Morgunblaðið - 15.09.2003, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 15.09.2003, Blaðsíða 14
LISTIR 14 MÁNUDAGUR 15. SEPTEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ hvað vill fólkið? Í UPPHAFI þessa leikrits ríkir óöld í Hálsaskógi. Hin smærri dýr eiga fótum fjör að launa undan ásælni rándýranna, Mikka refs, ugl- unnar og Patta broddgaltar. Eftir að amma Marteins skógarmúsar slepp- ur fyrir tilviljun úr klóm Patta finnst Marteini kominn tími til að koma á fót samfélagi þar sem farið verður eftir lögum. Vandinn felst í því að lögin taka ekki tillit til þess minni- hluta dýranna sem ekki getur nærst af gróðri jarðar (Mikki refur) eða hafa ekki áhuga á að eyða dýrmæt- um tíma sínum í að safna sér mat (Lilli klifurmús). Leiknum lýkur á því að þessir tveir fyrrverandi fjand- menn vinna saman gegn vá sem steðjar að hinu litla samfélagi, leysa vandann og sanna að þó að þeir falli ekki inn í ramma hins þrönga sam- félags þá hafi þeir sannað gildi sitt sem fullgildir meðlimir í því. Dýrin í Hálsaskógi er best samið þeirra verka norska leikskáldsins Thorbjörns Egners sem hafa verið leikin hér á landi. Verkið er byggt upp af fjölbreyttum og eftirminni- legum atriðum sem öll eru nauð- synlegur hlekkur í keðjunni. Samúð höfundarins er greinilega með ut- angarðsmönnunum í þessu sam- félagi, þeim sem falla utan hóps þeirra sem reyna að fara sérstak- lega snemma að sofa til að geta farið sem allra fyrst á fætur á morgnana, svo vitnað sé í ömmu skógarmús. Enda fer ekki framhjá neinum að þeir sem eru frábrugðnir fjöldanum í verkinu eru athyglisverðustu per- sónurnar. Það þarf varla að taka fram að Dýrin í Hálsaskógi hafa ásamt öðru verki Egners, Kardimommubænum, haft gríðarleg áhrif á íslenska barns- hugi í yfir fjörutíu ár. Dýrin í Hálsa- skógi sáust fyrst á sviði Þjóðleik- hússins 1962 og hljóðritun sem gerð var 1966 er enn fáanleg, síðustu 9 árin á geisladisk. Bók með sögunni og teikningum höfundar hefur einn- ig verið fáanleg síðan 1978. Þjóðleikhúsið setur nú þessa sýn- ingu upp í fjórða sinn, hún hefur einnig verið leikin af Leikfélagi Ak- ureyrar auk þess sem leikritið er sennilega það verkefni sem áhuga- leikfélög á landinu taka oftast til sýninga. Það er ekki einfalt mál fyrir Sig- urð Sigurjónsson að takast á hendur leikstjórn þessa verks. Hann verður að standa undir kröfum um að ná á sama tíma að skapa nýja og ferska sýningu án þess að missa tengslin við frumuppfærsluna sem er meitluð í huga stórs hluta þjóðarinnar. Með hjálp Brians Pilkingtons sem hann- ar leiktjöldin og Þórunnar Maríu Jónsdóttur búningahönnuðar, Jó- hanns G. Jóhannssonar tónlistar- stjóra og Halldórs Arnar Óskars- sonar sem hannaði lýsinguna hefur Sigurði tekist hvort tveggja. Hann hefur notað til hins ýtrasta þá mögu- leika sem hvert atriði fyrir sig gefur og notar hvert tækifæri til að bregða á leik með skrípalátum og hama- gangi ef nokkurt tækifæri gefst til. Það er ekkert til sparað að gera þessa lit- og safaríku sýningu sem best úr garði. Skógurinn verður í meðförum Brians Pilkingtons töfraveröld ljóss og lita. Laufformið er ráðandi, jafnt á baktjöldunum sem á regnhlíf ömmu skógarmúsar. Svo er brugðið á leik þegar kemur að arkitektúr íverubústaða: bakarí Hérastubbs, greni Mikka og heimili Marteins eru geipilega skemmtilegar byggingar. Sem dæmi um þá natni er lögð er í sýninguna má nefna atriðið þar sem Mikki stelur svínslærinu úr skemm- unni. Leitað er í smiðju hryllings- myndasmiða til að skapa viðeigandi umhverfi; þokuslæðingur, fullt tungl og viðeigandi tónlist minna áhorf- endur á hve mikið hættuspil er að eiga samskipti við mannfólkið. Þröstur Leó Gunnarsson leikur Mikka ref af miklum krafti og út- sjónarsemi. Það greip um sig mikil skelfing meðal allra yngstu áhorf- endanna þegar hann birtist á sviðinu í upphafi leiks og hræðsla hinna per- sónanna endurspeglaðist gjarnan í viðbrögðum í salnum. Annars reyn- ist Mikki í meðförum Þrastar Leós oftar seinheppinn og fyndinn en ógnvekjandi. Hann öðlast á endan- um samúð áhorfenda óskipta eftir stórkostlega hetjudáð enda ekki hægt annað en að hrífast af hinum viðkvæma en þrautseiga utangarðs- manni sem Þröstur Leó skapar á sviðinu með þessa líka rymjandi söngrödd. Auk þessa reynir mikið á líkamlega fimi í hlutverkinu, vanur áhættuleikari ætti sennilega fullt í fangi með að taka þarna hvern skell- inn á fætur öðrum. Atli Rafn Sigurðarson er fæddur í hlutverk Lilla klifurmúsar. Hann túlkar vel lífsgleði hans og sköpun- arþrá, en jafnframt græðgi hans og sjálfsánægju. Hér er lögð áhersla á þó að Lilli brjóti ekki beint lögin þá er hegðun hans greinilega á skjön við anda laganna. Söngurinn er til fyrirmyndar og verður eins og allt annað Lilla að leik. Gítarsólóið og rokktaktarnir færðu Lilla svo nær nútímanum og brugðu upp í svip- mynd hvar Lilla væri helst að finna í þjóðfélagi okkar. Kjartan Guðjónsson túlkaði vel reglufestu, smásmygli og tilfinn- ingasemi Marteins skógarmúsar. Þarna er lifandi komið dæmi um baráttumann fyrir almennum rétt- indum sem er svo lífsins ómögulegt að setja sig í annarra spor að hann treður óafvitandi á þeim sem falla ekki innan þess þrönga ramma sem hann gefur sér um rétthegðun og rétthugsun. Ragnheiður Steindórsdóttir lék ekki bara ömmu skógarmús heldur gegndi hún hlutverki tengiliðs við fortíðina. Búningur, dans, raddbeit- ing og leikur ömmunnar taka mið af gamla revíustílnum sem aðdáendur Nínu Sveinsdóttur í frumuppfærsl- unni ættu að kannast við. Í raun eru Dýrin í Hálsaskógi að formi til revía, sem kannski skýrir að nokkru leyti hinar gífurlegu vinsældir sem verkið hefur notið í tímans rás. Frammi- staða Ragnheiðar gaf innsýn í og tengsl við þann bakgrunn sem verk- ið er sprottið úr og er meistaraleg. Hérastubbur bakari og bakara- drengurinn eru leiknir af Pálma Gestssyni og Friðriki Friðrikssyni. Útlit persónanna og persónusköpun tekur mið af hugmyndum Thor- björns Egners en þeir félagar Pálmi og Friðrik leika hlutverkin af mikl- um krafti og innlifun og bæta við smáskotum frá eigin brjósti með frá- bærum árangri. Bangsafjölskyldan er leikin af Erni Árnasyni, Lilju Guðrúnu Þor- valdsdóttur og Sigurði Þórhallssyni. Þessar persónur eru frá höfundarins hendi frekar einhliða týpur, útlitið og látbragðið gefur til kynna að þetta séu umfram allt bestu skinn en ekkert umfram það. Það vantaði meiri innlifun í bangsahjónin þegar bangsi litli hvarf, það virtist lítil al- vara á bak við kveinstafina en bangsi litli var fullkominn sem hið krúttlega fórnarlamb. Brynhildur Guðjónsdóttir lék og söng með prýði hlutverk húsamús- arinnar, sem þrátt fyrir að hún sé smádýr finnst best að borða kjöt. Hún er söngstjarna í leit að aðdá- endum og þó að samdráttur hennar og Mikka refs hafi komið áhorfend- um í opna skjöldu gefur hann ein- hverja von um að hlutur Mikka verði skaplegri í framtíðinni en hefðbund- in túlkun leikritsins býður upp á. Björgvin Franz Gíslason var óvenju illilegur sem Patti broddgölt- ur og átti góða spretti, í orðsins fyllstu merkingu, sem hundurinn Habakúk. Margrét Guðmundsdóttir og Sigríður Þorvaldsdóttir léku hin undarlegu hlutverk uglunnar og krákunnar, sem virðast helst lifandi eftirlitsmyndavélar. Jóhann Sigurð- arson lék elginn, tókst vel að sýna stærð hans og stirðleika og tjáði sig fjálglega um hve stærri dýrin líta í raun niður á mýsnar ? enn einn punkturinn um að fleira skilji að íbúa Hálsaskógar en á hverju þeir kjósa að nærast. Randver Þorláks- son og Anna Kristín Arngrímsdóttir léku manninn og konuna á bænum eins og hægt er að ætlast til af jafn vanþakklátum hlutverkum nema hvað þau virtust of sein í einni inn- komunni á sviðið sem setti losara- brag á lokahluta frumsýningarinn- ar. Sindri Már Ágústsson, Hildur Margrét Jóhannsdóttir, Sigurbjart- ur S. Atlason, Erna Ósk Arnardótt- ir, Gunnhildur Eva Gunnarsdóttir, Ragnheiður Lóa Stefánsdóttir og Sólrún María Arnardóttir léku mýs og íkornabörn og settu mikinn svip á sýninguna og vöktu óspillta kátínu sýningargesta með uppátækjum sín- um. Hljómsveitin náði góðri og oft þéttri sveiflu í þessum alkunnu lög- um. Hljómlistin í sýningunni var að mestu leyti í hefðbundinni útsetn- ingu sem hæfir revíustílnum þó að á stundum sé brugðið á leik í takt við annað í heildarbrag sýningarinnar. Margir búningar Þórunnar Maríu Jónsdóttur tóku t.d. greinilega mið af hugmyndum og stíl höfundar sjálfs þó að hún leyfði sér töluvert frelsi innan þess ramma. Þeir eru gott dæmi um hve vel hefur tekist að sameina í einni sýningu gamalt og nýtt. Annað sem mætti nefna er frá- bærir söngtextar Kristjáns frá Djúpalæk og kjarnyrta, fallega þýð- ingin hennar Huldu Valtýsdóttur sem standa enn fullkomlega fyrir sínu og þola alveg að það sé snúið út úr einstaka atriði til að fá útrás fyrir sprellihneigð leikstjóra og leikara. Þessi sýning er frábært dæmi um hvernig er hægt að færa alþekkta, sígilda sýningu í nýjan og ferskan búning án þess að missa sjónar á þeim þáttum hennar sem öfluðu henni vinsælda í upphafi. LEIKLIST Þjóðleikhúsið Höfundur: Thorbjörn Egner. Höfundur tón- listar: Christian Hartmann og Thorbjörn Egner. Þýðing leiktexta: Hulda Valtýs- dóttir. Þýðing söngtexta: Kristján frá Djúpalæk. Leikstjóri: Sigurður Sig- urjónsson. Leikmynd: Brian Pilkington. Búningar: Þórunn María Jónsdóttir. Leik- gervi: Þórunn María Jónsdóttir og Árdís Bjarnþórsdóttir. Lýsing: Halldór Örn Ósk- arsson. Sviðshreyfingar: Ástrós Gunn- arsdóttir. Tónlistarstjóri: Jóhann G. Jó- hannsson. Hljóðfæraleikarar: Arna Kristín Einarsdóttir (flauta og piccolo- flauta), Ármann Helgason (klarinett), Guðmundur Pétursson (gítar), Jóhann G. Jóhannsson (píanó), Pétur Grétarsson (slagverk) og Richard Korn (kontra- bassi). Leikarar: Anna Kristín Arngríms- dóttir, Atli Rafn Sigurðarson, Björgvin Franz Gíslason, Brynhildur Guðjónsdóttir, Erna Ósk Arnardóttir, Friðrik Friðriksson, Gunnhildur Eva Gunnarsdóttir, Hildur Margrét Jóhannsdóttir, Jóhann Sigurð- arson, Kjartan Guðjónsson, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Margrét Guðmundsdóttir, Pálmi Gestsson, Ragnheiður Lóa Stef- ánsdóttir, Ragnheiður Steindórsdóttir, Randver Þorláksson, Sigríður Þorvalds- dóttir, Sigurbjartur S. Atlason, Sigurður Þórhallsson, Sindri Már Ágústsson, Sól- rún María Arnardóttir, Þröstur Leó Gunn- arsson og Örn Árnason. Laugardagur 13. september. DÝRIN Í HÁLSASKÓGI Utangarðsmenn í fyrir- myndarsamfélagi Morgunblaðið/Ásdís ?Þessi sýning er frábært dæmi um hvernig er hægt að færa alþekkta, sígilda sýningu í nýjan og ferskan búning án þess að missa sjónar á þeim þáttum hennar sem öfluðu henni vinsælda í upphafi.? Sveinn Haraldsson Á KJARVALSSTÖÐUM gefst nú kostur á að sjá verk myndhöggvar- ans Sæmundar Valdimarssonar. Verk hans hafa náð miklum vinsæld- um meðal þjóðarinnar fyrir sérstak- an stíl. Trémyndir sínar vinnur lista- maðurinn úr rekaviðardrumbum og sýna þær ævintýraverur hulduheima sem standa landsmönnum nærri í gegnum þjóðtrú og sagnaminni. Myndhöggvarinn, sem fagnaði 85 ára afmæli sínu á dögunum, hefur nú opnað heimasíðu á veraldarvefnum þar sem nálgast má fróðleik um ævi hans og störf. Slóðin er: http://www.saemundur- vald.is. Í tengslum við sýninguna, hinn 5. október, verður efnt til námskeiðs í tréskurði í samstarfi við Skógrækt ríkisins. Alla sunnudaga kl. 15 er leiðsögn um sýningar á Kjarvalsstöðum. Sýningin stendur til 12. október. Verk eftir Sæmund Valdimarsson. Trémyndir Sæmundar á Kjarvals- stöðum UPPFÆRSLA Staatstheater Braunschweig á óperunni Carm- en eftir Georges Bizet undir ber- um himni í mið- borg Braun- schweig, hefur fengið afbragðs dóma en Ólafur Árni Bjarnason, tenór, söng hlutverk Don José í uppfærslunni við afbragðs mót- tökur. ?Að lokinni sýningunni stóðu sumir frumsýningargestanna á önd- inni og svo varð þeim orða vant. Það sem þeir sáu og heyrðu í uppfærslu leikhússins í Braunschweig undir berum himni þetta kvöld gerði þá um stund algerlega orðlausa,? segir í umsögn Braunschweiger Zeitung um uppfærsluna og um Ólaf segir blaðið að hann hafi einnig ?heillað sýningargesti með afbragðs leik, fallegri röddu, glæstum hátónum og miklum krafti?. Ólafur Árni fær lof sem Don Jósé Ólafur Árni Bjarnason ???

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.