Lesbók Morgunblaðsins - 16.03.2002, Blaðsíða 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 16. MARS 2002
TÓNLISTARHELGIN í Ými skartartvennum tónleikum. Í kvöld klukkan 20heldur Stefán Höskuldsson, flautuleik-ari, tónleika ásamt Elizavetu Kopelman,
píanóleikara. Stefán var síðastliðið vor valinn
einn þriggja ungra listamanna til að hljóta
styrk úr listráði Ýmis og eru þessir tónleikar
haldnir af því tilefni. Á efnisskránni verða verk
eftir Carl Reinecke, Samuel Barber, Lowell
Lieberman, Magnús Blöndal Jóhannsson og
Franz Schubert.
Verkin eru öll frá 19. og 20. öld, og segir Stef-
án þau eiga það sameiginlegt að vera fremur
rómantísk í anda. „Þetta er það besta frá þess-
um tímabilum finnst mér. Tilbrigðin eftir Schu-
bert eru eina verkið sem hann samdi fyrir flaut-
una og er þess vegna líka mjög sérstakt. Lowell
Liebermann er ungt bandarískt tónskáld. Són-
atan eftir hann er frá 1987 og er fremur nýróm-
antísk og mjög áheyrileg. Solitude, eða Ein-
semd eftir Magnús Blöndal er eitt af hans
þekktustu verkum. Reinecke var uppi í lok 19.
aldar og fram á þá tuttugustu og verk hans eru
talsvert í anda Brahms. Svo leikum við lítið
verk eftir Barber, Canzone, en hann og Lieber-
mann eiga margt sameiginlegt í músíkinni. Það
var annars ánægjulegt að við áttum þess kost
að spila verk Liebermanns fyrir hann sjálfan.
Ég hafði upp á honum á Netinu og hann hafði
áhuga á að heyra í okkur. Hann gaf sér tíma til
að vinna í verkinu með okkur og það var okkur
bæði mikill heiður og sérstaklega skemmti-
legt.“
Leikur á öndvegisflautu
Stefán Höskuldsson fæddist í Neskaupstað
árið 1975. Hann hóf nám í flautuleik átta ára
gamall undir leiðsögn Bernharðs Wilkinsonar.
Sextán ára að aldri innritaðist hann í Tónlistar-
skólann í Reykjavík, hélt þar áfram flautunámi
undir leiðsögn Bernharðs, og lauk þaðan ein-
leikaraprófi árið 1995. Þaðan lá leiðin til Royal
Northern College of Music í Manchester þar
sem hann lauk prófi 1997, en eftir það tóku við
tvö ár í einkanámi hjá Wissam Boustany í
London. Á námsárunum spilaði Stefán með
Sinfóníuhljómsveit Æskunnar, kom fram sem
einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og
var tvisvar sinnum valinn fyrsta flauta í Sam-
norrænu ungmennahljómsveitinni Orkester
Norden.
Eftir að Stefán lauk námi hefur hann oft
komið fram sem einleikari ásamt eiginkonu
sinni Elizavetu Kopelman píanóleikara, bæði
heima og erlendis við frábæra dóma og und-
irtektir. Þau hjónin hafa komið fram á tónleik-
um og tónlistarhátíðum víðsvegar um heim,
m.a. á Aldeburgh- og Guiting-tónlistarhátíðun-
um á Englandi, í Purcell Room og Bernard
Shaw Library-tónleikaröðunum í London, á
Marymount-tónlistarhátíðinni í New York og í
Scandinavia House á Manhattan svo dæmi séu
tekin. Undanfarin þrjú ár hefur Stefán tekið
þátt í tónlistarhátíðinni Bjartar nætur á Aust-
urlandi og komið þar fram sem einleikari ásamt
Elizavetu og með hljómsveit. Stefán starfaði
um skeið sem fyrsta flauta með kammerhljóm-
sveitinni Divertimenti of London en hann gegn-
ir nú sömu stöðu með kammerhljómsveitinni
One World Symphony í New York-borg. Í sept-
ember 2001 hlaut hann viðurkenningu frá list-
ráði tónlistarhússins Ýmis og frumflutti af því
tilefni verk eftir Pál Pampichler Pálsson með
Sinfóníuhljómsveit Íslands og Karlakór
Reykjavíkur.
Flautan sem Stefán leikur á var smíðuð af
Louis Lot árið 1885 í París, en flautur af þessari
gerð eru flautuleikaranum það sem Stradivar-
ius er strengjaleikaranum.
Elizaveta Kopelman fæddist í Moskvu árið
1974 og lærði píanóleik við Tónlistarskólann í
Moskvu hjá Dina Parachina og í Royal North-
ern College of Music á Englandi hjá Arnaldo
Cohen, en á námsárunum vann hún til fjölda
verðlauna og viðurkenninga. Elizaveta hefur
komið fram í mörgum helstu tónlistarsölum
heimsins og á virtum tónlistarhátíðum. Þá hef-
ur hún komið fram í útvarpi bæði hjá BBC Rad-
io 3 og Classic FM.
Breytingar til góðs
Stefán segir samstarf þeirra hjóna hafa stað-
ið frá árinu 1995, þannig að þau hafa dágóða
reynslu af samspilinu. Þau búa í New York og
hafa bæði nóg að gera, og segir Stefán það
markmið þeirra að spila sem mest. Verkefnin
vestanhafs eru næg en þó fara þau oft til Eng-
lands að spila og hafa bæði góð tengsl þar.
Reglulega koma þau svo líka hingað heim til að
spila. „Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að
spila hérna. Nú eru risnir hér frábærir tón-
leikasalir eins og Ýmir og gaman að spila hér.
Úti er þetta alltaf talsverð barátta að koma sér
á framfæri og skapa sér nafn, en það er bara
fylgifiskur samkeppninnar. Við spilum eins
mikið og við getum og alls staðar þar sem við
getum og þetta hefur gengið vel hingað til. Mér
finnst líka margt hafa breyst til betri vegar hér
á landi síðan ég fór út. Hér er mjög mikið fram-
boð á tónleikum og margt að gerast í tónlistar-
lífinu sem ekki var áður, eins og til dæmis allir
þessir kammerhópar sem nú starfa hér. Það er
virkilega ánægjulegt að fylgjast með þessu. Svo
er líka verið að flytja mikið af nýrri tónlist og
þetta eru allt breytingar til góðs. Við söknum
alltaf Íslands, en vettvangur okkar er úti. Tón-
listin er það sem við lifum fyrir og þar eru tæki-
færin til að lifa af listinni.“
Sunnudagsmatinée á morgun
Á morgun, sunnudag kl. 16, verða Sunnu-
dagsmatinée-tónleikar í Ými, en þar flytja þau
Gerrit Schuil, píanóleikari, Guðný Guðmunds-
dóttir, fiðluleikari, Gunnar Kvaran, sellóleikari,
og Helga Þórarinsdóttir, lágfiðluleikari, Píanó-
kvartett nr. 31 í c-moll eftir Brahms, Sónötu nr.
6 í A-dúr fyrir lágfiðlu og píanó eftir Boccherini,
Adagio í Es-dúr eftir Franz Schubert fyrir pí-
anótríó og Sónötu fyrir fiðlu og selló eftir Mau-
rice Ravel. Gerrit Schuil, píanóleikari og list-
rænn stjórnandi tónlistarhússins Ýmis, segir
efnisskrá tónleikanna afar spennandi. „Fólk
veit lítið um Boccherini annað en það að hann
bjó á Spáni og þekkir hann sennilega best af
menúettinum fræga. Hann samdi þó ógrynnin
öll af tónlist; – mörg hundruð verk. Sónatan er
skemmtilegt verk, kannski ekki djúpt og safa-
ríkt en fallegt og sjarmerandi og gaman að
hlusta á það. Það er gott að byrja tónleikana á
þannig verki, léttu og leikandi. Sónatan eftir
Ravel er mjög sérstakt verk og „óvenjulegur“
Ravel. Hún er aggressíf og alls ekkert gaman á
ferðinni, en þó bæði spennandi og mjög falleg.
Ég heyrði Guðnýju og Gunnar æfa þetta í
fyrradag og það var ótrúlega flott. Verkið eftir
Schubert er svolítið skrítið. Það er draumkennt
og ber undirtitilinn Nocturne. Eftir hlé er það
svo bara „losti, ást og blóð“ hjá Brahms.“
Gerritt, Gunnar, Guðný og Helga hafa spilað
talsvert mikið saman á undanförnum árum; í
Hveragerði, í Garðabæ og hjá Kammermúsík-
klúbbnum. „Við þurfum bara að fara að kalla
okkur eitthvað. Ég hef verið að hugsa um að við
þyrftum að finna nafn á hópinn. Við höfum alla-
vega næg verkefni að spila saman í framtíðinni
og ég vona að við eigum eftir að spila saman
miklu oftar. Við erum farin að þekkjast vel af
þessu samspili, og það er alveg nauðsynlegt til
að geta spilað verk eins og Brahms að hópurinn
sé vanur að spila saman. Þannig músík spilar
maður ekki nema með fólki sem maður er far-
inn að þekkja vel. Brahms er erfiður bæði mús-
íklega og tæknilega og ég get sagt þér að við
hlökkum öll mjög til að takast á við þetta verk.“
Brahms byrjaði snemma á píanókvartettin-
um sem hópurinn leikur í Ými. Hann hætti þó
við verkið um tíma, en hægi þátturinn var eins
konar ástarbréf til Klöru Schumann og segir
Gerrit að Klara hafi skilið vel hvað í tónlistinni
fólst. Tólf árum seinna tók hann verkið upp aft-
ur, endursamdi fyrsta þáttinn, lét hæga þáttinn
vera eins og hann var, en bætti svo við scherzo-
þætti og finale-lokaþætti. „Fyrsti þátturinn er
mjög dramatískur og dapur; hægi þátturinn er
guðdómlega fallegur draumur, og maður vill
helst að hann haldi áfram endalaust; scherzóið
er öðru vísi; – ekki beint gleðiríkt en þó ekki
jafn djúpt og dapurt og fyrsti þátturinn; loka-
þátturinn er svolítið eins og spunninn eða raps-
ódískur með „perpetuum mobile“ stefi í píanó-
partinum; – hvað er hægt að segja meira um
það; – þetta er bara ótrúlega magnað verk.“
Gerrit Schuil er hollenskur að uppruna, en
hefur nú um árabil verið einn af máttarstólpum
íslensks tónlistarlífs. Hann nam píanóleik við
Tónlistarháskólann í Rotterdam en stundaði
framhaldsnám í London og París, meðal annars
undir handleiðslu John Lill. Hann hefur haldið
einleikstónleika og komið fram sem hljómsveit-
arstjóri víða um heim, en býr nú í Reykjavík og
starfar sem kennari, einleikari og listrænn
stjórnandi Ýmis.
Guðný Guðmundsdóttir, fiðluleikari, er fyrsti
konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands
og meðlimur í Tríói Reykjavíkur ásamt manni
sínum, Gunnari Kvaran, sellóleikara. Þau eru í
röð fremstu tónlistarmanna landsins og hafa
einnig kennt mörgum efnilegustu tónlistar-
mönnum yngri kynslóðarinnar. Helga Þórar-
insdóttir hefur leitt lágfiðludeild Sinfóníuhljóm-
sveitar Íslands frá 1983 og verið kennari
margra af yngri kynslóð lágfiðluleikara á Ís-
landi. Þá hefur hún eins og þau hin helgað
kammertónlist stóran hluta krafta sinna, en
einnig leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Ís-
lands.
Einleikstónleikar og Sunnudagsmatinée í tónlistarhúsinu Ými um helgina
RÓMANTÍK;
LOSTI, ÁST
OG BLÓÐ
Morgunblaðið/RAX
Elizaveta Kopelman og Stefán Ragnar Höskuldsson við flygilinn í Ými.
Morgunblaðið/Sverrir
Guðný Guðmundsdóttir, Helga Þórarinsdóttir, Gerrit Schuil og Gunnar Kvaran æfa Brahms.
HJÖRTUR Marteinsson opnar fimmtu
einkasýningu sína á lágmyndum og
þrívíðum verkum í Listasafni ASÍ við
Freyjugötu 41 í dag kl. 15.
Sýningin ber yfirskriftina „Þeir yð-
ar sem erfiði og þunga eru haldnir“ og
er af trúarlegum toga þar sem leitast
verður við að varpa ljósi á hugtakið
átrúnaður og birtingarmynd þess í nú-
tímanum með hliðsjón af táknheimi
kristninnar. Til að skýra viðfangsefnið
frekar er meðal annars notast við eft-
irmynd Kristsmyndarinnar frá Ufsum
í Svarfaðardal, sem talin er vera frá
12.öld.
Hugmyndalegur rammi sýning-
arinnar byggist á samtímadæmisög-
unni Eilíft líf en þar segir af Ufsa-
Kristi sem leggur upp frá heimkynn-
um sínum í Eyjafirði á miklu
rigningarsumri og heldur til Reykja-
víkur. Þar hafði hann heyrt að væri
alltaf sólskin og blíðviðri. Þangað
kominn verður Kristur óvænt innlyksa
á listsýningu sem hann hafði aldrei
samþykkt að taka þátt í áður en hann
lagði upp í ferð sína.
Sýningin er opin alla daga, nema
mánudaga, kl. 14–18. Opið verður á
skírdag, föstudaginn langa og páska-
dag, sem er jafnframt síðasti sýning-
ardagur.
TÁKNHEIMUR
KRISTNINNAR
Morgunblaðið/Jim Smart
Hjörtur Marteinsson umkringdur verkum sínum.