Morgunblaðið - 05.02.2004, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 05.02.2004, Blaðsíða 12
MIKIL tengsl eru á milli Sam- herja hf. á Akureyri, eins öflugasta sjávarútvegsfyrirtækis Íslands, og fjárfestingafélagsins Kaldbaks, sem einnig hefur aðsetur í höfuðstað Norðurlands. Kaldbakur er nú, eftir að Straumur varð að fjárfestingar- banka, stærsta skráða félag landsins á sviði fjárfestinga. Kaldbakur á 17,21% í Samherja hf. sem á svo aft- ur 25% hlut í Kaldbaki. Í stjórn Kaldbaks sitja m.a. Kristján Vil- helmsson, einn eigenda Samherja, og frændi hans, Þorsteinn Már Bald- vinsson, einn eigenda og forstjóri Samherja, er annar tveggja í vara- stjórn. Þá er Eiríkur S. Jóhannsson, framkvæmdastjóri Kaldbaks, annar tveggja varamanna í stjórn Sam- herja. Markaðsverð Kaldbaks í dag er um 10 milljarðar króna en markaðs- virði Samherja 16,6 milljarðar. 20 ára ævintýri Samherji fagnaði stórafmæli á síð- asta ári; þá voru tuttugu ár síðan frændurnir Þorsteinn Már Baldvins- son og Kristján og Þorsteinn Vil- helmssynir keyptu fyrirtækið og fluttu aðsetur þess til Akureyrar. Þá má segja að Samherjaævintýrið hafi hafist og stendur það enn. Starfsemi fyrirtækisins teygir anga sína víða um lönd. Saga Kaldbaks er ekki jafn löng, en grunnur félagsins þó mun eldri en stofndagurinn segir til um. Félagið var stofnað 1. janúar 2002 þegar Kaupfélagi Eyfirðinga var skipt í annars vegar samvinnufélag með á áttunda þúsund félagsmenn og hins vegar umrætt fjárfestingarfélag, sem heldur utan um eignir KEA svf. Kaupfélag Eyfirðinga hafði það að markmiði á sínum tíma að fjárfesta einungis í Eyjafirði en sú er alls ekki raunin með Kaldbak; þar er landið allt undir og útlönd einnig, ef svo ber undir. Kaldbakur var í upphafi byggður að talsverðu leyti upp í kringum óskráð bréf en eignarhlutir félagsins í litlum fyrirtækjum voru síðan settir inn í Sjöfn á Akureyri sem sinnir þeim nú. Arðsemi og áhætta Kaldbakur er skilgreindur sem arð- semis- og áhættufjárfestir. Markmið félagsins er „hámarka arð hluthafa með kaupum og sölu hluta- og skuldabréfa. Fjárfestingastefna fé- lagsins tekur mið af þróun einstakra atvinnugreina og aðstæðum á inn- lendum og erlendum fjármálamörk- uðum hverju sinni,“ eins og segir á vef félagsins. Þar segir einnig: „Kaldbakur er arðsemisfjárfestir og stefnir að áhrifum í þeim félögum sem fjárfest er í hverju sinni eitt og sér eða í sam- starfi við aðra aðila til að hafa áhrif á stefnumótun og stjórnun fyrirtækja. Áhrifum þessum nær félagið með því að eiga virka eignarhluti og þar með fulltrúa í stjórn viðkomandi fé- laga. Fjárfest verður jöfnum hönd- um í skráðum sem óskráðum hluta- bréfum allt eftir fjárfestingatæki- færum hverju sinni. Kaldbakur hyggst einnig fjárfesta í skráðum skuldabréfum allt eftir aðstæðum hverju sinni. Það er stefna Kaldbaks að fjárfesta í félögum í þroskuðum atvinnugreinum þar sem vara eða þjónusta viðkomandi fyrirtækis er þekkt og á sér sögu. Kaldbakur fjár- festir ekki í framtaks- eða nýsköp- unarverkefnum.“ Helstu eignir Kaldbaks eru tæplega 18% hlutur í Samherja, 32,84% hlutur í Trygg- ingamiðstöðinni og um 4,2% hlutur í Íslandsbanka, en Kaldbakur er stærsti einstaki eigandi Samherja og meðal stærstu einstakra hluthafa í tveimur hinum síðarnefndu. Þá má geta þess að Kaldbakur á nú 5,6% í Norðurljósum. Rétt er að rifja upp að Kaldbakur gerði atlögu að ríkisbönkunum í hittifyrra, eins og frægt varð. Bauð í en fékk ekki. KEA og félagsmenn þess voru í fyrstu einu eigendur Kaldbaks eftir að eignir KEA voru færðar í hið nýja félag. Það var hins vegar aldrei markmið að KEA yrði eini eigand- inn; frá upphafi var ljóst að efla ætti félagið og fleiri fjárfestar yrðu fengnir til liðs við það. Þeir fyrstu bættust við snemma árs 2002, Sam- herji og Lífeyrissjóður Norðurlands, sem keyptu hluti fyrir 370 milljónir króna að nafnvirði – sem er að mark- aðsvirði nálega einn og hálfur millj- arður. Á hluthafafundi félagsins í árslok 2002 var svo samþykktur samruni við Hlutabréfasjóð Íslands hf. og tók hann gildi 1. júlí sama ár. Við það jókst eigið fé Kaldbaks um 450 milljónir. Í fyrra var hlutafé svo aukið um 266 milljónir að nafnverði og var sú aukning m.a. notuð í því skyni að greiða fyrir kaup félagsins á 11% eignarhlut í Tryggingamiðstöð- inni. Við þá aðgerð jókst eigið fé fé- lagsins um ríflega einn milljarð króna. Baugur eignast 15% Nokkrar breytingar hafa síðar orðið á eignarhaldi Kaldbaks, KEA hefur t.d. selt hluta af sínum bréfum en er þó enn stærsti einstaki eigandi í fé- laginu með 27,01% hlut, Samherji kemur næstur með 25% og Lands- banki Íslands er nú skráður sem þriðji stærsti eigandi Kaldbaks með 10,09% og Arion, félag í eigu KB banka, fylgir í kjölfarið með 9,32%. Fjárfestingarfélagið Baugur Gro- up kveðst á vef sínum eiga 15% hlut í Kaldbaki og mun þar um að ræða þau rúmlega 10% sem skv. hluthafa- lista eru skráð á Landsbanka Íslands og um það bil helming bréfa sem skráð eru í nafni Arion. Afgangurinn af bréfum Arion í Kaldbaki munu, eftir því sem Morgunblaðið kemst næst, í eigu Fengs, eignarhalds- félags Pálma Haraldssonar sem gjarnan var kenndur við Sölufélag garðyrkjumanna, og Jóhannesar Kristinssonar, sem er búsettur í Lúxemborg. Fengur er í fimmta sæti yfir stærstu hluthafa í Kaldbak með 6% hlut – sem það eignaðist þegar KEA seldi í fyrra – þannig að félagið á í raun um 10% hlut í Kaldbak. Það er því ljóst að breytingar verða á stjórn Kaldbaks á næsta að- alfundi en í aðalstjórn félagsins eru nú Tryggvi Þór Haraldsson, formað- ur, Kristján Vilhelmsson, varafor- maður, Andri Teitsson, fram- kvæmdastjóri KEA, Sigfús R. Sigfússon, oft kenndur við Heklu í Reykjavík, og Kári Arnór Kárason, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Norðurlands. Varamenn eru Þor- steinn Már Baldvinsson, fram- kvæmdastjóri Samherja, og Valdi- mar Bragason á Dalvík. Lífeyrissjóður Norðurlands er sjötti stærsti hluthafi í Kaldbak, með 5,90%, Tryggingamiðstöðin kemur næst með 3,89% og KB banki, sem eignaðist bréf í Kaldbaki í síðustu vikum, á nú 0,40% hlut í félaginu að nafnvirði 6,9 milljónir króna. Eign- arhaldsfélag Samvinnutrygginga og Eignarhaldsfélagið Andvaka eiga hvort um sig 0,38% og Úrvalsvísi- tölusjóður BÍ litlu minna, 0,34% rúmar 6 milljónir að nafnvirði. Kald- bakur seldi í fyrra eignarhluti sína í Íslenskum aðalverktökum hf., Bú- stólpa ehf., Akva ehf., Fjárstoð ehf. og Nýju kaffibrennslunni ehf. Á sama tímabili keypti félagið eignar- hluti í Tryggingamiðstöðinni hf., Síldarvinnslunni hf. og Sjöfn hf. Síðari hluta ársins í fyrra seldi Kaldbakur 50,4% óskráðan eignar- hlut sinn í Samkaupum hf. og þar með má segja að „Kaupfélag Eyfirð- inga“ hafi endanlega hætt afskiptum af verslunarrekstri. Kaupandi var Kaupfélag Suðurnesja og áætlaður bókfærður söluhagnaður Kaldbaks hf. af sölunni er rúmlega 1.100 millj- ónir króna. Kaldbakur seldi einnig hlut sinn í Lyfjum og heilsu, en félagið átti 46% hlut. Félag í eigu Karls Wernersson- ar, Ingunnar Wernersdóttur og Steingríms Wernerssonar keypti og var söluhagnaður Kaldbaks áætlað- ur um 570 milljónir króna. Þá seldi Kaldbakur Kaupfélagi Eyfirðinga allan eignarhlut sinn í Norðlenska matborðinu. Síðari hluta árs í fyrra seldi Kaldbakur einnig Hafnarstræti 83–85 ehf. og Hafnar- stræti 87–89 hf . Um er að ræða hús- eignir Hótels KEA og var áætlaður bókfærður söluhagnaður Kaldbaks hf. af sölunni er rúmlega 30 milljónir króna. Kaupandi var Eignarhalds- félagið Greifinn, sem rekur hótelið. Fasteignafélagið Stoðir vildi kaupa umrætt húsnæði, en fékk ekki, en Klettar, sem voru í eigu Kaldbaks, seldi hins vegar Stoðum Hafnarstræti 91–95 – en m.a. er um að ræða höfuðstöðvar Kaupfélags Eyfirðinga á horni Hafnarstræti og Kaupvangsstrætis á Akureyri síð- ustu áratugi. Við þau viðskipti runnu Klettar inn í fasteignafélagið Stoðir, en Baugur á 49,6% í Stoðum, KB banki á 20,4% og Ingibjörg Pálma- dóttir og félag hennar eiga 18,4%. Hröð uppbygging Samherji hf. var stofnaður í Grinda- vík um útgerð togara árið 1972 en 1983 keyptu Samherjafrændurnir, sem gjarnan eru kallaðir svo, Þor- steinn Már, Kristján og Þorsteinn, fyrirtækið og fluttu það til Akureyr- ar sem fyrr segir og breyttu Guð- steini GK í frystiskip sem nefnt var Akureyrin. Stefna Samherja er að vera í for- ystu í veiðum, vinnslu og markaðs- setningu sjávarafurða úr Norður- Atlantshafi og hafa þannig stjórn á sem stærstum hluta virðiskeðju fyr- irtækisins, eins og segir á vef þess. Það er einnig stefna félagsins „að reka öflugt fyrirtæki sem skilar eig- endum sínum arði og starfsmönnum áhugaverðu starfsumhverfi“. Á vefn- um segir að þrátt fyrir ungan aldur  KALDBAKUR | SAMHERJI 12 B FIMMTUDAGUR 5. FEBRÚAR 2004 MORGUNBLAÐIÐ NVIÐSKIPTI FRÆNDURNIR Þorsteinn Már Baldvinsson og Kristján Vilhelmsson eignuðust Samherja, sem þá var lítil útgerð, fyrir rúmum 20 árum ásamt Þorsteini, bróður Kristjáns. Þorsteinn Már, sem er skipaverk- fræðingur að mennt, hefur frá upphafi verið forstjóri Samherja og Kristján, sem er vélstjóri, er framkvæmdastjóri útgerðarsviðs. Krist- ján á persónulega 16,05% í fyrirtækinu og Þorsteinn Már 15,69%. Kristján situr í stjórn Kaldbaks fyrir hönd Samherja og Þorsteinn Már er þar í varastjórn. Feður þeirra frænda, tvíburarnir Vilhelm og Baldvin Þorsteinssynir voru báðir skipstjórar hjá Útgerðarfélagi Ak- ureyringa og Vilhelm síðan lengi annar framkvæmdastjóra félagsins. Eiríkur S. Jóhannsson er hagfræðingur að mennt og á auk þess að baki framhaldsnám á sviði fjármála og alþjóðahagfræði. Hann starf- aði um tíma sem útibússtjóri Landsbanka Íslands á Akureyri, varð kaupfélagsstjóri KEA 1998 og framkvæmdastjóri Kaldbaks frá stofn- un félagsins 2002. Eiríkur er varamaður í stjórn Samherja hf. Þorsteinn Már Baldvinsson Eiríkur S. Jóhannsson Kristján Vilhelmsson Stjórna Samherja og Kaldbak Öflugir samherjar á norðurslóð Kaldbakur á Akureyri – sem stofnað var utan um eigur Kaupfélags Eyfirðinga – er nú stærsta fjárfestingafélag landsins og Samherji er eitt öflugasta sjávarútvegsfyrirtækið. Skapti Hallgrímsson kynnti sér sögu félaganna og tengsl þeirra.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.