Þjóðviljinn - 23.09.1987, Side 7
Umsjón:
Elísabet Kristín
Jökulsdóttir
Þjóðleikhúsið sýnir
RÓMÚLUS MIKLA
eftir Friedrich Durrenmatt
Leikstjóri: Gísli Halldórsson
Leikmynd: Gunnar Bjarnason
Þýðing: Bjarni Benediktsson
frá Hofteigi
Diirrenmatt var einn þeirra
leikskálda sem mestan svip settu
á leiklistina á sjöunda áratugn-
um. Sýningar LR á Eðlisfræðing-
unum (1963) og Sú gamlakemur í
heimsókn (1965) eru með eftir-
minnilegustu sýningum þeirra
tíma, enda eru þar á ferðinni verk
sem sameina skarpa siðferðilega
greiningu, snjalla persónu-
sköpun og vel gerðar fléttur.
Þetta eru verk sem eru líkleg til
að eiga framhaldslíf fyrir hönd-
um, einkum Sú gamla. Önnur
verk Dúrrenmatts fyrir svið eru
hins vegar tæplega líkleg til lang-
lífis. Það verður að segjast um
Rómúlus mikla að þetta verk er
of gallað til þess að það hafi stað-
ist tímans tönn. Það er barn síns
tíma, ber þess skýr merki að vera
skrifað af manni sem hafði rétt
nýlega horft á hrunadans
heimsveldanna frá sjónarhóli sín-
Arnar Jónsson og Rúrik Haraldsson
um í hlutleysi svissneskra fjalla.
Rómúlus mikli var áreiðanlega
ágætt verk á sínum tíma (árið
1949) þegar ferskleiki þess og
tímabært efni vann upp bygging-
argalla þess. En þetta á ekki við
lengur.
Rómúlus er síðasti keisari hins
mikla heimsveldis sem er að
hruni komið og bíður nú einungis
komu hinna. Keisarinn hefur
reyndar aldrei gert minnstu til-
raun til að stjórna þessu hrynj-
andi ríki heldur einbeitt sér að
hænsnarækt og þeirri list að haf-
ast ekki að. Hann neitar staðfast-
lega að reyna að bjarga ríkinu
með því að selja dóttur sína
buxnaframleiðanda til að kaupa
Rórn frið fyrir germönum. Við-
horf hans er að Róm hafi engan
rétt til að verja sig falli og allra síst
vill hann stuðla að frekari blóðs-
úthellingum. Það er margt hnytti-
legt og spaklegt í þessum texta og
fyrsti þátturinn er prýðilega
saminn, myndin af hinum
keisaralega hænsnaræktarmanni
við morgunverðarborðið er
bráðsnjöll. En þar með er raunar
nánast allt efni leiksins komið
fram. Að undanskildum ágætum
samræðum Rómúlusar og Ódó-
vakars í lokin gerast lítil tíðindi á
sviðinu. Persónurnar eru líflitlar,
það skortir dramatíska spennu og
framvindu mála.
Leikstjórinn Gísli Halldórsson
virðist ekki hafa fundið þau ráð
sem dygðu til að breiða yfir þessa
galla, sem vissulega mætti að ein-
hverju leyti gera með auknum
hraða, fjölbreytni í leik, uppá-
finningasemi í skoplegum tiltækj-
um o.s.frv. En þvert á móti er
sýningin þunglamaleg og alltof
löng (þetta er ekki þriggja tíma
leikrit) og leikurinn einkennist
alltof víða af eintóna hávaða-
semi. Hér bætir ekki úr skák að
leikmynd Gunnars Bjarnasonar
er klunnaleg og stórgerð og
óþægileg í skiptingum. Ekki
heldur að notast er við nær þrjá-
tíu ára gamla þýðingu sem var
vandað verk á sínum tíma en er
nú stirðbusaleg, fornleg og bók-
málsleg með afbrigðum. Allt
eykur þetta á þyngsli sýningar-
innar.
Það sem stendur upp úr er
ágætur leikur Rúriks Haralds-
sonar í hlutverki hænsnakeisar-
ans. Rúrik gæðir persónuna
þeirri rósemi og góðlegri kímni
sem við á og hefði svo sannarlega
átt skilið betri umgerð um leik
sinn. Hann fær þó verðugan mót-
leik þegar Arnar Jónsson birtist í
hlutverki Ódóvakars. Þá er allt í
einu farið að leika á sviðinu og
drunganum léttir að bragði.
Flestum annarra leikara í þessari
sýningu, og þeir eru margir, tekst
hins vegar að sýna flestar verstu
hliðar íslenskrar leiklistar, þeir
eru uppspenntir og bísperrtir og
standa á öndinni af æsingu og
æpa. Undantekningar frá þessu
voru einna helst Árni Tryggvason
og Baldvin Halldórsson sem voru
notalegir í hlutverkum herbergis-
þjónanna.
Sverrir Hólmarsson
Miðvikudagur 23. september 1987 ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 7