Dagur - 26.01.1991, Blaðsíða 7
Laugardagur 26. janúar 1991 - DAGUR - 7
Skrifað við dyr dauðans
- lífshlaup og sagnagerð Davíðs Porvaldssonar, rithöfundar frá Akureyri
Það var með góðum ásetningi sem ég tók mig til og ákvað að kynna
rithöfundinn Davíð Þorvaldsson fyrir lesendum blaðsins. Mér hafði
lengi þótt mikið í hinar litlu og dapurlegu sögur hans spunnið og vildi
fræðast nánar um höfundinn. Jafnframt þóttist ég vita að fáir hefðu
heyrt á Davíð minnst, ekki einu sinni Akureyringar og þó var hann
fæddur og uppalinn í höfuðstað Norðurlands. En við heimildaöflun á
Amtsbókasafninu komst ég fljótt að því að mér var vandi á höndum
því lítið sem ekkert hafði verið skrifað um Davíð Þorvaldsson.
Þrátt fyrir allmikla leit var ein grein
eftir Davíð Stefánsson frá Fagra-
skógi og tvær minningargreinar úr fs-
lendingi og Degi það eina sem ég
hafði upp úr krafsinu. Nei, það yrði
ekki auðvelt að skrifa um lífshlaup
Davíðs Þorvaldssonar með þessar
fátæklegu heimildir í höndunum en
nteð hjálp verka hans, tveggja smá-
sagnasafna, ætti þó að vera hægt að
bregða upp mynd af rithöfundinum
skammlífa.
Davíð sendi frá sér bókina Björn
formaður og fleiri smásögur árið
1929 og ári síðar, 1930, kom" seinna
verk hans út. Sagnasafn það nefnist
Kalviðir.
Sorg, sjúkdómar og fátækt
Davíð Þorvaldsson var fæddur á
Akureyri 3. júní 1901. Faðir hans var
Þorvaldur Davíðsson, verslunarstjóri
og bankastjóri, og móðir hans hét
Jóhanna Jónasdóttir frá Þrastarhóli í
Arnarneshreppi. Þorvaldur var heilsu-
veill og hann dó í blóma lífsins. Upp-
eldið hvíldi að mestu á móðurinni
sem eitt sinn hafði verið efnuð og
lánsöm, en eftir að hún missti mann
sinn varð hún veikluð og brátt þrotin
að kröftum eftir erfiða lífsbaráttu.
Davíð ólst upp við Strandgötuna
en af bernskusporum hans fer litlum
sögum nema hvað hann kynntist
snemma sorg, sjúkdómum og fátækt.
Þes^i reynsla hefur án efa sett mark
sitt á Davíð, hinn hægláta, veiklulega
og viðkvæma dreng, en hann var
greindur og námsfús og því settur til
mennta þótt þröngt væri í búi. Hann
lauk stúdentsprófi í Reykjavík árið
1925, þá 24 ára gamall.
Davíð hélt til Frakklands og dvaldi
í París í tvö ár. Um skeið stundaði
hann nám í náttúruvísindum við Sor-
bonne háskólann en þá veiktist hann
af berklum. Vegna heilsubilunar og
sennilega fjárskorts einnig varð hann
að gefa námið upp á bátinn og hann
lá á sjúkrahúsi í París um nokkurra
mánaða skeið.
Við Strandgötuna á ný
Pað er erfitt að setja sig í spor Akur-
eyringsins unga þar sem hann lá á
sjúkrahúsi í Frakklandi, berklaveik-
ur, félaus, aleinn og yfirgefinn. En á
þessum tíma snerist hugur hans æ
meira til skáldskapar. Davíð las
mikið, kynntist frönskum og enskum
nútímabókmenntum og hafði auk
þess persónuleg kynni af nokkrum
frönskum rithöfundum.
Davíð sneri heim frá París og
heimkynni hans urðu á ný við
Strandgötuna, um stund, eða eins og
vinur hans, Davíð Stefánsson frá
Fagraskógi komst að orði:
„Oft minnist ég Strandgötunnar,
eins og hún var fyrir tæpum þrjátíu
árum; forarvilpa í rekjutíð, ryknáma
í góðviðrum, fannbreiða að vetrin-
um. f litlu hornherbergi í húsi einu
við götuna bjó nafni minn og vinur,
Davíð Þorvaldsson, eftir að hann
kom heim frá París og til þess tíma er
sjúkrastofan varð vistarvera hans.
Þegar ég kom að heimsækja hann,
hittist oft svo á, að ég sá hann
álengdar á Strandgötunni. Enn
minnist ég hans á þeim slóðum, þeg-
ar fjörðurinn er lygn og spegilsléttur,
en öldulíf í flæðarmáli, hlíðin föl-
bleik, tindar fannhvítir, og bláminn
yfir heiðinni minnir á Hadesarmóðu.
Þá sá ég hann nálgast, hægt og hljóð-
lega, eins og hann vilji dylja fótatak
sitt. Svo ólíkur er hann öllum, sem
fara um Strandgötuna, að vel mætti
halda, að hann hefði villst þangað -
frá annarri stjörnu.“ (Davíð Stefáns-
son - Mælt mál, bls. 72).
Vongóður uns yfír lauk
Já, það bar ekki mikið á Davíð, hin-
um hægláta syni Strandgötunnar. En
hann hafði mörg járn í eldinum og
skrifaði í kapp við dauðann. Smá-
sagnasöfn hans komu út í Reykjavík
1929 og 1930. Hann var með langa
skáldsögu í smíðum, þýðingar, rit-
gerðir og brot, en þótt hugurinn væri
reiðubúinn var heilsan ótrygg. Síð-
ustu árin þoldi hann ekki að sitja við
skrifborð og skrifaði allt á kné sér
eða í rúminu.
Davíð Stefánsson segir um þennan
vin sinn að hann hafi alltaf verið
vongóður og bjartsýnn um framtíð
sína er hann ræddi við aðra. Dýpstu
tilfinningar, svartsýni og sorg, má
hins vegar lesa út úr verkum hans
eins og ég kem nánar að á eftir, en
skáldið frá Fagraskógi hjó eftir að
aldrei sáust skriffæri eða pappír í
herbergi Davíðs Þorvaldssonar. Þar
var allt eins og hann væri ferðbúinn
og innan tíðar rann stundin upp.
Að morgni dags, þriðja júlí 1932,
andaðist Davíð Þorvaldsson á Land-
spítalanum í Reykjavík aðeins 31 árs
gámall. Veturinn áður hafði hann
farið frá Akureyri og sett stefnuna á
England, vongóður sem fyrr, en
liann komst aldrei lengra en til
Reykjavíkur. Veikindin blossuðu
upp og yfirbuguðu andlegt þrek.
Hann varð að játa sig sigraðan og
slást í för með sögupersónum sínum
á borð við skóarann brjóstveika sem
dó einn og umkomulaus, fjarri ást-
vinum sínum.
Lífi Davíðs Þorvaldssonar var
lokið, engir afkomendur, engin ævi-
saga, engin vitneskja skilin eftir
handa forvitnum blaðamanni nú 60
árum seinna, ekkert nema greinar-
korn - og sögur hans að sjálfsögðu,
en nú kemur til þeirra kasta.
Flutti smásöguna inn
í nútímann
Eftir þetta fátæklega ævisöguágrip
ættu lesendur að geta ímyndað sér að
smásögur Davíðs Þorvaldssonar eru
engar gamansögur. En þær hafa ann-
að og meira gildi en skemmtanagildi
og þótt verk hans séu ekki stór í snið-
um má lesa út úr þeim þróun, enda
var Davíð ungur rithöfundur sem var
að móta sinn stíl er dauðinn greip inn
í atburðarásina.
Lítum fyrst á bókina Björn for-
maður og fleiri smásögur, sem hann
tileinkaði minningu móður sinnar.
Fyrsta sagan, Björn formaður, er
saga í gamla stílnum, löng örlagasaga
með mikilfenglegum mannlýsingum.
Björn var formaður á bátnum Pollux
og líkt og Sigurður formaður í sögu
Gests Pálssonar var hann gríðarlega
sterkur og mikil hetja. Sögurnar eru
að mörgu leyti áþekkar þótt 40 ár
skilji þær að, enda báðar skrifaðar í
anda raunsæisstefnunnar. Gestur var
einn af frumkvöðlum hennar hér á
landi en Davíð var uppi á tímum
nýrómantíkur og lést um það leyti er
félagslegt raunsæi var að ryðja sér til
rúms.
Þegar sögunni af Birni formanni
sleppir má segja að Davíð nái að
skapa sinn eigin stíl. Hann var einn
af þeim sem fluttu smásöguna inn í
nútímann og er nærtækast að benda
á þau áhrif sem hann varð fyrir í
Frakklandi sem skýringu á því af
hverju hann skrifaði öðruvísi smá-
sögur en aðrir íslenskir höfundar.
Sögur hans fara nú að fjalla æ meira
um dauðann, sem er ekki nýtt við-
fangsefni, en það sem skiptir máli er
hvernig hann skrifar um dauðann.
Áhrifaríkar sviðsetningar
Sögur Davíðs verða betri og betri.
Þetta eru fyrst og fremst sviðsetning-
ar, sjálf fléttan er aukaatriði og til-
finningin ræður mestu. Gott dærni
um þetta er sagan Skóarinn litli frá
Villefranche-sur-Mer, úr fyrri bók-
inni, sem er með betri sögum
Davíðs. Söguhetjan nær að vekja
ntjög sterkar tilfinningar án þess að
segja eitt einasta orð. Skóarinn ligg-
ur dauðveikur á spítala og er svið-
setning höfundar sérlega áhrifarík.
Hann notar sögnina „bíða“ til að
magna áhrifin. Hinir sjúklingarnir
bíða eftir því að Skóarinn gefi upp
öndina, sérstaklcga sótarinn sem
hafði til þessa alitaf getað spáð nokk-
uð nákvæmlega fyrir um hvenær aðr-
ir dauðvona sjúklingar önduðust.
Skóarinn átti appelsínur og eftir
þeim biðu hinir sjúklingarnir. En
suður við Miðjarðarhaf bíða kona
skóarans og dóttir eftir að hann komi
heim.
„Þannig kvaddi hann heiminn, skó-
arínn litli frá ViUefranche-sur-Mer.
Enginn gekk á eftir vagninum, ekk-
ert blóm lá á kistunni... ekkert...
ekkert.
En þarna suður frá, suður við
Miðjarðarhaf, þar sem villtar rósir
vaxa hjá skítugum verkstæðisglugga,
stendur föl, óliðlega vaxin stúlka.
Hún horfir án afláts eftir veginum,
sem liggur til járnbrautarstöðvarinn-
ar. Út um opnar dyrnar heyrast ham-
arshögg. Hún situr þar inni, kona
brjóstveika mannsins, og lemur til
leðrið, sem á að vera í skó handa
gæfusömum og gæfusnauðum mönn-
um.
Þær bíða mæðgurnar... þær
bíða...“
Þannig eru smásögur Davíðs Þor-
valdssonar, þær snúast um dauðann,
biðina eftir dauðanum, raunir lítil-
magnans. Þetta eru hljóðar lýsingar á
sálarlífi þjáðra manna sem sjaldnast
er getið, skrifaðar af tilfinningu þess
sem skildi kjör þeirra. Sögurnar lýsa
ekki stórbrotnum atburðum og stíll-
inn er yfirlætislaus og án orðskrúðs.
Það er innra líf sagnanna sem höf-
undur leggur rækt við.
Ekkert, ekkert
í stuttri blaðagrein er ekki hægt að
gera verkum Davíðs viðhlítandi skil
en ég vil hvetja fólk til að kynna sér
sögur hans, hverfa um stund frá
skarkala ófriðar í heiminum og eiga
hljóða stund með sögupersónunum.
Seinna sagnasafn Davíðs, Kalvið-
ir, geymir sjö smásögur og gerast þær
flestar í Frakklandi. En persónurnar
eru ekki bundnar við land, lítilmagn-
ar Davíðs gætu allt eins átt heima við
Strandgötuna. Tilfinningarnar eru
hafnar yfir stað og stund.
Við getum í lokin litið á söguna
Ekkert. Þetta er hnitmiðuð smásaga,
sviðsetning þrungin tilfinningu,
sterkri tilfinningu fyrir því þegar allt
er búið. Eitthvað vaknar og sofnar á
ný. Niöurstaðan er ekkert, ekkert í
umhverfinu, ekkert í lífi manns,
ekkert.
„Þau voru alvarleg og þjáningin
skein úr órólegum augum þeirra. Þau
fundu að á milli þeirra var að mynd-
ast gjá, hyldýpisgjá, sem aldrei yrði
brúuð. Þau voru komin langt í burtu
hvort frá öðru og þó straukst ermi
hans við mjúkan, rauðleitan hand-
legg hennar. Þau voru aftur orðin að
tveim framandi manneskjum. Sálir
þeirra höfðu aftur lokast hvor fyrír
annari. Þau voru vandræðaleg og
þögul. “
Þannig lýsir Davíð því þegar allt er
búið milli elskendanna, án nokkurrar
sjáanlegrar ástæðu. Og þegar ung
stúlka spyr hvort eitthvað sé að, þá
eru viðbrögðin þessi:
„Þau reyndu að brosa, klöppuðu á
koll hennar og svöruðu: „Ekkert,
ekkert“. Vindblærinn tók þetta orð,
þrungið myrkrí og þunglyndi og bar
það út á milli fagurgrænna blaða
trjánna, - ekkert, ekkert, og gular
rósir skulfu eins og lifandi sálir. “
Við þessari tilfinningu treysti ég
mér ekki að hrófla og segi því Sögu-
broti lokið að sinni.
Stefán Sæmundsson.
m eJ
ir
jmr
Missið ekki af fundi ráðherra
Alþýðubandalagsins, Ólafs Ragnars,
Steingríms og Svavars
í Alþýðuhúsinu, þriðjudaginn
29. janúar kl. 20.30-22.30.
Fundarefni:
s
Arangur nkisstjórnarinnar\
verkefni þeirrar næ
Fundarstjóri: Sigrún Sveinbjömsdóttir
Umræðustjóri: Björn Valur Gíslason
Umræður - fyrírspurnir - svör
Alþýðubandalagið