Dagblaðið Vísir - DV - 01.02.1997, Síða 15
ID'V LAUGARDAGUR 1. FEBRÚAR 1997
15
„Ég læt þig hafa kíló af þessum prýðiskútmögum. Þú þarft bara að passa upp á að sjóða þá við mjög vægan hita í um þab bil klukkustund. Eitt þarftu að muna og þaö er ab stinga reglu-
lega á þeim með prjónum til að hleypa út lofti,“ sagði fisksalinn viö hinn þjóöholla viðskiptavin. Myndin tengist ekki efni pistilsins. DV-mynd Hilmar Þór
Kútmagar og menningarbylting
„Þetta er þrælgóður matur sem
svíkur engan. Þá er þetta hluti af
séríslenskri matarmenningu sem
allir þjóðhollir menn ættu að
halda í heiðri og rækta. Skelltu
þér bara á þetta og það veldur þér
ekki vonbrigðum,“ sagði fisksal-
inn við viðskiptavininn og ein-
lægni og þjónustulund skein úr
svip hans.
Viðskiptavinurinn sló til og
keypti hið meinta góðgæti af fisk-
salanum góðviljaða. „Ég læt þig
hafa kíló af þessum prýðiskút-
mögum. Þú þarft bara að passa
upp á að sjóða þá við mjög vægan
hita í um það bil klukkustund.
Eitt þarftu að muna og það er aö
stinga reglulega á þeim með
prjónum til að hleypa út lofti,"
sagði hann við hinn þjóðholla við-
skiptavin sem nú hafði tekið
ákvörðun um að leggja sitt lóð á
vogarskálamar í því skyni að við-
halda matarmenningunni á Fróni.
Tákn um nýja tíma
Hann raulaði lagstúf þar sem
hann hélt heimleiðis með aðfóng-
in. Kútmagamir vom tákn um
nýja tíma í matargerð þar sem
arfi kynslóðanna yrði hampað og
matur sem haldið hafði lífi í kyn-
slóð fram af kynslóð yrði í önd-
vegi. Nú yrðu amerískar komteg-
undir og alls kyns tilbúnir réttir
ættaðir frá útlöndum að víkja fyr-
ir matvælum sem uppruna eiga
hérlendis. Þorskalifur, súrsað
kjötmeti, sviðasulta, lundabaggar,
kæst skata og hákarl yrðu hér eft-
ir framlag hans til að viðhalda ís-
lenskri menningu. Hann var létt-
ur í bragði og hlakkaði til aö láta
ljós sitt skína öðrum fjölskyldu-
meðlimum til ánægju og yndis-
auka. Eitt andartak hvarflaði að
honum að ekki yrðu allir jafn
hrifnir af hinu nýja íslenska eld-
húsi en þeirri hugsun var um-
svifalaust bægt frá. Hann rak
minni til þess að ákveðnir karla-
klúbbar höfðu um árahil gengist
upp í því að halda svokölluð kút-
magakvöld þar sem einmitt þess
háttar matargerð var haldið hátt á
lofti. Hann hlaut því að vera í góð-
um málum og vel gjaldgengur
meðal , samborgara af hinu
sterkará kyni.
Sprenging í eldhúsinu
Það heyrðist ómur svo sem af
sprengingu, líkt og af djúpsprengj-
um þeirrar gerðar sem ætlað er
að tortíma kafbátum, frá eldhús-
inu og skömmu siðar gaus upp
fnykur og breiddist um allt hús.
Reykskynjarinn fór í gang og það
var nánast neyðarástand rikjandi
á heimilinu og lyktin líktist engu
því sem fólk hafði áður þekkt.
Ungbarnið á heimilinu fór að
gráta og fólk þyrptist á vettvang
til að kanna hvað væri þama á
ferðinni. Aðkoman var ekki fogur;
pottur stóð á eldavélarhellunni og
kraumaði upp úr honum tor-
kennileg froða. Lok það sem til-
heyrði honum var á miðju gólfi.
Húsmóðirin spurði með nokkrum
þjósti hver hefði staðið fyrir þeim
æfingum í eldhúsinu sem nú
höfðu leitt til þess að allt var í
hers höndum. Hver um annan
þveran lýsti yfir sakleysi sínu og
það var bersýnilegt að enginn var
viljugur að játa að hafa staðið fyr-
ir þeirri efnafræðitilraun sem
sýndi sig í því að hafa endað í
sprengingu. Aðeins húsfaðirinn
lagði ekkert til málanna heldur
hófst þögull handa við að hjarga
því sem bjargað varð. Það var þá
þegar nokkuð ljóst aö uppsprettu
vandans var að finna hjá honum.
Eiginkonan leit á hann og spurði
allhöstug hvort hann hefði ætlað
að hafa bein afskipti af matseðli
kvöldins með eigin framlagi.
Skipulag dagsins hefði hljóðað
upp á pastarétt en ekki það sem
nú var á borðum og gólfi.
Hundur í felubúningi
Heimilishundurinn fagnaði aft-
ur á móti greinilega því ástandi
sem var í eldhúsinu. Sá var þekkt-
ur fyrir að hafa í gegnum tíðina
tekið sérstöku ástfóstri við fæðu-
tegundir sem flestar aðrar skepn-
ur þessa lands töldu vera óæti.
Hann hafði ósjaldan krækt sér í
úldinn fisk og uppskorið í fram-
Laugardagspistill
Reynir Traustason
fréttastjóri
haldinu slíka magakveisu að sér-
stakan viðbúnað þurfti til að
koma honum reglulega úr húsi
svo steinsmugan færi ekki í teppi
eða á parket heimilisins. Hann
hafði nokkrum misserum áður
komist í náin kynni við refafóður
þegar íjölskyldan lagði sem oftar
leið sína út á land. Eitthvert eðli,
sem enn hafði ekki tekist að
rækta úr honum, sagði að leiðin
til að ná fóðrinu án átaka við
frændur sína refina væri sú að
klæðast felubúningi. Þessi afstaða
hundsins var auðvitað skynsam-
leg og þekkt úr heimi húsbænda
hans. Það myndi seint hvarfla að
neinum að mæta í jogginggalla á
frímúrarafund og slíkt yrði vafa-
laust ekki liðið. Né heldur myndi
hvarfla að nokkrum manni að
mæta í kokkteilboð í lopapeysu og
á gúmmískóm. Hinn íslenski fjár-
hundur brá þvi á það ráð að velta
sér kirfilega upp úr haug af refa-
skít sem var í grenndinni. í fram-
haldinu læddi hann sér að fóður-
birgðum refanna og hóf neysluna
truflunarlaust og af kappi. Hrá-
efnið var fiskafgangur á óskil-
greindu rotnunarstigi sem að
sjálfsögðu var ekki talinn boðleg-
ur mönnum og því var rakkinn al-
sæll með veisluna. Öðru máli
gegndi með fjölskylduna sem ætl-
aði að tygja sig til heimferðar þeg-
ar hundur og felubúningur birt-
ust með tilheyrandi skítalykt.
Það gat enginn hugsað sér að
eiga samleið með hundinum þá
150 kílómetra sem heimleiðin
taldist vera. Það var því brugðið á
það ráð að aka fram og til baka
yfir vatnsfall í grenndinni og láta
hundinn elta. Eftir 20 slíkar ferðir
yfir ána var ákveðið að hleypa
hundinum inn í bílinn en eigi að
síður gaus upp kæfandi lykt sem
olli samferðamönnum hundsins
mikilli ógleði. Eftir að heim kom
tók síðan nokkra daga að ná lykt-
inni að fullu úr hundinum með
böðun nokkrum sinnum á dag.
Mengunarslys
Það mátti merkja á fasi hunds-
ins þar sem hann sat bísperrtur
innan um viðbjóðinn í eldhúsinu
að þama var enn á ferðinni góð-
gæti sem honum var að skapi.
Einhver skjótráður fjölskyldu-
meðlimur sá í hvað stefndi og
tókst að fjarlægja hundinn af vett-
vangi áður en honum tókst að
komast í felubúninginn og valda
þannig enn meira mengunarslysi
en orðið var.
Það tók nokkum tíma að koma
því skipulagi á heimilið að ásætt-
anlegt teldist vera. Tætlumar af
kútmögimum og leðjan innan úr
þeim lenti í daUi hundsins og það
varð hlutskipti hans að éta menn-
ingarbyltinguna. Húsbóndinn,
sem vissi upp á sig alla sök í mál-
inu, gekk óvenjuvasklega fram í
hreingerningum og bauðst meira
að segja til aö koma pastarétt-
inum á legg. Því var umsvifalaust
hafnað en þess krafist að teknar
yrðu upp umræður um viðburði
dagsins og atferli hunds og manns
í nútíð og framtíð. Húsmóðirin
sagðist hafa breiðan stuðning inn-
an heimilisins við að banna hin-
um þjóðholla einstaklingi frekari
sjálfstæð afskipti af matarinn-
kaupunum.
Lögbanni hótað
Honum varð ljóst þegar hann
leit á aðra fjölskyldumeðlimi að
engan stuðning var að hafa. Það
mátti ljóst vera að sá angi ís-
lenskrar matarmenningar sem
manni og hundi hugnaðist helst
gat ekki orðið hluti áður fyrirhug-
aðrar menningarbyltingar á heim-
ilinu. „Þó ég þurfi aö fá á þig lög-
bann sem gerir þér skylt að koma
ekki nær eldavélinni en þrjá
metra þá geri ég það sem gera
þarf. Það gildir það sama um þig
og hundinn; öll stílbrot frá hefð-
bundinni matargerð eða við öflun
matar verða hér eftir að vera und-
ir mengunarmörkum. Það verða
ekki nein frávik leyfð, hvort sem
um er að ræða eflingu íslenskrar
matarmenningar eða af einhverju
öðru tilefni," sagði húsmóðirin og
enginn hreyfði mótmælum.