Þjóðviljinn - 03.01.1984, Blaðsíða 9

Þjóðviljinn - 03.01.1984, Blaðsíða 9
Þriðjudagur 3. janúar 1984 ÞJOÐVILJINN — SÍÐA 9 Þj óð má aldrei gleyma fortíð sinni Góðir íslendingar. Ég óska öllum landsmönnum gleðilegs árs. fijóð má aldrei gleyma fortíð sinni. Með hækkandi sól á því ári sem nú fer í hönd horfum við til þess að halda upp á merkilegt þjóðarafmæli. Um þetta leyti fyrir réttum fjörutíu árum, árið 1944, dró til mikilla tíðinda á fs- landi. Hafist var handa um undir- búning lýðveldistöku. Ríkis- stjórn íslands lagði fram á Al- þingi tillögu um sambandsslit við konungsríkið Danmörku og jafn- framt var lögð fram lýðveldis- stjórnarskrá þjóðar okkar. í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór um málið 20.-23. maí varð mesta kjörsókn sem um getur á íslandi. 98,6% atkvæðabærra manna gengu að kjörborðinu til að láta í ljós vilja sinn og 99'/2% greiddu atkvæði með fullum skilnaði við Danmörku. Ákveðið var að lýðveldið skyldi stofnað á hinum fornhelga stað íslendinga á Þingvöllum 17. júní það ár, á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar, forseta Hins íslenska bók- menntafélags og frelsishetju ís- lendinga á 19. öld. Hann var ávallt nefndur Jón forseti. Mest- an hluta ævi sinnar bjó hann í Kaupmannahöfn, þar sem hann barðist fyrir sjálfstæði íslendinga og brýndi nokkuð sinnulausa landa sína til dáða í hvatninga- greinum sem hann sendi heim til Islands í tímariti sínu Nýjum Fé- lagsritum. Sumarið 1944 geisaði heimsstyrjöldin síðari umhverfis ísland á fimmta ári. Daglega bár- ust til landsins fregnir af vígamál- um. Mannslíf og verðmæti voru einskis virt í þeim hildarleik og bera enn margar þjóðir þess merki. Enda þótt Islendingar færu ekki varhluta af þeim ógnar- lega ófriði milli manna stefndu þeir fast að sínu marki. Haldin var mikil lýðveldishátíð á Þing- völlum hinn 17. júní 1944, núver- andi stjórnarskrá okkar sam- þykkt einróma og fyrsti forseti lýðveldisins kjörinn. Það var Sveinn Björnsson. Hann hafði verið ríkisstjóri á íslandi frá því í styrjaldarbyrjun, áður sendi- herra okkar í Kaupmannahöfn, en kallaður heim til ráðgjafar um utanríkismál er sambandið rofn- aði milli Danmerkur og íslands vegna heimsmálanna. - Með lýð- veldistökunni urðu mestu þátta- skil til framfara í þjóðarsögu ís- lendinga. Því eru þessir atburðir rifjaðir hér upp í smáatriðum að því hef- ur æ oftar brugðið fyrir undanfar- ið að þeir séu að firnast í minni manna. En þeir mega aldrei gleymast og aldrei verða þeir full- þakkaðir. Hugarþel fslendinga og íslandsvina við lýðveldisstofn- un er varðveitt í ótal ræðurn sem fluttar voru. „Sumir dagar í ævi þjóðanna eru eins og tindar, sem gnæfa hátt og við himin, sveip- aðir ljóma hækkandi sólar. Dagurinn í dag er slíkur dagur í sögu hinnar íslensku þjóðar. Því er það mikil gæfa og óumræðilegt fagnaðarefni að mega lifan þenn- an dag, upprisudag hins íslenska lýðveldis", sagði einn ræðu- manna á Þingvöllum á ógleyman- legum degi 1944 - og annar: „Bjartasti dagur í sögu þjóðar vorrar í mörg hundruð ár er upp runninn. Fagnaðaralda fer um alla þjóðina frá innstu afdölum og fram á annes...“ Hjá hvorug- um þessa einörðu ættjarðarvina var það ofmælt. Um það ber vott einhuga vilji íslendinga til að ráða málum sínum sjálfir með eigin lýðveldi. Gæði lýðveldis okkar og sjálfstæðis eru svo augljós að á þau verður æ og aftur að minnast. Einnig tildraganda þess hvernig við öðlumst þau. Því engin þjóð má gleyma fortíð sinni. Af fortíðinni má dr'aga mikinn lærdóm til aukinnar visku og allar þjóðir eru hverju sinni niðurstaða þess sem á undan er gengið í sögu þeirra. Það er mikið ævintýri hvernig íslensk þjóð hefur vaxið og dafn- að á fjórum áratugum. Þegar lýð- veldið var stofnað voru íslend- ingar rétt 126 þúsund en eru nú rúmlega 238 þúsund. Þeim hefur fjölgað um 112 þúsund manns, sem ganga j afnt og þétt til liðs við að reka þjóðarbúið eftir því sem tíminn rennur sitt skeið. Og fjölg- ar enn til farsældar. Á fjörtíu árum höfurn við orðið vitni að vaxandi hagsæld og velmegun, stórir byggðakjarnar hafa risið um allt land, virkjanir og verk- smiðjur hafa verið reistar, húsa- kostur og tæknivæðing í sveitum er til þeirrar fyrirmyndar að at- hygli vekur. Við höfum eignast flota og fiskiver, iðnaður hefur blómgast. Síðast en ekki síst ber að minnast þess sem hefur áunnist við að græða sjálft landið. Aldrei megum við tapa sýn af því mikilvæga samstarfi þegnanna í vantrú á að hvergi sé neitt jákvætt í sjónmáli. Okkur ber alla tíð að nota hvert eitt aukahandarvik til að hlú að þessu gjöfulalandi. Allt sem gróðursett er og gert af bjartsýni og trú á landið kemur til góða þegar fram líða stundir. Öll þau ár sem upplýstur hugur og gjörv hönd hafa starfað saman í þessu landi höfum við lagst á eitt um að gera landið byggilegra og líf fólksins sem í því býr svo við- unanlegt sem raun ber vitni. Þrekvirki okkar hefur verið að gera hér allt úr garði sem hér byggju milljónir en ekki 240 þús- und manns er standa hér undir sjálfstæðum þjóðarbúskap. Við eigum allt íslendingar, sem vel- megunarþjóðir erlendis hafa skapað sér - ef ekki nokkuð meira. Fámenni okkar gerir það að við þekkjum svo til öll hvert til annars, vitum um ættir hvers an- ars og um kjör nágrannans. Kjör okkar allra sem heildar er okkur sameiginlegt hagsmunamál. Við búum við þau gæði umfram flest- ar þjóðir, að samstaða okkar er slík að á íslandi fær helst enginn að deyja einn, né heldur að fæð- ast til þjóðfélagsins aleinn og um- komulaus. Við erum stundum ósköp gleymin á þennan munað, sem þó gerir okkur að þeirri þjóð sem við erum á líðandi stundu. Til þessa nýja árs göngum við nú fram með eigur okkar og menningu í handraðanum. Með íslenska menningu okkar í vega- nesti ásamt nokkrum veraldar- auði, leggjum við á nýjan bratta. Við erum í þessu iandi sérhver einstaklingur arftaki alls þess sem unnið hefur verið til að skapa þjóðarheild: Við eldri höfum lagt þar hönd á plóg; þeir sem yngri eru grípi handtakið og rétti það æ nýjum þjóðfélagsþegnum. Þetta handtak er ávallt gefið með trú á framtíðina. Annars væri það ekki til. Mér hefur innanlands sem utan orðið tíðrætt um menningu fs- lendinga og reynt að vekja á henni athygli. En svo má lengi hrópa eitt orð að menn hætti að heyra, nema þeim sé því ljósara inntak þess. Menning er dregið af orðinu maður og táknar framlag mannsins til allra þátta samfé- lagsins, þróunar þess og upp- byggingar. Sérhver þjóð í heimi á sér sína menningu sem er að hluta til erfikenningar um hvernig menn fortíðar hafa lifað og unn- ið. Það er fyrir íslenska tungu, sameiningartákn þjóðar okkar að við þekkjum sögu forfeðra okkar og líf. Orðið er dýrmætt. Hvenær sem við látum í okkur heyra flytj- um við hugsun okkar út og rnetn- aður okkar er að hún sé sem ják- væðust. Mikil svartsýni slævir hugann, skapar vonleysi og brýt- ur niður baráttuþrek. Þótt við séum fámenn á mælikvarða stór- þjóða og land okkar lítið mælt við hin stóru meginlandssvæði getur jákvæð rödd okkar vegið þungt. Það er hlustað á okkur Islend- inga í heiminum ef við trúum á það sem við erum að segja. Orð okkar verða varðveitt. Til þess verndum við hið ritaða mál okkar og aðal þess bókina. „Róið íslendingar - nú er lag sagði Jón Sigurðsson, þegar hann sendi löndum sínum boð fyrir hundrað árum um að vel mætti í þeim heyrast í þeirra eigin sjálfstæðisbaráttu. Honum og þeim sem hann blés þá anda í brjóst eigum við að þakka hver við erum. Róið nú íslendingar til að halda giftu okkar í samstöðu þótt gefi á bátinn. Róið nú ennfremur í samfélagi þjóða til að mál okkar heyrist um víða veröld til austurs sem til vesturs. Boðskapur okkar til heimsins hlýtur að vera frið- Ávarp forseta Islands á nýársdag 1984 arboðskapur. Við íslendingar erum stolt þjóð. Við vitum að við ráðum okkur sjálf, og fáum ráðið við okkar mál, ef við fáum aðeins að ganga til leiks í samfélagi þjóð- anna með tryggingu fyrir heims- friði. Þá verður okkur lífið enn betra þegar fram líða stundir á eylandi okkar norður í höfum, sem okkur hefur tekist að virkja til að hýsa betra mannlíf en nokkru sinni áður hefur þekkst í þessu landi. Við þessi áramót beini ég enn máli mínu til unga fólksins. Ég bið það gæta vel lífs síns. I því felst von okkar og framtíð. Állt sem gert er í trássi við lög og regl- ur samfélagsins getur dregið á eftir langan slóða óhamingju. Gætið að heilsu og umfram allt varist vágesti sem spilla henni. Þjóð okkar má engan einstakling missa um aldur fram. Það á að rækta það sem búið er að sá til, leggja vinnu í að viðhalda því og ekki kasta neinu á glæ. Það er ósk mín okkur íslend- ingum til handa að við megum minnast 40 ára afmælis lýðveldis á íslandi í sátt við okkur sjálf og sem fyrirmynd friðarvilja öðrum þjóðunt til eftirbreytni. Þar ofan á skaðar ekki að bæta þeirri hlýju sem býr með okkur öllum, því þegar til kastanna kemur vill ekkert okkar viljandi illt öðrum gera. Gleðilegt nýtt ár. Orð og dæmi Finnbogi Guðmundsson: Orð og dæmi. Ræður og greinar 1965-1981. Reykjavík 1983. Landsbókavörður vor er afkast- ameiri fræðimaður en menn hafa, að ég hygg, almennt gert sér ljóst. Fyrir 16 árum gaf hann út greina- safnið „Að vestan og heiman" frá árinum 1951-1966 og hnykkir nú á með öðru þriðjungi lengra. „Nýtt safn“ er undirtitill þess, svo að enn megum við eiga von á að fá meira að heyra. Greinunum skiptir Finnbogi í fjóra flokka, eða eins og hann kemst að orði: „Fyrst fara greinar um forn efni eða efni, sem tengjast fornöldinni með nokkrum hætti. Þá eru greinar um fáein síðari tíma skáld. I þriðja lagi eru greinar, er lúta að bókum, bókasöfnum og bókamönnum, og í fjórða lagi greinar, sprottnar af þeim áhuga á ættum og ættfræði, sem nú fer mj ög í vöxt“. Eins og sj á má af þessu er hér um að ræða það sem við myndum nán- ast kalla almennum orðum íslensk fræði. Allar eru greinarnar ritaðar á sérlega vönduðu máli; stíllinn kannski eilítið upphafinn eins og lengi ætlar að loða við þá kynslóð sem sat við fótskör Nordals, Stein- gríms og Einar Ólafs. Svona útgáfu fylgir sú augljósa hætta að ýmislegt fljóti með sem tæpast sé ástæða til að endurprenta eða láta yfirleitt á þrykk út ganga. Og auðvitað má finna hér sitthvað heldur þunnt í roðinu. Það er þó trúa mín að í velflestum greinanna finni unnendur fræða þessara eitthvað nýtt, eitthvað athyglis- vert, eitthvað skemmtilegt. Og má þá segja að betur sé af stað farið en heima setið. Þess er enginn kostur í dagblaði að fjalla eins ýtarlega og vert væri um hverja grein og hverja ræðu, það verður látið nægja að grípa ögn niður í hvern meginflokk fyrir sig. Af fornu efni hafði ég einkum gaman af þættinum um Sighvat skáld Þórðarson. Þar segir m.a. frá því, og er úr Flateyjarbók komið, að Sighvátur tók sótt harða. „í þeirri sótt vitraðist hon- um hinn heilagi Ólafur konungur og bauð honum með sér að fara og kvað á dag, hvenær hann mundi í móti honum koma“. Eitthvað hefur kóngur samt slór- að, því að Sighvatur kvað vísu þá, er svo hefst: Seinn þykir mér sunnan sókndjarfur Haralds arfi. Allt fór þetta samt vel, Sighvatur andaðist og var grafinn „að Krist- skirkju" í Niðarósi. Björn M. Ól- sen hefur ritað um vísuna og vakið athygli á orðinu sunnan: „Skáldið væntir endurlausnara síns að sunn- an, því að hann hugsar sér auðvit- að, að himneska bústaða sé að leita einhvers staðar í suðri". Síðar í um- ræddri vísu kemur fyrir athyglis- vert orðalag, og gefum nú Finn- boga orðið: „Þegar Björn hins veg- ar skýrir málsháttinn hreimmikla: Langr er konungs morginn - á þá leið, að konungur hafi sofið út um morguninn og Sighvatur því mátt bíða hans svo lengi, kemur rektor- inn, sem rekast varð daglega í morgunsvæfum strákum, heldur illa upp um sig. Skáldið hafði að vísu í upphafi erindisins, þar sem hann leikur að andstæðunum seinn - sókndjarfr, gefið í skyn, að kon- ungur hefði oft verið fljótari í för- um, en Sighvatur sættir sig við að bíða, því að konungs morgunn er langur og þeir margir, er leita til hans í sorgum sínum, hvað sem Jón Thór Haraldsson skrifar um bækur annars kann að dvelja hinn sæla konung þessa morgunstund". Finnbogi Guðmundsson er mað- ur hugmyndaríkur, þykist kenna „andlegs skyldleiki" með „Gunn- arshólma" Jónasar og „Níundu hljómkviðu“ Schuberts. Ekki er maður honum ætíð sammála um smekksatriðin. Hann virðist stór- hrifinn af fjórum „Niðurlagsstök- um“ Matthíasar Jochumssonar við kvæði um Jón Sigurðsson 1911, ég set hér tvær þeirra: fiótt drjúpi faldur þinn, dýra Frón, og deyi Baldur, þá lifir Jón; þó glymji skvaldur og grennist von, þá gleymist aldrei Jón Sigurðsson. Hann fæðist aftur og fer á þing: þá fyilist krafti hans raustin slyng, þá vaknar blóðið í veikum lýð, þá veður þjóðin í heilagt stríð. Þetta er annars úr grein sem nefnist „Sex kvæði um Jón Sigurðs- son“. Þar varð mér eftirminni- legast kvæði sem hafði gjörsamlega farið fram hjá mér eftir Tómas Guðmundsson, „Þjóðhátíð" nefn- ist það. Kvæðið birtist í „Helga- felli" árið 1943, og það hefur ber- sýnilega verið kominn einhver falskur tónn í 17. júní strax þá. Þetta var á þeim tíma sem Tómas gerði stuttan stans á „blóðvelli lífs- ins“ („Og vei þeim, sem ei virðir skáldskap þann,/sem veruleikinn yrkir kringum hann“,). Það er víst leitun á öllu naprara háði en þessu erindi, svo að eitt sé tekið: Og víst er gott að geta gengið að jafn góðum manni á svona vísum stað, sem auk þess getur enga björg sér veitt, þótt allt hans líf sé rangfœrt sitt á hvað. fiví nú er öllum antil um forsetann og allir landsins flokkar slást um hann, og þeir, sem aldrei tóku tryggð við neitt, þeir telja sér hann utanflokkamann. Ég get verið stuttorður um þriða og fjórða efnisflokk Finnboga. Er- indi hans um bókasafnsmál eru öðrum þræði hrein glæpasaga, svo yfirgengilegt hefur sinnuleysið og vanrækslan verið á stundnum og er enn, það má „Þjóðarbókhlaðan" sanna. Enn eru í fullu gildi ummæli Hallgríms Melsteð að „vér íslend- ingar erum fátæk þjóð og höfum ekki efni á að byggja of smátt og neyðast svo til að nokkrum ára- tugum liðnum að leggja fyrir róða, það, sem þá var ætlað að endast um langan aldur...“ í þessum greinaflokki er einnig að finna stórfróðlega frásögn af bréfaskriftum þeirra Sigurðar Nor- dals og Halldórs Hermannssonar í íþöku vestra. Strax á millistríðsár- unum ofanverðum hefur Halldór áhyggjur af því að nafni hans Lax- ness hafi ekki sem holust áhrifin: „Ég er hræddur um, að Laxness geti orðið hættulegur fyrir marga „would-be writers". Hann er gáf- aður og getur öslað forina „with relative impunity", en svo þegar smælingjarnir fara að apa hann, þá verður það bara saurinn einn“. - Fást mega dæmin upp á það, segj- um við með séra Hallgrími. Og svo er landsbókavörður kominn þangað sent við lendum víst allir, sama hvað maður streitist á móti, nefnilega út í ættfræði. Að- eins einn þanki í lokin, kannski argasta villutrú: Getum við talað um einhverja „Reykjahlíðarætt" öllu lengur þegar niðjar séra Jóns („æðin bezt frá séra Jóni“) eru orð- nir „einhvers staðar á fimmta þús- undinu“ eða þá „Víkingslækja- rætt“ þegar haldið er upp á þriggja alda afmæli ættföðurins 1979? Jón Thor Haraldsson

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.