Þjóðviljinn - 19.11.1988, Blaðsíða 6

Þjóðviljinn - 19.11.1988, Blaðsíða 6
þ J ÓÐ VILJIN N Malgagn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar Skuldadagar Háværar raddir hrópa að gengi íslensku krónunnar sé of hátt. Notað er kurteislegt orðfæri og talað um gengis- breytingar. Krafan um að fella gengið er borin fram af sívax- andi þunga. Og nú er ekki bara talað um að fella krónuna um fjögurtil fimm prósent, en á máli embættismanna og margra stjórnamálamanna er slík aðgerð kölluð gengisleiðrétting, heldur er opinskátt rætt um 20 til 30% gengisfellingu. Gengisfellingarstefnan er rökstudd með því að útflutn- ingsatvinnuvegirnir séu reknir með tapi. Tekjurnar séu ekki nægar því að ekki fáist nógu margar krónur fyrir framleiðslu- vörurnar. Innlend verðbólga hafi hækkað allan tilkostnað, og er þá einkum tínt til að launagreiðslur fyrirtækja séu of háar, en þó heyrist æ oftar kvartað um háan fjármagns- kostnað. Hér skal ekki gert lítið úr rekstrarvanda í útgerð og fisk- vinnslu. Á þeim vettvangi eru grafalvarleg tíðindi að gerast, tíðindi sem snerta ekki aðeins eigendur og forstjóra heldur þjóðina alla. Og sá vandi verður ekki leystur nema með einhvers konar samfélagslegu átaki. En á hitt ber að líta, að ráðamenn fyrirtækjanna hljóta að bera einhverja ábyrgð á því hvernig komið er. Þótt stjórn efnahagsmála hafi verið í molum í tíð síðustu ríkisstjórna, og einkum einkennst af oftrú á hömlulausan markaðsbúskap, geta forsvarsmenn fyrir- tækja ekki vikist undan allri ábyrgð á röngum og ótímabær- um fjárfestingum með því að tönnlast sífellt á aðhaldsleysi stjórnvalda í rekstri ríkissjóðs. Á undanförnum misserum hefur ríkt hér góðæri til sjávar og sveita. Afli hefur verið með eindæmum mikill og lengst af hefur fengist mjög hátt verð fyrir sjávarafurðir. Svo virðist sem stærsti hlutinn af forstjórum, stjórnarmönnum og eigendum íslenskra fyrirtækja hafi aldrei látið flökra að sér að þetta góðæri gæti einhvern tíma tekið enda. Hafi einhver draumamaður verið meðal þeirra, hefur sá Jósef ekki kallað hátt á torgum að komið gætu sjö magrar kýr sem ætu upp þær feitu og fallegu. Má þó vera að Sjálfstæðisflokkurinn hefði getað sveigt Þorstein Pálsson, og aðra ráðherra sína í fyrri ríkisstjórnum til að taka upp skynsamlega stefnu í efna- hagsmálum, ef innan hans hefði risið upp kröftugur kór, svokallaðra athafnamanna og minnt íhaldsmenn á fallvalt- leik tilverunnar. Staðreyndin er sú að stór hluti atvinnurekenda hefur verið á stórkostlegu fjárfestingafylliríi. Þrátt fyrir himinháa vexti hafa þeir í stríðum straumum leitað til banka og sjóða og beðið um lánsfé. Stundum hefur verið um að ræða kaup á nauðsynlegum tækjum eða fasteignum til að bæta rekstrar- afkomuna, en oft hafa þessar fjárfestingahugmyndir verið algjörlega ótímabærar og ekki aukið arðsemina til jafns við hækkandi fjármagnskostnað. Bankar og sjóðir hafa yfirleitt tekið flestum hugmyndum athafnamannanna vel. Þrátt fyrir hagdeildir og fjölmarga sérfræðinga virðist meginreglan hafa verið að veita lán ef viðkomandi fyrirtæki hefur getað lagt fram veð fyrir skuld- inni. Minna sýnist hafa verið hirt um hvort reksturinn skilaði arði og lítið hefur heyrst frá bankakerfinu um að hugsanlega gæti harðnað í ári. Þar stóðu menn á gati þegar í Ijós kom hjá Hafskip sáluga að breytt rekstrarskilyrði gátu leitt til þess að veðin rýrnuðu. Pilsfaldakapítalisminn byggist á því að atvinnurekendur hafa algjörlega frjálsar hendur meðan allt gengur vel. En þegar eitthvað bjátar á leita þeir ásjár Stórumömmu, ríkis- valdsins. Ef þeir fá þar ekki huggun strax, klaga þeir að mamma sé svo vond. Auðvitað verður þjóðin að borga þessa veislu. En greiði hún nú alla reikningana með því að taka á sig þær verð- hækkanir sem fylgja stórkostlegri gengisfellingu, þá heldur vitleysan áfram. Nú verður einfaldlega að velja hvaða atvinnurekstur er á vetur setjandi. íslenska þjóðin hefur ekki efni á að greiða niður taprekstur hjá öllum þeim athafna- mönnum sem sleppt hafa fram af sér beislinu í fjárfestinga- fylliríi liðinna ára. KLIPPT OG SKORIÐ Tíminn í ráðgjafarstarfi Þeir á Tímanum eru blaða- manna sístir til að gleyma þeirri kristilegu skyldu að bera um- hyggju fyrir velferð grannanna. Þess vegna birta þeir reglulega á sinni ritstjórnarsíðu umvandanir ýmiskonar og holl ráð til annarra dagblaða svo að þeim megi vel farnast í tilverunni. Til dæmis hefur Garri hvað eftir annað sárvorkennt þeim sem á Morgunblaðinu starfa þau ósköp hvað blaðið er stórt. Svo stórt að það er, samkvæmt líkind- areikningi, með öllu útilokað að lesendur geti lesið nema agnar- ögn af því. Morgunblaðsmenn hafa einhverra hluta vegna ekki kunnað að meta þessar athuga- semdir og svarað afundnir í þá veru, að þetta sé barasta öfund hjá því kotblaði, Tímanum. Þetta er dálítið út í hött allt saman. Vitanlega er það rétt að það er auðveldara bæði fyrir greinarhöfund, lesanda og auglýsingu að týnast í stóru blaði en litlu. Vitaskuld er það líka rétt að stærra er ekki endilega sama og betra. En það er jafnrétt að rúm stærð blaðs og mannfjöldi bjóða upp á marga möguleika í skrifum og úrvinnslu sem aðrir geta ekki leyft sér fyrir fátæktar sakir. Og svo framvegis. Ofstækið er vont og gott Tíminn gerir þó meira af því að leiðbeina Þjóðviljanum af sinni gæsku en Stóra bróður í Aðal- stræti. Og við Þjóðviljamenn erum náttúrlega allir af vilja gerðir til að taka við hollum ráðum. Versturfjandinn hve mis- vísandi þau eru. Tökum nýleg dæmi af Garra- skrifum um ritstjóramál á Þjóð- viljanum. Fyrst rýkur einhver Garrinn upp og harmar það að Mörður Arnason sé á útleið - allt í anda þeirrar góðu og gömlu formúlu að „góður rauðskinni er dauður rauðskinni". Um leið var það harmað að inn kæmi á blaðið „ofstækisfullur bókmenntafræð- ingur“, Silja Aðalsteinsdóttir, enda líklega ekki á bætandi það ofstæki sem á blaðinu er fyrir. Það var semsagt mælt af einurð og einlægni með kredduleysi og hófsemi á Þjóðviljanum. Svo líða fáir dagar og enn bregður Garri á leik. Hann telur sig nú hafa fengið það staðfest, að nýr ritstjóri Þjóðviljans, Silja Aðalsteinsdóttir, sé skelfilega einsýnn marxisti, en það sem áður var synd og skömm er nú orðið fagnaðarefni í blaðaheimi. Vegna hvers? Jú - vegna þess, eins og í Garrapistlum segir, að Þjóðviljinn „var miklu skemmti- legri hér áður meðan hann hafði enn hinn eina sanna kommún- isma að fylgja". Og nú vonar Garri af velvild sinni að Silja verði til þess í sínu ofstæki að gera Þjóðviljann aftur að „hressilega skrifuðu marxistablaði". Vér vitum ei hvers biðja ber, stendur þar. Sannur kommúnismi og Þjóðviljinn Nú er það ósköp ljúft að eiga góða granna og umhyggjusama. Og enn betra að vita að áhyggjur þeirra eru léttar sem fiður og óþarfar eins og ný kóktegund Það er nefnilega bara til eitt Iögmál í sögu Þjóðviljans. Það er þetta: hann var alltaf betri fyrir tíu árum. Magnús Kjartansson fékk að heyra þessa kenningu skömmu eftir að hann kom að blaðinu, hún heyrðist allan hans starfsferil og lifir góðu lífi enn í dag. Samkvæmt henni hefur blaðið verið að versna frá því það varð til fyrir röskum fimmtíu ár- um. Og lifir samt enn og veit eng- inn hvernig á því stendur. Hitt er svo rangt hjá Tímanum að Þjóðviljamenn hafi verið svo afskaplega klárir á því hver væri hinn sanni kommúnismi. Að vísu bar allmikið á slíkum hugmynd- um um sannleika sem höndlaður hafi verið í eitt skipti fyrir öll á fyrstu árum blaðsins - og þá voru öll blöð reyndar í sama pólitíska alvitringsskapinu, hvert fyrir sig. En sem betur fer komu Þjóðvilja- menn furðusnemma upp hjá sér og öðrum nokkurri tilvistar- spennu. Þeir voru kommar og um leið íslenskir þjóðernissinnar, þeir vildu breiða út menninguna meðal almennings og um leið voru þeir framúrstefnuvinir, þeir voru kjarabaráttumenn og um leið var þeim í nöp við „lífskjara- kapphlaupið" og margt fleira var þeim til skemmtilegra þver- stæðna lagt. Af þessum sökum varð íslensk róttækni mjög sér- stæð og það hefur verið drjúgur partur af lífmagni hennar að henni hefur lengi vel ekki verið stjórnað af þeim sem vissu gjörla hvar „hinn sanni kommúnismi“ var og með hverju hann skyldi étinn. Athvarf Tímans Því er náttúrlega ekki að neita að þverstæðurnar í róttækninni hafa gert bæði samherja og and- stæðinga dálítið ráðlausa í fram- an á stundum - því sú árátta er sterk í mennskri kind að einfalda hlutina sér til þæginda og hugsun- arleysis. Þess vegna vill Tíma- garri að Þjóðviljinn sé hið hreinræktaða marxistablað sem líkast til hefur aldrei verið til. Og það er þess vegna sem Tímamenn finna sér sjálfir jafnan það at- hvarf sem á má treysta í hverful- um heimi sem stundum sveigir Framsóknarflokk til hægri og stundum til vinstri og stundum inn í sína eigin miðju. En það er að elska og virða sinn arfakóng - sem allir vita hvað heitir. ÁB Þjóðviljinn Síöumúla 6 * 108 Reykjavík Sími 681333 Kvöldsími 681348 Útgefandi: Útgáfufélag Þjóðviljans. Ritstjórar.Árni Bergmann, MörðurÁrnason, ÓttarProppé. Fróttastjóri: LúðvíkGeirsson. Blaðamenn: Dagur Þorleifsson, Guðmundur Rúnar Heiðarsson, Heimir Már Pétursson, Hjörleifur Sveinbjörnsson, Kristófer Svavarsson, Magnús H. Gíslason, LiliaGunnarsdóttir, Ólafur Gíslason, Páll Hannesson, SigurðurÁ. Friðbjófsson (Umsjónarm. Nýs Helgarb.), Sævar Guðbjörnsson, Þorfinnur Ómarsson (íþr.). Handrita- og prófarkalestur: Elías Mar, Hildur Finnsdóttir. Ljosmyndarar: Jim Smart, ÞorfinnurÓmarsson. Utlitsteiknarar: Kristján Kristjánsson, KristbergurÓ. Pétursson Framkvæmdastjóri: Hallur Páll Jónsson. Skrifstofustjóri: Jóhanna Leópoldsdóttir. Skrifstofa: Guðrún Geirsdóttir, Kristín Pétursdóttir. Auglýsingastjóri: Olga Clausen. Auglýsingar: Guðmunda Kristinsdóttir, Unnur Ágústsdóttir, Sigurrós Kristinsdóttir. Símavarsla: Sigríður Kristjánsdóttir, ÞorgerðurSigurðardóttir. Bílstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir. Húsmóðir: Anna Benediktsdóttir Útbreiðslu- og afgreiðslustjóri: Björn Ingi Rafnsson. Afgreiðsla: Halla Pálsdóttir, Hrefna Magnúsdóttir. innheimtumaður: Katrín Bárðardóttir. Útkeyrsla, afgreiðsla, ritstjórn: Síðumúla 6, Reykjavík, símar: 681333 & 681663. Auglýsingar: Síðumúla 6, símar 681331 og 681310. Umbrot og setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf. Prentun: Blaðaprent hf. Verð í lausasölu: 70 kr. Nýtt helgarblað: 100 kr. Áskriftarverð ó mánuði: 800 kr. 6 SÍÐA — ÞJOÐVILJINN Laugardagur 19. nóvember 1988

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.