Lesbók Morgunblaðsins - 16.06.2001, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 16.06.2001, Blaðsíða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 16. JÚNÍ 2001 E NGAR málamyndanir, ekkert hálfkák, í kvöld endar öld mannsins segir í laginu „Rústum diskótekið úr kvik- myndinni Blade (Stephen Norrington, 1998). Setn- inguna segir persóna í mynd- inni, vampýra, sem sækist eft- ir heimsyfirráðum. Þrátt fyrir að vera ekki hrein sæberpönkkvikmynd, þá er myndin undir greinilegum áhrifum frá sæberpönki og sjálfur sameinar Blade margt af því sem einkennir sæberpönkið. Blade er byggð á myndasögu og segir frá vampýrubana, sem er sjálfur hálf vampýra. Vampýrurnar eru allar ofursvalir næturlífsfíklar, klæddir upp í leður og pönk þá eru þetta vampýrur nú- tímans, eða jafvel framtíðarinnar. Sjálfur er Blade sæberpönkari, vopn hans í baráttunni eru ekki viðarstikur eða hvítlaukur, heldur silfurgljáandi og sérlega tæknileg; vígða vatnið er geymt í straumlínulöguðum glersí- valningum. Til þess að halda vampýrueðli sínu í skefjun sprautar hann sig með mót- eitri. Eins og algengt er í nútímavampýru- sögum er mikil umræða um blóð og blóð- sjúkdóma, og í málið blandast sérfræðingur í blóðsjúkdómum, ung kona sem er fórn- arlamb vampýru og Blade bjargar. En hún reynist síðan fullfær um að bjarga bæði sjálfri sér og Blade, og tekur í lok mynd- arinnar stöðu við hlið honum í baráttunni, sjálf orðin hálfvampýrísk. Það sem gerir Blade sérlega eftirtekt- arverða er að bæði Blade og kvenhetjan eru blökkufólk, meðan óvinavampýrurnar eru flestar hvítar. Þannig býður sæberpönkið enn á ný upp á að hrist sé upp í hefð- bundnum hlutverkum kynþátta og kynja. Saga úr fylkinu Áhrif tækni, tölvutækni og erfðavísinda á mannlega samfélagsgerð eru óumdeilanleg og eiga eftir að aukast. Það er því ekki að undra að rithöfundar og kvikmyndagerð- armenn velti fyrir sér hvernig sambúð manna og véla muni þróast, hvaða áhrif sú þróun muni hafa á umhverfi okkar og sjálf okkur. Það sem er í raun undarlegt er hvað lítið hefur verið gert af þessu í „fagurmenn- ingu“, en það gæti verið tilkomið af fælni höfunda við að vera stimplaðir afþreying- arstimpli. Afþreyingarmenning er yfirleitt álitin íhaldssöm, miðað við framsækni sem oft einkennir fagurmenningu. Meðan fag- urmenning skapar eitthvað óvenjulegt og ögrandi framleiðir afþreyingarmenning flat- neskju og afturhaldssemi. Sæberpönkið sýn- ir fram á að þessi hugmynd er takmörkuð, svo ekki sé meira sagt. Í sæberpönkkvik- myndum er víða boðið upp á nýja sýn á sjálfan raunveruleikann og hvernig við upp- lifum hann í samfélagi og samfélagsskipun, kynhlutverkum og kynþáttum. Það er áber- andi hvað leikarar af afrískum kynstofni hafa verið áberandi, en í myndum eins og Blade, Strange Days, Event Horizon og Matrix eru þungavigtarpersónur leiknar af blökkufólki. Og í The Net og Enemy of the State eru það blökkumaður og kona sem eru ofsótt af alsjáandi yfirvöldum. Í mynd Wachowski-bræðra, The Matrix frá 1999, er bæði hrist upp í kynja- og kyn- þáttahlutverkum. Heimurinn er allur orðinn að sæbóli, sköpuðu af ofurgáfuðum gervi- greindum, knúið áfram af hugsunum, draumum og ímyndunarafli sofandi og fang- ins mannkyns. Sagan segir frá tölvunördin- um Neo sem uppgötvar óvænt að heims- mynd hans er alröng. Hann er í raun og veru ekki hann sjálfur, heldur bara tölvu- staðgengill, „avatar“ eða myndvarp af sjálf- um sér, sem lifir og hrærist í heimi sem er ekki verulegur heldur allur einn heljarinnar sýndarveruleiki. Gervigreindar tölvur hafa tekið yfir heiminn, ræktað mannkynið í gríðarstórum útungunartúbum, og með því að tappa inn í heila fólks tekst gervigreind- arforritunum að skapa heilan heim, byggðan myndgenglum. Allt lítur eðlilega út í þess- um gerviheimi, fólk vinnur, sefur og borðar og talar stöðugt í farsíma. Og þannig byrjar þetta allt saman; Neo fær sendan farsíma. Og farsíminn hringir og í honum er maður sem heitir Morpheus og segir Neo að fara hingað og þangað og á endanum er hann drepinn úr tölvudróm- anum og settur inn í hinn áþreifanlega veru- leika og uppgötvar að líf hans var allt einn tölvudraumur. Og nú vill Morpheus að Neo hjálpi sér við að bjarga heiminum frá tölv- unum, en Morpheus er „frjáls“ maður – leikinn af Laurence Fishburne – og stýrir neðanjarðarhreyfingu fólks sem er ekki not- að sem meðvitundarlaust batterí til að gefa gervigreindunum „líf“. Baráttan fer öll fram í sýndarveruleikanum og Neo og félagar hafa samskipti við raunveruleikann með hjálp farsíma. Það sem gerir Matrix svo magnaða er ekki síst hvað hjáveruleiki tölvustýrða heimsins minnir grunsamlega mikið á okkar daglega veruleika; er í raun eftirmynd hans eða endurspeglun hans. Ég sá myndina í bíó í London, þar sem ég steig út í umhverfi ekki ólíkt þeim veruleika sem reynist hjá- veruleiki. Daginn eftir var ég í heimsókn hjá vinkonu minni Gunnþórunni, sem sá mynd- ina með mér. Það var bankað á dyrnar og pósturinn færði henni pakka. Í honum var farsími. Hvarf mannsins Eitt einkenni á sæberpönkinu er „dystópían“ eða svartsýnin. Þrátt fyrir að fantasíum af hvers kyns tagi fylgi alltaf ákveðinn endurómur útópíu, þá er það dystópían sem er ríkjandi. Baráttu Blade við vampýrurnar lýkur aldrei, og því síður bardaga Neo við gervigreindina (svo þarf líka að græða á framhaldsmyndunum). Heimurinn eins og við þekkjum hann er horfinn og hann kemur aldrei aftur. Í grein sinni um sýndarveruleika „Sýnd verund í hjáheimum: Um upplifanir í stafrænni vídd“ á slóðinni http://www.art.is, fjallar Geir Svansson um tvo fræðimenn sem fjalla um framtíð þá sem tækniþróun nútímans býður upp á. Kevin Warwick, prófessor í stýri- fræði, álítur “að gervigreindarvélar muni áður en langt um líður taka manninum fram hvað greind varðar. Þegar svo er komið munu vélarnar ekki sætta sig við stjórn mannsins, heldur taka völdin – líkt og í The Matrix – og hafa manninn sem húsdýr eða þræl. Ray Kurzweil spáir því að gervi- greindin öðlist „mannlegar víddir“, að sálin og sílíkonflagan verði að lokum eitt. Þrátt fyrir að áherslurnar séu ólíkar boða báðir „hvarf mannsins“ í hvorugu tilfellinu verði homo-sapiens ráðandi lífsform á jörðinni miklu lengur og veröld verður vélöld eins og Geir segir. Þessari dystópíska sýn, hvort sem hún birtist í fræðum eða skáldskap, gefur sér að vélöldinni fylgi fasismi, sem minnir mjög á samfélag það sem Huxley og Orwell lýstu í áhrifaríkum skáldsögum sínum um miðja tuttugustu öld. Þessi undirliggjandi fasismi skapar dálítið merkilega togstreitu innan skáldskapartegundar sem kennir sig við pönk, með tilheyrandi farangri stjórnleysis og árásargjarnrar andspyrnu gegn hvers kyns yfirvaldi. Jafnframt því sem sæber- pönkið lýsir upplausn hefðbundins sam- félagsmynsturs og yfirvalda lýsir það nýju samfélagi, þar sem hið miðstýrða vald er að miklu leyti horfið; eða réttara sagt sundrað í smærri valdaeiningar, sem eru ekki síður valdameiri en miðstýringin. Þetta er vald stórfyrirtækjanna og skipulagðra glæpa- gengja, sem í krafti nýrrar eftirlitstækni er orðið næstum algert. Hefðbundnar hug- myndir um lög og reglur eru kannski í upp- lausn, en það breytir ekki því að samfélagið byggist á ákveðnum gildum sem ekki má brjóta gegn. Þetta vald kemur best fram í hinu alsjáandi auga „stóra bróður“, þar sem skjáir, myndavélar, gervihnettir og rafræn spor marka þér hvarvetna stöðu, og gera þér ókleift að dyljast. Árið 1949 þegar 1984 var skrifuð var þessi hugmynd ennþá stór- kostleg, og þegar Terry Gillian gerði mynd sína Brazil 1985 var hugmyndin um hið alsjáandi eftirlit enn færð í ævintýralegt form, ævintýralegt en jafnframt dystópískt. Myndavélaraugu, sjónvarpsskjáir, og ofur- flókið skrifræði ræður lífi og limum ein- staklinga, bókstaflega svo að þegar prent- villa verður til þess að rangur maður er handtekinn og tekinn af lífi, þá er það álitið minni háttar mál. Á níunda áratugnum komu hins vegar fram kvikmyndir sem sýndu þetta alsjáandi eftirlit sem raunveru- leika samtímans, en ekki fantasíu framtíðar. Myndir eins og The Net (Irwin Winkler, 1995) og Enemy of the State (Tony Scott, 1998) segja frá fólki sem óvænt upplifir sig fangið í þéttriðnum möskvum Netsins, nets yfirvalda sem geta fylgst með hverju skrefi. Af öðrum álíka myndum má nefna þrjár síð- ustu James Bond-myndirnar og Mission Impossible-myndirnar, en í öllum þessum myndum er lögð áhersla á leiðir einstak- lingsins til að berjast innan þessa þrönga ramma. Þrátt fyrir að þessar myndir geta tæpast flokkast sem sæberpönk, er í þeim að finna greinileg áhrif frá sæberpönki; líkt og stafræn tækni og líftækni er að verða æ algengara þema í glæpa og spennusögum. Andspyrna einstaklingins gegn alsjáandi yfirvaldi er það sem gefur pönkið í sæber- pönkið. Tölvuþrjótar eru pönkarar framtíð- arinnar, fólk sem gerir það sem það getur til að ráðast gegn stjórnun og stýringu. En þetta stjórnleysi er síðan í stöðugu samspili og samþáttun við stýringuna og kerfið, að því leyti sem orðið sæberpönk er dregið af orðinu stýrikerfi, eða stýrifræði, sem tækni- landslagið er byggt á. Líkt og yfirvald fram- tíðarinnar er ekki miðstýrt, þá fjallar stýri- fræðin um stjórnun viðbragða í lokuðu kerfi. Þannig er sæberpönkið alltaf markað af tog- streitu stjórnunar og stjórnleysis. Auk þessa gengur sæberpönk alltaf út á ákveðna ást á tækni. Það er jú tæknin sem drífur textana áfram, tæknin sem skapar þeim umhverfi og stíl. Innan sagnanna er tæknin vald, í krafti tækninnar ná valdhafar yfirráðum – eða tæknin sjálf tekur völdin, eins og í tilfelli The Matrix, og að þessu leyti einkennist hin dystópíska sýn sæber- pönksins af tæknihatri, baráttu gegn tækni. En barátta neðanjarðarhreyfinganna geng- ur samt alltaf út á að ná valdi á tækni og upplýsingum, með það að markmiði að koll- varpa valdhöfum. Baráttan er því alltaf háð á sviði tækninnar, innan hennar. Þessi mótsögn tæknihaturs og tækniástar kemur best fram í kvikmyndunum, því kvik- myndin er að sjálfsögðu tæknilegur miðill sem er í vaxandi mæli háður tækni til að myndbirta þá ádeilu á tæknina sem sagan segir frá. Tökum Matrix sem dæmi aftur: sú mynd væri ekki möguleg án tæknibrellna sem teikna upp hjáveruleikann og skapa bardagaatriðum ramma. Þessi mótsögn er svo einnig til staðar innan myndarinnar. Neðanjarðarhreyfing hinna örfáu frjálsu manna er háð tækni, þegar Neo er drepinn úr tölvudrómanum, þá þarf ýmis tækni- brögð til að koma honum til „manns“, meðal annars er Neo æfður í bardagalistum í hjá- veruleika til að læra inn á hjáveruleika hjá- veruleikans, ná valdi á honum og geta þann- ig barist við gervigreindarforritin sem taka sér hjáverulegar mannsmyndir. Sams konar mótsögn er að finna í mynd Kathryn Bigelov, Strange Days (1995), sem einnig gengur út á gagnrýni á tækni. Mynd- in gerist rétt fyrir aldamótin 2000. Sam- félagið er í upplausn, kynþáttaóeirðir hafa hertekið borgina og ný tækni gengur kaup- um og sölum í undirheimum hennar. Þessi tækni er kunnug þeim sem lesið hafa Will- iam Gibson, en hún gengur út á það að nú er hægt að nota augun sem upptökuvél: með því að setja eins konar grind á höfuðið er náð sambandi beint inn í sjóntaugina og þannig má taka upp það sem fram fer. Og það er ekki bara hið sýnilega, heldur fylgir í kaupbæti öll líkamleg upplifun, allar tilfinn- ingar, allt það sem líkami og skynfæri hans nema. Og fyrst það er hægt að taka þetta upp er líka hægt að spila það: og sá sem horfir, hann upplifir líka hina upphaflegu upplifun. Þannig er hægt að reyna hvernig það er að vera annað kyn, kynþáttur, eða bara hvernig það er að deyja. Lenny er fyrrverandi leyniþjónustumaður sem nú er ólöglegur sölumaður þessarar tækni. Hann er í ástarsorg því kærastan fór frá honum RÚSTUM DISKÓTEKIÐ „Í mynd Wachowski-bræðra, The Matrix frá 1999, er bæði hrist upp í kynja- og kynþátta- hlutverkum. Heimurinn er allur orðinn að sæbóli, sköpuðu af ofurgáfuðum gervigreindum, knúið áfram af hugsunum, draumum og ímyndunarafli sofandi og fangins mannkyns.“ Á myndinni má sjá Laurence Fishburne í hlutverki Morpheusar. „En hvers vegna skyldu vélarnar vilja taka yfir heiminn, hvaðan ættu þær að öðlast þann vilja? Frá manninum, sem býr þær til, er einróma svar sæberpönksins, og reyndar vísindaskáldsögunnar frá upphafi.“ SÆBERPÖNK: BLAND Í POKA, S ÍÐARI HLUTI E F T I R Ú L F H I L D I D A G S D Ó T T U R STJÓRNLEYSI Í NÚTÍÐ

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.