Dagur - 15.11.1985, Blaðsíða 8

Dagur - 15.11.1985, Blaðsíða 8
8 - DAGUR - 15. nóvember 1985 Arthúr Bogason hefur ekkert á móti því að vera kallaður trillukarl. Hann er hrifinn af trillunafninu. Því miður er verið að afmá það úr málinu. Nú heitir trilla smábátur. Smábátaveiðimaður eða álíka orð kemur aldrei í stað gamla góða trillukarlsins. Samkvœmt skilgreiningu merkir orðið trilla opinn smábát- ur. Þegar samtök trillukarla voru í undirbúningi var Arthúr kosinn talsmaður þessa hóps manna. Félagið á að heita Félag smábátaeigenda. Þar kemur önnur skilgreining. Smábátur er núna bátursem er 10 tonn að stœrð eða minni. Þessi stétt hefur verið til umræðu vegna veiða hennar af þeim frœga kvóta sem allt snýst um þessa dagana. Arthúr er einn af þessum mönnum sem hafa sitt lifi- brauð af veiðum á smábáti. Hann er þrítugur, þrekinn og 130 kg að þyngd og segist ekkert hafa fyrir því að megra sig. Hann bara einfaldlega nenni því ekki, því hann sé svo góður við sjálfan sig og búi til svo góðan mat. Nafn Arthúrs Bogasonar eða „Norðurhjaratröllsins“ eins og hann var kallaður bar oft á góma fyrir nokkrum árum, er hann var einn besti lyftingamaður landsins, auk þess að vera eigandi fallegustu og kraftmestu bíla sem um göturnar keyrðu. Allt slíkt hefur hann lagt til hliðar og stundar handfæraveiðar á bát sínumfrá Vestmannaeyjum. Nú er hann áferðalagi um landið að kynna verðandi með- limum Félags smábátaeigenda markmið félagsins, jafnframt því sem unnið er að stofnun félagsdeilda víðs vegar um landið. Skemmtilegt - Er gaman að því? „í>að er gaman. Að vísu mjög stressandi. Ég hef alltaf haldið því fram að það sé mögulegt að hafa það huggulegt sem trillukarl. Hins vegar er formannsstarfið sem ég gegni núna ansi lýj- andi. En það líður hjá og ég get snúið mér að veiðunum að nýju. Það er með þetta væntan- lega félag eins og mörg önnur að vinnan lendir á fáum aðilum. Það er hlutur sem alls staðar gerist." - Hvenær hófst sjómennskan? „Ég er búinn að vera á sjó síðan ég vai fimmtán ára. Ég var lengi á togurunum héðan frá Akureyri. Sjómennska og veiðiskap- ur er mitt áhugamáí. Skotveiði er ekki þar með- talin. Ég hætti henni fyrir nokkrum árum. Það eru handfæraveiðar og ekkert annað. Ég hef aldrei reynt aðrar veiðiaðferðir á sjónum. Þeg- ar ég fer síðan í frí er það stangveiði sem tekur við. Eftir að ég byrjaði sjósóknina sem aðal- starf hefur stangveiðin ekkert hopað sem áhugamál. Þess vegna er gott að veiða þann gula á vertíðatímanum og þann bleika á sumrin." - Er handfæraveiði skemmtileg? „Það er öruggt að ekkert starf sem ég hef komið nálægt um ævina er eins lifandi og skemmtilegt og þessi veiðiskapur. Það kemur margt til. Þú ert í svo miklum tengslum við það sem er að gerast í kringum þig. Þú þarft að stóla algjörlega á sjálfan þig. Það þýðir ekkert að ætla að veiða fisk sem er um borð í öðrum bátum, eða undir öðrum veiðarfærum. Hver verður að finna sinn fisk sjálfur og fyrir vikið getur þetta styrkt menn í trúnni á sjálfa sig, ef menn eru veikir fyrir á því sviði. Einnig er það ef veður er gott og útsýni fallegt til lands, þá er eins og maður sé miðpunktur alheimsins.“ Nú brosir stóri maðurinn Arthúr og segir: „Þetta eru kannski orðnar full rómantískar hug- leiðingar. Það fer líka glansinn af þessu þegar búið er að róa dögum og vikum saman í leið- indaveðrum. Þá er ekki rómantíkinni fyrir að fara. Þá kemur hitt á móti að þú ert að þessu til að lifa af því, þá er ekki hægt að bakka neitt með það. Á sjóinn verður að fara.“ ✓ Asi í Bœ - Rærðu einn? „í byrjun, eða árið 1982 þegar ég tók mér þetta sem aðalstarf var annar með mér á bátn- um í stuttan tíma. Síðan hef ég verið einn að undanskildum nokkrum róðrum sem Ási í Bæ var með mér. Það var afskaplega ánægjulegt tímabil. Að vísu samdi okkur ekki vel á sjónum, en karlinn var stórskemmtilegur og kunni ógrynni af sögum, auk þess sem hann hafði sérstakar hugmyndir um sjómennsku, sem er allt of sjaldgæft að menn hafi. Við Ási ákváðum eftir mjög stutta samveru að þetta gengi ekki og best væri fyrir okkur að vera sinn á hvorum bátnum. Ég held að við höfum verið allt of frekir báðir tveir. Það er svo erfitt að skipta svona litlum báti niður á tvo staði. Það voru oft skiptar skoðanir okkar á milli um hvert ætti að halda til veiða, svo það var alltaf annar okkar í fýlu. Ef farið var á stað sem annar vildi fara á og ekki varð vart, þá fór hinn umsvifa- laust að gera athugasemdir." - Þú sem eigandi bátsins,varst þú ekki skip- stjórinn? „Mér þykir frekar neyðarlegt að tala um skipstjóra á 5 tonna handfærabáti," segir Arth- úr og hlær við. „Orðið formaður er betra, að minnsta kosti eins og það var notað fyrr á ár- um. Ég gerði bátinn út frá Vestmannaeyjum og af þeim sökum átti Ási að vera kunnugur, sem hann og var. Á þeim nótum vildi Ási fiska. Hins vegar vildi ég veiða eftir ungæðingshætti og ævintýramennsku. Það kom ekki síður út og áhöld voru um hvor okkar hefði betur.' Það kom ekki það vel út, að við töldum best að skipta áhöfninni. Raunin varð líka sú að eftir skiptinguna fórum við báðir að fiska betur hvor í sínu lagi. Þessi ágreiningur okkar til sjós varð ekki til að rýra vinskap okkar, því við vorum góðir vinir allt þar til hann dó. Mér fannst hann deyja allt of snemma, því hann var það sérstak- ur maður og það er ekki of mikið af slíkum mönnum í dag. Það varð að samkomulagi að hann færi með mér fyrsta róðurinn á hverju vori. Það var litið þannig á að þegar Ási kom út í Eyjar, þá var vorvertíðin hafin. Hann var vor- boðinn í Eyjum og Vestmanneyingar litu á hann sem slíkan. Um leið og Ási birtist var handfæravertíðin byrjuð. Síðasti róðurinn Það var svo um vorið ’84 að Ási er kominn með mér í róður, þá segir hann við mig að þetta sé sinn síðasta róður með mér. Ég taldi þetta mestu firru og sagði að hann ætti eftir að fara fjölda róðra með mér til viðbótar. Blessaður karlinn reyndist sannspár. Hann yfirgaf þessa handfæravertíð í Eyjum með stæl, því hann fiskaði óhemju Vel þessa síðustu vertíð sína á þessari jörð og allt á öðrum fætinum.“ - Öðrum fætinum? „Hann var á tréfæti annars vegar. Hafði fengið berkla sem unglingur og þjáðist af því fram eftir öllum aldri, eða þar til fóturinn var tekinn af honum. Ekki lét hann það aftra sér frá því að stunda færamennskuna af kappi.“ - Hvernig kynntist þú Ása í Bæ? „Einhverju sinni var ég að landa ágætis afla í Eyjum. Þá var karlinn á bryggjunni og við tók- um spjall saman. Það var óvenjulangt þetta bryggjuspjall okkar. Ég held það hafi staðið í rúma þrjá tíma. Á þessum tíma var hann að róa á öðrum báti. Við hittumst skömmu síðar í mötuneyti þar sem við borðuðum báðir. Þar varð framhald á bryggjuspjallinu, sem leiddi til þess að við ákváðum að róa saman. Það voru náttúrlega mikil mistök eins og fram hefur komið. Langskemmtilegasti róðurinn sem við fórum saman var sá síðasti áður en við skildum „Norðurhjarat sem áhöfn. í þeim róðri renndum við aldrei færum, heldur tókum við rólegan hring kring- um Eyjuna. Það var að gjóla upp, svo við kom- umst ekki á veiðislóð, og við dóluðum eina þrjá tíma í þessum hring okkar. Ási sagði mér sögur allan tímann af sérkennilegu fólki sem hafði verið í Eyjum. Hann var mjög fróður um allt slíkt og kunni vel. Þetta er skemmtilegasti róður sem ég hef farið. Hann sagði mér meðal annars söguna af konunni sem hafði aldrei farið upp á land úr Eyjum. Einn dag ákvað hún að nú skyldi hún upp á land. Konan tekur sig til. Þetta var á þeim tíma þegar flug var ekki sam- göngumáti heldur bátur einu sinni í viku eða svo. Þegar sú gamla kemur á bryggjuna, sér hún að það er ekki rétt fall. Það var trú manna þá, og er meðal elsta fólksins enn í dag að ekki megi yfirgefa Eyjuna nema á réttu falli. Gamla konan fór því heim aftur og fór aldrei úr Eyj- unni. Þetta sýnir kannski hvað við erum ástrík til blettsins sem við stöndum á. Ég tel að við séum allt of fastheldnir á hlutina. En þessi andi er ekki fyrir hendi í Eyjum í dag. Vestmanney- ingar ferðast ekki síður en aðrir í landinu." Að lyfta í USA - Þú ert Akureyringur. „Ég tel mig Akureyring. Er að vísu hálfur Austfirðingur og hálfur Svarfdælingur og tel það mjög heppilega blöndu. Hef alltaf búið á Akureyri fyrir utan stuttan tíma sem ég bjó í Bandaríkjunum og svo nú í Vestmannaeyjum." - Segðu frá Bandaríkjadvölinni. Var hún, ekki tengd lyftingunum? „Jú dvöl mín þar var tengd lyftingunum. Ég fór til Bandaríkjanna til þess að æfa og ekkert. annað. Þar hitti ég fyrir einstaka heppni, mjögt góðan mann, sem heitir Larry Pacifico. Hann' er nífaldur heimsmeistari í kraftlyftingum og< setti á sínum ferli 59 heimsmet. Larry á sínæ eigin æfingastöð fyrir kraftlyftingamenn, sem er eingöngu notuð fyrir lið á hans snærum. Inn í þetta gekk ég beint og fékk alla aðstöðu til æf- inga. Eg tel það vera meiriháttar heppni að komast inn hjá svo góðum manni sem Larry.“ - Hvernig er að búa í Bandaríkjunum? „Mér þótti mjög gott að búa þar og kann af- skaplega vel við Ameríkana. Sérstaklega komu þeir mér á óvart, vegna sagna sem ganga um þá, að þeir séu afskaplega stressaðir og séu í linnulausu lífsgæðakapphlaupi. Við ættum að líta okkur nær, því það fólk sem ég umgekkst var miklu afslappaðra og þægilegra í umgengni en fólk sem maður hittir hér á landi. Þetta getur verið að hluta til af því að þetta fólk hefur mun betri laun fyrir sína vinnu en við hér, sem erum í eilífri eftirvinnu. Þetta fólk vann sína 8 tíma og hugsaði ekki um að vinna lengur. Það gat sem sagt lifað ágætu lífi af sinni vinnu. Það hef- ur nánast allt sem það þarf og fyrir vikið breyt- ist verðmætamatið mikið. Að eiga gott hús og góðan bíl þótti ekkert mál. Fólk gat komið sér upp þessu öllu á daglaununum og því leið vel.“

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.