Dagur - 05.12.1986, Blaðsíða 9
8 - DAGUR - 5. desember 1986
Þegar jólahátíðin nálgast verður mörgum hugsað
til „jólanna í gamla daga“. Hvort þetta stafar af
söknuði eftir gamla tímanum þegar lífið var ein-
faldara en núna eða vanabundinni hugsun veit ég
ekki, en það er staðreynd að um jól og áramót
vilja margir hugsa til baka. Þegar blaðamaður var
á ferð um Dalvík fyrir nokkru var honum bent á
konu sem dvelur á Dalbæ, dvalarheimili aldraðra
á Dalvík, því hún væri einstaklega minnug og
hefði lifað langa ævi. Unnur Sigurðardóttir hefur
lengst af búið á Dalvík en hún er fædd þar 12. júlí
árið 1908. Eiginmaður hennar er Guðjón Sigurðs-
son.
Æska og uppruni
- Pú ert fædd og uppalin á
Dalvík, Unnur.
„Ég er fædd hér á Dalvík í húsi
sem heitir Höfn og er hér úti á
Bakkanum, þau hétu nú alltaf
eitthvað húsin í gamla daga. Þau
höfðu sérstakt nafn því þá voru
ekki neinar götur með nöfnum.
Höfn var byggð árið 1906. For-
eldrar mínir voru Ingibjörg Sig-
urðardóttir og Sigurður Jóhanns-
son. Ingibjörg var dóttir Sigurðar
Jónssonar sem kenndur var við
Böggvisstaði og Snjólaugar Jóns-
dóttur. Faðir minn var sonur
Jóhanns Rögnvaldssonar en hann
var ættaður hérna framan úr
sveitinni. Við Ingimar heitinn
Óskarsson áttum sömu lang-
ömmu. Petta var nú aðallega
hérna úr sveitinni en mín ætt er
líka úr Fljótunum.
Ég hef ekki verið á Dalvík alla
mína tíð. Ég var hérna til fimm
ára aldurs en þá fluttu foreldrar
mínir austur á Langanes. Þar átt-
um við heima á Skálum í hálft
fimmta ár en fluttum aftur til
Dalvíkur haustið 1919. Pabbi var
mest á sjónum og réri alltaf á ára-
bátum. Hann var alinn upp hérna
á Brimnesi hjá Jóhanni Sigurðs-
syni því hann var móðurbróðir
hans Jón heitinn á Brimnesi faðir
Stefáns Jónssonar og þeir voru
uppeldisbræður Stefán Jónsson
og pabbi. Pabbi fór snemma að
fara til sjós og hann var rétt innan
við tvítugt þegar hann fór að vera
formaður á árabátum hér frá
Dalvík. Svo fór hann á hákarla-
skip og ég vissi að hann var mörg
ár með Guðmundi Hreinssyni.“
Skólagangan
- Hvernig var skólagöngu þinni
háttað?
»Ég var nú ekki mörg ár í
skóla, það voru ekki nema þrír
vetur og það var ekki kennt nema
annan hvern dag. Eldri og yngri
bekkjum var skipt svoleiðis niður
að þegar annar bekkurinn var í
skólanum þá átti hinn frí. Hann
kenndi okkur hann Tryggvi
Kristinsson, bróðir séra Stefáns á
Völlum. Tryggvi hafði 'með sér
annan kennara sem kenndi í tvo
tíma á morgnana, lestur og reikn-
ing. Skólagangan var búin þegar
börnin voru fjórtán ára nema hjá
einstaka barni sem fór eitthvað
lengra en það var ekki algengt,
maður var látinn fara að vinna
snemma, raunar löngu innan við
fermingu við að vaska fisk og
þurrka. Svo var línuvinnan,
krakkar voru oft hafðir við að
stokka upp og beita línu, og þau
voru nú ekki stór þegar farið var
að láta þau vera við það.
Á haustin var tætt smáband úr
haustullinni og úr því voru búnir
til sokkar og vetlingar. Þegar
gærurnar voru rakaðar á haustin
var öll ullin höfð í þetta
smáband. Þetta var svo selt í
búðir og fólk kepptist við að
prjóna úr þessu. Ullin var kembd
á kömbum og spunnin á rokkum.
Þá var ekki allt keypt í búðum
eins og núna.“
Jólin ádur fyrr
- Hvernig voru jólin í gamla
daga?
„Jólamaturinn var aðallega
hangikjöt og laufabrauð, svo
fékk maður kleinur og smákök-
ur, svo var jólabrauðið. Matur-
inn var skammtaður á diska á
jólanóttina, þá fékk maður
hangikjötið og tvær eða þrjár
laufabrauðskökur. Svo fékk
maður viðbót á jóladag. Þetta var
aðalmaturinn og svo spónamat-
ur. Ég man ekki eftir því lengi
framan af að maður fengi steik á
jólunum. Það var ekki siður að
hafa svið á jólunum, það var
frekar um nýárið. Það var mikið
spilað á spil um hátíðina en það
voru engar gjafir nema að maður
fékk kerti og spil og venjulega
einhverja nýja flík, oftast eitt-
hvað smálegt. Guðjón bróðir
minn fékk að fara til Ákureyrar í
fyrsta sinn þegar hann var um
fermingu og þá keypti hann
englahár og litlar kúlur. Hann
kom með pappír til að ríða poka
úr. Mamma gaf okkur gráfíkjur
og fleira góðgæti í þessa poka og
þegar húslestrinum lauk var okk-
ur krökkunum leyft að draga um
pokana.
Það var alltaf mikil tilhlökkun í
manni yfir jólunum þó ekki væri
eins mikið um að vera þá og er
núna. Ég man eftir fyrstu jólun-
um mínum. Mamma hafði verið
gift áður og var ekkja þegar hún
giftist pabba svo ég átti eldri
systkini. Guðjón bróðir minn er
eina systkini mitt sem eftir lifir og
er tíu árum eldri en ég. Hann
lærði trésmíði og vann í Völundi
í Reykjavík þar sem hann býr nú.
Hann fór suður haustið 1918 með
vermönnum sem voru á Skálum
til að læra trésmíði. Hann veiktist
af spönsku veikinni sem gekk þá
og lá í henni. Ég held að það séu
fyrstu jólin sem ég man eftir að
þá áttum við jólatré úr tré sem
Guðjón bróðir smíðaði. Það voru
tólf álmur út frá því og á því voru
tólf ljós.
-- ?
y&'A
fcÍÍllBillim
mlmm
*xiyyi'r'' /,f'' ý
Unnur Sigurðardóttir man tímana tvenna. Hún fór snemma að vinna, sá um stórt heimili og byrjaði búskap á kreppuárunum. 1 æsku hennar voru aðeins fáein
hús á Dalvík og hefur hún því séð byggðina þróast á löngum tíma. Hún man greinilega eftir jarðskjálftanum á Dalvík 1934; og segir á eftirminnilegan hátt frá
lifnaðarháttum og aðstæðum fólksins fyrr á öldinni.
„Þá v/ar nú ekhi al
keypt í búðum"
— Unnur Sigurðardóttir á DalvíK T helgarviðtali
Jólatréð var sett á borðið í
stofunni milli glugganna, en þeir
voru tveir. Áður en skammtað
var las pabbi lesturinn. Mamma
söng jólasálmana og við krakk-
arnir sungum með og horfðum á
jólatréð með lýsandi ljósunum á
borðinu. Mér fannst þetta mjög
hátíðlegt. Mamma hafði saumað
kappa fyrir stofugluggana því þá
þekktust ekki þessar síðu gardín-
ur sem komu seinna. Þessir kapp-
ar voru hvítir að neðan með
rauðum rósum og lausum skýlum
neðan við, en þær voru bara
hengdar fyrir á kvöldin.“
- Svo hefur verið farið í
kirkju?
„Við fórum til kirkju á jóla-
dag, ég man ekki eftir því að það
hafi verið farið á jólanótt. Svo
var alltaf lesinn húslesturinn,
pabbi las alltaf húslestur og ég
man alltaf eftir því hvað mér
fannst hátíðlegt þessa fyrstu jóla-
nótt. Pabbi gaf okkur kerti því þá
voru farin að fást lítil, snúin
kerti. Þegar hann kom frá kaup-
staðnum gaf hann okkur pakka
með litlum kertum í til að setja á
jólatréð. Eins og ég sagði áðan
þá hafði Guðjón bróðir minn
komið með pappír frá Akureyri.
Þetta voru nokkrar gerðir af mis-
litum skrautpappír og einhvers
staðar hafði hann lært að búa til
poka úr honum. Þegar ég var nú
orðin þetta gömul sem ég er núna
þá datt mér í hug að gefa minnstu
barnabörnunum mínum svona
poka til að hengja á jólatréð. Ég
fór af stað til að leita að svipuð-
um pappír og Guðjón bróðir
hafði verið með.“
Nýi og gamli tíminn
- Hvernig finnst þér jólahátíðin
fara fram í dag og hvernig kanntu
við það?
„Ég get ekki sagt að ég
kunni illa við það. Það eru svo
mikil stökk í þessu. Maður getur
ekki líkt þessu saman þó maður
fari að hugsa um þetta. Ég er
ekki viss um að börnin núna séu
neitt ánægðari en við vorum, þó
við fengjum þetta miklu minna.
Það voru gerðar minni kröfur til
alls og maður þurfti að eiga sömu
flíkina kannski í mörg ár. Fötin
voru þannig gerð að það var hægt
að síkka pilsin og lengja ermarn-
ar, því þá var allt með löngum
ermum, blússur o.þ.h. Svo voru
sauðskinnsskórnir, ég var á sauð-
skinnsskóm lengi vel og þótti
gott. Það voru prjónaðir íleppar
innan í skónum. Skinnið var
blásteinslitt og bryddað var með
hvítu eltiskinni."
- Er þér fleira minnisstætt úr
bernsku og æsku?
„Þegar við fluttum frá Langa-
nesi haustið 1919 þá keypti pabbi
lítinn torfbæ sem Svæði hét og
var hér utan við ána. Það var tals-
vert af fólki sem bjó þarna fyrir
utan ána því þá voru ekki nema
fáein hús á Dalvík. Þarna geng-
um við í skóla og bömin vom allt-
af samferða. Ég kynntist Guð-
jóni, manninum mínum, þegar
við vorum samferða í skólann
sem börn.“
- Heldur þú að yngra fólkið
viti hvað það er að tala um þegar
það talar um kreppu?
„Nei, það veit það ekki. Það er
ekki hægt að segja það. Á stríðs-
árunum og áður gat maður sagt
að það væri kreppa því þá var
manni skammtað allt upp í hend-
urnar. Maður fékk svona smá-
miða sem vörurnar voru skammt-
aðar út á. Það var til vikunnar
sem manni var skammtað. Það
var eitt pund af hveiti og sykri á
mann yfir vikuna. Allt var skrifað
á þessa miða, hveiti, haframjöl
og rúgmjöl. Kaffið var líka
skammtað.
Ég vann við að vaska fisk og
fór fyrst í kaupavinnu þegar ég
var fimmtán ára. Ég fór um vorið
á krossmessu og fékk 60 krónur
á mánuði sem kaupakona á
Böggvisstöðum. Þetta þótti ágætt
kaup. Yfir vetrarmánuðina fékk
maður ekki nema tíu eða fimmt-
án krónur.“
- Getur þú nokkuð sagt mér
hvað var hægt að fá fyrir tíu
krónur þá?
„Ég er nú búin að gleyma verði
á flestum hlutum en það var ekki
mikið. Ég get sagt sem dæmi að
þegar ég var á Böggvisstöðum þá
fékk ég að fara í kaupstað um
haustið með bátum sem gengu
inn til Akureyrar. Ég keypti mér
kápu á Akureyri sem kostaði 85
krónur. Ég var meira en heilan
mánuð að vinna mér inn fyrir
einni flík.
Unnið í fiski
Haustið 1932 vorum við aðeins
naskari og vorum hjá honum
Jóhanni Jóhannssyni sem var
hérna á Jaðri en hann tók fisk til
að salta. Þetta var þá mestallt
málsfiskur og það þurfti að
himnutaka og skera úr. Við feng-
um krónu á 200 punda vigtina.
Okkur var vigtað út. En það voru
ekki nema 75 aurar á varðið, sem
kallað var. Þegar við vorum að
breiða og taka saman fengum við
ekki nema 60 aura á tímann því
það var tímavinna.“
- Hvað var vinnudagurinn
langur?
5. desember 1986 - DAGUR - 9
„Hann var nú aldrei styttri en
tíu tímar og stundum miklu
lengri. Þá var ekki alltaf verið að
líta á klukkuna. Ég hafði talsvert
stórt heimili á þessum árum. Við
Guðjón giftum okkur 1932 svo
það eru bráðum 55 ár síðan. Við
vorum með kindur og kýr og
maðurinn minn var oftast á sjón-
um svo það kom mikið á mig að
passa skepnurnar, sérstaklega á
veturnar því þá fór maðurinn
minn svo oft á Suðurlandsvertíð
eftir nýárið. Fyrstu árin lifðu
foreldrar mínir báðir og mamma
lifði lengi því hún varð fjör-
gömul. Þau voru bæði hjá okkur.
Bærinn sem pabbi keypti á sínum
tíma var afskaplega lélegur og
hann reif hann strax og byggði
upp. Þá var byggð baðstofa sem
var ein fjögur stafngólf. Svo var
eldhús og gangur framan við.
Þetta stóð nokkuð lengi, húsið
sem pabbi byggði. En þegar jarð-
skjálftinn kom árið 1934 þá eyði-
lögðust allir þessir torfbæir. Það
voru fleiri torfbæir þarna utan við
ána og þeir hrundu allir eða
flestir, meira að segja mörg
steypt hús hér á Dalvík hrundu
líka.“
Jarðskjálftinn á Dalvík
1934
- Manst þú hvar þú varst stödd
þegar jarðskjálftinn kom?
„Ég var að vaska fisk þegar
þetta kom fyrir. Þetta var að
morgni til, rétt eftir matinn.
Þetta var alveg agalegt, jörðin
gekk öll í bylgjum. Það gat ekki
nokkur maður staðið uppréttur
þegar skjálftinn gekk yfir. Þetta
kom svo snögglega að maður gaf
sér ekki tíma til að verða
hræddur. Það var stafalogn og
bátarnir voru allir í landi þennan
morgun því það var beitulaust og
þv! ekki róið. Pabbi og Guðjón
voru að taka svörð því þá var svo
mikið notað af sverðinum til elds-
neytis. Guðjón var niðri í svarð-
argröfunum og var að stinga og
kasta upp en pabbi var uppi á
bakkanum. Þeir voru nýkomnir
heimanað. En þennan morgun
var ágætis veður, ekki sólskin en
stillt og hlýtt. Það var búið að
láta út kýrnar og ég var að vaska
fisk niður við sjó og mér var bara
sendur matur.
Við vorum nýbúin að borða
þegar þetta kom fyrir. Við vorum
fjórar stújkurnar sem vorum að
vaska hjá Jóhanni á Jaðri og vor-
um nýkomnar aftur í vinnuna eft-
ir matinn. Suður á kantinum var
einfaldur skúr úr timbri og báru-
járni. Við vorum með tvö kör og
vorum því tvær um hvert kar.
Við sátum meðan við vorum að
skera úr áður en við fórum að
vaska vigtarnar. Hann Sveinn
Jóhannsson, sem síðast var spari-
sjóðshaldari hérna, flutti að okk-
ur fiskinn í hjólbörum innan úr
skúrnum og svo frá okkur aftur
þegar við vorum búnar að vaska,
fram á kant þar sem honum var
stakkað upp áður en hann var
þurrkaður.
Sveinn var stundum að hrekkja
okkur þannig að þegar hann kom
og hafði tíma til þá dró hann
spýtu eftir bárujárninu á skúrn-
um og þá hvein mikið í honum
eins og gefur að skilja. Við áttuð-
um okkur ekki neitt á neinu. Það
kom dálítill rigningarskúr þarna
þegar við vorum rétt komnar úr
mat og það voru tveir fiskstakkar
með óþvegnum fiski sitt hvorum
megin við dyrnar. Þessa dyr voru
stórar og breiðar því það var
hægt að koma vörubíl þarna inn.
Dótið okkar var uppi á stökkun-
um. Ein konan sat og var nýbúin
að skera úr vigtinni sinni en ég
var nýstaðin upp. Þvert yfir körin
lágu spýtur sem við notuðum til
að vera fljótari að vaska fiskinn,
við létum vatna á honum á spýt-
unum. Ég var nýbúin að skera úr
vigtinni minni og var að dýfa
fiskinum niður í þegar miícill
hvinur kemur. Konan sem stóð á
móti mér segir þá: Nú tekur
Sveinn til. En við héldum að nú
væri Sveinn enn að hrekkja okkur
ein og hann gerði stundum. En í
því kemur þá þessi litli hvellur og
allt lék á reiðiskjálfi. Fiskurinn
hoppaði upp í stæðunum og við
fórum fram á gólfið. Konan sem
sat sagði þá: Það er að koma
jarðskjálfti, því hún fann hrist-
inginn á undan okkur þar sem
hún sat. Við æddum fram á gólfið
og ætluðum út en við komumst
ekkert því við gátum ekki fótað
okkur á gólfinu. Þetta var eins og
bylgjur sem gengu um allt.
Svo komumst við að lokum út
og þá var nú heldur einkennilegt
umhorfs því það rauk hérna úr
fjallinu. Þetta var eins og
stórhríð, moldrykið var svo mik-
ið úr fjallinu því þar hefur hrunið
niður.“
Allt á hvolfí
- Var þá ekki fyrst fyrir að fara
heim?
„Jú, auðvitað. Það var allt á
hvolfi þegar ég kom út og hver
flýtti sér heim til sín. Það var eitt
atriði sem fólki fannst kímilegt
og mikið var hlegið að. Þannig
var að Jóhann var að byggja sér
skúr sem hann ætlaði undir þurr-
fiskinn. Þeir voru þrír við það
verk; Kristinn, sem átti heima á
Hjalla, og Sveinbjörn Zophan-
íasson og Jóhann á Jaðri. Þeir
voru að reisa sperrurnar upp og
sátu náttúrlega uppi. Þegar fyrsti
hvellurinn kom sagði Jóhann:
Hvern andskotann ertu að hrista
Kristinn. í því duttu þeir bara
niður af skúrnum. En þeir
sköðuðust ekkert. Það var það
einkennilega við þetta að eins og
þetta var nú allt hérna að þá
skyldi ekki nokkur einasta mann-
eskja meiðast. Nú hrundu skor-
steinarnir af húsunum og brakið
var úti um allt. Ég hljóp heim
upp í Svæði og þá var eldavélin
komin fram á gólf og allt á hvolfi.
Diskarnir hrundu niður og mikið
brotnaði af leirtaui en það var allt
haft í rekkum þá í eldhúsunum.
Það var hús við norðurendann
hjá okkur en þar hafði mamma
mjólk uppi í skáp sem hún setti í
skápnum því ekki var nein skil-
vinda komin þá, en þetta var gert
í gamla daga að renna rjómanum
ofan af mjólkinni til að hægt væri
að strokka hann. Hún átti mjólk í
potti sem hún ætlaði að flóa og fá
undanrennu til að búa til skyr.
Þessi pottur stóð á kvartéli úti í
skemmunni. Þetta fór allt út um
allt og pottarnir hvolfdust alveg
við.
Pabbi og Guðjón létu kýrnar
inn þegar rigningarskúrinn kom,
rétt fyrir jarðskjálftann. Þegar
þeir komu utan frá svarðargröf-
inni rétt eftir að mesti kippurinn
var yfirstaðinn þá voru kýrnar
búnar að slíta sig lausar, hurðin á
fjósinu var opin og kýrnar hlupu
um allt tún með böndin á hálsin-
um. Það var hvergi farið að láta
út kýrnar á syðri kotunum þegar
þetta var nema hjá okkur, en eft-
ir þetta voru allar kýr settar út.
Þær komust út með sama hætti og
hjá okkur og þegar ég kom
hlaupandi heim voru kýrnar
hlaupandi út um allt.“
- Var ekki farið í að gera við
húsin fljótlega?
„Þetta var eiginlega allt byggt
upp aftur, öll torfhúsin fyrir utan
ána. Það var 2. júní sem skjálft-
inn kom og smiðir frá Akureyri
voru fengnir til að smíða hérna.
Tveir smiðir byggðu upp húsið
heima hjá mér. Skemmdirnar á
húsinu voru miklar því veggirnir
göptu allir hver frá öðrum. Þekj-
an sprakk í sundur svo maður sá
út um hana. Margt fólk svaf í
tjöldum lengi vel en við á syðri
bæjunum sváfum inni en höfðum
allar dyr vel opnar lengi vel á
eftir. Það var náttúrlega ekki
búið að kippa þessu strax í lag en
það var búið að byggja mikið upp
um haustið.“
Ég kvaddi Unni og þakkaði
henni fyrir spjallið. Frásögn
hennar er lifandi því minnið er
gott og það var ekki laust við að
manni fyndist sem hulu væri svipt
frá atburðum sem gerðust fyrir
mörgum áratugum. Svo mikið er
víst að ungu fólki er hollt að hug-
leiða við og við aðstæður þeirrar
kynslóðar sem Unnur tilheyrir.
EHB
Til ungra
myndlistarmanna
ara og yngn
í tilefni af 20 ára afmæli IBM á Islandi, hyggst fyrirtækið
standa fyrir sýningu á verkum ungra myndlistarmanna, 35
ára og yngri.
Yfirskrift sýningarinnar er „Áhrif tölvuvæðingar í 20ár“. I
tengslum við sýninguna hyggst fyrirtækið veita verðlaun
einum listamanni að upphæð kr. 100.000,- og jafnframt
áskilja sér rétt til kaupa á sýningarverkum. Ætlast er til að
send séu inn ekki færri en þrjú verk eftir hvern listamann og
geta þau verið úr hvaða listgrein sem er innan myndlistar-
innar. Miðað er við að verkunum sé skilað inn fyrir
10. janúar 1987 til IBM, Skaftahlíð 24.
Sýningarnefnd skipa:
Gunnar M. Hansson forstjóri, formaður
Daði Guðbjörnsson, myndlistarmaður
Einar Hákonarson, listmálari
Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri
Halldór B. Runólfsson, listfræðingur
SKAFTAHLÍÐ 24 REYKJAVÍK SÍMI 27700