Dagur - 16.06.1990, Blaðsíða 8

Dagur - 16.06.1990, Blaðsíða 8
8 - DAGUR - Laugardagur 16. júní 1990 spurning vikunnar Högni Harðarson: „Já, auðvitað geri ég það eins og allir aðrir. Ég held að annað- hvort Hollendingar eða Brasi- líumenn verði heimsmeistarar. Mitt uppáhaldslið í keppninni er Uruguay og það getur unnið hana eins og hvert annað lið.“ Harpa Sveinsdóttir: „Já, en ekki mikið. Ég hef séð nokkra leiki svona með ööru auganu, en ég á mér ekkert uppáhaldslið." Lúðvík Elíasson: „Já, ég geri það að einhverju leyti. Það er ekkert ákveðið lið sem ég fylgist betur með en öðrum. Miðað við þau óvæntu úrslit sem hafa orðið í sumum leikjunum getur hvaða lið sem er orðið heimsmeistari." Anna Kristín Arnarsdóttir: „Nei, það geri ég ekki og hef engan áhuga á því. Ég mun kannski horfa á eins og einn leik ef ég verð neydd til þess.“ Elín Rós Sveinbjörnsdóttir: „Nei, mér hefur alltaf fundist fót- bolti svo leiðinlegur. Ég ætla ekki að fylgjast með einum ein- asta leik, ég mun skrúfa niður í bæði útvarpi og sjónvarpi. Mér finnst svo vitlaust að elta bolta- tuðru út um allan völl.“ Fylgist þú með Heimsmeist- arakeppninni í knattspyrnu? (spurt á Akureyri) l kýrhausnum — gamansögur, sannar og uppdiktaðar Hin rétta staða David Lloyd George (1863-1945) var breskur stjórnmálamaöur. Hann var forsætisráðherra frá 1916-1922. Af honum eru til margar sögur. Það er sagt að faðir hans hafi verið í miklum vafa um hvaða hæfileika sonurinn hefði frama- vænlegasta og hvaða stöðu hann skyldi búa sig undir. Faðirinn ákvað því að gera dálitla tilraun. Hann afhenti Davíð, sem þá var orðinn nokkuð stálpaður, shilling, epli, litakassa og biblíu og lét hann svo vera einan og sjálfráðan í stundarfjórðung. Hann hugsaði sem svo: Ef drengur fer að leika sér með lit- ina, þá verður hann listamaður. Taki hann að leika sér að pen- ingnum þá geri ég hann að bankastjóra. Fáist hann eingöngu við eplið skal hann fara í land- búnaðinn, en sökkvi hann sér niður í biblíuna geri ég hann að presti. Er stundarfjórðungurinn var liðinn opnaði faðirinn dyrnar á herbergi stráksins. Drengur sat þá á biblíunni og borðaði eplið, en hann var önnum kafinn við að mála peninginn gulan til þess að gera hann sem líkastan gullpen- ingi. Þá ákvað faðirinn að sonurinn skyldi verða lögfræðingur! Á kosningafundi í kosningabaráttu nokkurri barð- ist Lloyd George mjög fyrir heimastjórn íra og var það mikið hitamál. Eitt sinn á fundi er Lloyd George var að tala kallaði drukkinn maður fram í fyrir honum: Gætum við ekki líka fengið heimastjórn fyrir helvíti? - Jú, það er ekki ólíklegt að við gætum það, svaraði Lloyd myndlist George óðara, en hvað sem um það má segja þá gleður það mig ákaflega að kynnast kjósanda sem berst jafn ótrauður fyrir rétti sínum og þér. Hið mikla djúp Franski forsætisráðherrann Clemmenceau, sem almenningur kallaði tígrisdýrið, var alls ekkert hrifinn af þessu viðurnefni. Eitt sinn ávarpaði Lloyd George hann þessu nafni í samræðum og þá sagði Clemmenceau gremjulega: - Já, ég sé nú að það er - og hefur alltaf verið - óbrúandi djúp milli lærdóms og háttvísi. - Fyrir okkur Englendinga hefur það nú aðeins verið Erma- sund, svaraði Lloyd George. Járnvörubúð Enski leikarinn E.H. Southern gekk eitt sinn fram hjá járn- vörubúð og sá að innan við búð- arborðið stóð afgreiðslumaður, kjánalegur á svip. Ein af aðal- skemmtunum Southerns var að hrekkja og gera at og hann stóðst ekki freistinguna, fór inn í búð- ina og sagði: - Eigið þér til aðra útgáfu af Englandssögu eftir Macaulay? - Nei, herra minn. Þetta er járnvörubúð. - Hún má vera óbundin, það gerir ekkert til. - Já, en við seljum ekki bækur hér, herra minn. - Jú, þér megið pakka henni inn í hvað sem er. - Já, en heyrið þér, við seljum ekki bækur! Afgreiðslumaðurinn beygði sig yfir búðarborðið og öskraði í eyr- að á Southern: - Engar bækur! Járnvörubúð! - Þakka yður kærlega fyrir, sagði Southern brosandi og sett- ist niður. Ég bíð þá. Nú var afgreiðslumaðurinn kominn gjörsamlega úr jafnvægi, hann æddi inn í herbergið á bak við og sótt kaupmanninn sjálfan sem spurði ákveðnum rómi: - Hvað er það fyrir yður, herra minn? - Ég þarf að fá þjöl, svona langa, sagði Southern hinn róleg- asti. - Nú, já, sagði kaupmaðurinn og horfði grimmdarlega á aum- ingja afgreiðslumanninn. Þá var öllu óhætt Danskur ferðamaður var nýflutt- ur inn á hótel í Kaupmannahöfn. Um kvöldið fór hann fram á gang, gekk að lyftudyrunum og beið. Kom þá ljóshærð og glæsi- leg stúlka út úr einu herberginu og starði lengi á hann rannsókn- araugum. Loks spurði hún: - Eruð þér kvæntur? Maðurinn hikaði sem snöggvast, en svo komst hann að þeirri niðurstöðu að best væri að segja sannleikann. Jú, sagði hann, ég er það. Stúlkan sneri strax við honum bakinu og sagði: - Viljið þér þá gjöra svo vel að renna upp lásnum fyrir mig. Kaup og starf Einn duglegasti verkfræðingur- inn við fyrirtæki nokkurt fór til forstjórans og bað um launa- hækkun. Forstjórinn sagði: - Þér hafið þegar hærri laun en sá sem næst yður gengur og Itann á 5 börn. - Já, sagði verkfræðingurinn. það er hverju orði sannara. En ég hélt að kaup okkar færi eftir því sem við vinnum hér, en ekki því sem við gerum heima í frístund- um okkar. Hann fékk launahækkun. SS tók saman. Fjör og fjölbreytni - Sýning Þorvaldar Þorsteinssonar í Möðruvallakjallara Það er ómaksins vert að leggja leið sína í Möðruvallakjallarann þessi kvöldin. Þar opnaði Þor- valdur Þorsteinsson 14. júní sýn- ingu á þrjátíu og sjö myndverk- um og ellefu stuttum sjónvarps- leikritum, sem flutt eru af myndbandi. Sýningunni lýkur 17. júní. Þorvaldur Þorsteinsson er ung- ur maður og greinilega enn að leita þeirrar myndtjáningar, sem hæfir honum. Slíkt er í engu furðulegt né heldur ámælisvert. Hver sannur listmaður og hver einlægur leitandi á sviði listanna er sífellt að þreifa fyrir sér um stíl og táknun. Sú er leiðin til þroska og framfara og því fjölbreyttari en jafnframt ákveðnari sem leitin er, því meiri ánægja er af því að fylgjast með henni. A sýningu Þorvaldar eru tólf vatnslitamyndir, sem margar hverjar bera þess allglögg merki, að listamaðurinn hefur náð veru- legu valdi á tækni vatnslitunarinn- ar. Víða nær hann fram þeirri sérkennilegu áferð, sem einkenn- ir þessa tækni. Til þessa má nefna myndir svo sem Lampi (nr. 9), Egg (nr. 3) og Blóm (nr. 2). Þá gerir Þorvaldur í nokkrum vatns- litamyndanna athyglisverðar til- raunir til þess að brjótast út úr ramma hefðarinnar svo sem í myndunum Hnattlíkan (nr. 5) og Palletta (nr. 7). Teikningarnar sextán, sem Þorvaldur sýnir í Möðruvalla- kjallara, bera vott hagri hönci og glöggu auga ásamt - í flestum til- fellum - agaðri notkun línunnar. Listamaðurinn hefur greinilega gaman af að tefla saman ósam- stæðum, sem fela gjarnan í sér tákn. Hér má benda á myndirnar Fugl og gleraugu (nr. 23), Sláttu- vél og Svanur (nr. 25) og Hendi og vindmylla (nr. 26). Enn aðrar teikninganna eru beinlínis tákn- rænar og jaðra á stundum við brandara. Hér má sérstaklega geta myndarinnar Tvær ferðir til Parísar (nr. 17). Þorvaldur sýnir þrjár lágmynd- ir, sem unnar eru með fjöl- breyttri tækni. Svo fáar myndir gefa ekki víðtæka mynd af verk- um listamannsins á þessu sviði og eru tæplega viðhlítandi grund- völlur umsagnar. Það lítið, sem er að sjá af þessum flokki mynda vekur samt forvitni en jafnframt spurn um það, hvort hér skorti ekki þrótt og ferskleika. Skemmtilegur hluti sýningar Þorvaldar Þorsteinssonar er ljós- myndir, sem listamaðurinn hefur handfjatlað og breytt með yfirlit- un. Hér er um einfalt form að ræða, sem í höndum Þorvaldar virðist vera tilraun til þess að gæða ljósmyndirnar nýrri merk- ingu og draga fram áhersluatriði. Forvitnilegt hefði verið að hafa til hliðsjónar myndirnar óbreytt- ar til þess að geta betur metið ætlun listamannsins með verki sínu. Sjónvarpsleikritin ellefu eru áhugaverður þáttur í sýningu Þorvaldar. Myndatakan er hrá og textaflutningurinn, sem er allur á íslensku, oftast lítt leikrænn. Því sterkari verða ýmis áhrif verk- anna; til dæmis hið skoplega, það djúp, sem oft er á milli viðmæl- enda, og Ijóðrænan, sem allvíða einkennir textann. Svo forvitni- leg sem þessi sjónvarpsverk eru, eru þau jafnframt þau verkanna á sýningunni í Möðruvallakjallar- anum, sem eru hvað frumstæð- ust. Ekki vegna skorts á tækni- brellum, sem er kostur, heldur vegna þess, að í þeim mætti vera meiri marksækni og festa. Auk þess, sem þegar hefur ver- ið rætt, eru á sýningu Þorvaldar Þorsteinssonar í Möðruvalla- kjallaranum bækur og bæklingar, sem sýna enn fjölbreytta hæfi- leika hans. Sérlega skemmtileg er hin fagurlega lýsta barnabók Þor- valdar Skilaboðaskjóðan, þar sem fram kemur ljúf og hlý hlið listamannsins í hefðbundnum ramma. Það er gaman að skoða sýn- ingu Þorvaldar. í henni er leikur, lífsfjör og fjölbreytni. Það er ljóst, að enn á Þorvaldur tals- verða leið ógengna til þroska í stfl og efnistökum, en jafnljóst er, að hann er kominn vel á veg. Haukur Ágústsson.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.