Morgunblaðið - 11.06.2002, Qupperneq 11
FRÉTTIR
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 11. JÚNÍ 2002 11
IÐKENDUR Falun Gong, sem eru
komnir hingað til lands í tilefni
heimsóknar Jiang Zemin forseta
Kína, segja að þeir hyggist í einu
og öllu hlíta íslenskum lögum og
reglum meðan þeir koma boðskap
sínum á framfæri, en þetta kom
fram á fundi sem iðkendurnir
héldu í gær. Á fundinum var lesin
yfirlýsing frá þeim þar sem fram
kom ákall til íslensku þjóðarinnar
vegna þess að útlit er fyrir að
margir iðkendur Falun Gong fái
ekki inngöngu í landið, eins og þeir
höfðu ráðgert, vegna komu Jiang
Zemin.
Talsmaður Falun Gong á fund-
inum, Joel Chipkar, benti á að á
síðastliðnum þremur árum hafi yfir
100.000 iðkendur Falun Gong í
Kína verið sendir í fangelsi, vinnu-
búðir og á geðsjúkrahús og margir
hafi sætt pyntingum eða verið
myrtir og þessar ofsóknir séu enn í
fullum gangi. Ástæðan fyrir komu
Falun Gong-iðkenda til Íslands
núna sé að vekja athygli á þessu.
Chipkar sagði að þau teldu sig hafa
fengið hlýjar móttökur á Íslandi og
fundið fyrir stuðningi hér. Enn sé
ekki ljóst hvaða staði í Reykjavík
þau muni nota til að vekja athygli á
málstað sínum, en það verði vænt-
anlega á stöðum þar sem almenn-
ingur geti vel séð iðkendurna.
„Við viljum að forseti Kína viti
að hvert sem hann fer í heiminum,
getur hann ekki losað sig undan
þeirri staðreynd að hann hefur
valdið því að margt saklaust fólk
hefur verið pyntað og myrt, ein-
ungis vegna löngunar sinnar til að
leggja stund á Falun Gong,“ sagði
Chipkar. Á fundinum var bent á að
víðast hvar væru stjórnvöld um-
burðarlynd gagnvart Falun Gong-
iðkendum enda væru þeir þekktir
fyrir friðsemi. Að sögn talsmann-
anna er ekki vitað til þess að það
hafi gerst áður að iðkendum Falun
Gong hafi verið neitað um inn-
göngu í lönd, fyrir utan Hong
Kong, sem nú sé hluti af Kína. Þau
sögðust hafa komið til Íslands með
góðum fyrirvara í þeim tilgangi að
hafa tal af stjórnvöldum og skipu-
leggja aðgerðir hér í samræmi við
þau svo sjá mætti til þess að allt
færi fram samkvæmt lögum og
reglum.
Blaðamannafundur á vegum Falun Gong-iðkenda
Aðgerðirnar á
Íslandi einsdæmi
í heiminum
Morgunblaðið/Jim Smart
Lillian Staf frá Svíþjóð og Kanadamaðurinn Joel Chipkar voru talsmenn
Falun Gong-iðkendanna sem komnir eru til Íslands á fundi sem þeir
héldu í gær.
KÍNVERSKUR almenningur
komst fyrst í kynni við Falun
Gong árið 1992, en að sögn iðk-
enda felst Falun Gong í fimm ein-
földum líkamsæfingum og til-
einkun kjörorðanna sannleikur,
samúð og umburðarlyndi. Falun
Gong breiddist hratt út og árið
1999 hófu kínversk stjórnvöld af-
skipti af iðkendunum. Nokkrir
iðkendur Falun Gong eru staddir
hér á landi og hyggjast vekja at-
hygli á málstað sínum á meðan á
heimsókn Jiang Zemin, forseta
Kína, stendur yfir. Morgunblaðið
ræddi við fjóra þeirra í gær og
kom fram í máli þeirra að nú
iðka hátt í 100 milljónir Kínverja
Falun Gong..
Dana Cheng fæddist í Kína og
ólst þar upp, en fluttist fyrir ára-
bili til Bandaríkjanna til að
leggja stund á doktorsnám í eðl-
isfræði. Hún er nú bandarískur
ríkisborgari og býr og starfar í
Washington DC, en Cheng hóf
stundun Falun Gong eftir að hún
fluttist til Bandaríkjanna. Hún
telur að ofsóknir kínverskra
stjórnvalda gegn iðkendum Falun
Gong hafi stafað af ótta þeirra
við þann fjölda Kínverja sem þá
hafi verið farinn að leggja stund
á Falun Gong.
„Iðkun Falun Gong var orðin
vinsælli en ráðamönnum líkaði.
Kjörorðin þrjú, sannleikur, sam-
úð og umburðarlyndi, eru ólík
hugmyndafræði kommúnista og
sú staðreynd að iðkendur Falun
Gong voru orðnir fleiri en með-
limir í kínverska Komm-
únistaflokknum féll ekki vel í
kramið. Stjórnvöld urðu óttasleg-
in jafnvel þótt við höfum enga
pólitíska skírskotun“ segir
Cheng.
Sjálf segist hún þekkja fólk í
Kína sem hefur orðið fyrir
barðinu á stjórnvöldum þar
vegna iðkunar á Falun Gong. „Ég
á fimm vini í Kína sem hafa verið
sendir í fangelsi eða vinnubúðir,“
segir Cheng. Einn vinur minn
sem lagði stund á doktorsnám í
Tsinghua-háskólanum, sem er
virtasti háskóli í Kína og hafði
lokið námi sínu, fékk ekki að út-
skrifast einfaldlega vegna þess að
hann iðkaði Falun Gong og það
varð einnig til þess að hann gat
ekki þegið stöðu sem honum
bauðst í Bandaríkjunum þar sem
hann fékk ekki fararleyfi. Síðar
var hann sendur í vinnubúðir, þar
sem hann er enn, og átti barns-
hafandi eiginkona hans í engin
hús að venda eftir þetta. Annar
vinur minn var settur í varðhald
þar sem hann hefur verið í meira
en eitt ár, en ekki hefur tekist að
finna nein ákæruatriði á hann. Á
meðan hafa kona hans og börn
ekkert til að lifa á,“ segir hún.
Viljum samvinnu við
íslensk yfirvöld
Cheng segir að hópurinn sem
hingað er kominn vilji samvinnu
við íslensk lögregluyfirvöld. „Það
eina sem við förum fram á er að
Jiang Zemin hætti ofsóknum sín-
um á hendur iðkendum Falun
Gong, boðskapur okkar er ekki
pólitískur. Markmið okkar er
ekki að breyta samfélaginu, að-
eins að biðja um rétt til að iðka
Falun Gong,“ segir hún.
Cheng bendir á að kínverskir
fjölmiðlar, sem allir eru í rík-
iseigu, hafi haft uppi mikinn
áróður gegn Falun Gong og reynt
sé eftir megni að gera iðkendur
Falun Gong tortryggilega, þetta
hafi svo breiðst út um heim allan.
Iðkendur Falun Gong í Kína eigi
óhægt um vik með að koma skila-
boðum áleiðis til umheimsins og
segir hún dæmi þess að maður
sem sendi tölvupóst frá Kína til
Bandaríkjanna, þar sem hann
lýsti ástandinu, hafi fyrir vikið
hlotið í Kína þriggja ára fangels-
isdóm.
Norðmaðurinn Peder Giertsen
og sænsk kona hans Annika
Giertsen búa í Ósló í Noregi og
kynntust þau Falun Gong fyrir
þremur árum. Peder segir að kín-
versk stjórnvöld hafi þar til fyrir
nokkrum árum verið mjög stolt
af Falun Gong og hvatt kínverska
þegna í útlöndum til iðkunar þess
og var hægt að fá kennslu í því í
kínverskum sendiráðum.
„Ég hóf að stunda Falun Gong
því það gerði mér gott,“ segir
Peder og Annika segist hafa fylgt
í kjölfarið. „Við erum hér á Ís-
landi núna til að upplýsa almenn-
ing um Falun Gong og vekja at-
hygli á þeim ofsóknum sem
iðkendur þess verða fyrir í Kína.
Við teljum það skyldu okkar að
taka þessu ekki með þegjandi
þögninni og höfum farið víða um
Evrópu í sömu erindagjörðum.
Mér finnst það sem er að gerast í
Kína núna að sumu leyti sam-
bærilegt við það sem átti sér stað
á uppgangstíma nasismans í
Þýskalandi á fjórða áratug tutt-
ugustu aldar “ segir Peder.
Spurður um viðbrögð íslenskra
stjórnvalda við komu Falun
Gong-iðkenda til Íslands segir
Peder að honum finnist þau sorg-
leg. „Þið eruð aðilar að norrænni
samvinnu en þar hafa lönd á borð
við Svíþjóð tekið allt aðra afstöðu
til málsins,“ segir hann. Peder
tekur fram að mikilvægt sé að
það komist til skila að þetta snú-
ist ekki um stjórnmál heldur
mannréttindi, en auðvitað sé
þetta þó inni á hinu pólitíska
sviði.
Zhi-ping C. Kolouch fluttist frá
Kína til Bandaríkjanna fyrir 16
árum og býr í Seattle í Banda-
ríkjunum þar sem hún rekur eig-
in læknastofu og hefur hún lagt
stund á Falun Gong í meira en
sex ár. „Ég kem hingað til að láta
Íslendinga vita af því sem er að
gerast í Kína, ég veit að Íslend-
ingar eru fordómalaus þjóð.
Ástandið í Kína er mjög alvar-
legt, verið er að pynta og myrða
fólk á hverri mínútu. Sem dæmi
get ég nefnt að vinkona mín í
Kína, sem var 25 ára gömul, var
handtekin og flutt á lögreglustöð
og viku síðar var ösku hennar
skilað til ættingja hennar,“ segir
Kolouch.
Höfum ekkert með
stjórnmál að gera
Kolouch bendir á að Falun
Gong séu ekki trúarbrögð, heldur
andleg iðja. Við eigum ekki
kirkju, musteri og ekki einu sinni
skrifstofu og allar okkar aðgerðir
eru unnar í sjálfboðavinnu. Við
höfum ekkert með stjórnmál og
völd að gera, kínversk stjórnvöld
eru hins vegar hrædd vegna þess
fjölda sem iðkar Falun Gong, þeir
vilja stjórna huga fólks,“ segir
hún.
Kolouch segir að færi hún til
Kína yrði hún mjög sennilega
handtekin. „Mér finnst ég gera
meira gagn á Vesturlöndum við
að upplýsa fólk þar um það sem
er að gerast í Kína,“ segir
Koluch.
Vilja að ofsókn-
um á hendur
iðkendum
í Kína linni
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þau Zhi-ping C. Kolouch, Dana Cheng, Peder og Annika Giertsen eru hingað komin til að kynna málstað Falun
Gong-iðkenda meðan á heimsókn Jiang Zemin, forseta Kína, stendur.
Í PISTLI á heimasíðu sinni seg-
ir Björn Bjarnason, oddviti
sjálfstæðismanna í borgar-
stjórn og fyrrv. menntamála-
ráðherra, að það veki undrun
„hve víðtækar öryggisráðstaf-
anir þarf að gera vegna komu
Jiangs Zemins, forseta Kína, til
landsins, þegar ákvörðun er
tekin um að loka landamærun-
um fyrir hópi fólks, sem leggur
stund á Falun Gong eða Falun
Dafa, eins og æ fleiri kalla þær
andlegu og líkamlegu æfingar,
sem helst eru taldar ógna veldi
kínverska kommúnistaflokksins
um þessar mundir. Er harka-
legt, að gera iðkendur Falun
Gong útlæga frá Íslandi, á með-
an kínverski valdsmaðurinn er
hér á landi með miklu fylgdar-
liði sínu,“ segir Björn.
Hann rekur sögu Falun Gong
og hvernig kínversk stjórnvöld
hafa markvisst unnið að því að
uppræta hreyfinguna. „Stríð
kínverskra valdamanna við fé-
laga í Falun Gong er ekki háð
innan landamæra Kína heldur
teygir sig um alla veröldina eins
og við Íslendingar fáum að
reyna núna. Á milli Kína og Ís-
lands er himinn og haf, þegar
litið er til virðingar fyrir ein-
staklingnum og réttindum hans.
Vissulega er nauðsynlegt hér
eins og annars staðar að gera
ráðstafanir til að tryggja öryggi
opinberra, erlendra gesta. Í
þeim efnum verður hins vegar
að gæta þess meðalhófs, sem á
við í öllum samskiptum manna,“
segir Björn.
Ekki hugmynda-
fræðileg tengsl
Björn er einn þeirra sem
leggur stund á chi kung eða qi-
gong. Sérstakt félag var stofnað
um þessar æfingar hér á landi 1.
júní sl. Segir Björn að þess sé
gjarnan getið að æfingarnar
sem stundaðar eru af Falun
Gong hreyfingunni, eigi rætur í
qigong-æfingunum.
„Þetta er í raun hið eina, sem
tengir Falun Gong við qigong,
því að ekki er þar um nein hug-
myndafræðileg tengsl að ræða.
Ég sé í blaðagreinum, að rætt
er um qigong, sem kínverska
bardagalist, sem er misskilning-
ur, því að qigong snýr að rækt-
un einstaklingsins fyrir hann
sjálfan en ekki til bardaga við
aðra. Hitt má til sanns vegar
færa, að það tryggir góðan ár-
angur í kínverskri bardagalist
að tileinka sér þá lífsorkustjórn,
sem qigong tryggir,“ segir
Björn að lokum.
Björn Bjarnason
Harkaleg-
ar aðgerðir