Morgunblaðið - 05.05.2001, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 05.05.2001, Blaðsíða 4
VARNARSAMSTARF Í HÁLFA ÖLD 4 C LAUGARDAGUR 5. MAÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ M EÐ her- námi Breta í maí 1940 hafði sannast að Ísland gat hugsan- lega fallið erlendu stórveldi í skaut. Hlutleys- isstefnan, sem fylgt hafði verið af nánast trúarlegri sannfæringu frá því lýst var yfir fullveldi 1918 hafði ekki reynst raunhæf. Vaxandi spenna var í samskiptum austurs og vesturs og öll utanríkisviðskipti í óvissu. Íslendingar höfðu hvorki mannafla né fé til að reka flugvellina, sem Bandamenn höfðu lagt hér. Margir töldu að þriðja heimsstyrj- öldin væri skollin á er ófriður bloss- aði upp í Kóreu 1950. Íslendingar brugðust þá við ófriðarhættunni með því að gera varnarsamning við Bandaríkin. Samfélag, sem lengi hafði talið sig í öruggri fjarlægð frá umheiminum, stóð frammi fyrir gjörbreyttum veruleika, eins og sannast hafði á heimsstyrjaldarárunum. Dirfsku og stjórnkænsku var þörf bæði í sam- skiptum við erlend ríki en ekki síst í samskiptum ráðamanna við þjóðina sem nýverið hafði fagnað langþráð- um áfanga með lýðveldisstofnun. Saga Íslands á þessum viðsjálu tímum er að sönnu heillandi við- fangsefni. Þór Whitehead, prófessor í sagnfræði, er manna fróðastur um hana og hefur leitast við að setja hana í samhengi við átök stórveld- anna í kalda stríðinu. Morgunblaðið leitaði því til Þórs í þeim tilgangi að fá yfirlit yfir þá þróun sem leiddi til varnarsamningsins við Bandaríkin. Hlutleysi ógnað „Hlutleysi Íslands,“ segir Þór, „var alltaf nátengt þjóðernisstefn- unni. Í huga Íslendinga var það raun- ar ein hliðin á sjálfstæði landsins, yf- irlýsing um að þeir ætluðu sér ekki aftur að verða öðrum þjóðum bundn- ir.“ Þór segir að jafnframt hafi ráða- menn lagt „raunsætt mat á stöðu landins“. Ísland lægi fjarri megin- landi Evrópu, vígvöllum, ófriði og hryllingi þar. Úthafið væri þjóðinni skjól og Ísland hefði litla eða enga hernaðarþýðingu. Breski flotinn drottnaði á Norður-Atlantshafi og „Ísland væri þess vegna á áhrifa- svæði Breta og nyti óbeinnar varnar flotans“. Þetta ástand átti eftir að breytast og það gerðist snögglega. Á fjórða áratugnum taka nasistar völd- in í Þýskalandi og hefja útþenslu. „Á þessum tíma er flugtækni í örri þróun,“ segir Þór Whitehead. „Hér lenda hvað eftir annað flugvélar stór- þjóðanna sem eru að kanna leiðir yfir hafið. Fjarlægðir eru að styttast og samskipti landa að breytast til hins verra vegna þess að tvö af öflugustu ríkjum Evrópu, Þýskaland og Rússa- veldi, eru undir grimmri alræðis- stjórn. Flugvélar geta ráðist á her- skipaflota langt úti í hafi og hugsanlega borið hingað her manns til að hremma landið og nota það til loftárása á siglingaleiðir Atlants- hafs.“ Þannig hefur Ísland í raun öðlast hernaðarmikilvægi á skömmum tíma. Vernd breska flotans virðist ekki jafnsterk og áður. Þór Whithead segir að íslenskir ráðamenn hafi almennt forðast að opinbera áhyggjur sínar af þessum breytingum og almenningur tæpast skynjað að þær væru í vændum. „Á þessu er að vísu ein undantekning, þegar litið er til stærstu stjórnmála- flokkanna. Jónas Jónsson frá Hriflu, formaður Framsóknarflokksins og utanríkismálanefndar Alþingis, segir fullum fetum að lýðræðisríkin verði að reiða sig á vígbúnað Breta til mót- vægis gegn herveldi Hitlers. Það er óneitanlega merkilegt að formaður utanríkismálanefndar þingsins skuli tala þannig á sama tíma og Ísland fylgir stefnu „ævarandi hlutleysis“.“ Ráðamenn óttuðust ekki eingöngu hættu utan frá. Þór Whitehead segir að þeir leiði mjög hugann að því, þeg- ar dregur nær heimsstyrjöld, að í landinu starfi flokkar kommúnista og nasista (íslenskra og þýskra) sem kunni að vera tilbúnir að ganga er- inda flokksvelda sinna, ef þau seilist hingað. Á sama tíma skýrist land- vinninga- og árásarstefna Adolfs Hitlers og stríðshætta fer vaxandi. Ráðamenn taka að huga að ráð- stöfunum til að efla öryggi landsins, m.a. með því að leita eftir nýju sam- bandi og viðskiptum við Bandaríkin. Lögregla er efld og komið á hana hernaðarsniði. Þór Whitehead segir, að Þjóðstjórnin svonefnda undir for- ystu Hermanns Jónassonar, Fram- sóknarflokki, hafi líklega ætlað að koma hér á fót nokkur hundruð manna öryggisliði sjálfboðaliða með föstum kjarna í lögreglunni. Ísland hernumið Heimsstyrjöld skellur á 1939. Þjóðverjar hertaka Danmörku og Noreg í apríl 1940 og Íslendingar gera sér ljóst að nú getur allt gerst; landið er óvarið með öllu og ekki dugði breska flotaverndin Noregi. Hitler fýsir að hremma landið, en breskt herlið verður á undan og gengur fyrirvaralaust á land í maí 1940. „Forsenda þess að Þjóðstjórn- in tekur þegjandi og hljóðalaust upp samstarf við breska hernámsliðið er auðvitað sú, að hún er sannfærð um, að sjálfstæði og frelsi Íslendinga sé undir því komið að Þjóðverjar nái ekki landinu undir sig. Ráðherrar gæta þess hins vegar að sem minnst beri á samstarfi stjórnarinnar við Breta. Á þessum tíma lýsa íslenskir ráðamenn aldrei yfir því að hlutleys- ið hafi reynst gagnslaust. Gagnvart þjóðinni er allt óbreytt og einkum er lögð áhersla á að samskipti við er- lenda hernámsliða geti ógnað göfugri menningu og þjóðerni Íslendinga. Fáir minnast á ógnina af Þýskalandi Hitlers 1940-1941 nema jafnaðar- menn í Alþýðublaðinu.“ Árið 1941 gera Íslendingar her- verndarsamning við Bandaríkin, en breski flug- og sjóherinn situr þó um kyrrt. Þór Whitehead segir að her- verndarsamningurinn hafi í raun jafngilt efnislegri yfirlýsingu um að hlutleysi hafi brugðist við að tryggja lífshagsmuni þjóðarinnar í stríði. Þjóðverjar viðurkenndu að vísu enn hlutleysi Íslands en þeir höfðu jafn- framt lýst því yfir að landið væri á hafnbannsvæði og höfðu þannig farið nærri því að lýsa beinlínis yfir stríði á hendur Íslendingum. „Ég tel að þessi breyting, frá- hvarfið frá hlutleysi, hafi þó verið gerð af hálfum hug. Almennt fer því fjarri að ráðamenn þjóðarinnar lýsi stöðunni eins og hún raunverulega er. Ríkisstjórnir þurfa ekki lengur að hafa áhyggjur af vörnum landsins og utanríkisviðskiptum, sem blómstra ekki síst vegna herverndarsamn- ingsins. Stjórnmálamenn geta þess vegna einbeitt sér að innanlandsmál- um, snúið aftur í sinn gamla heim og látið sem lítið eða ekkert hafi breyst í utanríkismálum. Fleira kemur til. Mikil þjóðernis- vakning fylgir stofnun lýðveldis 1944 og andrúmsloftið í samfélaginu leyfir tæplega umræðu um kosti þess og galla að segja endanlega skilið við hlutleysi. Ráðamenn hér á landi halda líka í þá von að Íslendingar geti endurvakið hlutleysið í nýrri mynd ef stórveldunum takist að koma á al- þjóðlegu öryggiskerfi í nafni Samein- uðu þjóðanna.“ Vandinn mikli í stríðslok Ákvarðanir um íslensk öryggismál verða ekki flúnar, þegar frá líður. Undir stríðslok 1945 eru Bandaríkja- menn komnir að þeirri niðurstöðu að þeir þurfi hér nauðsynlega á her- stöðvum að halda til langs tíma, helst 99 ára. Þær eiga einkum að nýtast flughernum, en einnig er talin höf- uðnauðsyn á því að hindra að fjand- mannaríki, Sovétríkin, geti náð Ís- landi undir sig og notað landið til árása á siglingaleiðir og borgir Norð- ur-Ameríku. Bandaríkjamenn leita til Ólafs Thors, forsætis- og utanrík- isráðherra (Sjálfstæðisflokki), en hann biður þá að hreyfa ekki her- stöðvamálum að svo stöddu og hafa samráð við Breta, helstu viðskipta- þjóð Íslendinga. Aðstæður innlands eru ráðamönn- um flóknar og erfiðar, að sögn Þórs Whitehead. „Sósíalistaflokkurinn, sem kommúnistar ráða, hefur komist í lykilstöðu eftir þingkosningar 1942 og ný ríkisstjórn varð ekki mynduð 1944 nema með þátttöku flokksins. Að auki hafa sósíalistar náð forystu í verkalýðshreyfingunni og Ólafur Thors þarf á stuðningi hennar að halda við „nýsköpunina“; endurnýj- un á framleiðslutækjum þjóðarinnar eftir áralanga stöðnun í kreppunni miklu.“ Þór telur, að við þessar aðstæður hafi íslenskum stjórnmálamönnum verið ófært að marka nýja utanrík- isstefnu og semja við Vesturveldin um varnir og viðskipti. „Ólafur Thors stóð frammi fyrir margþættum vanda. Hann vissi, að sósíalistar myndu aldrei samþykkja varnarsamning við Vesturlönd nema með samþykki og þátttöku Sovét- ríkjanna. Þar að auki er þjóðin tæp- lega búin undir breytingu á utanrík- isstefnunni eftir þjóðernisvakningu lýðveldisársins og áralangan mál- flutning um að Íslendingum stafi ógn af dvöl erlends herliðs í landinu, þó að raunar megi vel hugsa sér örygg- issamning á þessum tíma án her- setu.“ „Þegar horft er út fyrir landsteina í stríðslok,“ segir Þór ennfremur, „sýnist mörgum stjórnmálaforingj- um þó ekki blása byrlega fyrir end- urreisn hlutleysis. Sovétríkin færa alls staðar út landamæri sín og völd og beita harðræði í hernumdu lönd- unum í Mið- og Austur-Evrópu. Einnig krefst sovétstjórnin land- svæða og bækistöðva af Norðmönn- um. Þetta þykir benda til að Stalín ætli sér ítök á Atlantshafi. Nú vita Íslendingar að bækistöðv- ar bandamanna hér höfðu ráðið úr- slitum í átökum á Atlantshafi. Þetta var margstaðfest af hálfu forystu- manna vesturveldanna sem töldu líka að flugleiðin um landið yfir Atl- antshaf hefði verið bandamannaherj- unum á meginlandinu ómetanleg við loftflutninga og ferjuflug. Þess vegna leikur nú ekki lengur neinn vafi á því 1945 að Ísland hafi öðlast gríðarlegt hernaðarmikilvægi. Því mátti ætla að einræðisríki í landvinningaham hlyti að sækjast hér eftir ítökum, ef það sæi kost á því á friðartímum, og reyndi að ná landinu á sitt vald í stríði. Jafnframt varð ljóst að vest- urveldin hlytu að hernema landið í eigin þágu ef ný styrjöld hæfist. Þetta er algjört grundvallaratriði sem menn verða að hafa hugfast þeg- ar farið er yfir þessa sögu. Íslenskir stjórnmálamenn töldu sig vita fyrir víst, að landið fengi undir engum kringumstæðum að vera óáreitt ef stríð brytist út. Þannig gæti einnig farið ef harka hlypi í valdabaráttu stórveldanna, jafnvel þótt „friður“ ríkti. Sósíalistar sáu þessi mál í allt öðru ljósi, enda tengdir alþjóðahreyfingu kommúnista, sem ráðstjórnin réð fyrir. Raunar var það ein aðalástæð- an til þess að sósíalistar tóku þátt í nýsköpunarstjórninni 1944, að þeir vildu koma í veg fyrir samninga við vesturveldin um öryggismál og bækistöðvar á íslensku landi.“ Annar vandi íslenskra ráðamanna var rekstur flugvallanna í Reykjavík og Keflavík. Þór segir að flugvalla- gerð Bandamanna á stríðsárunum hafi vissulega verið fagnaðarefni. Ís- lendingar hafi hins vegar hvorki ver- ið undir það búnir að reka flugvellina né verja þá. Keflavíkurflugvöllur hafi verið einn stærsti flugvöllur í heimi í stríðslok. „Flugvellirnir auka á öryggisvand- ann, því að þeir opna landið enn frek- ar fyrir skyndiárás. Nú er reyndar ljóst, að flugvallaleysið í upphafi stríðsins, sem stafaði af fátækt þjóð- arinnar á kreppuárunum, bjargaði Íslendingum að öllum líkindum frá innrás Hitlers haustið 1940.“ Í utanríkisviðskiptum blasir líka við mikill vandi í stríðslok. Landið var á barmi gjaldþrots þegar styrj- öldin hófst. Þetta ástand hafði gjör- breyst á stríðsárunum, hagstæður markaður hafði galopnast í Bretlandi og með samningum við Bandaríkja- menn höfðu Íslendingar tryggt sér næsta ótakmarkaðan innflutning á varningi meðan aðrar Evrópuþjóðir liðu skömmtun, sáran skort og hung- urdauða á stríðsárunum. „Með sam- starfi við Atlantshafsveldin“, segir Þór Whitehead, „brutust Íslendingar loks úr kreppu og nutu mestu vel- megunar í sögu þjóðarinnar. Nú er ráðamönnum sá vandi á höndum hvernig tryggja megi áframhald þessara viðskipta og velmegunar. Uppi voru hugmyndir um að leysa málið með sama hætti og í hervernd- arsamningnum við Bandaríkin 1941, þ.e.a.s. að vesturveldin veittu Íslend- ingum viðskiptaívilnanir fyrir hern- aðaraðstöðu.“ Aðdragandi varnarsamningsins Íslendingar leita öryggis 1939–1951 Morgunblaðið/Kristinn Þór Whitehead sagnfræðiprófessor. Þór Whitehead sagnfræðiprófessor gerir í samtali við Ásgeir Sverrisson grein fyrir þeim erfiðu úrlausnarefnum sem íslenskir stjórn- málamenn stóðu frammi fyrir þegar leið frá lokum síðari heimsstyrjaldar. ’ Ef ekkert væri gert til varnar höfðu íslenskirráðamenn þess vegna ærna ástæðu til að óttast skyndiárás Sovétmanna og gagnárás vesturveldanna sem breytt hefði þéttbýlasta hluta landsins í vígvöll með öllum þeim ósköpum sem því fylgdi. Hér á landi vissu menn hvað fólst í sovésku hernámi, jafnvel þótt það stæði stutt. Flestir gerðu sér ágæta grein fyrir morðæði Stalíns. ‘

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.