hún þótti svo vond, að af mér var tekinn skáldastyrkur, sem ég hafði fengið tveim árum áður vegna bókarinnar „í þagnarskógi". Auðvitað var það pólitísk aðgerð, en varð mér þó til góðs. Þá var til sjóð- ur hjá Helgafelli, sem hét minningarsjóður Jónasar Hallgrímssonar. Þar lágu einhverjir peningar og mönnum eins og Ragnari í Smára og Tómasi Guðmundssyni þótti bókin mín ekki verri en það, að þeir létu mig fá þessi verðlaun, m.a. vegna þess að þeim þótti ósanngjarnt að svipta mig skáldalaununum. Og ég gafst ekki upp. Nú eru ljóðabækurnar mínar orðnar 13." - Kristján, þú hefur frá mörgu að segja og eflaust gætum við spjallað lengi saman enn. Hins vegar krefst rúmið þess að við förum að setja amenið á eftir efninu. En fyrst ætla ég að spyrja þig hvernig þér hafi gengið að lifa af skáldskapnum. „Skáldskapurinn hefur nú ekki verið mín aðaltekjulind fyrr en á síðustu árum. Áður starfaði ég við verkamannavinnu, kennslu og blaðamennsku, svo eitthvað sé nefnt. Ég veit ekki fyrir víst af hverju ég hef lifað, en ég gerði þann samning við skaparann, að ef mig vant- aði peninga, þá sæi hann um þá hlið málsins. Og hann hefur staðið vel við þann samning. Mestar tekjurnar hef ég haft af dægurlaga- textunum; ég hef stundum sagt, að það léleg- asta í mínum skáldskap hafi skilað mér mest- um arði. Auðvitað sögðu skáldbræður mínir, að ekkert skáld á íslandi hefði lagst lægra en ég með því að yrkja dægurljóð, en fólkið fagn- aði þessu framtaki. Þetta var eins og að gefa svöngu barni brauð. Þess vegna er ég ekki frá því að kollegar mínir hafi öfundað mig pínulít- ið, bæði vegna teknanna og hlýtur það ekki að vera takmark allra skálda að ná til sem flestra. Það er mikill ávinningur í að fá tónlist við texta sína." - Stuðlar, endarím? „Já, endarím er ekki heilagt fyrir mér, en ég legg mikið upp úr stuðlum, þó ég hafi skrifað ljóð án stuðla og endaríms. Stuðlarnir eru svo stór þáttur í íslenskri tungu, að við getum ekki misst þá. Ég held til dæmis, að stílgaldur óbundins máls sé oft að finna í stuðlum. Þeir eru eins og hljómfall í textanum. En því miður er þetta á undanhaldi í málinu. Mér heyrist að almenningur sé að týna brageyranu, því miður. Það væri ekki ómerkur þáttur í ís- lenskukennslu í skólum, ef hægt er að vinna því sess á ný. Sá sem heyrir ekki stuðlun í ljóð- um er laglaus maður. Það er mín skoðun." - Að lokum, Kristján, hvað þótti mönnum um þínar skáldagrillur þegar þú varst að kveðja þér hljóðs? „Það var ríkjandi trú á íslandi, að skáld væri ekki aðeins aumingi, heldur ólánsmaður hinn mesti líka og sjálfsagt þótti að hann væri fylli- bytta. Frændi minn, Fjallaskáldið, drakk sig í hel rúmlega 26 ára gamall og hlaut fyrir ódauð- lega frægð, ásamt þeim ljóðum sem hann hafði grátið á þessum hörmungarárum sínum. Ég hygg líka að Jónas Hallgrímsson hafi fyllt út í þá mynd, sem þjóðin.gerði af skáldunum." -GS

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.