Lesbók Morgunblaðsins - 08.09.2001, Síða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 8. SEPTEMBER 2001 11
Hvað er kósangas og hvernig
brennur það?
SVAR:
Kósangas er öðru nafni nefnt própangas
og er ýmist unnið úr jarðolíu eða með efna-
breytingu á skyldu efni sem nefnist propene.
Í gasinu eru sameindir með 3 kolefn-
isatómum (C) og 8 vetnisatómum (H) og er
það því auðkennt með efnaformúlunni
C3H8(g). Við sýnum hér líkanmynd af sam-
eindinni. Einkennisbókstafurinn g táknar
form eða ham efnisins, sem er gas. Eins og
nafnið bendir til er efnið á loftkenndu formi
við eðlilegar kringumstæður (staðalað-
stæður, 25°C og 1 loftþyngdar þrýsting).
Eðlismassi kósangass er um 1,9 grömm á
lítra (g/l) við staðalskilyrði og er það því
þyngra en loft, sem hefur eðlismassa um það
bil 1,3 g/l við sömu aðstæður.
Bruni kósangass felst í því að sameindir
efnisins (C3H8(g)) ganga í efnasamband við
súrefni andrúmsloftsins (O2(g)). Þegar brun-
inn verður þar sem gnægð er af súrefni, eins
og til dæmis utan dyra eða í vel loftræstu
herbergi, rofna sameindir gassins og tengj-
ast súrefnisatómum með þeim hætti að ann-
ars vegar myndast vatnssameindir sem þétt-
ast og mynda vatn á vökvaformi, til dæmis
sem vatnsdropa (H2O(l)), og hins vegar
koltvíildi eða koltvíoxíð á gasformi (CO2(g)).
Einkennisbókstafurinn l táknar að vatnið er í
vökvaham og stendur fyrir upphafsstafinn í
enska heitinu liquid. Þetta má tákna með eft-
irfarandi hætti:
C3H8(g) + 5 O2(g) -> 4H2O(l) + 3CO2(g)
Fyrir hverja eina sameind af kósangasinu
þarf að jafnaði 5 sameindir súrefnis. Ef súr-
efnisframboðið er hins vegar minna, til dæmis
í lokuðu rými, getur átt sér stað „takmark-
aður bruni“ sem felst í því að í stað CO2(g)
myndast koleinildi eða kolmónoxíð á gasformi
CO(g). Þetta má tákna með eftirfarandi hætti:
C3H8(g) + 3,5O2(g) -> 4H2O(l) + 3CO(g)
Fyrir hverja eina sameind af kósangasinu
nýtast einungis 3,5 súrefnissameindir að jafn-
aði. Ef veruleg takmörkun er á súrefn-
isframboði getur átt sér stað enn „takmark-
aðri bruni“. Þá myndast hreint kolefni sem
sest til sem svart fast efni (C(s)), sem við
þekkjum sem sót. Þá er talað um að gasið
sóti, líkt og þegar kerti sótar. Einkenn-
isbókstafurinn s táknar fast form kolefnisins
og stendur fyrir upphafsstafinn í enska heit-
inu solid. Þetta má tákna með eftirfarandi
hætti:
C3H8(g) + 2O2(g) -> 4H2O(l) + 3C(s)
Fyrir hverja eina sameind af kósangasinu
nýtast hér einungis 2 súrefnissameindir að
jafnaði. Af þessu má sjá að tvær gastegundir
geta myndast við bruna kósangass, koltvíildi
(CO2(g)) sem myndast við mikið súrefn-
isframboð og koleinildi (CO(g)) sem myndast
við takmarkað súrefnisframboð.
Koltvíildi er fyrir í andrúmsloftinu í litlu
magni (0,03%) og gegnir mikilvægu hlutverki
í lífkerfi jarðarinnar. Það efni, ásamt vatni,
er meginmyndefni öndunar og efnanið-
urbrots lífvera og myndast meðal annars í
fráöndun okkar mannanna. Koleinildi er hins
vegar hættulegt lífríkinu, meðal annars
vegna þess eiginleika sameindanna að geta
bundist burðarsameindum súrefnis í blóði,
hemóglóbínsameindunum, á þeim stað þar
sem súrefnið á og þarf að bindast til að við-
halda eðlilegri öndun. Þannig geta CO sam-
eindir hindrað öndun hjá lífverum og leitt til
köfnunar og dauða.
Koltvíildi (CO2(g)) hefur eðlisþyngd um
1,9 grömm per lítra og er því þyngra en loft
(1,3 g/l), en koleinildi (CO(g)) hefur svipaða
eðlisþyngd og loft (1,3 g/l). Koltvíildi getur
verið hættulegt mönnum þó að það sé ekki
eins bráðdrepandi og koleinildi. Vegna eðl-
ismassans getur það til dæmis safnast fyrir í
námugöngum og í kjöllurum eða lægðum í
landslaginu í eldgosum og ýtt súrefni burt
þannig að menn og dýr ná ekki að anda.
Koltvíildi sem myndast við bruna á gasi í lok-
uðu herbergi getur hins vegar varla orðið
mönnum að bana vegna þess að koleinildi fer
að myndast vegna súrefnisskorts áður en
menn kafna beinlínis úr honum.
Ágúst Kvaran, prófessor í efnafræði við Háskóla Ís-
lands.
Heimildir:
Molecules eftir P.W. Atkins, Scientific American
Library, (1987)
The Penguin Dictionary of Chemistry, D.W.A. Sharp,
Penguin Books, (1983)
Handbook of Chemistry and Physics, 63. útgáfa, 1982-
1983.
Hvenær er talið að Jökulsá á
Fjöllum hafi byrjað að mynda
undirlendi í Öxarfirði með fram-
burði sínum?
SVAR:
Sennilegast er að Jökulsá á Fjöllum hafi
byrjað að bera set í Öxarfjörð þegar í ísald-
arlok, fyrir 12.000 árum eða svo. Þetta má
sýna fram á með því að skoða malarhjalla
sem myndast þar sem straumvötn renna í sjó
eða stöðuvötn. Í ísaldarlokin urðu hraðar
sjávarstöðubreytingar: fyrst stóð sjór hátt
miðað við núverandi sjávarstöðu vegna þess
að jöklarnir höfðu þrýst landinu niður, og
þegar þeir bráðnuðu flæddi sjórinn inn yfir
landið.
Þetta tók þó aðeins 500-1000 ár, en þá
mynduðust strandlínur í allt að 110 m hæð. Í
Öxarfirði munu hæstu strandlínur vera í um
það bil 50 m hæð. Næst reis landið úr sæ og
var sjávarborð þá um 30 m neðan við núver-
andi sjávarstöðu – þetta sést af rofflötum og
malarhjöllum á 30 m dýpi – en síðan reis
sjávaryfirborð smám saman að núverandi
stöðu.
Þegar jöklarnir voru mestir náðu þeir al-
veg fram á landgrunnsbrún og undir þeim
var ber klöppin, því að jöklarnir óku öllu
lauslegu á undan sér. Ísaldarlokin urðu með
allmikilli skyndingu, jöklar hopuðu hratt og
bræðsluvatnið myndaði gríðarlegar jökulár.
Færð hafa verið að því rök að Jökuls-
árgljúfur og Ásbyrgi hafi myndast í „ham-
farahlaupum“ sem svo eru nefnd – gríð-
arlegum hlaupum sem verða þegar heilt
stöðuvatn tæmist skyndilega. Slík hlaup hafa
feiknarlegan rofmátt samanborið við venju-
leg straumvötn. Talið var að hlaup þessi
hefðu tengst ísaldarlokunum – nefnilega að
jökulstíflur hefðu brostið og valdið hamfara-
hlaupum – en rannsóknir á gjóskulögum
sanna að Jökulsá hefur flætt langt yfir bakka
sína og um Ásbyrgi fyrir minna en 2800 ár-
um. (Gjóskulagið Hekla-3, sem féll fyrir 2800
árum, finnst ekki í jarðvegi).
Sigurður Steinþórsson, prófessor í jarðfræði við
Háskóla Íslands.
HVAÐ ER
KÓSANGAS?
Í vikunni sem er að líða fjallaði Vísindavefurinn
meðal annars um hvort til séu staðreyndir,
hvaða þjóð veiði mest af hvölum og hvernig hægt sé að nálgast óend-
anlega einhvern punkt en ná samt aldrei til hans. Þar er einnig sagt frá
því hvort höfundur Hávamála hafi vitað hvað api er, en á einum stað í
kvæðinu stendur að margur verði af aurum api.
VÍSINDI
SAMHENT hefur fjórar kveður í hverri línu
og eru allar stýfðar. Er hátturinn að því leyti
eins og stafhent sem fjallað var um í síðasta
þætti nema hvað allar línur samhendu ríma í
lokin. Þessi aðsenda vísa ÞK er óbreytt sam-
henda
Yfir höfin breið og blá
bárust skip með segl við rá.
Reis við stafna hrönnin há,
hvítum faldi skrýddist þá.
Hátturinn er mjög gamall en er þó sjaldgæf-
ari en stafhenda í eldri rímum. Örn Arnarson
orti Rímur af Oddi sterka að mestu undir sam-
hendum hætti hringhendum sem einnig var
nefndur hagkveðlingaháttur. Þannig hefst
fjórða ríma:
Tækni breyta tímans völd,
tískan þreytir aldinn höld.
Hugur leitar helst í kvöld
heim í sveit á nítjándu öld.
Þá brá hann fyrir sig dýrara afbrigði hátt-
arins með því að láta innrím og endarím kallast
á. Var slíkt kallað áttþætt eða áttþættingur:
Ein er, veit ég uppi í sveit,
ekki þreyti neina leit,
æskuteit og hjartaheit,
hökufeit og undirleit.
Stikluvik virðist ekki koma fyrir í varðveitt-
um rímum fyrr en á seinni hluta 16. aldar.
Fyrsta, þriðja og fjórða braglína eru ferkvæð-
ar og allar stýfðar og ríma saman. Önnur brag-
lína er aftur á móti þríkvæð og óstýfð og rímar
ekki við hinar. Sem dæmi um háttinn óbreytt-
an má taka þessa vísu úr Háttatali Sveinbjarn-
ar Beinteinssonar:
Aftur hljóma lögin ljúf,
lengja tekur daginn.
Vísu ritar höndin hrjúf,
hugur dvelst við rímnastúf.
Eftir Magnús Magnússon í Magnússkógum
(1763-1840) er þessi hringhenda stikluviksvísa
úr Rímum af Bernótusi Borneyjarkappa:
Hittu góða höfn við möl,
hestum flóða áðu;
gengu rjóðar geirs af fjöl
Gauts á fljóð með enga dvöl.
Annars var algengt að menn kvæðu undir
þríhendu stikluviki. Var þá innrím fyrstu,
þriðju og fjórðu línu þversetis en önnur lína
var sér um innrím langsetis. Var þannig bæði
lögð áhersla á sérstöðu annarrar braglínu með
innrími og endarími. Er eftirfarandi vísa Sig-
urðar Bjarnasonar (1841-1865) úr Rímum af
Áni Bogsveigi dæmi þessa háttar:
Mörg og stór eg merki fann
mín að fín er gifting;
oft mig Jórunn vara vann
við að klóra gylfa þann.
Valstýft eða valstýfa er vafalaust sprottin
upp úr dverghendu. Frumlínur (fyrsta og
þriðja lína) háttarins eru ferkvæðar, ýmist
stýfðar eða óstýfðar en síðlínur (önnur og
fjórða lína) eru aðeins tvíkvæðar og alltaf
stýfðar. Oft er forliður á undan þeim, einkum
séu frumlínur stýfðar. Braglínur ríma allar
saman og er það reyndar einn munur valstýfu
og dverghendu sem er víxlrímuð. Guðmundur
Bergþórsson (um 1657-1705) er fyrstur talinn
hafa ort undir hættinum óbreyttum en í Bál-
antsrímum, sem ortar munu 1701, segir hann:
Þennan brag eg fyrstur fann
og fór með hann;
vil eg heiti valstýfan,
ef vitnast kann.
Magnús Jónsson í Magnússkógum orti Rím-
ur af Þorsteini Víkingssyni og er þar í þessi
frumframhenda valstýfa:
Herjans kera öl er eytt
og ekki neitt
fríðum lýðum verður veitt
til vilja greitt.
Hér skal að lokum birt ein valstýfa hálykluð
úr Háttatali Sveinbjarnar Beinteinssonar en
hályklað kallast þegar fyrstu kveður frumlína
(fyrstu og þriðju línu) ríma saman.
Rekkur telur tugi þrjá
með tygin blá.
Ekki vill hann flýja frá
og forðast þá.
Vísur frá lesendum:
Lesendur eru hvattir til að senda inn vísur
undir ofangreindum bragarháttum á vefsíð-
una:
www.ferskeytlan.is
eða í pósti með utanáskriftinni:
Vísnaþáttur Ferskeytlunnar,
Ferskeytlan,
Háholti 14,
270 Mosfellsbær.
VÍSNAÞÁTTUR
SAMHENT, STIKLUVIK OG VALSTÝFT
U M S J Ó N
K R I S T J Á N E I R Í K S S O N O G J Ó N B R A G I B J Ö R G V I N S S O N
Kristján er íslenskufræðingur og Jón Bragi
verkfræðingur.