Lesbók Morgunblaðsins

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Lesbók Morgunblaðsins - 22.07.2000, Qupperneq 6

Lesbók Morgunblaðsins - 22.07.2000, Qupperneq 6
HEIMURINN SJALFUR ER HINN VONDI DRAUMUR Fyrir skömmu komu út í f/rsta sinn óritskoðað- ar dagbækur bandarísku skáldkonunnar Sylviu Plath. Þeirra hafói verið beðið með eftirvæntingu þar sem ýmsir gerðu sér í hugar- lund að þær myndu varpa Ijósi á þær kringum- stæður sem leiddu til sjálfsvígs hennar aðeins þrítugrar að aldri árið 1963.1 þessari grein fjallar FRÍÐA BJÖRKINGVARSDÓTTIR um The Bell Jar (Glerkúpuna), sjálfsævisögulega skáldsögu Plath, sem byggð er á reynslu hennar af andlegu niðurbroti. Götumynd frá Frakklandi, teikning eftir Sylviu Plath. BANDARÍSKA skáldkonan Sylvia Plath hafði afdrifarík áhrif á söguskoðun, bókmenntir og félagslega rýni tengda kvennafræðum á mót- unarárum þeirra fræða á sjöunda og áttunda áratugn- um. Hún hafði þó aldrei ætlað sér slíkt hlutverk og lætur nærri að tilviljun hafi ráðið umfangi þeirrar umræðu er spannst um líf hennar og verk, því Plath var að heita má óþekkt í lifanda lífi. Líf hennar og þó sérstaklega dauði varð samt sem áður til þess að tendra mikinn hugsjónaeld í brjóstum fjölmargra kyn- systra hennar sem sáu í henni tákngerving andlegrar og félagslegrar kúgunar kvenna í samtíma sínum. Sylvia Plath var glæsileg útlits, afburða vel gefin, vel menntuð og hæfileikarík. Hún var ungt skáld sem framtíðin virtist blasa við. Eftir að skólagöngu hennar í Banda- ríkjunum lauk, fór hún til framhaldsnáms í Cambridge. Þar kynntist hún breska skáld- inu Ted Hughes sem þegar hafði getið sér gott orð fyrir ljóð sín. Þau giftust og eignuð- ust tvö börn, Friedu og Nicholas. Svo virtist sem ástir hefðu tekist með jafningjum, enda einkenndist samband þeirra hjóna af ljóð- rænni ástríðu og náinni samvinnu sem styrkti skáldskap þeirra beggja. Hjónabandið, hæfileikar Plath og elja við ritstörfin urðu þó ekki til þess að veita henni þá lífsfyllingu sem hún þráði. Harðskeytt sjálfsgagnrýni, lítil athygli í bókmennta- heiminum og skipbrot hjónabands hennar og Hughes átti sinn þátt í því að djúpstagð geð- ræn vandamál sem hún hafði átt við að stríða frá unglingsaldri náðu yfirhöndinni í lífi hennar, einhvern harðasta vetur í manna minnum í London. í kjölfar stöðugra veik- inda, en hún og börnin höfðu verið með þrá- láta flensu, barðist Plath við þunglyndi sem henni hafði tekist að halda leyndu fyrir flestum. Að lokum batt hún enda á líf sitt aðeins þrítug að aldri, með því að stinga höfðinu inn í gasofninn í eldhúsinu á meðan börnin hennar sváfu á hæðinni fyrir ofan. Við rúmin þeirra hafði hún skilið eftir brauð á diski og mjólk svo þau gætu bjargað sér þar til hjálp bærist, og á eldavélinni var miði með símanúmeri hjá lækninum hennar ef vera kynni að einhver kæmi að henni í tæka tíð. Röð tilviljana varð þó til þess að svo varð ekki og tilraun sem ef til vill hefði mátt túlka sem örvæntingarfullt ákall um hjálp varð henni að aldurtila. Skýr rödd kveður sér hljóðs Eftir að hún var öll var nafn Sylviu Plath skyndilega á allra vörum. Það varð opinbert að hún og Hughes höfðu búið aðskilin í nokkurn tíma og skilnaður hafði verið í að- sigi. Jafnframt kom í ljós að á síðustu vikum lífs síns hafði Plath skapað hvert ljóðið á fætur öðru eins og flóðgátt hefði skyndilega opnast. Fram að þeim tíma hafði hún þurft að hafa mikið fyrir hverju orði sem hún skrifaði. í þessum ljóðum kemur Plath í fyrsta sinn fram á sjónarsviðið sem fullmót- að skáld, með skýra rödd er kvaddi sér hljóðs á ógnvekjandi máta í afdráttarlausri umfjöllun um sína andlegu líðan. Nokkur þessara ljóða, sem seinna voru tekin saman í bókinni Ariel, voru birt örfáum dögum eftir andlátið og vöktu strax mikla athygli, en birtingu þeirra hafði áður verið hafnað. Aðeins mánuði fyrr kom einnig út í Eng- landi fyrsta skáldsaga hennar The Bell Jar, undir höfundamafninu Victoria Lucas. Sú bók, sem hafði að mestu leyti farið framhjá lesendum og gagnrýnendum, hlaut við dauða Plath aukið vægi þar sem margir kusu að skoða verkið sem heimild um örlög höfund- arins. The Bell Jar eða Glerkúpan eins og titillinn myndi útleggjast á íslensku, er eins- konar skál úr gleri sem notuð er á tilrauna- stofum til að hvolfa yfir það sem verið er að rannsaka. Það myndmál sem felst í titlinum lýsir vel því ástandi sem höfundurinn þekkti svo vel af eigin raun, örvæntingu þess sem misst hefur tengslin við umhverfi sitt og stendur einn og berskjaldaður utan við heiminn. Uppgjör við sýndarheim ameríska draumsins í sjálfsævisögulegu skáldsögunni The Bell Jar, fjallar Plath um uppvöxt sinn í Banda- ríkjunum og andlegt niðurbrot sem leiðir til sjálfsmorðstilraunar þar sem henni er bjargað á elleftu stundu. Bókin fylgir síðan eftir uppgjöri söguhetjunnar við samtíma sinn og sjálfa sig, þar til hún loks útskrifast af geðsjúkrahúsi, endurfædd í andlegum skilningi og reiðubúin til að takast á við óræða framtíðina. Eins og titillinn bendir til er The Bell Jar hispurslaus og raunsönn lýsing á þeirri ein- angrun sem fylgir geðrænum sjúkdómum. Auk þess tekst Plath þar á við félagslegan veruleika sem margar konur þekktu af eigin raun. Hún lýsir á kaldhæðinn og oft á tíðum fyndinn máta tvískinnungi þess samfélags sem hún elst upp í og sviptir ljómanum af innantómum sýndarheimi ameríska draums- ins sem flestir hafa talið sér trú um að væri svo eftirsóknarverður. Plath vegur mark- visst að viðteknum þjóðfélagslegum gildum í þessu verki og gerir marga bannhelga þætti samfélags sjötta áratugarins að söguefni sínu, svo sem geðveiki, kvenhlutverkið og kynferðismál. Sögusvið The Bell Jar eru Bandaríki 6. áratugarins þegar áhrif heimsstyrjaldarinn- ar voru rétt að dvína og áhersla á efnahags- leg gæði var í fyrirrúmi. Jafnframt var kalda stríðið og McCarthy-isminn í algleym- ingi, en kynlífsbyltingarinnar og jafnréttis- baráttu 7. áratugarins var ekki enn farið að gæta svo nokkru næmi. Aðalsöguhetja bókarinnar er ung stúlka, Esther Greenwood, sem vinnur smásagna- samkeppni og hlýtur í verðlaun vinnu á kvennatímariti í New York. Vinnan þar reynist innantóm og yfirborðskennd og sú staðreynd, ásamt vonbrigðum stúlkunnar á öðrum sviðum, t.d. í samskiptum við karl- menn, verður til þess að gera draumaferðina til stórborgarinnar að undanfara taugaáfalls. Sagan hefst þar sem Esther Greenwood tiplar á tánum um stræti New Yorkborgar í afar kvenlegum háhæluðum skóm, sem eru í stíl við lítið kvenveski og beltið á kjólnum hennar. Þetta er sumarið sem réttarhöldin yfir Rosenberghjónunum standa yfir og Esther á að vera að upplifa skemmtilegasta tímabil lífs síns. Hún er eins og klippt út úr kvennablaðinu sem hún vinnur á, - en and- leg líðan hennar er algerlega á skjön við út- litið. Hún getur ekki með nokkru móti sam- samað sig þessu draumalífi sem aðrar stúlkur myndu vilja fórna miklu til að fá að reyna. Þess í stað finnur hún til samkenndar með Rosenberghjónunum sem voru ákærð fyrir landráð og bandaríska þjóðin virtist staðráðin í að lífláta til að verja ameríska drauminn fyrir illum áhrifum kommúnisma. Hinn þröngi stakkur kvenhlutverksins Esther er frá upphafi sögunnar utangarðs í flestum skilningi. Hún skilur þó illa sín eig- in vonbrigði og á erfitt með að greina orsök þeirrar höfnunartilfinningar sem hún finnur svo sterkt til. Allt frá barnsaldri hefur hún staðið sig betur en nokkur karlmaður í öllu sem hún hefur tekið sér fyrir hendur. Hún hefur markvisst unnið að því að verða yfir- burða námsmaður til að tryggja framtíð sína og starfsgrundvöll í þjóðfélaginu. í New York kemst hún að því að dugnað- ur hennar og greind eru ekki sú framtíðar- trygging sem hún hafði gert sér í hugar- lund; samfélagið hefur þegar sniðið henni þröngan stakk þess kvenhlutverks sem henni er ætlað að leika í lífinu. Það hlutverk er mótað af kynslóðum kvenna á borð við hennar eigin móður og kærastans hennar, Buddy Willard. Buddy er staðráðinn í að giftast Esther og þreytist aldrei á að segja henni frá þeirri skoðun móður sinnar að „maðurinn þarfnist félaga og konan þarfnist óendanlegs öryggis", og jafnframt að „mað- urinn sé ör sem þýtur inn í framtíðina og konan sé sá staður sem örin skýst upp frá“. Þetta vekur óþægilegar kenndir með Esther sem sér að þjóðfélagið og allir sem að henni standa eru búnir að hugsa fyrir öll- um hennar þörfum - það eina sem hefur láðst að taka inn í reikninginn er „hvað stúlkum finnst sjálfum", eins og hún orðar það. „Það síðasta sem ég þarfnaðist var óendanlegt öryggi og að vera sá staður sem örin skýst upp frá,“ segir hún. „Ég þarfnað- ist breytinga og spennu og langaði til að skjótast í allar áttir sjálf, eins og marglitar örvarnar úr flugeldunum á þjóðhátíðardag- inn.“ Hefðbundið kvenhlutverk innan hjóna- bands verður því sífellt verri kostur í augum Estherar, hún sér það sem gildru sem mið- ast við að halda konum í skefjum. Hún er þess fullviss „að þrátt fyrir allar rósirnar og kossana og málsverðina á veitingahúsum sem karlmaður eys yfir konu áður en þau giftast, þá vill hann innst inni að giftingar- athöfninni lokinni geta traðkað á henni þar til hún er útflött eins og eldhúsmottan henn- ar frú Willard“. Móðir Estherar og flestar konur af henn- ar kynslóð eru því hreint ekki sú fyrirmynd er Esther leitar, enda virðast þær ekki hafa neinn áhuga á að leita sér starfsframa utan heimilisins. Það má jafnvel leiða rök að því að þeim finnist heimilið eftirsóknarverðasti starfsvettvangurinn og að háskólanám ungra stúlkna sé þeim einungis til fram- dráttar ef þær eru svo „óheppnar“ að ganga ekki út. Það er þó auðvitað rós í hnappagat tilvonandi eiginmanns að eiga vel menntaða konu og vitsmunalega uppörvandi félaga. Esther, sem á þá ósk heitasta að verða rithöfundur, lítur því til ritstjórans á kvennablaðinu sem fyrirmyndar er gæti komið henni að gagni: „Ég vildi óska að ég ætti móður eins og Jay Cee. Þá myndi ég vita hvernig ég ætti að snúa mér.“ Vonbrigði hennar eru því mikil er hún uppgötvar að Jay Cee notfærir sér til fullnustu aðferðir karlasamfélagsins til að koma sér áfram og er því jafn óhæf sem fyrirmynd ungra kvenna á borð við hana sjálfa sem vilja koma sér áfram á grundvelli jafnréttis. Að lokum verður því bilið á milli þess sem þjóðfélagið ætlast til af henni og hennar eig- in væntinga of mikið og Esther missir tökin á tengslum sínum við raunveruleikann. Persónuleg reynsla samtvinnuð pólitískri fordæmingu í lýsingu sinni á þrúgandi andrúmslofti geðsjúkdómsins undir glerkúpunni reiðir Sylvia Plath sig á sína eigin lífsreynslu. Sú reynsla er þó markvisst færð í listrænan 6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS - MENNING/LISTIR 22. JÚLÍ 2000

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.