Lesbók Morgunblaðsins - 16.03.2002, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 16.03.2002, Blaðsíða 2
2 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 16. MARS 2002 ÞÝSKI rithöfundurinn Christa Wolf hefur sent frá sér nóvelluna Leibhaftig (Líkamningur). Sag- an á sér stað í Austur-Þýskalandi um það bil sem það er að líða undir lok. Þar segir af krank- leikum frúar nokkurrar sem send er á heilsuhæli. Einkennist sagan að sögn gagnrýnenda af miklum gálgahúmor, í end- urspeglun sinni á sögulegum við- horfum. Christa Wolf er einn merkasti höfundur þýskra 20. aldar bók- mennta. Hún fæddist í árið 1929 og bjó í Austur-Þýskalandi eftir stríðslok. Hún vakti fyrst athygli sem rithöfundur við útkomu ann- arar skáldsögu sinnar, Der ge- teilte Himmel, árið 1963, þar sem hún fjallaði um aðskilnað ástvina í Austur- og Vestur-Þýskalandi. Næsta bók höfundarins, Nach- denken über Christa T, var bönnuð við útkomu árið 1966, en varð metsölubók þegar hún var gefin út í Vestur-Þýskalandi árið 1970. Önnur þekkt verk Wolf eru Kinderheitsmuster (1976) þar sem Wolf lýsir uppvaxtarárum í Þýskalandi. Þá má nefna skáld- sögurnar Kassandra og Vorles- ungen und Störfall sem fólu í sér viðbrögð við Chernobyl-slysinu. Sex ár eru síðan höfundurinn sendi síðast frá sér verk, þ.e. skáldsöguna Medea. Nýtt ritsafn með skrifum Heaneys ÚRVAL prósaverka og ritgerða írska nóbelsskáldsins Seamus Heaney koma út í næsta mánuði hjá Faber & Faber. Safnritið ber heitið Finders Keepers: Sel- ected Prose 1971–2001 (Sá á fund sem finn- ur: Valin prósa- verk 1971– 2001). Þar er að finna ritgerðir sem áður hafa verið gefnar út í ólíkum safnritum auk fyrir- lestraraðar sem Heany hélt við Emory-háskólann árið 1988 og birtust í bókinni The Place of Writing. Þá eru innifalin í úrval- inu margvísleg skrif Heaneys, allt frá blaðagreinum til bók- menntafyrirlestra, þar á meðal „Place and Displacement“ frá árinu 1984. Seamus Heany fæddist árið 1939 í Derry-héraði í Norður Ír- landi. Hann gaf út sína fyrstu bók Death of a Naturalist árið 1966 og hefur síðan sent frá sér ljóð, fræði og þýðingar. Heaney er meðal fremstu ljóðskálda sinnar kynslóðar en Nóbelsverð- launin hlaut hann árið 1995. Reynslusaga fórnarlambs EIN fyrsta reynslusaga fórn- arlambs hryðjuverkaárásanna á New York 11. september kom út í byrjun mánaðarins, og nefnist hún Love, Greg & Lauren (Ást- arkveðja, Greg og Lauren). Bók- ina vann Greg Manning upp úr dagbók sem hann hélt allt frá því að eiginkona hans Lauren, slas- aðist illa þar sem hún var stödd í anddyri World Trade Center þegar árásin var gerð. Lauren Manning, sem starfaði sem að- stoðarforstjóri fyrirtækisins Cantor Fitzgerald, varð fyrir eldstróki er sprakk út úr lyftu- göngum niður í anddyrið og hlaut slæm brunasár á 83% af líkamanum. Í bókinni er að finna bréf og dagbókarfærslur sem eiginmaðurinn Greg, skrifaði í þá mánuði sem hún lá milli heims og helju og undirgekkst erfiðar aðgerðir, allt þar til hún útskrif- aðist af sjúkrahúsi. ERLENDAR BÆKUR Gálgahúmor Christu Wolf Seamus Heaney MARGT ber til þess að bókmennta- verðlaunin höfðu löngum, og þá einkum fyrstu áratugina, tilhneigingu til að lenda hjá miðlungshöfundum fremuren þeim sem frammúr sköruðu og sterkastan svip settu á bókmenntir aldarinnar. Ein ástæðan er tvímæla- laust sú, að Sænska akademían hef- ur allajafna verið skipuð háöldr- uðum mönnum, sumum svo illa á sig komnum að sjaldan hefur nema um helmingur þeirra séð sér fært að sækja vikulega fundi hennar. Þessi öldungasamkoma hefur haft ríka hvöt til að verðlauna aldurhnigna höfunda, með þeim afleiðingum að um þriðjungur þeirra 98 höfunda, sem verðlaunin hafa hreppt, hefur verið of veikburða til að ferðast til Stokkhólms og veita þeim viðtöku. Meðalaldur nóbelshöfunda frá upp- hafi er kringum 65 ár og meðalaldur 18-menninganna yfrið hærri. Sigurður A. Magnússon tmm Þjóðernisstefna Morgunblaðsins Íslendingar börðust hart á sínum tíma til að losna undan valdi Dana og því var fagnað mikið þegar land- ið hlaut endanlegt sjálfstæði 17. júní 1944. Baráttan einkenndist af mikilli þjóðernisstefnu og þá sennilega dul- inni minnimáttarkennd gagnvart er- lendu lýðræðisríki. Minnimátt- arkennd Íslendinga virðist enn lifa góðu lífi á síðum Morgunblaðsins. Þar er stöðugt verið að bera Íslend- inga að öðrum þjóðum og fullvissa lesendur um að þeir séu betri en hin- ar og þessar þjóðir úti í heimi. Einnig birtist hún í stöðugum yf- irlýsingum um það hvernig mesta stórveldi heims, Bandaríkin, við- urkenni Ísland sem þekkta stærð, sem eitthvað sem skiptir máli. Það er athyglisvert að Bandaríkjaforseti virðist kominn í sæti Noregskon- ungs, nú undir lok 20. aldar. Á bak við þessa tilhneigingu til að gera Ís- land að hluta Bandaríkjanna leynist pólitík sem felur sig með vopnum hægrimýtunnar, að gera pólitískar skoðanir að náttúrulögmálum sem séu óumflýjanleg. Íslensk þjóðern- isstefna í Morgunblaðinu er því margþætt, ofin rótgrónum goðsögn- um um þjóðerni, hernaðarbandalög og hinn vestræna heim. Katrín Jakobsdóttir tmm Morgunblaðið/Árni Sæberg Staldrað við. ELLIGLÖP NÓBELSNEFNDAR? I„Auk þess legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði,“sagði Cató hinn gamli í hvert sinn sem hann lauk ræðu í rómverska þinginu á sínum tíma. Svo lengi má brýna deigt járn að bíti og dropinn holar stein- inn. Málshættirnir og orðtökin eru fjölmörg í þá veru að þolinmæðin þrautir vinni allar og á end- anum verði mönnum að ósk sinni ef þeir hamra járnið meðan heitt er. IIAllir þessir orðaleppar koma upp í hugann þeg-ar rýnt er í orð Ólafs Hauks Símonarsonar leik- skálds í viðtali á baksíðu Lesbókarinnar í dag. Hann afsakar sig með því að hljóma eins og Cató gamli þegar hann hefur eina ferðina enn – að hon- um finnst – upp þá rollu að leikhúsin hafi ekki sinnt íslenskum höfundum sem skyldi og brugðist því hlutverki sínu að hlúa að íslenskri leikritun með þeim hætti að hún standi nú í stórfelldum blóma. Frumsýningar nýrra íslenskra leikrita eru tilviljanakenndar og ritferlar íslenskra leikskálda á undanförnum áratugum afskaplega slitróttir og erf- itt að sjá annað samhengi í þeim en markvisst áhugaleysi leikhúsanna fyrir að sýna leikrit þeirra. Vafalaust kippast einhverjir við og telja að sér veg- ið. Vilja halda fram því sem gert hefur verið fremur en hamra á því sem ekki var gert. Vafalaust rétt enda tilgangslaust að gráta óskrifuð leikrit sem aldrei verða skrifuð úr þessu. Hver saknar þeirra svosem. Enginn veit hvað átt hefur … IIIKjarni máls Ólafs Hauks snýst heldur ekki umeftirsjá glataðra tækifæra. Heldur felst í þeim hvatning til að nýta þau tækifæri sem nú blasa við. Hefja leikritun til vegs innan hins nýja Listahá- skóla og hvetja leikhúsin til að sameinast um þá fáu höfunda sem hafa lagt sig eftir leikritaskrifum. Oft var þörf en nú er nauðsyn er enn einn orðalepp- urinn til viðbótar sem grípa má til. Þörfin til að halda á lofti og hvetja til skoðunar á menningu okk- ar og samfélagi; ekki af þjóðernislegum ástæðum og ekki af blindri ást á fortíð þjóðarinnar. Heldur ein- faldlega til að viðhalda vitund okkar sem sérstaks afmarkaðs menningarsamfélags og fylgjast sjálf með þeim öru breytingum sem eru að verða á menningarlegu umhverfi okkar, hafa skoðun á þeim. IVOkkur er nauðsyn að sporna gegn þeirri til-hneigingu að verða þiggjendur af gnægtaborði annarra menningarsamfélaga. Hlálegast er þó að stórum fúlgum af opinberu fé skuli varið til að kaupa okkur aðgang að skyndiréttaborðum er- lendra menningarmatsveina. Opinbera fjármuni sem settir eru í leiklist og sjónvarpsrekstur er sjálf- sagt að nýta sem mest í framleiðslu á okkar eigin efni. Stefnan sem enn er uppi varðandi hlutfalls- skiptingu fjármuna til kaupa á erlendu efni og framleiðslu innlends er orðin meira en áratug á eft- ir þeim aðstæðum sem við blasa nú. Íslendingur sem horfir í spegil samtímans og spyr: „Spegill, spegill herm þú mér …“ fær svarið á ensku og ef heppnin er með honum fylgir textaræma neðst á glerinu. NEÐANMÁLS Í MORGUNSÁRIÐ 12. mars árið 2002 greinaMorgunblaðið og Fréttablaðið frá því á forsíðuað daginn áður hafi Bandaríkjamenn minnstþess að hálft ár sé liðið „frá því hryðjuverka- menn rændu fjórum bandarískum farþegaþotum og réðust á World Trade Center og Pentagon“. Fyrirsögn Fréttablaðsins er knöpp og hlutlaus – „Hryðjuverkanna minnst“ – líkt og sjálf fréttin. Fyrirsögn og undirfyrirsögn Morgunblaðsins eru herskárri – „Hryðjuverkamenn verði griðlausir um allan heim. „Þeir munu minnast þessa dags sem síns eigin dómsdags““ – enda er meginefni viðkomandi fréttar hið herskáa ávarp sem George Bush, forseti Bandaríkjanna, flutti á flöt Hvíta hússins af þessu tilefni. Ég les hvoruga fréttina þennan morgun þótt bæði blöðin liggi fyrir framan mig á eldhúsborð- inu. Ég læt mér nægja að renna augum yfir fyr- irsagnirnar en fyrst og fremst fanga forsíðumynd- irnar athyglina. Þær birta í hnotskurn þá heimsmynd sem hvort dagblaðið um sig vill koma á framfæri við íslenska lesendur. Ljósmyndin í Fréttablaðinu er afar táknræn. Í forgrunni eru sex svartir rimlar einhvers konar járngrindverks, á einn þeirra hefur verið hnýtt rauð rós en í gegn- um rimlana, í bakgrunni, gefur að líta háhýsa- landslag New York og djúpbláan himin. Þetta er mynd af syrgjandi borg, mynd af veröld í gíslingu. Punkturinn í myndinni, það atriði sem hugur minn dvelur við, eru turnarnir tveir sem eru horfnir úr háhýsalandslaginu. Eyðan sem þeir hafa skilið þar eftir stingur í augu, hún minnir á einstaklingana ótalmörgu sem horfnir eru sjónum ástvina sinna. Myndatextinn – „Rós til minningar um þá látnu. Fólk hefur víða komið fyrir táknum til að minnast atburðanna 11. september sl.“ – ýtir á sinn lát- lausa hátt undir djúp áhrif myndarinnar. Ég er sáttur við þessa ljósmynd, sáttur við það fréttamat sem birtist í vali myndaritstjóra á henni. Kannski er Fréttablaðinu að fara fram á þessu sviði, hugsa ég, minnugur þeirrar ljósmyndar sem birtist á forsíðu blaðsins tveimur dögum eftir að Bandaríkjamenn hófu loftárásir á Afganistan sl. haust. Þetta var mynd af þremur afgönskum pilt- um framan við rústir lítillar byggingar, tveir þeirra voru skælbrosandi og myndatextinn svo- hljóðandi: „Með bros á vör. Íbúar í hinni stríðs- hrjáðu Kabúl sýna hér brot úr sprengjunum sem varpað var á borgina í fyrrinótt: Margir íbúanna virðast hafa látið árásirnar lítt á sig fá, enda hafa þeir búið við stríðsástand meira eða minna und- anfarna tvo áratugi.“ Þessi mynd gaf til kynna að bandaríski herinn væri ekki að kasta banvænum sprengjum á Afganistan, heldur karamellum. Hún sagði: „Það er ekkert að óttast, engin hætta á að saklausir Afganar hverfi sjónum ástvina sinna.“ Undirfyrirsögn viðkomandi fréttar flutti hins veg- ar annan vitnisburð: „Á þriðja tug óbreyttra borg- ara féll í fyrstu lotu, svo vitað sé.“ En að morgni 12. mars, sem ég sit yfir morgun- matnum, er mér brugðið yfir myndaritstjórn Morgunblaðsins. Við mér blasir flennistór litljós- mynd af stutthærðum, gráhærðum manni í dökk- um frakka og bláum buxum; í hálsmálinu djarfar fyrir hvítri skyrtu og rauðum bindishnút. Mað- urinn virðist ganga rösklega í átt til okkar, hann horfir æðrulaus fram á við, sveiflar handleggjum og er um það bil að stíga í vinstri fótinn. Við sjáum upp eftir manninum þannig að hann virðist hávaxnari en hann er, að baki gnæfir framhliðin á hvítu, reisulegu húsi. Sitt til hvorrar handar standa fylkingar her- manna í viðhafnarbúningum; þeir halda á litríkum fánum ýmissa þjóða heimsins. Af hverju er mér brugðið? Ég átta mig ekki almennilega á því sjálfur. Myndatextinn er hlutlaus; hann upplýsir að þetta sé Bush forseti á leið til þess að ávarpa 1.000 manns við Hvíta húsið til minningar um atburðina 11. sept- ember en neðan við myndatextann breiðir áður- nefnd fyrirsögn úr sér: „Hryðjuverkamenn verði griðlausir um allan heim.“ Dagur líður að kveldi. Ég er enn að hugsa um þessa forsíðumynd af skrifstofumanninum knáa, frakkaklæddum leiðtoga Bandaríkjanna – nei, leiðtoga allra þjóða heimsins – sem gengur óhikað og æðrulaus til móts við hryðjuverkamennina, til að sýna þeim hvar Davíð keypti ölið. Dómsdagur er í nánd; þetta er maðurinn sem hyggst dæma lif- endur og dauða. Punktur myndarinnar er vinstri skórinn sem er þumlung frá því að kremja skugga sinn undir hælnum. Þessi mynd er ekki síður tákn- ræn en forsíðumynd Fréttablaðsins. Þetta er mynd bandarísku stjórnarinnar af sjálfri sér í samfélagi þjóðanna; sjálfskipuðum handhafa frelsisins, réttlætisins, sannleikans og hefndarinn- ar. Þetta er ekki bara ljósmynd, þetta er byssu- leyfi. Myndin er til þess gerð að fylla þegna Bandaríkjanna af föðurlandsást, stolti og forsjár- hyggju gagnvart restinni af heimsbyggðinni. Gott og vel. En hvaða erindi átti hún á eldhús- borðið mitt í morgun? FJÖLMIÐLAR Myndin er til þess gerð að fylla þegna Bandaríkjanna af föðurlandsást, stolti og for- sjárhyggju gagnvart restinni af heimsbyggðinni. MYNDIR AF HEIMINUM J Ó N K A R L H E L G A S O N

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.