Morgunblaðið - 24.11.2002, Side 12
12 SUNNUDAGUR 24. NÓVEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
EFTIR fjögurra ára undirbúning og síðanfimm ára starf við Þriggja gljúfra stífl-una var í liðinni viku lokað síðustusmugunni á vatnsrennsli Jangtze við
aðalstífluna og þar með bundinn endi á á frjálst
flæði lengsta fljóts Kína (og þriðja lengsta fljóts
jarðar). Aðalstíflan hefur þegar verið reist og er
reiðubúin að takast á við allt vatnsflóðið í ánni
sem frá 1997 hefur aðeins haft um 665 metra
breiða rennu til að streyma um. Um rennuna
hafa skip einnig siglt en Jangtze er mikil sam-
gönguæð. Á hverju ári eru fluttar um 10 millj-
ónir tonna af varningi og einnig tugþúsundir
farþega á skipum og fljótaprömmum um elfuna
miklu.
Meðan verið er að reisa síðasta hluta aðalstífl-
unnar í rennunni næstu sex mánuðina munu
skip hins vegar ekki geta siglt um stíflusvæðið
og aðeins lítill hluti vatnsins mun fá að renna í
gegnum opin á stíflunni. Hægt er að stýra vand-
lega vatnsmagninu um opin. Um leið og loka-
hluti stíflunnar er reistur verður gengið frá flóð-
gáttinni fyrir skipin og skipastiganum í
rennunni. Þegar því verður lokið næsta sumar
verður aftur leyfð umferð um fljótið. Er gert ráð
fyrir að eftir framkvæmdirnar verði hægt að
fimmfalda flutningana um fljótið og þeir verði
þá um 50 milljónir tonna af varningi ár hvert –
ekki síst vegna þess að þar sem dýpið vex við
stíflugerðina verður hægt að sigla stórum skip-
um alla leið til hafnar á stærstu borgarsvæði
heims umhverfis Chongqing en á svæðinu búa
um 32 milljónir íbúa.
Yfirborð fljótsins ofan við stífluna mun nú
byrja að stíga en hægt og er talið að mörg ár líði
áður en það nær endanlegri hæð, 175 metrum.
Miðað er við að yfirborðið verði aldrei hærra en
180,4 metrar en sjálfur stífluveggurinn er 185
metrar. Vatnsmagnið verður samt nóg þegar í
ágúst á næsta ári til þess að rafmagnsfram-
leiðsla getur þá hafist. Er þá ráðgert að gang-
setja fjóra af alls 26 hverflum virkjunarinnar en
þegar hún verður öll komin í gagnið árið 2009 á
hún að framleiða 84,7 milljarða kílóvattstunda
árlega.
Mjög hefur verið deilt um stífluna og virkj-
unina sem er gamall draumur Kínverja er verð-
ur nú loks að veruleika. Þeir hafa orðið að fá að-
stoð erlendis við að hrinda verkinu í fram-
kvæmd, yfir 6.000 sérfræðingar frá um 50
löndum hafa komið við sögu. Upphaflega var
markmiðið með Þriggja gljúfra áætluninni ekki
endilega að framleiða rafmagn heldur að ná
stjórn á árvatninu sem hefur öldum saman með
reglulegu millibili flætt yfir bakka Jangtze og
orðið hundruðum þúsunda manna að bana. Árið
1931 fórust 145.000 manns í flóðum í fljótinu
sem er um 6.300 kílómetrar að lengd. Fjórum
árum síðar fórust 142.000 en fram til 1949 hélt
áin síðan nokkurn veginn friðinn. Þá urðu all-
mikil flóð og 5.669 manns létu lífið en árið 1954
varð enn mikið manntjón, þá fórust 33.169. Síð-
asta flóðið var 1998 og fórust þá 1.526 – og í
hverju flóði hafa milljónir manna misst heimili
sín vegna þess að vatnselgurinn hefur rifið með
sér húsin.
Mannvirkin ættu að tryggja nokkurn veginn
að miklar hamfarir verði úr sögunni. Sérfræð-
ingar segja að samkvæmt útreikningum þeirra
verði nú aðeins hætta á miklum flóðum einu
sinni á 10.000 ára fresti…
Gamall draumur rætist
Á síðari tímum hefur hugmyndin um raforku-
framleiðslu og ekki eingöngu stjórn á vatninu
komið fram á sjónarsviðið. Kínverska þingið
ákvað loks árið 1993, þrátt fyrir harða andstöðu
alþjóðlegra umhverfisverndarsamtaka, að hefja
framkvæmdir við stíflugerðina um miðbik
fljótsins, við smáborgina Yichang.
Verkefnið mun taka 16 ár og kosta alls um
2.300 milljarða íslenskra króna sem er hins veg-
ar um 230 milljörðum lægri fjárhæð en í upphafi
var reiknað með. Lu Youmei er framkvæmda-
stjóri fyrirtækisins sem var falið að hafa umsjón
með verkinu, China Yangtze River Three Gorg-
es Project Development Corporation. Hann
segir að í fyrsta áfanganum hafi farið fram mat
á umhverfinu, áætlanagerð og annar nauðsyn-
legur undirbúningur. Annar áfangi mun taka
sex ár og einnig hinn þriðji sem hefst í júní 2003.
Stíflan mikla var reist í öðrum áfanga, hún verð-
ur 2.309,47 metrar að breidd milli árbakkanna
og 185 metra há. Sem áður segir er nú aðeins
eftir að reisa síðustu 665 metrana við suður-
bakkann og gert ráð fyrir að því verki ljúki í júní
á næsta ári.
Um 28.000 manns hafa unnið á vöktum við
stíflugerðina nótt sem dag frá 1997 og í liðinni
viku lokuðu þeir rennunni með tveim bráða-
birgðastífluveggjum sem notaðir verða á meðan
endanleg stífla verður kláruð. Samtímis er hald-
ið áfram að vinna við skipastiga með tveim
rennum. Hann verður alls 1.607 metra langur
og skiptist í fimm hluta er geta í áföngum lyft
allt að 10.000 tonna skipum samanlagt 175
metra eða látið þau síga séu þau á leið niður
fljótið. Einnig er haldið áfram að koma fyrir
geysistórum hverflunum sem eiga að framleiða
rafmagn handa iðnfyrirtækjum og heimilum í
nálægum héruðum og stórborgunum Chongq-
ing, Wuhan og Shanghai. Auk áðurnefnds
skipastiga er verið að smíða skipalyftu sem
verður sú stærsta í heimi og er henni ætlað að
lyfta farþegaskipi í einu vetfangi eða láta það
síga. Lyftan verður mun fljótvirkari en skipa-
stiginn, sem aðallega er ætlaður vöruflutninga-
skipum, en á hinn bóginn getur hún aðeins ann-
ast eitt skip í senn.
Alls verða notuð 265.000 tonn af járni og stáli
í stífluna, virkjunina og aðrar framkvæmdir í
tengslum við áætlunina. Kínverska ríkið hefur
þurft að taka stór lán jafnt innan lands sem utan
til að fjármagna verkið en einnig hafa verið gef-
in út ríkisskuldabréf og lagður sérstakur skatt-
ur vegna áætlunarinnar á rafmagnssölu í öllu
landinu vegna fyrstu áfanganna tveggja. Síð-
asta áfangann á hins vegar að fjármagna með
sölu á raforku frá Þriggja gljúfra virkjuninni.
Ríkisstjórnin segir að orkuverinu, sem fram til
þessa hefur verið ríkisstofnun, muni verða
breytt í hlutafélag á markaði og verður þá hægt
að fá aukið fjármagn með sölu á hlutabréfum,
einkum til að kaupa hverflana og annan búnað.
Orkuframleiðsla á næsta ári
Gangi áætlanir eftir mun virkjunin framleiða
5,5 milljarða kílóvattstunda á næsta ári og verð-
ið hefur þegar verið ákveðið, um 2.80 ísl kr. kíló-
vattstundin sem er nokkru lægra en meðalverð-
ið í Kína og ætti það að tryggja að það sé
samkeppnishæft. Hverflarnir, þeir stærstu í
heimi, framleiða 700 megavött hver og alls
munu þeir því geta framleitt 18,2 þúsund mega-
vött. Orkuverin eru í reynd tvö, annars vegar
það sem nú er verið að reisa við norðurenda
stíflunnar og er með 12 hverfla og annað með 14
hverfla sem verður reist við suðurendann en
verður ekki tilbúið fyrr en næsta sumar. Fyr-
irtækin sem reisa verin eru General Electric,
ABB, Siemens, Alstom, Voith og einnig tekur
þátt í verkinu fjöldi undirverktaka frá Japan og
Rússlandi.
Uppistöðulónið ofan við stífluna er umkringt
1.000–1.500 metra háum fjöllum og um 1.084
ferkílómetrar að stærð. Það nær yfir 635 kíló-
metra vegalengd frá stíflunni og að Chongqing.
Mun lónið geta rúmað allt að 39,3 milljarða rúm-
metra af vatni þegar framkvæmdum er lokið.
Þótt Þriggja gljúfra stíflan sé í heild lang-
stærsta verkefni sinnar tegundar í sögunni og
mun stærra en Aswan-stíflan í Egyptalandi eru
23 uppistöðulón í heiminum stærri en væntan-
legt lón í Jangtze.
Rúmlega 1,1, milljón verður að flytja á brott
Um 22,15 milljarðar rúmmetra af áðurnefndu
vatni í lóninu eiga að vera til staðar sem eins
konar öryggisventill til að stýra vatnsmagninu
með tilliti til þurrka og flóða. Ef nauðsyn krefur
er hægt að hleypa alls 102.500 rúmmetrum af
vatni á sekúndu gegnum opin á stífluveggnum!
Að sögn Guo Shuyans, sem er formaður op-
inberrar nefndar er annast eftirlit með mann-
virkjagerðinni, verður að flytja 1,13 milljón
manna á brott af svæðunum sem fara undir vatn
þegar lónið er búið að ná fullri hæð. Þegar sé
búið að flytja 646.000 manns sem bjuggu á
lægstu svæðunu við fljótið en hinir verði fluttir
smám saman burt á næstu árum. Reistar hafi
verið nýjar borgir og þorp handa fólkinu á
svæðum sem liggja hærra. Kostnaðurinn vegna
brottflutningsins er áætlaður um 920 milljarðar
ísl. kr. og er því drjúgur hluti heildarkostnaðar-
ins við heildarframkvæmdina. Tvær stórar
borgir, 11 minni borgir og 116 þorp hverfa undir
vatn.
Þegar lokið verður við síðasta hluta aðalstífl-
unnar næsta sumar fækkar starfsmönnum í fá-
ein þúsund sem ljúka við það sem eftir verður.
Ekki er þó talið að atvinnuleysi á svæðinu aukist
þar sem verkamennirnir koma flestir frá öðrum
héruðum Kína. Þjónustufyrirtæki sem hagnast
nú á verkamönnunum vona að skaðinn verði
bættur með fjölda ferðamanna er muni ekki ein-
göngu koma til að dást að mannvirkjunum nýju
heldur einnig til að njóta náttúrufegurðar við
Jangtze í grennd við gljúfrin þrjú.
Gljúfrin við fljótið, sem heita Qutang, Wuxia
og Xiling, eru alls um 200 kílómetra löng og
þangað hafa ferðamenn lengi flykkst. Embætt-
ismenn vísa því á bug að landslagið verði eyði-
lagt með framkvæmdunum.
„Stórkostlegt, nýtt landslag á Þriggja gljúfra
svæðinu mun verða til þegar lónið verður fyllt.
Nýir ferðamannastaðir munu ljúkast upp og
þótt sumt af því gamla hverfi fyrir fullt og allt
munu nýju staðirnir vega margfalt þyngra,“
segir Wang Liming hjá ferðamálaráði Kína en
hann er með ferðamál á gljúfrasvæðinu á sinni
könnu. Hann segir ennfremur að um 1.200 forn-
leifafræðingar hafi verið að störfum frá því að
hafist var handa en ljóst er að mikilvægar leifar
hverfa undir vatnið.
Þegar hafa tugþúsundir fornleifa verið grafn-
ar upp og fluttar burt á ný söfn í öruggri fjar-
lægð frá lóninu. Fortíðin mun því ekki hverfa al-
gerlega í nafni framfara og framtíðarinnar.
Reuters
Aðalstíflan í Þriggja gljúfra virkjuninni í Jangtze-fljóti í héraðinu Hubei í Kína, í fjarska grillir í syðri bakka fljótsins. Mannvirkin verða hin mestu sinnar
tegundar í öllum heiminum en sjálf aðalstíflan yfir fljótið er um 2,3 kílómetrar að lengd. Hún er 185 metrar að hæð.
Jangtze-fljót tamið
Nýlega var lokað síðasta gatinu
sem eftir var á Þriggja gljúfra stífl-
unni miklu í Kína. Í grein Niels
Peters Arskogs, fréttaritara Morg-
unblaðsins í Kína, kemur fram að
mannvirkinu hafi í upphafi eink-
um verið ætlað að koma í veg fyrir
mannskæð flóð en nú séu ekki síð-
ur bundnar vonir við raforku-
framleiðsluna.
Síðustu glufunni í farvegi Jangtze lokað áður en byrjað var á lokaáfanga stíflunnar.
’ Um 28.000 mannshafa unnið á vöktum við
stíflugerðina nótt sem
dag frá 1997. ‘