Þjóðviljinn - 31.01.1988, Blaðsíða 2

Þjóðviljinn - 31.01.1988, Blaðsíða 2
# u Dándimaður vikunnar, SKAÐI SKRIFAR Dálkahöfundurinn Ég, Skaði, hef margoft lýst því fyrir ykkur, lesendur góðir, að ég er maður vanafastur og læt skoðanir mínar ekki svo auðveldlega af hendi. Þannig getið þið farið nærri um það, hvílíkur háski mér er búinn við að skrifa í þetta volaða vinstrablað; sem ég dróst á fyrir tilmæli kunningja míns sem vinnur þar og kemur öðru hvoru í heita pottinn. Ég þykist vitanlega ekki vera neinn stílsnillingur, a.m.k. ekki á borð við Þór Vilhjálmsson, þaðan af síður álít ég sjálfan mig frjóan og snjallan hugsuð einsog til að mynda Hannes Hólms- tein, flokksbróðir minn. Engu að síður hefi ég verið tiltölulega laus við efasemdir um ágæti eða ágæti ekki skrifa minna; enda er tilgangur þeirra fyrst og síð- ast að heiðra þann mann sem hefur skarað fram úr á einhverju sviði í vikunni sem leið. Ég geri mér grein fyrir því að stjórnmála- menn hafa oftast orðið fyrir valinu, kannski oftar en skyldi, en ég álít að föndur lista- manna, bras kaupsýslumanna, hjáverk kunningja minna og loftkastalar hugsjóna- manna komist ekki í neinn samjöfnuð við verk mikilla stjórnmálamanna. Stjórnmála- manna sem hafa örlög heillar þjóðar í hendi sér með ákvörðunum um matarskatt eða matarskatt ekki, bankaútsölu eða bankaút- sölu ekki, samskipti við útlendinga eða sam- skipti ekki. Þannig mæðir mest á okkar helstu mönnum, og ég hef stundum lýst áhyggjum mínum yfir ástandinu í mínum gamla, góða Sjálfstæðisflokki sem virðist ekki eiga foringja sem ná Ólafi og Bjarna nema rétt í öxl. Þessi viðleitni mín, að útnefna frekar stjórnmálamenn en menn almennt, hefur mælst misvel fyrir, og stundum hef ég tekið til þess bragðs að sækja kandidata í raðir al- þýðunnar, eða a.m.k. áhugamála hennar, eins og þegar skreiðin, sauðkindin og hund- urinn Davíðs urðu dándimenn. Og eftir allt sem á undan er gengið er mér talsverð ánægja og tilhlökkun að kynna dándimann þessarar viku. Það er maður sem leitaði á minn fund, gersamlega niðurbrotinn, beinlín- is orðinn að taugasjúklingi og flaki eftir sér- stæða lífsreynslu. Lesendur góðir; dándimaður vikunnar að þessu sinni er enginn annar en Dálkahöf- undurinn. „Hvílíkt líf,“ stundi hann vesældarlega og skotraði augunum flóttalega að dyrunum. „Þeir finna mig aldrei hér,“ sagði hann svo ögn rólegri. - Finna þig, spurði ég, Skaði, ertu eftirlýst- ur eða fógetinn á hælunum á þér? „Ó, bara að það væri fógetinn,“ sagði Dálkahöfundurinn, „bara að ég væri glæpa- maður! Þá yrði mér stungið í steininn og þar gæti ég slappað af - fullkomlega áhyggju- laus!“ - Hvað er að, kæri vinur, mér sýnist þú vera maður staddur á lífsins ystu nöf. Hverjir eru „þeir“ sem virðast vera að hrinda þér fram af? „Þeir eru af blaðinu!" hrópaði Dálkahöf- undurinn og kuldaskjálfti fór um hann. „Ég á að vera búinn að skila greininni minni. Blaðið bíður! Rítstjórinn er á eftir mér. Prentsmiðjan bíður, segir hann, allir bíða. Allir bíða eftir litlu, sniðugu greininni þinni!“ Dálkahöfundurinn þagnaði og starði tóm- um augum út í loftið. Hélt svo áfram: „Nú er ég búinn að skrifa í þetta blað, gott ef ekki heilan mannsaldur miðað við áhyggjurnar og streðið. Hver vika er vítahringur: Ég leita log- andi Ijósi að einhverju efni sem ég get gert bráðsmellin skil. Verið háðskur, sniðugur, gamansamur, gagnrýninn, kumpánlegur, eitraður, vinalegur, fyndinn og um leið gáfað- ur og sjarmerandi... Nú get ég þetta ekki lengur! Ég hef ekkert til að skrifa um. Og hef aldrei haft! Ég er ekki einu sinni skemmti- legur, veistu það? Konan mín segir að ég sé einhver leiðinlegasti maður sem hún hefur kynnst! Konan mín!“ - En hvernig ferðu eiginlega að þessu, spurði ég, Skaði, steinhissa, enda ekki laust við að Dálkahöfundinum hefði oft tekist mætavel upp. „Ég stel,“ játaði hann fullur blygðunar. „Ég er áskrifandi að blöðum frá Venesúela, Suður-Afríku, Belgíu, Finnlandi, Tævan, Búlgaríu... Ég stel öllu steini léttara úr þess- um blöðum sem ekki nokkur maður les ann- ar en ég. Allir bestu brandararnir mínir - veistu hvaðan þeir koma? Nei, auðvitað ekki: Þeir eru úr vikuriti frá Fiji-eyjum!“ $- Hvað er þá að, minn kæri, geturðu ekki haldið áfram að stela? Það hnussaði í Dálkahöfundinum: „Það er svo sem ekkert alltof auðvelt að heimfæra alþjóða brandara uppá íslendinga: Ég hef skrifað um kynsjúkdóma, ofdrykkju, brjóst, íslenskar skáldsögur, leigubíla, fótbolta, veðrið, garðinn minn, útvarpið ...allt! Ég er búinn að skrifa um allt! Ég er búinn, uppur- inn, undinn... Og nú eru þeir á blaðinu að leita að mér. Líf mitt er í rúst, Skaði rninn." - Heyrðu kunningi, sagði ég hugljómaður. Ég var nú sjálfur orðinn dálítið uggandi um hvað ég ætti að skrifa. - Gerum samning: Ég skrifa um þig - og þú skrifar um mig!

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.