Lesbók Morgunblaðsins - 20.03.1954, Qupperneq 14
194
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS
fram. Varð það og öllum happ,
ekkjan komst af með sinn myndar-
lega barnahóp hjá sér.
Vinnan var unglingunum oft
erfið á þeim dögum, en lífsbarátt-
an var hörð. Þá var farið að brydda
á því að menn langaði til að gera
jarðabætur, en þeir höfðu engin
verkfæri til þess nema torfljá og
skóflu. Það þótti mikil framför
þegar ristuspaðarnir komu. Annars
var félagslíf og framtak víst í góðu
meðallagi þarna í hreppnum og
höfðu bændur þar orð á sér að
verða á undan með ýmislegt og
fengu búfræðinga til að ieiðbeina
sér. Man ég eftir því að verið var
að hlaða flóðgarð yfir sund og var
Gísli Þorbjarnarson búfræðingur
þnr verkstjóri. Ég færði þeim mið-
aftanskaffi í legli, en það var lítil
tvíbvtna með blýstút á bumbunni
og tappagati á efra botni. Þeir voru
þarna 6 að vinnu og slóraði ég hjá
þeim eftir að kaffið var drukkið,
því að mér þótti gaman að horfa
á vinnubrögðin. Þegar klukkan var
8 kallar Gísli: „Kvöld!“ og þá áttu
allir að hætta. fen þá segir Þorgeir
Halldórsson, sem var vinnumaður
hjá föður mínum: „Mér finnst
sjálfsagt að Ijúka við garðinn", og
helt áfram að vinna og þeir allir.
KL 9 var garðurinn fullger. En
ég hafði orðið vitni að því að við
þennan flóðgarð rákust á gamli og
nýi tíminn, annars vegar áhugi
manna fyrir því, sem þeir voru að
gera, en á hinn bóginn krafan um
að hætta vinnu að ákveðinni
stundu, hvernig sem á stendur.
- -
Vinnan var stundum skóli, sem
þjálfaði hugsunarsemi og athyglis-
gáfu unglinganna. Við vorum
snemma vanin á fjárgæzlu. Um
sauðburðinn urðum við daglega að
ganga við lambærnar. Nú voru
margar ær í Hörgsholti og átti hver
sitt nafn, og var það regla að skrifa
í bók stutta lýsingu á lömbum
þeirra. Nú þekktum við ekki allar
ærnar með nöfnum og urðum því
að setja á okkur öll einkenni þeirra
svo að við gætum lýst þeim þann-
ig er heim kom, að pabbi þekkti
þær, og eins að lýsa lömbunum. Gat
þetta orðið mikil æfing fyrir minn-
ið þegar margar ær báru á dag.
Ennfremur urðum við að koma
lömbum á spena, ef þess þurfti. Og
ef við fundum dauðan einlembing,
þá áttum við að taka af honum
skinnið, ná í tvílembing, klæða
hann í skinnið og venja hann undir
ána, sem misst hafði undan sér.
Við þetta þurfti mikla nákvæmni,
en ef ærin vildi ekki taka lambið
að sér, þá var það seinasta úrræðið
að koma með hundinn til hennar.
Þá var hún hrædd um lambið fyrir
hundinum og tók að sér að verja
það og eftir það þurfti vanalega
ekki nema dálitla þolinmæði til
þess að fá hana til að lofa því að
sjúga sig, og þá var björninn
unninn.
Á vertíðinni fóru allir karlmenn
til sjóróðra nema pabbi og urðum
við því að hjálpa honum við hirð-
ingu fjárins. Fjárhúsin voru sex
og stóðu úti í högum og var nokk-
uð langt í sum þeirra. Tíu voru
húsin heima á túni og þar var líka
heygarður, en kuml við fjárhús-
in, sem lengra voru burtu. Þurfti
þá stundum að aka þangað heyi á
vorin, þegar upp voru gefin kuml-
in, sem fyrir kom í harðindum.
Pabbi treysti okkur ekki til þess
að fara á fjarstu húsin, síst ef veð-
urútlit var ótryggilegt. (Þá voru
ekki veðurfréttir né útvarp, mundi
hafa verið talið galdratæki, ef ein-
hver hefði haft fréttir af því). Áð-
ur en pabbi færi að heiman, sagði
hann svo fyrir verkum, og það var
um að gera að fara nákvæmlega
eftir því og bregða í engu út af,
enda kom manni slíkt ekki til
hugar.
„Taktu fyrst stóra laupinn (þetta
var fjögra kúa laupur) og gefðu
úr honum í hestaréttina, gættu þess
að sópa vandlega allan salla úr
stöllunum og annaðhvort dreifa
honum á gólfið eða geyma hann í
stallenda. Svo tekurðu langrimaða
laupinn, hann er í austurskjólinu í
garðinum, og gefur úr honum á
stóra lambhúsið. Sópaðu vandlega
jöturnar og rakaðu gólfið og gefðu
það á tryppahúsið. Tveggjakúa-
laupinn gefurðu á Aukatúnslamb-
húsið, hann er líka austur í skjól-
inu, moðið gefurðu á Flatarhesthús-
ið, en ruslið kemurðu með heim og
lætur það undir nautin í vestur-
kofanum. Kaldbakslaupurinn er í
vesturskjólinu, hann gefurðu á
framlambhúsið, moðið gefurðu á
framhesthúsið. Hrútakugginn tek-
urðu og gefur hann á hrútakofann.
Ef ég verð ekki kominn þegar þú
hefur lokið þessu, þá væri gott að
gefa á fjárhústúnið þriggjakúa-
laupinn minni, sem er í vestur-
skjólinu, moðið kemurðu með og
gefur það á hestaréttina ef ekki er
mjög hvasst, annars 'læturðu það
vera í endanum á jötunni. Gott ef
tími vinnst til að vatna folöldun-
um í stóra lambhúsinu, þú gefur
þeim eins og vant er, vænan bolla
af sýru í hverja fötu og gætir þess
að hafa föturnar ekki svo fullar að
skvettist á þig. Og mundu svo eftir
að búa þig vel og fá þér skyrspón
áður en þú ferð í húsin.“ —
Það var oft beygur í manni að
fara í hrútakofann, því eitt sinn
fekk ég slæmt högg við hellujötu,
sem í kofanum var. Það er skap í
hrútunum stundum. En folöldin og
lömbin undu sér vel saman í húsi.
Folöldin hneggjuðu til okkar þeg-
ar við komum með drykkinn, en
þá var verst að verjast lömbunum,
sem voru stundum aðgangsfrek og
vildu líka fá að drekka. Þá áttu