Lesbók Morgunblaðsins - 16.06.2001, Blaðsíða 2
2 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 16. JÚNÍ 2001
HRYÐJUVERKAMAÐURINN Timothy
McVeigh var tekinn af lífi fyrr í þessari viku.
Áhugi fjölmiðla var gríðarlegur enda þyrsti al-
menning í upplýsingar um aðbúnað hans síðustu
dagana, undirbúning og framkvæmd aftökunnar,
sem og viðbrögð sjónarvotta og aðstandenda fórn-
arlambanna. Hér skipta jafnvel smæstu atriði
máli. Við vitum að umsjónarmaður aftökunnar
Harley Lappin, er „kvæntur og tveggja barna fað-
ir,“ og að fyrirtækið Ritter framleiðir aftökustól-
inn.
Við vitum stærðina á klefanum sem McVeigh
dvaldi í síðustu nóttina í lífi sínu, hvaða fötum
hann klæddist á dauðastundinni, hver síðasta mál-
tíð hans var og að hann valdi 19. aldar ljóðið „In-
victus“ eftir William Ernest Henley sem lokaorð
sín. Við vitum meira að segja að útlínurnar á inni-
skóm McVeighs sáust undir lakinu sem lá yfir
honum á meðan eitrinu var dælt í æðar hans.
Ríkið sýnir táknrænt og raunverulegt vald sitt
yfir þegnunum í aftökunni.
Vald þetta birtist skýrast í líflátinu sjálfu sem
fylgir settum reglum, en jafnframt í þeim fjöl-
mörgu fyrirmælum sem ber að fylgja síðustu dag-
ana fyrir aflífun. Hinn dauðadæmdi fær að taka
með sér fimm ljósmyndir inn í klefann þar sem
hann dvelur síðasta sólarhringinn og síðasta mál-
tíðin má ekki kosta meira en tuttugu dali eða um
2000 krónur. Aftakan er sjónarspil þar sem sak-
borningurinn gefur sig ríkinu á vald og lætur lífið
fyrir syndir sínar. Ákjósanlegast er að hann sam-
þykki dóm sinn, sýni iðrun og óski eftir fyrirgefn-
ingu. Með því gefur hann dauða sínum „jákvæða“
merkingu um leið og hann staðfestir visku og rétt-
sýni ríkisvaldsins. Aftakan er þannig táknrænt
niðurlag ferlis, sem hefst með dauða fórnarlambs-
ins og endar með dauða sakborningsins.
Þrátt fyrir að dauðarefsingu hafi verið fylgt eft-
ir í hinum ýmsu fylkjum Bandaríkjanna í aldar-
fjórðung, er McVeigh fyrsti sakborningurinn sem
er tekinn af lífi af ríkinu í tæp fjörutíu ár. Árið
1963 valdi Victor Feguer eina ólívu sem lokamál-
tíð sína í þeirri von að ávöxturinn af friðartrénu
leiddi til sátta. Hafi menn vonað að McVeigh sýndi
sama samningsvilja urðu þær vonir að engu. Glæp
hans var beint gegn ríkinu og hann á sér hug-
myndafræðilegar og pólitískar rætur, sem eru
skiljanlegar í ljósi evrópskrar sögu, þar sem póli-
tísk hryðjuverk má rekja langt aftur fyrir daga
frönsku stjórnarbyltingarinnar. Í bandarísku
samhengi er glæpur hans þversögn, en þar eru
menn vanari því að fást við sakamenn sem láta
stjórnast af löngunum eins og losta eða græðgi.
Að sama skapi var McVeigh umhugað að afneita
valdi ríkisins yfir sér á dauðastundinni. Hann
sagðist vera „sinnar eigin gæfu smiður og herra
sálar sinnar,“ svo vitnað sé í lokalínur ljóðsins sem
hann gerði að einkunnarorðum sínum. Ljóðið sem
McVeigh valdi er sérkennilega gamaldags, en
dauði hans minnir óneitanlega á dauða þeirra bylt-
ingarmanna sem stóðu keikir á aftökupöllum 19.
aldar með ljóðabækur í höndum og frýjuorð á
munni. Þannig er hætt við að dauði McVeighs
hefji hann upp í augum þeirra aðila, sem telja sig
eiga ýmislegt sökótt við bandaríska ríkið og geri
hann að þeim píslarvætti sem hann mátti aldrei
verða.
Eitt af fórnarlömbum sprengingarinnar í Okla-
homa segist ætla að þurrka Timothy McVeigh úr
minni sínu. „Nafn hans mun falla í gleymsku en
nöfn fórnarlambanna munu ávallt lifa,“ bætti hún
við. Henni verður ekki að ósk sinni.
FJÖLMIÐLAR
DAUÐINN OG TIMOTHY MCVEIGH
Aftakan er sjónarspil þar sem
sakborningurinn gefur sig rík-
inu á vald og lætur lífið fyrir
syndir sínar. Ákjósanlegast er
að hann samþykki dóm sinn,
sýni iðrun og óski eftir fyr-
irgefningu.
GUÐNI ELÍSSON
IÍ vetur kom út í Bretlandi bókin The Full Room(Þéttsetna herbergið) eftir breskan leikstjóra að
nafni Dominic Dromgoole. Sá hefur getið sér orð
sem einn af frumlegri leikstjórum breskum af yngri
kynslóðinni, hann var listrænn stjórnandi Bush
leikhússins, þar á eftir Old Vic leikhússins og er nú
listrænn stjórnandi Whitehall leikhússins. Á ferli
sínum hefur hann leikstýrt eða átt þátt í frumflutn-
ingi um 80 nýrra leikrita og í Þéttsetna herberginu
lætur hann gamminn geysa í fjölmörgum stuttum
og hnitmiðuðum ritgerðum um alla helstu breska
leikritahöfunda samtímans. Einn og einn frá meg-
inlandinu fær að fylgja með ef Dromgoole hefur þótt
ástæða til. Ein þeirra er hin franska Yazmina
Reza, höfundur l’Art, Listaverksins, sem sýnt var
hér í Þjóðleikhúsinu við miklar vinsældir. Um hana
segir Dromgoole: „Yasmina Reza er mjög rík. Yasm-
ina Reza est trés riche.“ Svo mörg voru þau orð.
IIDromgoole tilheyrir þeim hópi breskra leik-húsmanna sem tekið hefur út þroska sinn og
menntun við Oxford eða Cambridge háskóla. Hann
skrifar eins og sá sem valdið hefur, lætur allt flakka
og er fyndinn og skemmtilegur að ekki sé sagt örlítið
sjálfumglaður í skrifum sínum. Ritgerðir hans eru
þó góð áminning um að ekki skuli taka alla hluti
jafn hátíðlega og að tímarnir sem við lifum á séu
nánast óskiljanleg blanda af öllu sem áður hefur
verið gert og hefur ekki verið gert. Þeir sem hafa
þörf fyrir að skilgreina hlutina og treysta varlega
eigin dómgreind eiga erfitt uppdráttar í slíku um-
hverfi.
IIIDromgoole segir í ritgerð sinni um Sam Adam-son, sem er ungt breskt leikskáld með tvö at-
hyglisverð leikrit að baki, Clocks & Whistles og
Grace Note, að Michael Codron, (þekktur breskur
leikhúsmaður) hafi hvíslað að sessunaut sínum eft-
ir að tjaldið féll á frumsýningu í Bush leikhúsinu á
Clocks & Whistles. „Þetta var mjög skemmtilegt en
er þetta gott leikrit?“ Dromgoole segist hafa glaðst í
hjarta sínu, ekki vegna þess að Codron hafi skemmt
sér og ekki heldur vegna þess að hann var svona
óöruggur heldur vegna þess að enginn þekkir regl-
urnar lengur. Ekki einu sinni þeir sem setja þær.
Dromgoole er ómyrkur í máli í garð gagnrýn-
enda. Hann segir að leiklistargagnrýni sé farsi sem
allir hafi samþykkt að taka þátt í. „Af einhverri
óþekktri ástæðu höfum við samþykkt að halda uppi
trúverðugleika hennar. Gagnrýni er della sem bygg-
ist á því hvað gagnrýnandinn borðaði í hádeginu,
hvenær hann fékk það síðast, í hvaða skóla hann
gekk, hvort hann var lagður í einelti sem barn eða
unglingur, hvort honum var sparkað úr skóla-
leikriti eða hvort hann er með plattfót. Að láta sér
detta í hug að gagnrýnandi geti hafið sig yfir allt
þetta upp á svið hreinnar dómgreindar er brjálæði
sem teygir sig lengra en öll eðlileg geðveiki.“
IVSíðan viðurkennir Dromgoole að hann myndialdrei gagnrýna leikrit þar sem hann viti
hversu erfitt sé að skrifa þau. „Ég elska, virði og dái
alla takmarkalaust sem geta skrifað leikrit.“
VHér má rifja upp orð hins sænska leikskálds PerOlov Enquist sem sagði eitt sinn að þegar leik-
rit loks kæmi fyrir sjónir almennings hefði það þeg-
ar átt langt stefnumót við sinn harðasta gagnrýn-
anda. Nefnilega höfundinn sjálfan.
NEÐANMÁLS
Það helgaðist nú fyrst og
fremst af efninu, þ.e. einhvers
konar tilraun til að draga upp
myndina af heiminum. Þegar
ég var í skóla minnir mig að
þetta hafi verið afgreitt mál og
ekki áhugavert sem slíkt en
síðan hefur þessi umræða um
heimsmyndina tekið allt aðra
stefnu. Heimsmyndin er í svo
gerjandi mótun nú um stundir
að allir sem eru að fást við list-
ir hljóta að verða varir við
það. Heimsmyndin er á dag-
skrá hjá almenningi, í blöð-
um, tímaritum og öllu þessu
efni sem umleikur okkur. Vís-
indi, fræði og listir vefast sam-
an, það er innan handar fyrir
mig sem rithöfund að nýta
mér allt sem ég get úr fræð-
unum og ef ég hefði tök á því
að tileinka mér niðurstöður
vísindanna þá myndi ég gera
það. Þetta er alþjóðlegt fyr-
irbæri, lítum t.a.m. á franska
höfundinn Houellebecq sem
nýlega skrifaði Öreindirnar –
þar er á ferðinni höfundur
sem tekur inn líftækniumræð-
una og notar sem efnivið í
skáldsögu.
Pétur Gunnarsson
tmm
Hagfræði kynlífsins
Hvaðan þörf fólks til að
stunda kynlíf sprettur er í
sjálfu sér ekki hagfræðilegt
vandamál en ætla má að hún
sé meðfædd og mótist á
þroskaskeiði okkar. Það er
hins vegar gefin staðreynd að
fólk vill stunda kynlíf og lítur á
það sem leið að ákveðnum
markmiðum. Eins og hér hefur
verið fjallað um má sýna fram
á að verð á mismunandi kyn-
lífsathöfnum skýri mismun-
andi kynhegðun. Því hefur
einnig verið haldið fram að
hægt sé að útskýra mismun
kynjanna, bæði hegðun og
útlit, út frá kenningum um
náttúruval og að innri rökvísi
af hagfræðilegum toga sé
einnig að verki í náttúrunni. Í
þeim kenningum sem hér hafa
verið settar fram er því ekki
hafnað að fólk hafi tilfinn-
ingar og misjafnan smekk. En
tilhneigingar þess í kynlífs-
málum ráðast af utanaðkom-
andi aðstæðum, þeim mögu-
leikum og hömlum sem setja
bönd á hegðun fólks. Fólk
stundar kynlíf vegna þess að
það er leið að ákveðnum
markmiðum en þau markmið
geta verið af ýmsum toga. Í
hagfræði er gert ráð fyrir því
að fólk leiti skynsamlegra
leiða til þess að ná mark-
miðum sínum. Hér hefur verið
reynt að lýsa samskiptum
kynjanna á þennan hátt.
Sólmundur Ari Björnsson
tmm
HEIMSMYND
Í GERJUN
Morgunblaðið/RAX
Látbragð við Geysi.
NÝ SKÁLDSAGA eftir breska
rithöfundinn Magnus Mills er
komin í búðir í Bretlandi en hún
ber heitið
Three to See
the King (Þrír
að finna kon-
unginn). Líkt
og í fyrri bók-
um sínum seg-
ir höfund-
urinn þar
fjarstæðu-
kennda sögu.
Aðalpersónan
er ónefndur maður sem býr einn
í tinhúsi á eyðilegri sléttu fjarri
mannabyggð. Magnus Mills kom
fyrst fram á sjónarsviðið í bresk-
um bókmenntaheimi árið 1999
með skáldsögunni The Restraint
of Beasts, eða Taumhald á
skepnum eins og hún heitir í ís-
lenskri þýðingu Ísaks Harð-
arsonar sem út kom í fyrra. Bók-
in var tilnefnd til
Booker-verðlaunanna og þótti
afhjúpa á kaldhæðinn en áleitinn
hátt bágborið mannlíf í sveitum
Bretlands. Mills er einnig höf-
undur skáldsögunnar All Quiet
on the Orient Express sem einn-
ig vakti mikla athygli.
Harðsoðinn Mosely
BANDARÍSKI rithöfundurinn
Walter Mosley sendi frá sér nýja
skáldsögu nú í júní. Sú heitir
Fearless Jones (Jón kaldi), og
segir frá samnefndri persónu og
gerist í Los Angeles á sjötta ára-
tugnum. Walter Mosley er virtur
rithöfundur
og áberandi
persóna í
bandarísku
bókmennta-
lífi. Hann er
þekktastur
fyrir að skrifa
spennusögur
af harðsoðnu
hefðinni og
færa inn í
reynslu og samfélag blökku-
manna í stórborgum Bandaríkj-
anna. Aðalsmerki höfundarins er
fágaður stíll og eftirminnilegar
persónur en frægust þeirra er
sögupersónan Easy Rawlins sem
fyrst kom fyrir í bókinni Devil In
A Blue Dress. Skáldsagan RL’s
Dream, sem út kom árið 1996,
þótti jafnframt staðfesta hæfi-
leika rithöfundarins á sviði fag-
urbókmennta.
Fearless Jones verður vafa-
laust vel fagnað meðal aðdáenda
Mosely enda fyrsta spennusaga
höfundarins frá því árið 1996.
Í gervi Rosamond Smith
Óhætt er að segja að Joyce Carol
Oates sé með afkastameiri rit-
höfundum samtímans en hún
hefur sent frá
sér tugi rit-
verka af ýmsu
tagi á sínum
ferli. Hún hef-
ur nú gefið út
nýja spennu-
sögu en ekki
er lengra síð-
an en í mars
síðastliðnum
að hún sendi frá
sér smásagnasafnið Faithless:
Tales of Transgression sem
hlaut lofsamlega dóma. Glæpa-
sagan heitir The Barrens: A
Novel of Suspense og kemur hún
út undir höfundarnafni sem
Oates skrifar jafnan spennusög-
ur sínar undir, þ.e. Rosamond
Smith. Þá kom hin ágæta skáld-
saga Oates frá síðasta ári,
Blonde: A novel, nýlega út í kilju-
formi og hafa margir unnendur
bókmennta eflaust beðið með
eftirvæntingu eftir þeirri útgáfu.
ERLENDAR
BÆKUR
Mills með nýja
skáldsögu
Walter Mosely
Joyce Carol
Oates
Magnus Mills