Lesbók Morgunblaðsins - 20.01.2001, Síða 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 20. JANÚAR 2001
M
argmiðlunarsýningin
Detox verður opnuð í
Listasafni Akureyrar í
dag en sýningin er eitt
stærsta verkefni á sviði
rafrænnar myndlistar
sem ráðist hefur verið í
á Norðurlöndum.
Margmiðlunarsýningin er bæði tilraun og leikur
en forsaga hennar er sú að árið 1999 efndi Far-
andsýningarráð Noregs, Riksutstillinger, til
samkeppni á sviði gagnvirkrar miðlunar og bár-
ust ráðinu tugir umsókna. Alls unnu sextán
norskir listamenn að gerð verkanna á sýning-
unni, þar sem veruleiki nútímans er túlkaður
með margvíslegum tólum og tækjum sem virkja
áhorfendur til þátttöku.
Detox, en orðið merkir afeitrun eða hreinsun,
varpar fram mörgum aðkallandi spurningum
varðandi þann sýndarveruleika og þá tækni-
hyggju sem virðist ætla að tröllríða mannheim-
um á komandi öldum. Nú á tímum tileinkum við
okkur tækninýjungar á nær vandræðalausan og
eðlilegan hátt enda annað naumast hægt, þar
sem tækninýjungar koma fram á nánast hverj-
um degi. Ein þeirra spurninga sem lesa má út úr
sýningunni er, hvernig getum við nýtt okkur
tæknina? Úti í hvaða öfgar getur tæknin leitt
okkur? Þá spyrja listamennirnir um tilgang
þess að hafa líkama þegar horft er til framtíðar
okkar stafræna samfélags. Hvað verður um lík-
amann í hjáveruleikanum? Verða upplifanir
með aðstoð véla sárabót fyrir þann veruleika
sem við förum á mis við? Eða er þetta bara staf-
ræn víma sem gengur yfir og fjarar að lokum
út? Hver verða fráhvarfseinkennin þegar raf-
eindaherbergið er yfirgefið? Hver er hinn raun-
verulegi veruleiki?
Af þessu má sjá að spurningar þær sem varp-
að er fram á Detox- sýningunni eru engan veg-
inn léttvægar og varla liggja svörin í augum
uppi. Ståle Stenslie er sýningarstjóri Detox og
verður viðstaddur opnunina í dag. Hann segir
að rafeindatæknin hafi breytt um alla eilífð
hvernig við sjáum og skynjum hlutina. Sjálfur
hefur Ståle áralanga reynslu af listsköpun á
sviði margmiðlunar og sýndarveruleika.
Hinn stafræni alheimur
,,Stafræna öldin hefur fætt af sér plastmenn-
ingu vegna þess að nú er hægt að koma öllu fyrir
á stafrænu formi og því er hæglega hægt að
stjórna með mannshendinni og umbreyta á raf-
rænan hátt. Við sjáum ekki lengur spegilmynd
okkar sem huglæga og tímalausa framsetningu,
heldur sem stafræna, hverfula og óstöðuga eft-
irmynd. Þetta á sérstaklega við um vinsæla
miðla eins MTV og tölvuleiki. Poppstjörnur
MTV birtast sjaldan án eins konar stafræns
geislabaugs og annarra rafrænna töfra. Í tölvu-
leikjum eru eftirmyndir orðnar mannlegar, þær
bregðast við og hegða sér svipað og lifandi
mannverur enda orðnar gagnvirkar. Áður fyrr
voru það söfn og bækur sem gáfu okkur innsýn í
undraheima. En nú getum við með hraða raf-
eindarinnar ferðast þangað sjálf á Netinu í
öruggu umhverfi heimilisins. Ef þessi stafræna
nærvera verður of köld og fjarlæg getum við
rennt við á teknódansleik og fengið áhrifin beint
í æð. DJ- inn og fólkið á dansgólfinu bráðna
saman í orgíu af ljósum, tónlist og sjónrænu
áreiti og mynda eina lífræna heild. Hinn staf-
ræni alheimur er skapandi rými. Hann færir
okkur ný verkfæri og tækifæri til að búa til nýj-
an veruleika og reynslu. Við erum að upplifa
menningarlega stökkbreytingu!“
Í tilefni sýningarinnar hefur verið gefin út
bók um Detox, þar sem birtar eru myndir af
verkunum og listamenninir tjá sig um þau. Eitt
af því sem einkennir netheiminn að dómi Ståle
er það hversu tímabundinn hann er. Ótal netsíð-
ur lifa einungis stutta stund og hverfa fljótt af
sjónarsviðinu. Í bókinni eru gefnar upp slóðir
margra athyglisverðra síðna sem búast má við
að verði innan tíðar forgengileikanum að bráð.
Það sem opinberast líka í þessu er að dagar bók-
arinnar eru fjarri því taldir þó nýir miðlar taki
við. Bókin geymir enn upplýsingar betur en
nokkuð annað sem við eigum völ á. Hún verður
auðveldlega áratuga gömul og gildi hennar sem
heimildar eykst ár frá ári meðan netsíður breyt-
ast dag frá degi.
En Ståle Stenslie kveður fast að orði þegar
hann ræðir hina hefðbundnu og aldagömlu arf-
leifð myndlistarinnar, málverkið og mynd-
höggvaralistina. Jafnvel svo að sumum kann að
þykja nóg um:
,,List er leiðinleg,“ segir hann: ,,Listamaður-
inn hefur misst röddina. Hvernig getur málari
eða myndhöggvari barist um athyglina við af-
þreyingariðnaðinn, taumlausan myndbands- og
hljómflaum MTV, gagnvirkan sýndarveruleika
hröðustu tölvuleikja á borð við Quacke og
óþrjótandi upplýsingaveitur Netsins? Þetta er
hið formræna vandamál myndlistarinnar. Hvað
innihald snertir, þá er myndlistin einnig orðin
innihaldslaus. Því hvernig getur listgrein sem
ekki talar lengur tungumál nútímans, skilið
vandamál hans og þarfir? Hvað þá gert athuga-
semdir við hann? Niðurstaða mín er sú að hefð-
bundin myndlist gegnir ekki lengur hlutverki
sem merkingarbær miðill í samfélaginu. En
hverjum stendur svo sem ekki á sama? Því
meira er meira og betra er betra. Tölvubyltingin
hefur einnig gefið svigrúm fyrir persónulegar
þarfir og upplifanir. Háleit, einstrengingsleg og
illskiljanleg myndlist, myndlistin eins og við
þekkjum hana, fullnægir ekki lengur sýn okkar
á tilveruna. Hefðbundin myndlist er orðin úrelt
fyrirbæri sem byggir gildi sitt að mestu leyti á
handverkskunnáttu. Myndlistarmenn, sýning-
arstjórar, gagnrýnendur og söfn og gallerí eru
enn á handverksstiginu í sýn sinni á hlutina.“
Líkt og áður hefur verið vikið að telur Ståle
að hin stafræna stökkbreyting hafi endanlega
breytt skynjun okkar á heiminum.
,,Myndlistarmenn verða að taka þetta með í
reikninginn. Tæknin, sérstaklega heimilistölvan
gerir okkur kleift að skipuleggja lifandi kerfi
sem hægt er að eiga gagnvirk samskipti við.
Þessi nýja gagnvirka list er boðberi samruna
notanda og listaverks. Gestir á listsýningum á
borð við Detox eru ekki lengur bara áhorfendur,
heldur þátttakendur sem verða að fullgera lista-
verkið. Þar með er gesturinn orðinn þáttakandi
í sköpun listamannsins. Þetta er allt hluti af því
að listamaðurinn verður að finna nýjar aðferðir
til að tjá sig í hinum rafræna heimi. Hann þarf
að fá tækifæri til að endurtúlka hlutina í nýju
ljósi. Ef hann tileinkar sér tæknina og nær full-
um tökum á henni, verður honum þetta leikur
einn. Detox- sýningin er hugsuð bæði sem til-
raun og sem leikur. Verkefnið er nauðsynleg
eldskírn við að kanna möguleikana sem staf-
rænan býður upp á til listrænnar úrvinnslu og
sköpunar. Nauðsynlegt skref til að gagnrýna og
þróa samtímamenningu okkar.
Ráðskast með skynjunina
,Markmiðið með Detox-sýningunni er að
spegla hin nýju fagurfræðilegu viðmið. Detox er
stafrænt tilraunaherbergi þar sem áhorfendur
og listaverkin hafa gagnkvæm áhrif á hvort ann-
að. Listaverkin á þessari sýningu eru viðkvæm-
ir snertifletir, tengibúnaður milli manns og vél-
ar, sem draga úr muninum á milli náttúrulegs
áreitis og svokallaðar gerviupplifunar. Tölvurn-
ar skapa ótal valmöguleika, þótt þær séu ekki
miðpunktur sýningarinnar. Þær eru einungis
tæki til að skapa tilfinningalega og líkamlega
nálægð. Verkin leiða áhorfandann inn í skipu-
lagt tilraunaherbergi sem einkennist af tvíbent-
um tilfinningum og leit. Með því að framlengja
líkamann og sviðsetja skynjanir, gerir sýningin
þátttakandanum kleift að upplifa þá möguleika
sem í stafrænunni felast. En eins og titillinn
Detox ber með sér er hér horft á samtímann og
vandamál upplýsingasamfélagsins, á gagnrýn-
inn hátt. Sýningin fer ofan í saumana á mann-
legu samfélagi dagsins í dag. Samtímis breytir
Detox ef til vill okkar venjulegu hugmyndum
um aldagamla menningu sem hefur að geyma
jafnmargbreytileg svið og sjónlistir, gerninga,
leikhús, dans og tónlist. Sýningin nær að sjálf-
sögðu ekki að snerta allar hliðar hins stafræna
veruleika, til þess höfðum við ekki fjárhagslegt
bolmagn. Detox var í upphafi ekki ætlað að vera
eins og vísindaskáldsaga sem er langt á undan
sinni samtíð, en engu að síður hefði líklega ekki
verið hægt að setja hana upp fyrir eins og fimm
árum. Hinn stafræni heimur þróast svo hratt og
tekur nær daglegum breytingum. En hver veit
nema að sýningin birti sýnishorn af því hvernig
listræn tjáning á eftir að þróast í framtíðinni. Ef
við ímyndum okkur að hinn
raunverulegi tilgangur listarinn-
ar sé að pirra og stuða fólk, þá
eru tækifærin til þess næg á sýn-
ingunni. Kannski verður hlut-
verk listarinnar í auknum mæli
það að ráðskast með skynjunina.
Hver veit?“
Ståle leggur áherslu á að öll
verkin á sýningunni séu gerð
með einföldum PC-tölvum, þó að
einstök verk kunni að þykja
tæknileg og framandi eru þau þó
gerð á venjulegum heimilistölv-
um. Hann leggur einnig áherslu
á að sýningin ferðist út á ystu
brún og skoði heima sem alla
jafnan eru ekki til umfjöllunar á
degi hverjum. Nútíminn eins og
hann leggur sig með öllum sínum
kostum og kynjum blasir við á
sýningunni, þar á meðal það sem
einhverjum kynni að þykja
ósæmilegt eins og netsíður sem
fólk ef til vill myndi veigra sér við
að skoða en eru þó til og lýsa
menningarafkimum sem fáir
þekkja. Þarna eru hlutir sem auðveldlega má
flokka undir klám eða ofbeldi, en eru þó öllum
aðgengilegir á Netinu í dag. Af bókinni að dæma
eru verkin fjölbreytileg og athyglisverð í meira
lagi og virðast í fljótu bragði túlka vel þá ofgnótt
ímynda og táknmynda sem yfir okkur ríða á
degi hverjum og mörgum þykir reyndar orðið
nóg um. Detox vakti mikla athygli og umtal í
Noregi og aðsóknin á sýninguna var góð.
,,Ungt fólk á aldrinum 15 til 30 ára flykktist á
sýninguna,“ segir Ståle Stenslie, ,,það var sama
hvar við settum hana upp, hún höfðaði mjög til
unga fólksins. Sýningin er þó ekki einungis fyrir
ungt fólk, allir aldurshópar ættu að hafa gaman
af því að skoða hana og taka þátt í henni. Ak-
ureyri er síðasti viðkomustaður Detox, að þess-
ari sýningu lokinni hefur Detox lifað sitt skeið.
Tilgangur Detox snýst ekki aðeins um að koma
á óvart, ögra og bjóða byrginn. Hér gefst áhorf-
endum færi á að upplifa mörkin milli þess sem
er raunverulegt og óraunverulegt. Framleiðsla
fjölmiðlunarlistar mun, þegar fram líða stundir,
skapa auðlind. Tilgangurinn með Detox var að
gefa Norðmönnum möguleika til að auka þekk-
ingu sína á nýju miðlunum og skapa þeim tæki-
færi til að sýna verk sín. Detox er hluti af því
mikla ferli sem nú stendur yfir við að skilgreina
sambandið milli rafrænnar listar og samtíma-
menningar. Þetta er tilraun til að taka þátt í
þeirri skoðanamyndun og þeirri umræðu allri.“
STAFRÆN
STÖKK-
BREYTING
Margmiðlunarsýningin DETOX verður opnuð kl. 16. í
dag í Listasafninu á Akureyri af Kjell Halvorsen sendi-
herra Noregs á Íslandi. ÞORVARÐUR HJÁLMARS-
SON kynnti sér þessa nýstárlegu sýningu og spjallaði
við sýningarstjórann, Ståle Stenslie, af því tilefni
Verk eftir Kate Pendry.
Verk eftir Martin Hoyem.
Verk eftir Kristin Bergaust.