Lesbók Morgunblaðsins - 16.06.2001, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 16.06.2001, Blaðsíða 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 16. JÚNÍ 2001 9 Það er hinsvegar áhugavert að líta til dags- ins í dag og sjá hvað er að gerast einmitt núna, hvernig myndlistarmenn samtímans vinna með hugtök eins og skemmtanir, afþreyingu og myndlist. Það er alþekkt að allar stefnur og straumar eru að blandast saman eins og hönn- un og byggingarlist blandast við myndlist í auknum mæli þannig að oft er erfitt að flokka hlutina. Tónlist, kvikmyndir, myndbönd, leik- list og myndlist renna þannig saman í eitt og aftur í sundur. Sú kynslóð ungra myndlistar- manna sem hefur alist upp við flóðbylgju upp- lýsinga, afþreyingar og skemmtana hlýtur að taka öðruvísi á viðfangsefni sínu en listamenn sem voru brautryðjendur til dæmis á sviði myndbandalistar. Skemmtanaþjóðfélagið Sýningin „Let́s Entertain“ er byggð á myndlist síðustu tuttugu ára og nýjustu verkin eru aðeins nokkurra mánaða gömul og þannig yngri en sýningin sjálf. Og samt eru sum verk- anna nú þegar orðin sígild eða alþekkt enda listamennirnir flestir í hópi alþjóðlegra stjarna sem skotið hafa upp kollinum á síðustu árum. Þar má nefna Mariko Mori, Piotr Uklanski, Gillian Wearing, Stan Douglas, Douglas Gord- on, Andreas Gursky, Rineke Dijkstra og Dam- ien Hirst. Aldursforsetarnir eru svo Andy Warhol, Cindy Sherman, Richard Prince, Dara Birnbaum, Jeff Koons, Martin Kippen- berger, Paul McCarthy, Mike Kelley, Dan Graham og Duane Hanson svo að einhver þeirra séu nefnd. Af þessari upptalningu má sjá að þó að flestöll verkin séu gerð á síðustu tuttugu árum er þarna um tvær eða jafnvel þrjár kynslóðir ólíkra myndlistarmanna að ræða. Sýningarstjóri og um leið aðalhugmynda- smiður sýningarinnar er Philippe Vergne. Hann hefur starfað við Walker Art Center í Minneapolis frá árinu 1997 en var þar áður fyrsti forstöðumaður nútímalistasafnsins í Marseille í Frakklandi (MAC). Hann segir í samtali við annan sýningarstjóra Olukemi Iles- anmi að hugmyndina að sýningunn megi rekja til þess er hann starfaði í Evrópu. Það er hins- vegar athyglivert að þeir þrír listamenn sem hann nefnir sem grunninn að sýningunni eru allir amerískir, nefninlega Dan Graham, Cindy Sherman og Dara Birnbaum. Það er sennilega engin tilviljun að bandarískir myndlistarmenn hafa verið fyrri til að taka mið af skemmtunum og afþreyingu því amerískt þjóðfélag hefur jú verið kallað skemmtanaþjóðfélagið og amer- íski draumurinn ein allsherjar gleði! Walt Disney og Hollywood-draumaverksmiðjan eru talandi dæmi um uppbyggingu afþreyingar sem byggðist á eintómri skemmtun með far- sælum sögulokum. En það er um leið áhuga- vert að sjá hvernig bandarískir listamenn fjalla um þetta þjóðfélag sem þeir hafa alist upp í. Cindy Sherman með beinskeyttar tilvísanir í stöðu kvenna innan kvikmyndanna þar sem hún setur sig í stellingar sögupersóna úr kvik- myndum í svart/hvítum ljósmyndaverkum sín- um. Á sama hátt spilar Dara Birnbaum með kvenhetju sjöunda áratugarins í myndbands- verkinu „Technology/Transformation: Wond- er Woman“ frá árunum 1978–79. Bæði verkin eru mjög pólitísk og sterk dæmi um feminíska myndlist sem gagnrýni á skemmtanaiðnaðinn sem oftar en ekki var og er stjórnað af körlum sem settu konur í einhvers konar fórnarlambs- stellingar eða bara í hlutverk heimsku ljós- kunnar. Fullkomin gleði Annað sjónarhorn á amerískan skemmtana- iðnað veitir okkur Paul McCarthy með verkinu „Michael Jackson White, Michael Jackson Black“, 1997–99. Þar sjáum við einn af hold- gervingum amerísks skemmtanaiðnaðar sitj- andi sem risavaxna styttu líkt og minnisvarða með apann sinn, einu sinni svartur og einu sinni hvítur. Þar er komið inn á annað eldfimt mál í bandarísku þjóðfélagi nefnilega kyn- þáttamál sem tengjast einnig skemmtanaiðn- aðinum sterkum böndum. Frábært innlegg í þá umræðu er nýjasta kvikmynd leikstjórans Spike Lee „It́s Showtime“ en hún tekur ein- mitt á fordómum og lítilsvirðingu gagnvart svertingjum innan skemmtanageirans. Sum verkin á sýningunni eru hinsvegar ekki eins augljós gagnrýni á skemmtana- og afþreying- ariðnaðinn. Og þar er ef til vill komið að mis- munandi sýn kynslóðanna frekar en muninum á myndlist frá Evrópu, Ameríku og Asíu. „Dansgólf“ Pólverjans Piotr Uklanski er til dæmis bara sorglegt þegar það stendur inní miðri sýningarhöll og enginn er að dansa. Eins sorglegt og það er að koma á illa sótt diskótek. Það er helst að börn skemmti sér við verkið og fari ósjálfrátt að hoppa á milli bilkkandi ljós- anna í gólfinu. Skotinn Douglas Gordon höfðar meira til tilfinninga okkar í verkinu „Some- thing between My Mouth and your Ear“ frá 1994. Í dökkbláu herbergi eru leikin popplög sem mamma listamannsins hefur sennilega hlustað á þegar hann var í móðurkviði og þann- ig á manni að líða. Lögin sem voru vinsæl árið 1966 þekkja ekki aðeins þeir sem hlustuðu þá, heldur eru mörg þessara laga orðin sígild þó að teknókynslóðin hafi ef til vill minni áhuga á Bítlunum og Rolling Stones. Augljós þjóð- félagsgagnrýni er hinsvegar ekki til staðar enda verkið ekki gert með það að markmiði. Það sýnir okkur hinsvegar hversu sterk tök skemmtanaiðnaðurinn hefur á okkur. Jafnvel fyrir fæðingu erum við orðin neytendur dæg- urlaga sem geta svo haft áhrif á sálarlíf okkar það sem eftir er! Verk Ítalans Maurizio Cattel- an „Leikvangur“ frá 1991 fær okkur til að hugsa um íþróttir og menningu, ofbeldi og kynþáttahatur. Verkið er fótboltaspil og í stað þess að tveir eða fjórir geti spilað í einu þá er borðið það langt að tvö fullmönnuð fótboltalið geta spilað gegn hvort öðru. Þegar listamað- urinn setti verkið upp í fyrsta skipti fyrir tíu árum fékk hann tvö lið til að keppa við hvort annað í sýningarsalnum. Annarsvegar ítalskt fyrstudeildarlið og hinsvegar lið innflytjenda frá Senegal. Verkið spilaði þannig með hvoru tveggja í senn, ótæmandi fótboltaáhuga Ítala og spennuna gagnvart innflytjendum frá Afr- íku. Maurizio Cattelan sagði að ef verkið væri vel heppnað þá ættu allir að geta spilað saman, hlið við hlið og á móti hver öðrum en að það væri aðeins ein leið í átt að fullkominni gleði en ekki sú eina! Hollenska listakonan Rineke Dijkstra er þekkt fyrir litljósmyndir sínar af börnum og unglingum sem stilla sér upp á bað- ströndum víðsvegar um heiminn. Í mynd- bandsverkinu „The Buzz Club/Mystery World“ frá árunum 1996–97 fékk hún unglinga til að setja sig í stellingar fyrir framan upp- tökuvélina í næturklúbbum fyrir ungt fólk í Liverpool og Zaandam í Hollandi. Þau standa með hvítan bakgrunn og hreyfa sig í takt við tónlistina, horfa undan, blása reyk út í loftið eða kyssast. Þau eru samt eins og verur frá öðrum hnetti, rifin úr samhengi frá dansstaðn- um og virka umkomulaus og vandræðaleg í efnislitlum dansfötunum. Er heimur skemmt- analífs ungmenna einhver annar heimur sem er lokaður gamlingjum? Og hvenær verður maður gamall? Er það um fertugt eða jafnvel þegar við verðum 25 ára? Menning ungmenna er sérkafli útaf fyrir sig og áhugavert að fylgj- ast með hvernig neyslusamfélagið hefur upp- götvað nýjan markhóp með nóg fjármagn milli handanna, nefnilega unglingana. Ofuráherslá á allt sem ungt er, en um leið þurfa allir að flýta sér að verða fullorðnir. Myndlistarmaðurinn og kennarinn Dike Blair hefur skoðað sérstaklega samhengi hönnunar og myndlistar í nútímanum. Hann segist gjarnan spyrja nemendur sína, án þess að búast við svari, að því hvor hafi verið mik- ilvægari listamaður tuttugustu aldar, Walt Disney eða Pablo Picasso? Hann segist með þessari spurningu ekki vilja egna saman „æðri listum gegn lágmenningu“ heldur miklu frekar fá nemendurna til að velta fyrir sér áhrifum markaðssetningar og skemmtanaiðnaðar á daglegt líf okkar og áhrifa þessara þátta á nú- tímamyndlist. Hann tók viðtöl við nokkra helstu hönnuði dagsins í dag, þar á meðal bíla- hönnuðinn J Mays sem starfaði lengi hjá Audi og Volkskswagen og á heiðurinn af hönnun á „New Beetle“. Hann hefur fært sig um set og starfar nú á sama vettvangi hjá keppinautinum Ford. Aðspurður um muninn á þýskri og bandarískri bílahönnun segir J Mays að á með- an þýsk hönnun leggi meiri áherslu á gæði þá leggi bandarísk hönnun sig eftir því að vera „skemmtileg og fyndin“ og ná þannig til breiðari markhóps. Gott dæmi um þetta séu Apple-tölvurnar sem virkuðu sem algjör sprengja þegar iMac kom á markaðinn. Fram að því höfðu allir lagt sig fram við að hafa útlit á tölvum afar hefðbundið og ábyrgðarfullt. Þegar hinar gegnsæju iMac-tölvur komu fram, sem litu frekar út eins og leikföng og voru auk þess svo einfaldar í notkun að hver sem er gat lært á þær á nokkrum mínútum og farið á Netið, var kominn ný vídd í heim sem áður hafði verið afmarkaður. Jonathan Ive, sem var einn þeirra sem lögðu grunninn að hönnun iMac- og síðar iBook-tölvunnar, er ein- mitt af sömu kynslóð og yngstu myndlistar- mennirnir sem eiga verk á sýningunni „Let́s Entertain“. Samhliða stóru sýningunni í Kunstmuseum Wolfsburg stendur yfir sýning á verki eftir arkitektinn Zaha Hadid. Það er auðvitað fullkomlega í anda þessarar sam- blöndu hönnunar og myndlistar að fá arkitekt til að endurskapa rými í listasafninu. Zaha Ha- did, sem er fædd í Bagdad en býr í London, er ein af skærustu stjörnum nútímabyggingar- listar. Hún hefur unnið til fjölda verðlauna og með- al verka hennar sem eru í byggingu má nefna nýtt nútímalistasafn í Cincinnati í Bandaríkj- unum og annað slíkt í Róm og svo vísinda- miðstöð sem á einmitt að rísa í Wolfsburg. Í listasafninu hefur hún skapað umhverfi með götóttum veggjum og bogadregnum lín- um. Verkið heitir „Lounge“ og á að nýtast sem setustofa, vinnuherbergi, lestrarsalur, bar, diskótek, klúbbur, fyrirlestrasalur, tónleika- staður eða bara staður fyrir hverskonar skemmtanir. En eru mörkin milli byggingar- listar og myndlistar þá endanlega afmáð? Sennilega ekki, því þó að arkitektar geri myndlist og myndlistarmenn hanni byggingar, er ekki þar með sagt að þeir hafi skipt um hlut- verk. Mörkin eru hinsvegar orðin óljósari og það er einmitt spennandi og getur einnig verið skemmtilegt. Á sama hátt og hönnun hefur áhrif á nútíma- myndlist og myndlist á hönnun, þá er áberandi hvað teiknimyndahetjur skipta einnig miklu máli í þessu samhengi. Í verkum margra jap- anskra myndlistarmanna eins og til dæmis Mariko Mori og Takashi Murakami er verið að fjalla um þennan óraunverulega heim og upp- hafningu stjörnunnar sem getur allt og gerir næstum allt. Skýrar andstæður milli góðs og ills eru hlutir sem teiknimyndahetjur eru með alveg á hreinu og það er einmitt það sem skipt- ir öllu máli, einnig fyrir neytendurna, hverjir eru þeir góðu og hverjir eru vondir. Með til- komu tölvuleikja og netleikja þar sem börn eiga oft erfitt að skilja milli veruleika og tilbún- ings erum við komin að einhverjum mörkum sem auðvitað verða áfram þanin til hins ítrasta. Þessi veruleiki hefur einnig áhrif á myndlist- armenn og það er vonandi þeirra hlutverk að varpa öðru ljósi á staðreyndirnar og fá okkur til að hugsa á annan hátt en við erum vön. Það hvort myndlist sé skemmtileg eða ekki er hins- vegar fullkomið smekksatriði því það sem ein- um finnst fyndið finnst öðrum leiðinlegt á sama hátt og fegurð er og verður afstæð. En flestir geta verið sammála um að góð myndlist taki mið af því þjóðfélagi sem við lif- um og hrærumst í og ef svo er þá hlýtur skemmtanaþátturinn að skipa þar veglegan sess. Heimildir: Dike Blair: Thoroughly Entertained; Let́s Entertain (Minneapolis: Walker Art Center, 2000). Emma Duncan: Thrill and spills: a survey of e-enterta- inment (London: The Economist, Vol. 357, Nr. 8191, 7th-13th October 2000). Richard Shustermann: Come Back to Plesure; Let́s En- tertain (Minneapolis: Walker Art Center, 2000). Kristine Stiles: Between Water and Stone-Fluxus Per- formance; In the Spirit of Fluxus (Minneapolis: Walker Art Center, 1993). Gijs van Tuyl: Zaha Hadid Lounge; Experimentierfel- der an der Peripherie des Museums (Wolfsburg: Kunstmuseum Wolfsburg, 2001) Philippe Vergne/ Olu- kemi Ilesanmi: Conversation; Let́s Entertain (Minnea- polis: Walker Art Center, 2000). Höfundur er myndlistarmaður. „Lounge“, 2001, eftir arkitektinn Zaha Hadid, setustofa og bar sem hönnun og listaverk í senn. „Diskóbombur“, 1989 (Diskókúlur og hárkollur), eftir Martin Kippenberger í forgrunni og „Michael Jackson White“, 1997–’99, eftir Paul McCarthy fyrir aftan.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.