Þjóðviljinn - 08.12.1989, Blaðsíða 8

Þjóðviljinn - 08.12.1989, Blaðsíða 8
BÓKABLAÐ Söngvar Satans á íslensku Árni Óskarsson skrifar um Salman Rushdie Otrúleg ævintýri Gibreeis og Saiadins Vinsamleg tilmæli útgefanda Salmans Rushdie í Lonson: Birtið ekki mynd af honum! Skáldsagan The Satanic Verses eftir Salman Rushdie kom út í Bretlandi-- á miðju síðasta ári. Höfundurinn er af indversku bergi brotinn en hefur búið í Eng- landi frá 14 ára aldri og varð heimsfrægur fyrir skáldsögu sína Midnight Children. Sú bók fjallar um afdrif Indlands eftir að það fékk sjálfstæði og hlaut hin eftir- sóttu Booker-bókmenntaverð- laun árið 1981. Næsta skáldsaga Rusdie, Shame, hlaut einnig af- bragðs viðtökur, en í henni er brugðið upp heldur skoplegri mynd af islamska einræðisríkinu Pakistan. Sögusvið nýju skáld- sögunnar, Söngvar Satans, er hins vegar að mestu bundið við London nútímans enda þótt leikurinn berist víðar. f upphafi sögunnar er farþega- þotu rænt og springur hún í loft upp yfir Ermarsundi. Eins og fyrir kraftaverk bjargast tveir farþeganna lifandi, indverska kvikmyndastjarnan Gibreel Far- ishta og þúsund radda maðurinn Saladin Chamcha, sem líka er Indverji, en er ákafur aðdáandi alls þess sem enskt er. Þeim skolar á land á Englandsströndu, en brátt kemur í ljós að þeir eru ekki alveg samir og áður. Gibreel virðist hafa fengið geislabaug, en á Saladin vaxa horn og klaufir. Þetta er þó aðeins upphafið á ótrúlegum ævintýrum þeirra fé- laga. Bókinni var strax vel tekið. Til dæmis kallaði skáldkonan A. G. Mojtabal höfundinn „geysilegan sagnaþul" í ritdómi sínum 29. janúar 1989 í The New York Tim- es Book Review og hrósaði hon- um fyrir stórkostlegt hugmynda- flug og skopskyn. Hún sagði gamansöm ærslin í bókinni minna einna helst . á Draum á Jónsmessunótt eftir Shakespe- are, enda þótt verk Rushdie hefði alvarlegri undirtón og bæði sögu- lega og pólitíska dýpt. 12. febrúar á þessu ári gerðist svo sá atburður sem beindi at- hygli að bókinni um allan heim. Kómeini höfuðklerkur írans lýsti höfundinn, Salam Rushdie, réttdræpan og hét á sanntrúaða múslimi að taka þennan mann af lífi sem vogaði sér að hæðast að trú þeirra og spámanni. Menn fóru nú að leita í bókinni að þeim köfium sem hugsanlegir hefðu farið fyrir brjóstið á erki- klerkinum. Staðirnir, sem helst koma til greina eru reyndar hlutar af draumum annarrar að- alsöguhetjunnar, Gibreel Far- ishta. Sögusvið þeirra er forn eyðimerkurborg, Jahilía, sem byggð er á sandi. Þar segir frá spámanninum Magún sem boðar nýja eingyðistrú, en engill boð- unarinnar, Gibreel, fær hann til að gefa eftir og leyfa fólki að til- biðja þrjár gyðjur borgarinnar áfram. Þetta atvik byggir Rush- die á frásögn tveggja arabískra sagnaritara af ævi Múhammeðs (al-Waquidi, 747-823 e. Kr., og at-Tabari, 839-923 e. Kr.) sem síðari túlkendur Kóransins hafa hafnað. Samkvæmt frásögn þeirra á trúboð Múhammeðs að hafa mætt mikilli andstöðu hjá helstu kaupmönnum í Mekka. Hafi hann til málamiðlunar við- urkennt þrjár gyðjur borgarinnar sem eins konar milligöngumenn, eða engla, „dætur Allah“. Litið hefur verið á þetta sem afar diplómatíska eftirgjöf af hálfu Múhammeðs, þar eð kaupmenn í Mekka voru háðir tekjum af píla- grímum sem komu í musteri gyðj- anna. En Múhammeð dró brátt viðurkenningarkviðlingana til baka. Hélt hann því fram að Sat- an hefði lagt orð eftirgjafarinnar í munn sér, og er hér komin skýr- ingin á heiti bókar Rushdie, vers eða Söngvar Satans. Ekki hefur það heldur verið múhammeðstrúarmönnum að skapi að dregin er upp heldur háðuleg mynd af Magún spá- manni í bókinni. Honum er lýst sem valdasjúkum tækifærissinna sem svífst einskis til að ná fram markmiðum sínum. Það bætir heldur ekki úr skák að gleðikon- ur í hóruhúsi einu í Jahilíu taka sér nöfn eiginkvenna spámanns- ins og líkja eftir þeim með ýmsum hætti. Síðast en ekki síst er í bókinni lýst trúarleiðtoga í nútímanum sem býr í útlegð í London en bíð- ur heiftúðugur þeirrar stundar er hann geti snúið aftur til ættjarðar sinnar og komið skikk á þjóðina. Hafa menn í þeirri lýsingu þóst sjá Kómeini erkiklerk sjálfan. Salman Rushdie hefur farið huldu höfði síðan morðhótanirn- ar hófust. Breska leyniþjónustan hefur flutt hann milli íbúða á sín- um snærum sem njósnarar eru venjulega látnir búa í. Samskipti hans við umheiminn eru afar tak- mörkuð. Af öryggisástæðum hef- ur hann ekki mátt vera í sam- bandi við vini sína né láta sjá sig á neinum opinberum stöðum. Af og til hefur hann birt umsagnir um bækur í ensku helgarblöðun- um. Hann mun nú vera að skrifa sína fyrstu bamabók. í júlí sl. sendi Rushdie frá sér opinbera yfirlýsingu þar sem hann sagðist hafa fengið fjölmörg bréf frá múslimum sem lýstu ánægju með bók hans. Hann sagði að bréfin sýndu að ágrein- ingurinn milli hans og múslima- heimsins væri ekki ósættanlegur og að hann vonaðist til að gagn- kvæmur skilningur og sættir gætu tekist, enda er það aðallega frá einni grein múhammeðstrúar sem árásirnar á hann koma. Hóf- samari múhammeðstrúarmenn hafa bent á að fylgismenn Kóm- eini séu aðeins um 10% af mús- limum í heiminum. Eins og gefur að skilja hefur hótunum íransklerka verið mót- mælt víða um heim og hafa rithöf- undar verið þar fremstir í flokki. Skömmu eftir úrskurð Kómeini birti The New York Times Book Review fjölda yfirlýsinga þekktra rithöfunda um allan heim til stuðnings Rushdie. Þeirra á með- al var Mario Vargas Llosa frá Perú sem sagði: „Mér hefur orðið hugsað mikið til þín og þess sem komið hefur fyrir þig. Eg sýni bók þinni fulla samstöðu og vil standa með þér gegn þessari árás á rökhyggju, skynsemi og frelsi. Rithöfundar ættu að snúa bökum saman á þessu afdrifaríka augnabliki fyrir frjálsa sköpun. Við héldum að þetta stríð hefði unnist fyrir löngu, en svo var ekki. Áður var það kristni Rannsóknarréttur- inn, fasisminn, stalínisminn; nú er það bókstafstrú múslima, og sjálfsagt fylgir fleira í kjölfarið. Ofstækisöflin verða alltaf til. Frelsisandanum verður ævinlega ógnað af rökleysu og hleypi- dómum, sem virðast eiga djúpar rætur í hjarta mannsins.“ Múhammeðstrúarmenn hafa sums staðar brugðist harkalega við útkomu bókarinnar. Sjö manns létu lífið í mótmælaað- erðum á Indlandi og í Pakistan. Brussel voru tveir islamskir klerkar myrtir á dularfullan hátt, en þeir höfðu lýst efasemdum um dóm Kómeini yfir Rushdie. í jan- úar brenndu múslimir í Bradford í Englandi bókina. í Englandi búa þrjár milljónir múslima og þar hafa bókabúðir hvað eftir annað orðið fyrir sprengjutil- ræðum. Útgáfa Söngva Satans er nú orðin liður í baráttu fyrir prent- frelsi. Búið er að gefa bókina út í Frakklandi, á Ítalíu, Spáni, Nor- egi, Danmörku og í Þýskalandi, og hefur hún hvarvetna komist hátt á metsölulista viðkomandi landa. Þýska þýðingin er gefin út af tæplega 100 forlögum eftir að fyrirtækið sem var upphaflega með útgáfuréttinn komst að þeirri niðurstöðu að áhættan væri of mikil. Lít ekki á bemskuna sem glataða paradís Sjötta ljóðabók Gyrðis Elías- sonar heitir Tvö tungl og er ný- komin út. Strax með fyrstu ljóða- bókinni sinni, Svarthvítum axla- böndum, dró hann athygli les- enda að óvenjulegri málgáfu og næmri tilfinningu sinni fyrir innra hlutskipti mannsins. Myndvísi hans er mikil, en ljóðmyndirnar hafa oft verið flóknar og erfiðar, kunnuglegar kenndir hafa tekið á sig framandi form. í Tveim tungl- um hefur skipt um. Þar er sagt frá framandi heimi og kynjaverum á svo látlausan hátt að minnir á töfraraunsæi suður-amerískra sagnaþula eða íslenskra þjóð- sagna. „Og þó frekar mystískt raunsæi en magískt raunsæi," segir Gyrð- ir. „Ljóðin eru varla eins einföld og þau sýnast vera og ekki öll þar sem þau eru séð.“ Síðustu tvær bækur Gyrðis voru í óbundnu máli. Gangandi íkorni (1987) er stutt bernsku- saga sem sækir stíl og umhverfi til barnabóka og endurminninga- bóka en veltir við gamalkunnum veruleika þeirra uns upp kemur óhugnaðurog grimmd.Bréfbáta- rigningin sem kom út í fyrra hef- ur líka yfir sér endurminninga- blæ. Hafði vinnan við þær áhrif á ljóðin í nýju bókinni? „Já, prósaverkin losuðu um ýmislegt í huga mínum. Ég man að vísu ekki eftir neinum degi þegar ég hugsaði ekki aftur til bemskunnar, en eftir vinnuna við sögurnar fór ég að hugsa mark- visst aftur í tímann.“ - Fannst þér það gott? „Það var nú allur gangur á því! Ég er ekki orðinn nógu gamall til að líta á bernskuna sem tapaðan tíma, glataða paradís.“ - Hvernig var að byrja aftur að yrkja? „Mér fannst ég koma ferskur að því, eins og þegar maður var að byrja að skrifa. Ég þurfti á þessari hvfld að halda - ég gat ekki haldið áfram á sama róli og í Blindfugli/Svartflugi sem var síð- asta ljóðabókin mín. Ég var kom- inn í blindgötu og varð að komast út úr henni. Það var spurning um að halda lífi.“ Tvö tungl er gáskafyllsta bók Gyrðis, þrungin „ískyggilegu skopi" eins og segir í káputexta, ýkjur og hugarflug barnsins ráða ferðinni. „En galsinn er ekki einhlítur,“ segir Gyrðir, „og þetta eru ekki bernskuminningar mínar beinlín- is. Þó verð ég alltaf að ganga út frá sjálfum mér. Allt sem ég skrifa hefur sjálfsævisögulegar eigindir." Gyrðir býr á Akranesi en flutti nýlega þangað frá Borgarnesi. Borgarfjarðarbrúin og bflarnir semaka yfirhana fá á sigævintýra- ljóma í ljóðinu „Næturveiðar“ sem við tökum sem dæmi úr Tveim tunglum: Stundum koma hérna yfir löngu brúna dökkir bílar með föla vœngi í tunglskini og takast á loft við húsið mitt en silunganet strengd yfir nœturhimininn og þeir fljúga í glitrandi netin Gyrðir Elíasson hlaut í vor Stfl- verðlaun Þórbergs Þórðarsonar í fyrsta skipti sem þau voru veitt. Gyrðir Elíasson: Frekar mystískt en magískt.

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.