Lesbók Morgunblaðsins - 29.05.1999, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 29.05.1999, Blaðsíða 5
NATALÍJA Púshkína, eiginkona skáldsins, (1812-1863). Málverk eftir A. Brjúlov. annarri konu, Amalíu Ríznítsj, en til hennar orti hann sum af sínum fallegustu og áhrifa- mestu ástarljóðum. Hann var þó ekki fyrr kominn til Míkhajlovskoje en hann var búinn að fá sér nýja ástkonu og farinn að yrkja til hennar. En hann orti líka annað og meira en ástarljóð. Hann hafði með sér til Mík- hajlovskoje upphafið á Jevgení Onegín (1823- 1831) og á þeim þrem árum sem hann dvaldist þar (1824-26) samdi hann meirihluta þessa verks. Dvölin þar táknaði enn harðari útlegð fyrir Púshkín. Hann hafði ekki ferðafrelsi en naut þess þó að vera samvistum við sína gömlu fóstru. Verk hans Sígaunarnirvar einnig samið í Míkhajlovskoje (1824) og leikritið Borís Godúnov (1825). Á meðan Púshkín dvaldist í Míkhajlovskoje gerði hópur ungra liðsforingja uppreisn gegn keisaranum, Alexander I, í desember 1825. Uppreisn þessi hefur verið kölluð dekabrista- uppreisnin. Hún misheppnaðist og fimm upp- reisnarmenn voru teknir af lífi, meðal annars ljóðskáldið Kondratí Rylejev, hinir voru sendir í fangabúðir í Síberíu og meðal þeirra nokkrir vinir Púshkíns. Hann studdi málstað dekabrisU anna og örlög þeirra fengu mjög á hann. Á þessum árum varð hann alvörugefnari og minna bar á galgopaskap og léttúð í fari hans. Tæpu ári eftir hina misheppnuðu uppreisn lauk útlegð hans. Nýr keisari, Nikúlás I, var kominn til valda. Lét hann kalla Púshkín til Moskvu og bauðst til að gerast persónulegur ritskoðari hans. Ritskoðun bókmenntaverka var innleidd í valdatíð Katrínar miklu og þurfti lögum sam- kvæmt að fá leyfi viðkomandi yfirvalda fyrir birtingu allra ritverka. Meðan Alexander I ríkti hafði ritskoðun verið tiltölulega frjálsleg en Nikúlás I ákvað í kjölfar dekabrista-uppreisn- arinnar að herða á henni. Þó að keisarinn hafi boðið Púshkín að ritdæma verk hans sjálfur varð það Púshkín lítt til gagns. Fljótlega fól keisarinn öðrum starfið og oft voru það menn sem höfðu litla tilfinningu fyrir bókmenntum. Enn fremur vildi keisarinn hafa hönd í bagga með því hvemig verk Púshkin samdi. Hann hvatti hann til að skrifa um söguleg efni og snúa sér að óbundnu máli. Árið 1829 varð Pús- hkín enn ástfanginn, í þetta sinn af ungri feg- urðardís, Natölju Gontsjarovu. Hún hafnaði honum í fyrstu en tók bónorði hans síðar. Haustið áður en hann gekk í hjónaband dvald- ist hann á nýrri landareign sinni, Boldíno, í tvo mánuði og reyndist sá tími honum afar drjúgur. Þar skrifaði hann hina svokölluðu Litlu harm- leiki og einnig Sögur Belkíns. Nokkrar þeirra hafa birst í íslenskri þýðingu í blöðum og tíma- ritum, sú fyrsta birtist sem framhaldssaga í ísafold vorið 1878. í Boldínó lauk hann einnig að mestu við Jevgení Onegín. Hann kvæntist síðan Natölju í febrúar 1831. Hjónabandið hafði það í fór með sér að Púshkín varð að sinna ákveðnum skyldum við hirðina. Keisarinn óskaði eftir nærveru Natölju á hirðdansleikjum en þar vakti hún mikla aðdáun. Púshkín var gerður að kammerráði og varð þá nauðbeygður til þess að sækja reglulega dansleiki og aðrar skemmtanir við hirðina. Árið 1833 ferðaðist hann aftur til Boldíno og dvaldist þar um haust- ið. Aftur varð honum mikið úr verki og nú samdi hann Bronsriddarann sem birtist reynd- ar ekki á prenti fyrr en eftir hans dag. Þetta ár skrifaði hann einnig Spaðadrottninguna en sú saga er ef til vill mest lesin af öllum hans verk- um. Hefur hún notið fádæma vinsælda um heim allan og verið þýdd aftur og aftur; meðal ann- ars var hún birt í íslenskri þýðingu sem fram- haldssaga í Þjóðviljanum vorið 1903. Hafnarbíó gaf söguna aftur út 1949 í tengslum við sýningu á samnefndri óperukvikmynd. Síðustu æviár sín fékkst Púshkín einnig við sagnfræði og skrifaði meðal annars um bændauppreisn Púgatsjovs á 18. öld. Um þá sömu uppreisn samdi hann einnig skáldsögu Dóttur höfuðs- mannsins sem einnig hefur verið þýdd á ís- lensku og var gefin út undir heitinu Pétur og María af Isafold árið 1915. Púshkín eignaðist undir lok ævi sinnar marga óvildarmenn í Moskvu. Hirðlífið átti illa við hann. Hann átti í fjárhagserfiðleikum og einnig angraði hann skemmtanafíkn eiginkon- unnar. Hún var umsetin af aðdáendum og stöðugt var pískrað og skrafað um meint ástar- ævintýri hennar og stanslaust daður. Honum var sent nafnlaust bréf þar sem hann var kall- aður kokkáll og að lokum fór það svo að hann skoraði ungan herforingja, Georges D’Anths að nafni, sem hafði gert hosur sínar grænar fyrir Natölju, á hólm. Einvígið átti sér stað 26. janúar 1837 við ána Tsjornaja Retsjka (Svartá) nálægt St. Pétursborg. Hlaut Púshkin skotsár í maga og lést þremur dögum síðar eftir miklar kvalir. Var það svartur dagur fyrir Rússland og heiminn allan. Ljóðskáldið Púshkin Enginn einn maður hefur haft meiri áhrif á rússneskt mál seinni alda en Púshkín og það var hann sem átti mestan þátt í að gera það að bókmenntamáli. I verkum hans er rússneska orðin mótað og nútímalegt bókmenntamál. Púshkín var fyrst og fremst ljóðskáld en sneri sér að óbundnu máli síðustu ár ævi sinn- SJÁLFSMYND, 1829. Teikning eftir Púshkín. ar. Púshkín orti ljóð um ástina og náttúruna, hverfulleika hamingjunnar og frelsisþörfina svo dæmi séu nefnd. Hann var oft á tíðum gaman- samur og naut þess að semja skopstælingar á þekktum verkum. Sem ljóðskáld virtist allt leika í höndum hans; hann hafði jafnt vald á ytra formi, hrynjandi og orðavali sem og á efn- istökum. Ljóð hans einkennast jafnframt af margbreytni; tónninn getur verið gáskafullur og léttur, eða dapur og þunglyndislegur. Mesta verk hans er ljóðsagan Jevgení Onegín sem átti að vera eins konar rússnesk útgáfa á Don Juan eftir Byron, en þróaðist fljótlega í allt aðra átt. Fyrirmyndin, Don Juan Byrons, er rómantískt verk en Jevgení Onegín er talið vera eitt fyrsta dæmið um raunsæis- skáldsögu í Rússlandi, undanfari verka eftir meðal annars Lermontov, Gogol og Dostojev- skí. Jevgení Onegín er skáldsaga í bundnu máli. Hún er ekki löng miðuð við skáldsögur, rétt rúm 21.000 orð, en hinn þekkti gagnrýn- andi Víssaríon Belínskí (1811-1848) kallaði hana „alfræðibók um rússneskt þjóðlíf1 því í henni er að finna lýsingar á og fróðleik um kjör fólks úr öllum stéttum þjóðfélagsins. Púshkín bjó sjálfur til bragformið sem hefur verið kall- að Onegin-bragurinn og byggir á sonnettu- forminu. Sagan fjallar um ungan spjátrung, Jevgení Onegín, sem Púshkín kynnir í upphafi sögunnar sem vin sinn. Hann sóar burt æsku sinni á fánýtan hátt og áttar sig ekki fyrr en um seinan að hann hefur misst það sem hefði gefið lífi hans gildi, en það var ást sem ung kona, Tatjana, bar til hans. I Rússlandi hefur ljóðlist lengi skipað mun veglegri sess og náð til fleiri lesenda en á Vest- urlöndum. Hvergi annars staðar hafa Ijóðskáld lesið upp verk sín á íþróttavöllum fyrir mörg þúsund áheyrendur. Það er einnig algengt að Rússar fari fyrirvaralaust og við ýmis tækifæri með Ijóð eftir uppáhaldsskáld sitt hvort sem það kann að vera Púshkín, Pasternak eða Maja- kovskí. Þó Púshkín sé mun minna þekktur utan Rússlands en ýmsir aðrir rússneskir skáldsnill- ANNA Petrovna Kern (1800-1879). Teikning eftir Púshkín. ingar er hann sérlega mikils metinn í heima- landi sínu og telst ótvírætt vera þjóðskáld Rússa. Púshkín á íslandi Það hefur löngum þótt erfitt að þýða verk Púshkíns og á það ekki síst við um Ijóð hans. Engu að síður hafa þau verið þýdd á flestöll tungumál heims sem bókmenntir eru samdar á. A íslensku birtust fyrst nokkrar sögur Pús- hkíns sem framhaldssögur í íslenskum blöðum og tímaritum. Það er ekki fyrr en um miðja öldina að þýðingar á ljóðum hans fara að birt- ast. Það er athyglisvert að saga eftir Púshkín virðist jafnframt hafa verið fyrsta sýnishornið sem Islendingar fengu af rússneskum bók- menntum. Sagan var þýdd úr dönsku og áttu eftir að líða nokkrir áratugir þar til birtist á ís- lensku verk sem hafði verið þýtt beint úr rúss- nesku. Þessi fyrsta rússneska þýðing birtist sem framhaldssaga í vikublaðinu Isafold 28. febrúar til 2. maí 1878. Titill sögunnar var Hólmgangan og er hún ein af Sögum Belkíns. Um miðja þessa öld fara svo að birtast þýð- ingar á ljóðum Púshkíns hér á landi bæði í tímaritum og bókum. Helstu þýðendur rúss- neskra bókmennta á Islandi á þessum árum voru þeir Geir Kristjánsson og Magnús Ás- geirsson. Geir Kristjánsson var ritstjóri tíma- ritsins MIR, sem kom út á sjötta áratugnum, og birti þar bæði þýðingar sínar úr rússnesku og greinar um rússneskar bókmenntir. Hann sendi einnig frá sér tvö söfn með Ijóðaþýðing- um: Hin græna eik (1971) og Undir hælum dansara (1988) en einnig þýddi hann hið fræga ljóð Majakovskís Ský í buxum. Magnús Ás- geirsson þýddi meðal annars ljóðaflokkinn Hinir tólf eftir Alexander Blok sem kom út ár- ið 1936. Sigfús Blöndal, orðabókaritstjóri, var mikill áhugamaður um Rússland. Hann lærði rússnesku og fékkst við þýðingar úr því máli. Birtust þær meðal annars í bók hans Sunnan yfír sæ sem kom út 1949. Auk þeirra hafa þeir Helgi Hálfdanarson og Halldór Laxness þýtt Ijóð eftir Púshkín. Haust (Ur Jevgení Onegín) Morgunn rís úr móðu frosta; mannauð standa og hnípin tún; úlfur frár á fárra kosta, flykkist nú með vegarbrún, - felmtri sleginn frísar hestur, ferðavanur næturgestur hleypir undan hratt sem má; humlur standa básum á; allt er kyrrt í útihögum, enginn smali á léttum skó heyrist þeyta horn í mó; heima í koti gleðst af bögum mærin rjóð og snældu snýr, snarkar furukveikur hýr. Þýð.: Geir Kristjánsson Hin græna eik Hin græna eik ber gullið þing sem gnestur hátt við veðradrag. Og fjölvís köttur fer í hring um festi þessa nótt og dag á vinstri hönd - þá heyrast bögur, til hægri snýr - og þylur sögur. Þýð.: Geir Kristjánsson Hrafnamir Krummi um loft með krunki fer, kviðarfylli leitar sér, aðspyr, mætandi öðrum hrafni: Attu von á bita, nafni? Aftur svarar hrafninn hinn: Heldur betur, nafni minn. Fann ég undir laufí í leynum, lík í skógi, af riddara einum. Hví, af hverjum, vegið var, veit sá fálki, er öxl hans bar, veit hans fákur vegalúinn, veit hún, unga hallarfrúin. Langt til skógar fálkinn fíó, fákinn hinn á burtu dró, ungu frúna um ástvin dreymir, ekki þann, sem laufíð geymir... Þýð.: Magnús Ásgeirsson Bautasteinn Púsjkíns Bautastein hef ég sjálfur sett mér glæstan, fríðan, og sýnu hærri Alexanders miklu blökk, að merki því mun þjóðbraut troðin síðan, og þángað mæna augu klökk. Mín bíður aldrei auðn um allar heimsins stundir, og eins þótt verði bein mín drifhvítt sáld, míns nafns skal harpan minnast meðan sólu undir er munað nokkurt skáld. Mín frægð skal berast Rússlands óravegu víða, í vegsemd hvíslað nafn þess ljóss er fegurst skein jafnt viltum túngús, fínna og fræknum slafa sem flatneskjunnar kalmúksvein. Unnað mér verður; aldrei kann að gleymast þjóðum minn árnaður, sem nefni ég kórónu míns Ijóðs: hvernig á blindri öld eg blés að frelsis glóðum og bað þeim fótumtroðna góðs. Saungharpa, hlýð þú enn sem áður guðs þíns máli, óttalaus gagnvart móðgun, sljó á lof sem hnjóð, sýng áframl Mundu aðeins, öndvert flóni, aldjúp í speki, vertu hljóð. Þýð.: Halldór Laxness Heimildir: 1. Bayley, John: Pushkin. A Comparative Commentary. Cambridge: Cambridge University Press, 1971. 2. Briggs, A. D. P.: Alexander Pushkin. A Critical Stu- dy. Bristol: Bristol Press, 1991. 3. Briggs, A. D. P.: Alexander Pushkin, Eugene Onegin. Cambridge, Eng.: Cambridge University Press, c 1992. 4. Magarshack, David: Pushkin. A Biography. London: Chapman & Hall, 1967. 5. Terras, Victor. A History of Russian Literature. New Haven: Yale University Press, 1991. 6. Troyat, Henri: Pushkin: A Biography. Transl. by Randolph T. Weaver. London 1951. Höfundurinn er bókavörður og þýðandi. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 29. MAÍ 1999 5

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.