Þjóðviljinn - 13.09.1987, Blaðsíða 23
MINNING
Páll Hafstað
Fœddur 8.12. 1917, dáinn 5.9. 1987
Páll var kvikur á fæti, grannur
og bar sig vel. Hárið liðað og
gránaði snemma, þykkar brúnir
og næm augu. Fallegar hendur.
Páll var gleðimaður, gaf
augnablikinu líf og mótaði veru-
leikann í sögur. Þegar sólin skein
gekk hann í garðinn og hélt veislu
með þó ekki væri nema einum
gesti. Þegar dimmdi um vetur
færðist hann í ljóðaham og fór þá
með verk skálda sem ortu um ást-
ir og tilfinningar, einsemd og
sársauka.
Það var alltaf gaman að hitta
Pál. í fjölmenni gat hann sungið,
einn eða með öðrum, í smærri
hóp sagði hann frá, kannski frá
einkennilegum mönnum úr
Skagafirði eða frá konunni sem
hélt hún væri nútímaleg og vildi
banna honum að fá sér í pípu.
Hann lýsti ferðum sínum þannig
að þær festust manni skýrar í
minni en eigin minningar. Hvort
sem það var á sólbakaðri stétt á
Ítalíu að lepja camparisoda, á
rölti um rústir Pompej eða sigl-
andi eftir Rauðánni í Manitoba,
allt varð ævintýri í frásögninni.
Eins var um löngu liðna atburði
sem Páll sagði þó ekki oft frá.
Á stríðsárunum var Páll við
nám í Noregi og starfaði þá með
andspyrnuhreyfingunni. Þar
hjálpaði hann m.a. fólki að flýja
yfir til Svíþjóðar, fór með því
gangandi á skíðum þangað til
skipt var um leiðsögn á ónefnd-
um bóndabæ í skjóli nætur án
þess að segja orð til að allir vissu
sem minnst. Þangað til einn dag-
inn að Páll svaf yfir sig og fór of
seint í skólann. Það varð honum
til happs því að fyrr um morgun-
inn höfðu Þjóðverjar látið til
skarar skríða og handtekið þá
sem tengdust andspyrnuhreyf-
ingunni í skólanum. Páll frétti
þetta hjá samstúdentum sínum
sem hann mætti á leiðinni, fór
strax í felur og flúði skömmu síð-
ar til Svíþjóðar.
Eftir stríð kom hann heim og
tengdist þá nokkuð vaxtarbroddi
íslenskra bókmennta, varð vinur
Steins Steinars og bauð honum
með sér í mælingaleiðangur um
Vestfirði. Sú ferð varð uppistaða
í sagnabálki eina jólanótt. Ég sat
eftir þegar aðrir fóru úr jólaboði
sem þau Páll og Ragnheiður
héldu árlega fyrir ættingja og vini
með söng, dansi og hljóðfæra-
slætti. f stað þess að fara heim og
fletta jólabókum naut ég sagna-
gáfu Páls fram eftir nóttu eða
þangað til frú Ragnheiður kom
inn og bauð manni sínum upp í
dans. Ég dáist að þeim samhljómi
sem þau hjón náðu alla tíð.
Ragnheiður, föðursystir mín,
og Páll bjuggu í næstu götu, „úti í
húsi“ sem kallað var, með þrem-
ur börnum sínum, Steinunni,
Baldri og Völu. Það var því ævin-
lega mikill samgangur á milli
heimilanna. Einn laugar-
dagsmorgun kemur Páll og sting-
ur brosandi upp á því að ég komi
með sér að þvo bílinn. Ég játa því
og við vinnum verkið sem er í
sjálfu sér fáfengileg athöfn. En
þegar við ökum burt af þvotta-
planinu stoppar Páll og sendir
mig aftur fyrir bílinn að gæta að
því hvort eitthvað sé laust því sér
hafi heyrst vera komið aukahljóð
sem ekki ætti að vera. Ég geri
þetta og finn ekkert athugavert
en þegar ég kem aftur er hann
búinn að opna hanskahólfið og
stiila þar upp tveimur glösum
með ísköldu hvítvíni sem hann
býður mér að dreypa á. Þannig
varð augnablikið eilíft.
Þegar leið að páskum kom Páll
ævinlega með afskornar trjá-
greinar úr garði sínum og færði
okkur til að setja í vasa. Þetta var
fynsti vorboðinn og lýsti hugul-
semi sem fáum er gefin. Síðast í
vetur snaraði hann sér inn á gólf
til mín með greinaknippi að láta
laufgast í stofunni. Páll ræktaði
garðinn sinn og notaði hann til að
gleðja sig og aðra.
Páll las mikið, sögur og 1 j óð, og
var smekkmaður á bókmenntir.
Hann hreifst af fegurð, rómantík
og einlægni en leiddist tilgerð og
hroðvirkni sem honum fannst oft
njóta óverðskuldaðrar virðingar.
í afstöðu hans kom fram
heilsteypt lífssýn mannvinar sem
leitar fram á við en veit þó að hver
stund er dýrmæt og má ekki fara í
súginn og verða ljótleikanum að
bráð.
Með Páli er genginn góður
drengur og óvenju minnisstæður
öllum þeim sem þekktu hann.
Það er mikil gæfa að hafa átt hann
að vini.
Gísli SigurSsson
Nokkur kveðjuorð
Páll Hafstað fæddist í Vík í
Skagafirði 8. desember 1917.
Foreldrar hans voru Árni Haf-
stað, bóndi þar, og kona hans,
Ingibjörg Sigurðardóttir Haf-
stað. Hann lauk stúdentsprófi í
Noregi 1940 og kandídatsprófi í
búnaðarfræðum frá Landbún-
aðarháskólanum að Ásí, Noregi,
1943. Hann kom heim 1945 og
lagði stund á ýmis störf uns hann
gerðist jarðræktarráðunautur hjá
Búnaðarfélagi íslands 1947. Því
starfi gegndi hann til 1949. í
þessu starfi ferðaðist hann mikið
um sveitir landsins. Á þeim ferð-
um mun hann hafa lagt grunninn
að þeirri miklu og ítarlegu þekk-
ingu á aðstæðum í sveitum um allt
land sem hann bjó yfir æ síðan og
vikið er að hér á eftir.
Við Páll Hafstað vorum sam-
starfsmenn hjá raforkumála-
stjóra og síðar Orkustofnun um
meira en þriggja áratuga skeið.
Vil ég því fara nokkrum orðum
um störf hans að íslenskum orku-
málum.
Páll réðst sem fulltrúi til raf-
orkumálastjóra árið 1949, og
hafði þegar unnið þar um fimm
ára skeið þegar ég kom til starfa
hjá því embætti árið 1954. Hann
var því þegar hinn starfsreyndi
maður er fundum okkar bar fyrst
saman. Meðal minna fyrstu verk-
efna hjá raforkumálastjóra var
að gera undir stjórn Páls áætlanir
um dreifiveitur fyrir rafmagn í
sveitum víðsvegar um land. Mér
er enn minnisstætt hversu vel Páll
þekkti til í sveitum um land allt.
Hann vissi upp á hár hvort jörð
var raunveruíega í ábúð eða ekki.
Á þeim árum var mikil ásókn í
það í sveitum að fá rafmagn, eins
og nærri má geta. Þá var það skil-
yrði fyrir að fá rafmagn að jörð
væri setin allt árið en ekki notuð
sem sumarbústaður í fáeinar vik-
ur að sumrinu. Fyrir kom að lax-
veiðimenn og hrossabændur í
Reykjavík, sem keypt höfðu
eyðijarðir, reyndu að fara í kring-
um þessi ákvæði. En þar var Páli
að mæta, og riðu fæstir sem þetta
reyndu feitum hesti frá skiptum
við hann.
Raforkuráði, sem stofnsett var
með Raforkulögum frá 1946, var
af Alþingi falið það hlutverk,
meðal annars, að gera tillögur frá
raforkuráðherra um ráðstöfun
þess fjár sem Alþingi veitti ár
hvert gegnum Raforkusjóð til
rafvæðingar í sveitum landsins.
Ráðið var stjórn Raforkusjóðs,
og vann því í nánu samstarfi við
raforkumálastjóra, sem var lög-
um samkvæmt framkvæmda-
stjóri Raforkusjóðs, og hélt jafn-
an fundi sína á skrifstofu hans.
Lagði hann og ráðinu til ritara.
Vegna starfa sinna að rafvæðingu
sveitanna kom það eðlilega í hlut
Páls að gegna ritarastarfinu. Tók
hann við því árið 1954.
Með orkulögum frá 1967 tók
Orkuráð við hlutverki Raforku-
ráðs og orkumálastjóri við hlut-
verki raforkumálastjóra. Jafn-
framt var starfssvið ráðsins víkk-
að þannig að það tók einnig til
jarðhita, auk raforku.
Orkuráð gerði einnig tillögur
til ráðherra um lánveitingar úr
Orkusjóði til bænda og annarra
sem reisa vildu einkarafstöðvar
þar sem ekki var von á rafmagni
frá samveitu í bráð, svo og til
leitar að jarðhita með borunum.
Fjölgaði umsóknum um slík lán
mjög í kjölfar olíuverðshækkan-
anna 1973-74. Einkarafstöðva-
lánin voru jafnan bundin því skil-
yrði að áætlanir um þessar stöðv-
ar væru reistar á raunhæfum for-
sendum, t.d. að nægjanlegt vatn
væri á öllum tímum árs í á þeirri
eða læk er virkja skyldi. Það kom
jafnan í hlut Páls að ganga úr
skugga um þetta. Hann aflaði
nauðsynlegra upplýsinga milli
funda Orkuráðs og lagði þær fyrir
ráðsmenn. Naut hann oft í þeim
efnum hjálpar starfsfélaga síns
hjá Orkustofnun, Sigurjóns
Rists, vatnamælingamanns. Jarð-
hitaleitarlánin kröfðust líka
margvíslegra upplýsinga sem
kom í hlut Páls að afla. Aldrei
brást að hann legði nauðsynlegar
upplýsingar fyrir fundi ráðsins til
að það gæti tekið sínar ákvarðan-
ir.
Það var orkumálastjóra og
Orkuráðsmönnum ómetanlegur
styrkur í störfum þeirra að hafa
mann eins og Pál í ritarastarfinu.
Þeir fundu fljótt að upplýsingum
hans mátti treysta.
Auk þeirra starfa sem þegar
hafa verið nefnd fyrir Orkuráð og
að rafvæðingu sveitanna gegndi
Páll Hafstað ýmsum öðrum störf-
um fyrir raforkumálastjóra og
síðar Orkustofnun. Meðal annars
annaðist hann um margra ára
skeið starfsmannamál stofnunar-
innar. Síðustu fjögur ár sín í starfi
hjá Orkustofnun var Páll skrif-
stofustjóri hennar. Þá hafði hún
vaxið svo mjög að sérstakur
starfsmannastjóri hafði létt af
honum starfsmannaumsýslun-
inni.
Páll lét af störfum að eigin ósk
síðla árs 1985. Að beiðni minni,
og eftir eindregnum óskum
Orkuráðsmanna, gegndi hann þó
áfram störfum sem ritari Orkur-
áðs allt þar til á þessu sumri að
hann varð að hætta vegna
veikinda. Gegndi hann þannig
ritarastarfinu á fjórða tug ára.
Samviskusemi og fáguð snyrti-
mennska auðkenndu öll störf
Páls Hafstað. Hjá honum var
ávallt allt í röð og reglu og hver
hlutur á sínum stað. Hann var
þessvegna alltaf fljótur að finna
gögn sem hann leitaði að hverju
sinni. Kom það sér oft vel á fund-
um Orkuráðs.
Páll átti því láni að fagna að
starfsvettvangur hans var óað-
skiljanlegur hluti af mesta fram-
faramáli þessarar aldar á íslandi:
Rafvæðingu landsins, einkum
hinna dreifðu byggða þess. Til-
koma rafmagnsins hefur valdið
byltingu í lífskjörum og lífshátt-
um íslendinga, svo róttækri og al-
tækri byltingu að ungt fólk í dag á
í hinum mestu erfiðleikum með
að gera sér í hugarlund hvernig
lífið var hér á landi fyrir þá bylt-
ingu. Breytingarnar eru líkastar
stórkostlegu ævintýri.
Páll Hafstað kvæntist eftirlif-
andi konu sinni, Ragnheiði Bald-
ursdóttur, kennara, 26. okt.
1946. Eignuðust þau þrjú
mannvænleg börn, Steinunni,
Baldur og Valgerði Ingibjörgu.
Páll andaðist hinn 5. septemb-
er síðastliðinn.
Nú að leiðarlokum er mér
þakklæti í hug fyrir langt og
ánægjulegt samstarf við Pál Haf-
stað, sem aldrei barskugga á. Við
starfsfólk Orkustofnunar og nú-
verandi og fyrrverandi Orkuráðs-
menn, vottum eiginkonu hans,
börnum þeirra, barnabörnum og
fjölskyldu allri dýpstu samúð
okkar.
Blessuð sé minning Páls Haf-
stað.
Jakob Björnsson
Vinur minn, Páll Hafstað, lést
á Landakotsspítala laugardaginn
5. sept. sl. Ótímabært andlát hans
kom ekki á óvart.
Ég kynntist Páli fyrst sumarið
1958 þegar ég ungur stúdent vann
eitt sumar á Raforkumálaskrif-
stofunni þáverandi. Páll var þar
fulltrúi raforkumálastjóra og
hafði m.a. með höndum rafvæð-
ingu sveitanna. Mér þótti strax
mikið til þessa hressilega, spaug-
sama og kvika en þó alvörugefna
manns koma.
Leiðir okkar lágu aftur saman
á árunum 1966-1969 þegar ég
starfaði hjá Rafmagnsveitum
ríkisins en hann í sama húsi hjá
Orkustofnun og störf þeirra
beggja tengdust rafvæðingunni,
hvort með sínum hætti.
í því samstarfi þróaðist vinátta,
sem síðan hélst, þótt starfsleiðir
skildu. Ég minnist margra sam-
verustunda með Páli og Guð-
mundi heitnum Hannessyni við
störf að línuframkvæmdum og ég
minnist góðra stunda í öræfaferð-
um með þeim félögum og nafna
hans Hallgrímssyni, sýslumanni á
Selfossi.
Fyrst og fremst minnist ég þá
að leiðarlokum mannkosta Páls.
Páll var þannig maður að eftir
honum var tekið. Hann var
meðalmaður á hæð og
grannvaxinn, beinn í baki og bar
sig vel. Hann var skarpleitur og
brúnamikill og andlitsfallið stór-
gert nokkuð og þekktust þeir
bræður hver af öðrum.
Páll var einarður maður og
hafði ákveðnar skoðanir og þorði
að standa við skoðanir sínar.
Hann var ekki ætíð sammála síð-
asta ræðumanni og ekki allra, en
traustur vinur vina sinna.
Ég hafði lengi ekki séð Pál þeg-
ar ég heimsótti hann fyrir fáum
vikum. Það var sunnudagsmorg-
unn eins og hann getur fegurstur
orðið íSnekkjuvogi. Páll hafði þá
enn fótavist, en var brugðið.
Við sátum úti í garði og Ragn-
heiður færði okkur Egils öl. Páll
sagði mér hispurslaust og án
allrar viðkvæmni af sjúkleika sín-
um og síðan fórum við og heim-
sóttum nágrannann. Á leiðinni
sýndi hann mér reyniviðartréð,
sem vaxið hefur í víðirunnanum
miðjum við innganginn. Eftir að
hafa setið þar drykklanga stund
gengum við aftur heim til Páls og
þar kvöddumst við.
„Ég hef ekki kvalir og ég sef á
nóttum. Ég er þakklátur fyrir að
geta enn verið hér heima hjá
þessum dásamlegu manneskjum
sem styðja mig og styrkja á allan
hátt og kvarta ekki. Segðu það
vinum mínum að ég kvfði ekki
morgundeginum. “
Þetta voru síðustu orðin sem
Páll talaði til mín.
Ragnheiði, konu Páls, og
börnum þeirra hjóna, Steinunni,
Baldri og Völu, sem kom heim
erlendis frá til að geta verið sem
lengst hjá föður sínum, votta ég
samúð mína.
Sunnudagur 13. september 1987 ÞJÖÐVILJINN — SÍÐA 23
Tryggvi Sigurbjarnarson
TlLVIÐSKIPrAVINA
Vinsamlega athugið
að frá og með 15. september eru aðalskrifstofur
okkar að Ármúla 3 opnar á virkum dögum frá kl. 9-17.
SAMVINNU
TRYGGINGAR
ARMULA3