Morgunblaðið - 05.05.2001, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 05.05.2001, Blaðsíða 16
VARNARSAMSTARF Í HÁLFA ÖLD 16 C LAUGARDAGUR 5. MAÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ K OMU varnarliðsins árið 1951 fylgdu gríðarleg um- skipti fyrir íbúa Suður- nesja. Það gildir jafnt um hin menningarlegu sem hin efnahagslegu áhrif. Mikill fjöldi fólks flutti til Keflavíkur og nágrannabæja hvaðanæva að af landinu og áður óþekkt spurn skapaðist eftir vinnu- afli. Um margt hafa aðstæður breyst á þeim 50 árum sem liðin eru en ná- býlið við Bandaríkjamenn á „Vellin- um“ hefur haft veruleg áhrif á mann- lífið á Suðurnesjum og sér ekki fyrir endann á þeim. Ólafur Björnsson, út- gerðarmaður og bæjarfulltrúi í Keflavík um 24 ára skeið, þekkir þá sögu vel. Ólafur Björnsson var fimm ára daginn sem hann leit Keflavík fyrst augum. Hann fór á sjó fljótt upp úr fermingu og var á togurum fram yfir 1950. Var verkstjóri í landi um tíma en árið 1957 keypti hann bát, Baldur KE 97, ásamt félaga sínum. Ólafur var síðan skipstjóri og útgerðarmað- ur, rak fyrirtækið Baldur hf. sem óx og dafnaði. Ólafur hafði einnig um áratuga skeið afskipti af bæjarmálum og sat lengi í bæjarstjórn í Keflavík eins og fyrr sagði. Þá var hann tals- vert á Alþingi á árunum 1979-1980 sem varamaður fyrir Alþýðuflokkinn. Ólafur hefur nú sest í helgan stein en hefur einstakt útsýni bæði yfir haf og mannfólk úr íbúð sinni á Kirkjuvegi. „Hin samfélagslegu áhrif komu varnarliðsins árið 1951 voru náttúru- lega geysileg. Í kjölfar þess að varn- arsamningurinn var gerður flæddi hingað aðkomufólk. Nefna verður sérstaklega að hingað kom mikið af fólki af Vestfjörðum og fjöldi Siglfirð- inga. Framkvæmdir hér voru geysi- miklar, fyrst á vegum hersins en síð- ar urðu Aðalverktakar umsvifa- mestir. Enn síðar litu Keflavíkur- verktakar dagsins ljós og það breytti miklu fyrir okkur hér í Keflavík og Suðurnesin. Við það varð fjármagnið eftir í sveitarfélögunum hér á Suð- urnesjum. Aðalverktakar byggðu ekki svo mikið sem náðhús hér á Suð- urnesjum, peningarnir streymdu all- ir til Reykjavíkur.“ Atvinnulífi umbylt Ólafur segir að áhrifin af komu varnarliðsins hafi ekki síst komið fram í mikilli breytingu á því rót- gróna atvinnulífi sem þróast hafði fram í Keflavík og á Suðurnesjum. „Atvinnulíf hér snerist um sjó- mennsku og fiskvinnslu. Með komu varnarliðsins urðu til ný störf sem ekki höfðu þekkst hér áður og voru flestum heldur framandi. Margir vildu meina, og ég tel með réttu, að mörg störfin á Vellinum væru tiltölu- lega létt og tiltölulega vel launuð. Þetta hafði síðan áhrif á allt launa- umhverfið hér á þessum slóðum þannig að atvinnurekendur á Suður- nesjum þurftu fyrir vikið almennt að borga hærri laun en tíðkuðust annars staðar á landinu. Efnahagsáhrifin voru því geysimikil, hér var jafnari og betri atvinna en nokkur staðar á landinu. Það var lengi sem menn höfðu hér hæstu meðallaunin á Ís- landi án þess þó að hér væri mikið um ofurlaunafólk, góð laun giltu almennt yfir línuna. Völlurinn átti vitanlega sinn stóra þátt í því. Nú hefur þetta gjörbreyst, útgerð hefur nú alveg drabbast hér niður, það sést varla bátur við bryggju nú orðið.“ Annar þjóðflokkur En hvernig var litið á þá sem unnu á Vellinum? Ólafur segir að margir séu þeirrar hyggju í Keflavík að menn sem byrjuðu ungir að vinna hjá varnarliðinu og unnu þar síðan alla tíð hafi öðlast annað mat og skyn- bragð á veruleikann en þeir sem störfuðu í bænum. „Þetta varð með einhverjum hætti annar þjóðflokkur en við sem vorum á bryggjunum. Þeir höfðu aðra sýn til hlutanna. En það góða var að margir þessara manna voru miklir ágætismenn sem unnu þægilega vaktavinnu og gátu því orð- ið að liði hér í bænum utan vinnutíma. Mannekla var enda geypileg hér, einkum þegar vertíð stóð sem hæst. Þá hefur það alltaf verið ágætt við varnarliðið að þar fengu menn yfir- leitt að vinna svo lengi sem þeir vildu. Eldra fólk hérna gat því verið í vinnu uppi á Velli svo lengi sem því hentaði. Það var auðvitað hið besta mál.“ Eitt af því sem fylgdi komu varn- arliðsins var stóraukin spurn eftir íbúðarhúsnæði, sem raskaði mjög þeim markaði er skapast hafði áður. Ólafur segir að húsnæðismálin og fólksflutningarnir hafi haft ýmsa erf- iðleika í för með sér fyrir Keflavík og nágrannabyggðirnar. „Yfir 20% af íbúðafjöldanum hér í Keflavík voru leigð Bandaríkjamönnum. Þessir íbú- ar greiddu engin gjöld til samfélags- ins, meira að segja þeir sem komu ut- an af landi greiddu gjöld í sinni heimabyggð. Þetta þótti sveitar- stjórnarmönnum hér heldur súrt. Að- alverktakar greiddu heldur ekki nein gjöld hingað. Þetta breyttist með til- komu Keflavíkurverktaka, sem stofn- aðir voru 1957, en þá fóru umsvifin að skila sér í tekjuformi til bæjarfélags- ins. Það þurfti slag til að koma Kefla- víkurverktökum að kjötkötlunum. Aðalverktakar höfðu sína bakhjarla og vildu ekki láta neitt frá sér. Íbúarnir hér voru almennt sáttir við komu varnarliðsins og ég man ekki eftir nokkrum deilum um nei- kvæð áhrif þessa nábýlis á efnahags- líf eða menningu. Hins vegar kom upp ákveðinn kurr vegna þess hve varnarliðsmenn lögðu undir sig stór- an hluta húsnæðis. Hér var húsnæð- isekla og sumum var dálítið heitt í hamsi sökum þess. Húsaleiga hér varð hærri heldur en húsaleiga í Reykjavík. Þetta ástand varði nokk- uð lengi en mikil breyting varð á þeg- ar fjölskyldufólki tók að fjölga á Vell- inum og íbúðabyggingum fjölgaði þar. Nú er smávegis um það, að varn- arliðsmenn leigi hér íbúðir og það á líka við um Njarðvíkurnar en minna í Sandgerði og lítið sem ekkert í Grindavík og Garðinum. En þetta ástand sprengdi upp verð og sökum þessa voru margir óánægðir. Þegar mest var unnu um 2.000 til 3.000 manns hjá varnarliðinu þannig að menn geta gert sér í hugarlund hver áhrifin voru. Nú hefur störfunum fækkað hjá varnarliðinu, þar eru eitt- hvað um 850 manns. Á hinn bóginn hefur störfum við flugið stórfjölgað og því kann að vera að þar upp frá vinni nú fleiri en nokkru sinni fyrr. En þá er um að ræða störf sem tengj- ast Flugleiðum og flugstöðinni.“ Leikið á ensku Áhrifin á sviði menningarinnar létu ekki heldur á sér standa og ná- býlið við útlendu hermennina sem leigðu í Keflavík skiluðu sér m.a. á þann veg að börn og unglingar gerð- ust skyndilega mælt á enska tungu. „Já, sem lítið dæmi um áhrifin má nefna að algengt var hér að smá- krakkar væru farnir að tala ensku. Í götunni bjó kannski slatti af börnum Bandaríkjamanna og þau tóku vitan- lega að leika sér við íslensku krakk- ana. Síðan náðum við auðvitað „Kanasjónvarpinu“ hér langt á undan öðrum eða um 1960. Útvarpið kom enn fyrr og þar var leikin tónlist allan sólarhringinn.“ Ólafur kannast við að mörgum hafi þótt varnarsvæðið og Völlurinn spennandi og framandi staður. Ýms- um sögum hefur farið af umfangs- miklu bjórsmygli af varnarsvæðinu og yngra fólk frá Keflavík sem rætt var við í tengslum við vinnslu þessa blaðs rifjar upp að áður fyrr hafi allt- af verið nægan bjór að fá í bænum. Þá fullyrða sömu viðmælendur að neyt- endur í Keflavík, hið minnsta, hafi notið mjög góðs af nábýlinu við varn- arliðið. Útlent kjötmeti hafi verið auðfengið og „rýrnun“ á birgðum varnarliðsins hafi verið umtalsverð. Aðgangurinn að Vellinum hafi enda verið greiður allt þar til nýja flug- stöðin reis, en fram til 1987 var farið um varnarstöðina þegar Íslendingar áttu erindi til útlanda. Viðmælendum ber saman um að með tilkomu Leifs- stöðvar hafi mjög dregið úr smygli og aðgangi að varnarsvæðinu enda var því þá lokað. Ómögulegt fyrirkomulag Ólafur Björnsson kannast við þá breytingu sem fylgdi Leifsstöð. „Það var auðvitað alveg ómögulegt fyrir- komulag að þurfa alltaf að fara um hlið inn á varnarsvæðið þegar menn fóru til útlanda eða komu til landsins. Eftir á að hyggja vekur undrun hversu lengi þetta fyrirkomulag var við lýði. Vafalaust var því þannig far- ið um suma að þeim þótti Völlurinn spennandi. Það þótti mjög eftirsókn- arvert að komast í bjór þarna og nokkuð var um smygl af svæðinu. Viss hluti íbúanna sótti á Völlinn en ég tel að einnig hafi ekki síst verið um að ræða fólk innan að.“ Nú er hváð en Ólafur upplýsir að með því móti vísi Suðurnesjamenn til Reykjavíkur. „Við segjum ekki suður í Reykjavík eins og vinir mínir í Eyjum! Og svo var náttúrulega mikið af fólki innan að sem vann á Vellinum og oftar en ekki var það fólk í betri störfunum. Já, ábyggilega var oft um klíkuskap að ræða.“ Neitað um fyrirgreiðslu Nábýlið við varnarliðið hafði einnig ákveðna ókosti í för með sér einkum á haftaárunum svonefndu. Þá litu margir svo á að Keflavíkurflugvöllur og varnarliðið væri eins konar auð- lind sem gerði að verkum að sveit- arfélögin á svæðinu ættu síður rétt á þeirri margvíslegu opinberu fyrir- greiðslu sem þá var mjög tíðkuð og var í reynd forsenda þess sem gera skyldi. Þetta átti ekki síst við um lán og styrki. Ólafur rifjar þessa tíma upp og segir ástandið hafa verið óþol- andi: „Árum saman fengu fyrirtæki hér sama svarið þegar leitað var leyfa og ýmiss konar fyrirgreiðslu. Sagt var: „Þið hafið Völlinn, þið þurfið ekki meira.“ Þetta hafði m.a. í för með sér að árum saman fengu menn hér ekki leyfi til að smíða báta. Þar varð raun- ar breyting á í tvö ár, 1959 og 1960. En þetta ástand varði nokkuð fram á áttunda áratuginn og var með öllu óþolandi. Byggðasjóður mátti ein- faldlega ekki lána fé til þessa svæðis og jafnan var vísað til Vallarins og varnarliðsins,“ bætir hann við. Undursamleg hitaveita Ólafur Björnsson segir að vera varnarliðsins á Miðnesheiði hafi með margvíslegum hætti gagnast Keflvík- ingum og Suðurnesjabúum. Varnar- liðinu hafi í gegnum tíðina fylgt ýmiss konar þjónusta auk þess sem mörg helstu framfaramál sveitarfélaganna á þessu svæði hefðu vafalaust tafist um mörg ár hefði samstarfið við Bandaríkjamenn ekki komið til. „Hitaveitan er vitanlega það besta sem við höfum nokkurn tíma fengið. Hún hefði aldrei verið byggð hefði varnarliðið ekki komið að því máli. Grundvöllur fyrir því að byggja hana og reka hefði aldrei verið fyrir hendi ef þessi stóri kaupandi hefði ekki komið til skjalanna. Varnarliðið keypti í upphafi helminginn af orkunni og ég man að sagt var að stóra flugskýlið á Vellinum þyrfti jafn mikla orku og Njarðvíkurnar.“ Taugatrekktir embættismenn Ólafur er beðinn að rifja upp hvernig samskiptin gengu við Banda- ríkjamenn á þeim rúmlega 20 árum sem hann hafði afskipti af bæjarmál- efnum í Keflavík. „Okkur sveitar- stjórnarmönnum hér á þessu svæði gekk yfirleitt best í samskiptum við Bandaríkjamenn ef við gátum snið- gengið varnarmáladeild utanríkis- ráðuneytisins. Samvinna okkar sveit- arstjórnarmanna hér á Suðurnesjum var jafnan náin og góð á þessu sviði. Við töldum varnarmáladeild oftast þröskuld þegar semja þurfti við Bandaríkjamenn um eitthvað sem varðaði sveitarfélögin. Okkur fannst íslensku embættismennirnir alltaf andvígir breytingum, hikandi og taugatrekktir og gilti það um svo til allt sem átti að reyna að gera. Við komumst t.d. framhjá varnarmála- deildinni með hitaveituna. Við byggð- um hér sorpeyðingarstöð, þá fyrstu á landinu ef ég man rétt, og það var samstarfsverkefni við varnarliðið. Það sama átti við um rekstrargrund- völl hennar og hitaveitunnar þegar hún var byggð; um helmingur sorps- ins sem fór um hana kom frá Banda- ríkjamönnunum.“ „Eins og dýr í búrum“ Strangar reglur giltu lengst af um útivistartíma og ferðir hermanna ut- an varnarsvæðisins. Stefna stjórn- valda á Íslandi var lengi sú að best færi á því að samskipti þjóðarinnar og varnarliðsmanna væru sem minnst. Enda var ákaft deilt um veru Morgunblaðið/Rax Ólafur Björnsson. Að baki honum hangir málverk af Baldri KE 97, fyrsta bátnum sem hann eignaðist. „Umskiptin voru gríðarleg“ Ólafur Björnsson, út- gerðarmaður í Kefla- vík og bæjarfulltrúi til fjölda ára, bregður upp myndum af ná- býlinu við Bandaríkja- menn og segir Ás- geiri Sverrissyni frá þeim miklu breyt- ingum sem komu varnarliðsins fylgdu. Varnarliðið Komu varnarliðsins fylgdi að gífurleg spurn skapaðist eftir húsnæði í Kefla- vík og nágrenni. Leigumarkaðurinn raskaðist mjög af þeim sökum og kunnu margir því illa. Varnarliðsmenn máttu í fyrstu láta sér nægja gamla bragga frá stríðsárunum til íbúðar á meðan unnið var að byggingu hentugs hús- næðis. Allt fram til ársins 1987 er flugstöð Leifs Eiríkssonar var tekin í notkun þurftu ferðamenn til og frá landinu að fara um varnarsvæðið á Keflavík- urflugvelli. Í rúmlega 30 ár var því haldið þar uppi öryggisgæslu og fyrir kom að bílaraðir mynduðust. Mörgum þótt óeðlilegt að Íslendingar skyldu þurfa að sæta eftirliti á eigin landi en í hliðinu var ekki síður fylgst með ferðum hermanna af Vellinum. Ólafur Björnson, útgerðarmaður í Keflavík, segir að varnarliðsmenn hafi mátt sætta sig við að lifa sem „dýr í búrum“ allt þar til þessu fyrirkomulagi var breytt í utanríkisráðherratíð Jóns Baldvins Hanni- balssonar. Braggalíf Hliðið

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.