Dagur - 30.10.1990, Blaðsíða 6

Dagur - 30.10.1990, Blaðsíða 6
6 - DAGUR - Þriðjudagur 30. október 1990 Annað tækifæri - enduruppsetning Leikfélags Húsavíkur leiklist Þegar Leikfélag Húsavíkur hætti sýningum á leikritinu „Land míns fööur“ eftir Kjartan Ragnarsson við tónlist eftir Atla Heimi Sveinsson á síðasta leikári, hafði verkið verið sýnt tuttugu og fimm sinnum og fjöldi sýningargesta var kominn vel yfir hálft þriðja þúsundið. Þó var ekkert lát á aðsókn. Uppselt var á hverja sýn- ingu. Þrátt fyrir það var ekki um annað að ræða en að slíta sýning- um. Margir þátttakendanna í uppfærslunni þurftu nauðsynlega að sinna öðrum málum, sem ekki mátti lengur fresta, svo að í raun varð sjálfhætt. Nú hefur Leikfélag Húsavíkur tekið verkið upp aftur. í haust var það æft upp á ný undir stjórn Sigurðar Hallmarssonar, sem líka var leikstjóri frumuppfærsl- unnar, og nýir menn fengnir í stað þeirra, sem ekki gátu verið með í enduruppsetningunni. Þeir urðu fimmtán alls; leikarar og flytjendur tónlistar. Frumsýning enduruppsetningarinnar var föstudaginn 26. október fyrir fullu húsi áhorfenda, sem greini- lega nutu sýningarinnar og klöppuðu flytjendum innilega lof í lófa að henni lokinni. Ýmsu smálegu hefur verið breytt í enduruppsetningu Leik- félags Húsavíkur á „Landi míns föður“. Það helsta í því efni er, að dansatriði, sem var heldur mislukkað í frumuppfærslunni, hefur verið skipt út fyrir kvenna- tríó, og er það til mikilla bóta. í heild má segja, að verkið líði mun lipurlegar fram en það gerði; hnökrar eru svo til engir og vel hefur tekist að fella nýliðana inn í hópinn á sviðinu - svo vel, að tæplega ber skugga á. Miklar breytingar hafa orðið í hljómsveit sýningarinnar. Tón- listarstjóri og píanóleikari frum- uppfærslunnar, David B. Thomp- son og blásturshljóðfæraleikarinn Keith R. Miles, eru báðir hættir störfum á Húsavík. Við tónlistar- stjórn hefur tekið Norman Dennis, trompetleikari, og á píanóið leikur Ragnar Þorgríms- son. Trommuleikari er Stefán Helgason og leikur hann einnig á munnhörpu í hljómsveitinni. Undirritaður reit umsögn um frumuppfærslu þessa verks á síð- asta vetri. Um frammistöðu ein- stakra leikara er litlu við það, sem þá var sagt, að bæta. Elín Sigurðardóttir, sem Bára er Ijúf- leg og heilsteypt í hlutverki sínu, Kristján Halldórsson í hlutverki Sæla, unnusta Báru, nær vel ung- æðislegum ákafa, barnslegri ein- lægni og innilegri tryggð persón- unnar. Einar Njálsson gerir Leifi föður Báru góð og eftirminnileg skil og hið sarna gildir um Guð- nýju Þorgeirsdóttur, sem leikur móður hennar með sannfærandi hætti. Stjáni, skemmtistaðarrekand- inn, er skoplegur í túlkun Jóns Guðlaugssonar, sem fer léttum höndum um hlutverkið, og kona hans, Sigga, skilar sér vel í með- förum Sigríðar Harðardóttur. Bjarni Sigurjónsson nær góðum tökum á Ólafi, föður Sæla og Stjána, Kristinn Einarsson hefur sannferðug tök á Agnari lög- reglustjóra, Ingimundur Jónsson túlkar Pétur postula af innlifun í falli hans og endurreisn og Jó- hannes G. Einarsson hefur trygg tök á Þórólfi nasista. Af nýjum leikurum má nefna Aðalsteinu Einarsdóttur, sem leikur Önnu, unglingsstelpu, systur Báru, sem lendir talsvert í ástandinu. Aðalsteina skilar hlut- verki sínu í heildina vel, en talar á stundum óskýrt og of hratt. Annar nýr leikari, sem athygli vakti var Pétur H. Pétursson, sem fer með hlutverk Björns Valdemarssonar. Pétur gerir hlutverkinu góð skil. Þó má að því finna, að sú bjagaða íslenska, sem hann á að tala, er ekki alveg eins samfelld og vera mætti. I fyrri umsögn undirritaðs um verkið var fundið að nokkuð hörðum trommuleik í hljómsveit- inni. Til þess er ekki ástæða að þessu sinni. Hljómsveitin var mjög áheyrileg og í raun undur, hve fjöibreyttur leikur hennar var þar sem hún er einungis skip- uð þrem hljóðfæraleikurum. Flutningur söngvara var yfir- leitt með ágætum, en í fjölda- söng, svo sem kórum, gætti tals- verðs ósamræmis í styrk radd- anna. Einkum var þaö tenórinn, sem vildi koma verulega og á stundum til skaða fram úr hljómnum. Þá náði höfuðglans- númer kórflutningsins, lagið „Land míns föður“, ekki þeim brag, sem var í fyrri uppfærsl- unni. Hlýju og innileik skorti til þess að vönduð útsetning Atla Heimis Sveinssonar nyti sín. Það var kærkomið undirrituð- um að eiga þess kost að sjá söng- Samkort ■ alíslenska greiðslukortið Upplýsingar og eyðublöð: Vátryggingafélag íslands hf. Glerárgötu 24, Akureyri. leikinn „Land míns föður“ aftur á fjölum Samkomuhússins á Húsavík. Ekki spillti það ánægj- unni að komast að raun um, að minningin um góða kvöldstund í félagsskap leikaranna í Leikfé- lagi Húsavíkur á síðasta leikári við frumuppsetningu verksins hafði ekki verið rósrauður bjarmi fjarlægðarinnar. Með endurupp- setningu „Lands míns föður“ gef- ur Leikfélag Húsavíkur þeim leikhúsunncndum á Norðurlandi, sem ekki gátu komið því við að sjá sýningu þess á verkinu í fyrra, tækifæri til þess að njóta þess núna. Það er óhætt að fullyrða, að Húsavíkurferð þess erindis er fyrirhafnarinnar virði. Haukur Agústsson. myndlist Þríeyki á Húsavík Þrír listamenn opnuðu sýningu í Safnahúsinu á Húsavík 27. októ- ber. Sýningin stendur til 4. nóv- ember. Hólmfríður Bjarnadóttir, Sandi í Aðaldal, sýnir tíu veflist- armyndir. Annars vegar eru smáar landslagsmyndir, sem bera vott næmu auga og góðri tilfinn- ingu fyrir því efni, sem listamað- urinn vinnur í og möguleikum þess á þessu sviði myndtjáningar. Hins vegar eru stærri myndir, þar sem mótífin eru konur. Nokk- urrar einhæfni gætir í myndefni og mótun, en í mörgum þessara mynda er mikill styrkur og ákveðin tjáning, sem vekur athygli og umhugsun. Sérstak- lega má nefna myndina „Blikur", sem er sérlega sterk og heildstæð. Oddný Magnúsdóttir á Húsa- vík sýnir níu verk. Annars vegar eru veflistaverk. Af þessum myndum vöktu mesta athygli óhlutbundin smáverk, sem lýsa einna helst hugblæ. Af þeim má nefna „Gegnum gráu hárin“, sem unnin er í tog og silki, og „Blús“, unnin í hrosshár og silki. Hins vegar eru á sýningunni natúralist- ísk verk unnin í tau og silki með „ásaumi". í þessum flokki vöktu mesta athygli myndirnar, „Vetur- nætur“ og „Dögun“. f þeim hefur listamaðurinn náð næmum tök- um á jafnt myndefni sem vinnslu- efni. Þriðji listamaðurinn á sýning- unni í Safnahúsinu á Húsavík er Torfi Ásgeirsson. Torfi er úr Reykjavík, en ættaður frá Hall- dórsstöðum í Laxárdal. Torfi sýnir tuttugu og fimm málverk. Þau eru unnin annars vegar í olíu á striga og hins vegar í akrýl á striga. Fimm þeirra eru „geometrísk" og allströng að uppbyggingu og tíu nokkurs kon- ar leikur að litum; frjáls og jafn- vel losaraleg. Þó er serían „Ljós, flæði, birta“ allformföst og öguð. Auk hinna óhlutbundnu verka sýnir Torfi tíu verulega stílfærð, natúralistísk verk. Þessar myndir eru fastar í formi, fletir litanna greinilega aðskildir og skuggar skarpir svo að á stundum minnir á formteikningu. í þessum flokki verka vöktu sérstaka athygli myndirnar „Lindá“ og „Snjó- fjöll“, þar sem hið stranga og í raun þunga myndform öðlaðist mýkt og fyllingu. Torfi virðist hafa tilhneigingu til þess að fylla myndflötinn sem mest. Þetta leiðir á stundum til ofhleðslu, svo sem í myndinni „Við tjörnina". Sýning listamannanna þriggja í Safnahúsinu á Húsavík er for- vitnileg og um margt falleg. Á henni má sjá umtalsverða vídd stílbragða, úrvinnsluefnis og myndtaka, sem vekur til umhugs- unar um tilgang og leiðir. Það er því full ástæða til þess að hvetja áhugafólk um myndlist til þess að leggja lykkju á leið sína og sjá hana. Haukur Ágústsson. Saga Akureyrar - fyrsta bindið að koma út „Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja, án fræðslu þess liðna sést ei, hvað er nýtt.“ Á næstu dögum mun fyrsta bindi af Sögu Akureyrar líta dagsins ljós. Söguritari er Jón Hjaltason sagnfræðingur sem ráðinn var til verksins á haust- dögum 1987. Sögu Akureyrar er skipt í þrjá meginkafla og greinist hver þeirra í sérstaka kafla. Bókin er merk heimild í máli og myndum og spannar í heild tímabilið frá landnámsöld til ársins 1862 en það ár fékk Akureyri kaupstað- arréttindi öðru sinni. í bókinni er dregin upp mynd af brauð- striti bæjarbúa og baráttu fyrir ýmsum hagsmunamálum. Einn- ig er brugðið upp lýsingum af litríkum einstaklingum er settu svip sinn á bæinn. Þessi saga, sem er náma fróð- leiks og skemmtunar, á erindi til allra Akureyringa heima og heiman og annarra sem áhuga hafa á þjóðlegum fróðleik. Kynningarbæklingur, sem hefur að geyma áskriftarseðil og upplýsingar um Sögu Akureyr- ar, verður borinn í öll hús í bænum og sendur víða um land. Nánari upplýsingar eru veitt- ar í síma 27245. Jópljalsson (§W. ?.yVfgím/mr "»*■ <«. « <i» » <, » 0«íí»<.tx..v ,v , . .. B.J. gallabxur, st. 32-42, verð 1.550.- Gallabuxur m/föllum, st. 44-54, verð 1.550.- Köflóttar vinnuskyrtur, st. 41-46, verð 990.- Víking stígvél á fullorðna komin 111EYFJÖRÐ r HJALTEYRARGÖTU 4 SÍMI 96-22275

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.