Lesbók Morgunblaðsins - 20.01.2001, Page 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 20. JANÚAR 2001
E
INHVER hafði orð á því við mig
á dögunum að viðhorf mitt til
leikhússins væri á þeim nótum
að það væri á leiðinni til „and-
skotans fyrir fullu húsi“. Og felst
í þessum útúrsnúningi sú túlkun
að flest sé hjóm eitt og ómerki-
legheitum undirorpið sem birt-
ist á fjölunum en áhorfendur láta sér vel líka.
Má þetta á vissan hátt til sanns vegar færa þó
kaldranalegt sé.
Hinn hefðbundni leikhúsrekstur eins og hann
hefur tíðkast hér á landi lengst af, og orðið ung-
um mönnum fyrirmynd að rekstri einkaleik-
húsa í borginni á undanförnum árum, er um
margt stórgallaður og ólíklegur til að reka ís-
lenska leiklist upp úr því afþreyingarfari sem
hún hvílir í og hjakkar svo notalega eftir áleiðis
til „andskotans fyrir fullu húsi“.
Leikhússtjórn í íslenskum leikhúsum felst í
því að fela einum einstaklingi listræna stjórn og
setur hann þannig persónulegt mark sitt á
stefnuna þann tíma sem hann gegnir starfinu.
Lykilatriði í þessari hugsun er að hver einstak-
lingur sé ekki við stjórn nema afmarkaðan tíma
og þannig geti leikhúsið notið frumkvæðis hans
og persónulegs smekks án þess að festast til
langframa í tilteknu fari.
Í lok áttunda áratugarins var tekin merk
ákvörðun um ráðningartíma Þjóðleikhússtjóra
þegar ákveðið var í lögum að enginn skyldi
gegna starfinu lengur en átta ár að hámarki.
Aðeins einn þjóðleikhússtjóri (Gísli Alfreðsson)
af þeim fjórum sem gegnt hafa starfinu varð að
hlíta þessum lögum til fulls og gegndi starfinu í
nákvæmlega átta ár (1983-1991). Fyrir tveimur
árum var lögum um Þjóðleikhús breytt á þann
veg að þjóðleikhússtjóra má endurráða á fimm
ára fresti þar til hann nær eftirlaunaaldri svo
fremi hann sæki um og menntamálaráðherra
vilji staðfesta ráðninguna. Fyrir leiklistarlíf í
landinu er þetta veruleg afturför. Vandinn við
þessa umræðu hefur alltaf verið sá að erfitt hef-
ur reynst að skilja á milli þess einstaklings sem
gegnir starfinu þá stundina og faglegrar um-
ræðu um mikilvægi endurnýjunar í starfi þjóð-
leikhússtjórans.
Ástæður þess að svo nauðsynlegt er að end-
urnýjun eigi sér stað eru skýrar. Listræn
stjórnun leikhúss lýtur ekki sömu lögmálum og
fyrirtækjarekstur. Það má jafnvel færa gild rök
fyrir því að góð listræn stjórn og góð fjármála-
stjórn fari ekki alltaf saman í leikhúsrekstri.
Listrænn stjórnandi sem fer ekki troðnar slóð-
ir, bryddar upp á nýjungum og tekur áhættu
varðandi mannval og verkefni er eðli málsins
samkvæmt ekki að taka öruggustu fjármála-
ákvarðanirnar. Það má því lengi deila um hvað
felst í orðalaginu „vel rekið“ leikhús.
Bríet Héðinsdóttir, sú merka leikhúskona,
sagði eitt sinn í viðtali að hún væri orðin hlynnt
„menntuðu einveldi“ í leikhúsinu. Vafalaust hef-
ur ekki hvarflað annað að henni á þeim tíma en
að um tímabundið einveldi væri að ræða enda
lögin um átta ára ráðningartíma þá í fullu gildi.
Fleiri hafa tekið undir þetta sjónarmið um
„menntaðan einvald“ við stjórnvölinn í leikhús-
inu og lýst því fjálglega að það sé eina leiðin til
að reka leikhús. Hópvinna og lýðræði hafi fyrir
löngu gengið sér til húðar í leikhúsvinnu, það sé
tímasóun að bíða eftir að allir fái að leggja eitt-
hvað til málanna. Best sé að einn maður, leik-
hússtjórinn, velji verkefnin, hann ákveði síðan
hverjir leikstýri og hafi styrka hönd í bagga
með hverjir leiki, enda hefur hann oftar en ekki
valið verkefnin með ákveðna leikara í huga og
fráleitt að leikstjórinn fari að breyta því. Útífrá
heitir þetta að leikhússtjórinn og leikstjórinn
hafi komist að samkomulagi um skipan leikenda
í hlutverkin.
Síðan er það hlutverk leikstjórans að virkja
hópinn – sem hann valdi ekki – til listrænnar
sköpunar á verki – sem hann valdi ekki – og ná
þeim sjálfsagða árangri að sýningin verði sann-
kallaður listviðburður byggður á frumsköpun
og innblæstri þeirra sem að unnu. Þetta tekst
yfirleitt ekki. Árangurinn er þegar best lætur
vandaðar, vel unnar sýningar, fagmennska í
fyrirrúmi, leikurinn góður og umgjörðin falleg,
stílhrein eða hvað annað orð sem hafa á yfir það;
en sem listræn frumsköpun veltir leiksýning
eftir þessari forskrift litlu hlassi og skiptir eng-
um sköpum. Vandinn við að meta hana sem
slíka og láta ekki blekkjast af fagmennskunni er
þó vissulega til staðar og segja má að hér á landi
blómstri nú leiklistarlíf þar sem fagmennska og
snyrtimennska koma iðulega í stað kröftugrar
listrænnar sköpunar þar sem markmiðið er
ekki að þóknast áhorfendum heldur ögra þeim á
allan hátt. Þýski leikhúsfrömuðurinn Max
Reinhardt lét eitt sinn svo um mælt að leikhús
sem gengi sífellt á eftir áhorfendum sínum sæi
aldrei annað en bakhluta þeirra. Má það til
sanns vegar færa.
Það er kannski tímaskekkja að ætlast til þess
að leikhús í okkar borgaralega neyslusamfélagi
gegni öðru en því listræna afþreyingarhlutverki
sem það hefur gegnt um árabil. Að leikhúsið
hafi hlutverk sem leiðandi afl í samfélaginu er
kannski úrelt hugmynd. Gamaldags hugsjóna-
mennska sem ekki á við lengur. Fólk tekur ekki
fullt mark á leikhúsinu lengur. Leikhúsið er
ekki tekið alvarlega. Þangað sækir enginn upp-
lýsingar um samfélagsgerðina eða hugmyndir
um gagnrýna umfjöllun. Hugmyndafræðilega
er heldur enginn ágreiningur um stefnur innan
leikhússins, þar róa allir á sömu mið þó áralagið
sé misjafnt og veiðitækin ekki hin sömu. Allir
sækjast eftir sama afla, sumsé aðsókn og vin-
sældum. Ríkjandi hugmyndir um leikhús eru
reyndar svo einfaldar að iðulega er spurt hvort
þetta sé ekki eðlilegt, hvort leikhús án aðsóknar
sé ekki eins og fiskur á þurru landi, mótsögn í
sjálfu sér. Vísað er til þess að verk mestu leik-
húsmanna sögunnar, Shakespeares og Moli-
éres meðal annarra, hafi notið mikilla vinsælda
á sinni tíð og þar með er réttlætingunni fundinn
staður. Að ekki sé minnst á Grikkina. Auðvitað
er þetta misskilningur. Hlutverk leikhúss í því
samfélagi sem Shakespeare, Moliére og Grikk-
irnir lifðu í var allt annað en nú á dögum. Þarna
verður hvorki horfið til baka né gerður raun-
hæfur samanburður. Gullöld leikhússins á Eng-
landi er frá miðri 16. öld og fram undir tíma
Cromwells og samtímis á Spáni með Lopez de
Vega í fararbroddi. Í Frakklandi er 17. öldin
talin gullöldin, tími Corneilles, Racines og Mol-
iére. En ef horfa á til vinsælda eingöngu þá
mætti segja að gullöld leikhússins í Bretlandi sé
19. öldin þegar söngleikir og leiksýningar með
yfirmáta rómantísku yfirbragði (melodrama)
voru ein helsta alþýðuskemmtanin. Úr þeim
jarðvegi spruttu hins vegar engin bitastæð leik-
verk og má af því draga nokkurn lærdóm. Á
dögum Shakespeares sótti alþýða manna leik-
sýningar til jafns við hærra setta þegna en þeg-
ar Karl II. tekur við eftir daga Cromwells verð-
ur leikhúsið afþreying yfirstéttarinnar,
leikhúsin eru ekki lengur undir beru lofti og al-
þýðunni er úthýst. Breytingin á 19. öldinni helst
í hendur við iðnbyltinguna og vaxandi borgar-
samfélag með tilheyrandi verkalýðsstétt. Leik-
hús verður helsta afþreyingin þar til kvikmynd-
irnar koma til sögunnar og taka við þessu
hlutverki. Þá verður leikhúsið aftur athvarf
hinna borgarlegri stétta og hefur verið það síð-
an ef horft er til Vesturlanda.
Þróunin hér uppi á Íslandi var á annan veg,
fyrst og fremst vegna þess hversu seint mynd-
uðust þéttbýliskjarnar sem eru forsenda fyrir
leikhússtarfi. Leikfélag Reykjavíkur er stofnað
1897, um svipað leyti og aðdráttarafl alþýðu-
leikhússins á meginlandi Evrópu er að dvína og
kvikmyndirnar að halda innreið sína. Fyrstu
áratugir 20. aldarinnar eru byrjunar- og þróun-
arskeið íslenskrar leiklistar og frá upphafi eru
sýningar Leikfélagsins – og annarra áhugaleik-
félaga víða um land – alþýðuskemmtun, enda
leiklistin áhugastarf fólks af öllum stigum þjóð-
félagsins. Stofnun Þjóðleikhússins skapar í
fyrsta sinn aðstæður fyrir atvinnumennsku í
leiklist og þannig hefst leikstarfsemin á nýjan
stall og viðmiðin verða önnur, en þó heldur leik-
húsið alþýðuhylli sinni þrátt fyrir formfastari
og borgaralegri umgjörð. Leikfélag Reykjavík-
ur fetar síðan sömu slóð rúmum áratug síðar og
verður atvinnuleikhús 1963. Þannig þróast hér
tvö ný atvinnuleikhús samhliða með miklum
samgangi sín á milli, listræn stefna þeirra er all-
ar götur mjög svipuð þó áherslumunur sé frá
einu ári til annars. Einsleitt yfirbragð leikhús-
anna í listrænum skilningi stafar ekki síst af því
að listræn stjórn beggja leikhúsanna er í hönd-
um tveggja manna fyrstu 33 árin. Guðlaugur
Rósinkranz sem þjóðleikhústjóri frá 1950–72 og
Sveinn Einarsson sem leikhússtjóri LR frá
1963–72 og þjóðleikhússtjóri frá 1972–83. Undir
stjórn þessara tveggja manna mótast atvinnu-
leikhús á Íslandi og sú stefna sem þeir leggja
leikhúsunum til í upphafi hefur haldist lítið
breytt til þessa dags. Listræn hugmyndafræði
tveggja helstu atvinnuleikhúsa landsins er því
orðin ríflega hálfrar aldar gömul og þó hún hafi
framanaf reynst giftudrjúg þá mætti kannski
segja að tímabært væri að taka hana til gagn-
gerrar endurskoðunar. Mótrökin við slíkum
hugmyndum eru oftast þau að áhuginn og að-
sóknin sé svo góð að gera megi því skóna að ís-
lensk leiklist sé á réttri braut og leikhússtjórar
undanfarinna ára hafi haft fingurinn á púls al-
mennings. Með sömu rökum má benda á að
verkefnaval leikhúsanna hefur tekið æ meira
mið af því efni sem er á boðstólum allt í kringum
okkur; söngleikir, gamanleikir og erlend
dramatísk verk, ný og klassísk hafa verið í af-
gerandi meirihluta. Þó vekur athygli þegar bor-
ið er saman verkefnaval í Þjóðleikhúsinu ára-
tuginn milli 1950–60 annars vegar og 1990–2000
hinsvegar, hversu svipað það er í öllum meg-
inatriðum. Þetta mætti orða þannig að grund-
vallarbreytingar í samfélaginu á þessu tímabili
hafa ekki fundið sér listrænan farveg í íslensku
leikhúsi.
Undir stjórn Sveins Einarssonar hjá LR
mótaðist meðvituð stefna um sviðsetningar
nýrra íslenskra leikverka og hélt hann þeirri
stefnu áfram eftir að hann kom í Þjóðleikhúsið.
Á þeim árum varð til sú viðmiðun að fast að
helmingur frumsýndra verka á hverju ári
skyldi vera íslenskur og þó að það takmark
næðist sjaldnast hefur þetta loðað við. Á tímum
alþjóðlegrar fjöldamenningar er þetta hlutverk
orðið enn brýnna en áður.
Lengi vel var eitt aðalhlutverka atvinnuleik-
húsanna ásamt stærsta leikhúsi þjóðarinnar
(Útvarpsleikhúsinu), fólgið í þeim aðgangi sem
þau veittu Íslendingum að leikbókmenntum
heimsins, gömlum og nýjum. Gjörbreyttar að-
stæður í rafrænni myndmiðlun og nánast óheft-
um aðgangi alls almennings að myndbókasafni
umheimsins hefur tekið þetta hlutverk af leik-
húsunum á sama hátt og kvikmyndirnar tóku
stóran spón úr afþreyingaraski hins vestræna
leikhúss nær öld fyrr.
Vandi nútímaleikhússins hér á Íslandi sem og
víðar er fólginn í að finna sér annað hlutverk og
merkara en það að bjóða bara upp á dýrari og
listrænni valkost á ofmettuðum markaði sjón-
rænnar afþreyingar. Hvort skilgreina eigi hlut-
verkið fyrst og leika það síðan, eða leika af
fingrum fram og skoða árangurinn eftirá er eitt
ágreiningsefnanna; sumir segja að listin og þar
með talin leiklistin finni sér þann farveg sem
hún eigi skilinn. Þetta er rómantísk og úrelt
hugsun í upphafi nýrrar aldar þar sem gera má
þá kröfu til leikhússins að það taki afstöðu til
þess flókna samfélags sem það er hluti af og
birti nýjar hugmyndir um það í stað endurunn-
inna spegilmynda. Í stað þess að upphefja sig
sem spegil samfélagsins ætti leikhúsið að gegn-
umlýsa eigið samfélag og andæfa gegn alþjóð-
legri fjöldamenningu. Annars er hætt við að út-
úrsnúningurinn hér í byrjun greinar verði að
áhrínsorðum og leikhúsið dagi uppi á nýrri öld
sem hugmyndasnauður ómerkingur þrátt fyrir
ótvírætt skemmtigildi og að sjálfsögðu „fyrir
fullu húsi“.
T ÍÐARANDI Í ALDARBYRJUN
Ljósmynd/Vignir
Íslenskt nútímaleikhús. Mýs og menn í uppfærslu LR 1954.
LEIT AÐ
VERÐUGU
HLUTVERKI
E F T I R H ÁVA R S I G U R J Ó N S S O N
Höfundur er leikhúsfræðingur og blaðamaður á
Morgunblaðinu.