Lesbók Morgunblaðsins - 16.03.2002, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 16.03.2002, Blaðsíða 3
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 16. MARS 2002 3 Í NÝLEGRI aðalnámskrá fyrir fram- haldsskóla sem menntamálaráðu- neytið gaf út árið 1999 eru skil- greindar 3 bóknámsbrautir til stúdentsprófs. Hver þessara brauta er 140 einingar (en yfirleitt sam- svarar ein eining einni kennslustund í viku í eitt skólaár og dæmigert árs- nám er um það bil 35 einingar). Á stúdents- brautunum eru 98 einingar í kjarna og af þessum 98 einingum eru um 75% sameig- inleg öllum brautum. Þau 25% af kjarn- anum sem eru sérstök fyrir hverja braut mynda valáfanga á hinum. Frjálst val nem- enda á stúdentsbrautum er 12 einingar og kjörsvið er 30 einingar. (Kjörsvið er val sem bundið er þeim reglum að ekki má taka minna en 9 einingar í sömu námsgrein og aðeins má velja milli nokkurra tiltekinna námsgreina.) Kjörsvið stúdentsbrauta skarast eins og kjarninn og nokkuð er um að nemendur af náttúrufræði-, félagsfræða- og málabrautum sitji saman í kjör- sviðsáföngum. Þetta fyrirkomulag á stúdentsbraut- unum er hagkvæmt því þótt nemendur á einni stúdentsbraut, eins og t.d. málabraut, séu fáir þýðir það ekki að skóli þurfi að vera með marga fámenna námshópa. Í venjuleg- um áfangaskóla geta nemendur á fámennri málabraut setið með nemendum á nátt- úrufræði- og félagsfræðabrautum í flestum tímum. Áfangar sem eru hvergi í braut- arkjarna nema á málabraut (eins og t.d. enska 503) eru hluti af frjálsu vali eða kjör- sviði á náttúrufræði- og félagsfræðabraut. Ýmsar aðrar brautir eins og t.d. við- skipta- og uppeldisbraut eru hagkvæmar með svipuðum hætti og stúdentsbrautirnar. Það er hægt að reka þær með fáum nem- endum án þess að kenna marga fámenna áfanga. En öðru máli gegnir um iðnbrautir eins og rennismíði og rafvirkjun. Skörun milli brautarkjarna á málmiðna- og raf- iðnabrautum er aðeins um 25% og svipaða sögu má segja um þessar brautir annars vegar og tréiðnabrautir hins vegar. Á iðn- brautum er lítið val og mestur hluti námsins er áfangar sem eru aðeins teknir af nem- endum á einni braut (eða e.t.v. á tveim mjög svipuðum brautum eins og rafvirkjun og rafvélavirkjun eða rennismíði og vélsmíði). Þetta þýðir að sé skóli með fáa nemendur á iðnbraut þá þarf að kenna marga fámenna áfanga sem er dýrt og óhagkvæmt. Á undanförnum árum hefur sérhæfing á iðnbrautum farið heldur vaxandi og með nýlegri námskrá er enn tekið skref í þá átt. Þessi mikla sérhæfing kemur í veg fyrir að meðalstórir fjölbrautaskólar geti með góðu móti boðið upp á iðnnám og ef fram heldur sem horfir leiðir hún til þess að algengar iðnir verða kenndar á einum eða tveim stöð- um á landinu hver og kennsla í þeim sjald- gæfari fellur alveg niður. Ég hygg að þetta óhagkvæma fyrirkomulag hafi þegar orðið til þess að skólar víða um land hafi gefist upp á að bjóða nám í ýmsum iðngreinum og nemendur sem hefðu viljað læra þær hafi annaðhvort horfið frá námi eða valið sér aðra (algengari) grein. Sé þessi tilgáta mín rétt hefur sérhæfing í iðnmenntun í raun leitt til þess að skólarnir skila einsleitari hópi út á vinnumarkaðinn. Sem dæmi um fækkun nema í sumum greinum má nefna að frá árinu 1980 til 2000 fór samanlagður nemendafjöldi í renni- smíði, ketil- og plötusmíði á landinu öllu úr 56 í 22. Á sama tíma fækkaði nemendum í tréiðnagreinum úr 764 í 686. (Hins vegar hefur nemendum í rafiðnagreinum fjölgað á þessu tímabili.) Framhaldsskólar geta ekki menntað fólk í fámennum iðngreinum án þess að fara langt fram úr fjárheimildum, nema ólíkar brautir skarist meira en gildandi námskrá gerir ráð fyrir og verulegur hluti kennsl- unnar fari fram í hópum þar sem blandast saman nemendur af ólíkum námsbrautum eins og tíðkast í bóklegu námi til stúdents- prófs. Vafalaust þarf sérhæfing í verknámi að vera töluvert meiri en í bóknámi en að sérhæfðir áfangar þurfi að vera um þrír fjórðu af öllu námi á iðnbrautum held ég að sé af og frá. Ætli tæpur helmingur sé ekki eitthvað nær réttu lagi. A.m.k. sé ég ekki að það sé mikið vit að hafa sérstakan áfanga í málmsmíði fyrir nemendur í rafiðngreinum og kenna þeim stærðfræði á áföngum sem ekki eru teknir af nemendum á öðrum námsbrautum eins og Aðalnámskrá menntamálaráðuneytisins gerir ráð fyrir. Hvers vegna læra verðandi rafvirkjar ekki sína stærðfræði með nemendum á bók- námsbrautum og málsmíði með nemendum á málmiðnabrautum? Þessi vandi iðnnámsins er að miklu leyti búinn til með stjórnvaldsákvörðunum og það er hægt að leysa hann (a.m.k. að hluta til) með því að skipuleggja iðnbrautir eins og stúdentsbrautir, með mikilli skörun, kjörsviðum og frjálsu vali þannig að það sem er í kjarna á einni braut sé val á öðrum. Með þessu vinnst fleira en aukin hag- kvæmni í rekstri því nemendur fá frelsi til að velja sér þá blöndu ólíkra námsgreina sem hentar hæfileikum og áhugamálum hvers og eins. Eins og er veitir próf í einni iðngrein rétt til að vinna verk á mjög afmörkuðu sviði. Sem betur fer er lítið farið eftir þessu og iðnaðarmenn ganga hver í annars störf enda býr iðnmenntun þá í raun undir miklu fjölbreytilegri vinnu en sveinspróf í einni grein veitir rétt til að vinna. Þær ósveigjanlegu reglur sem gilda um atvinnuréttindi iðnaðarmanna eru ekki í neinu samræmi við raunveruleikann. Þær virðast sama marki brenndar og námskrár fyrir iðnbrautir að gera ráð fyrir að hægt sé að búa til endanlegan lista yfir tegundir tæknivinnu og handverks og búa menn í eitt skipti fyrir öll undir að fást við eina og að- eins eina tegund á listanum. Sannleikurinn er þó miklu fremur sá að sífellt er að verða til ný tækni og ný verk og nýjar aðferðir til að vinna þau. Iðnmenntun veitir mönnum umfram allt almenna þekkingu og þjálfar þá í vinnubrögðum sem nýtast á mörgum sviðum. Slík menntun gerir menn færa um að kynna sér nýjungar, fylgjast með tækniþróun og aðlagast síbreytilegu at- vinnulífi. Þegar út á vinnumarkaðinn er komið nota iðnaðarmenn það sem þeir lærðu í skóla til að læra einstök sérhæfð verk og nota vélar sem eru kannski til í einu eintaki á landinu og voru ekki til þegar þeir gengu í skóla og verða úreltar löngu áður en þeir fara á eftirlaun. Sú sérhæfing sem máli skiptir fer óhjákvæmilega fram í at- vinnulífinu, ekki í skólunum. Ef stjórnvöld bera gæfu til að nema úr gildi nokkra óþarfa kafla í lagasafninu og laga námskrár þannig að skólar fái aukið svigrúm til að fara sínu fram verður raunar ekkert því til fyrirstöðu að iðnbrautir fram- haldsskólanna skarist meira en nú er og svipaðar brautir renni saman í eina. Þá verður hægt að skipuleggja iðnnám með álíka hagkvæmum hætti og bóknámið og veita nemendum frelsi til að velja sér kjör- svið og blanda saman námi í ólíkum grein- um. Verði þetta gert geta fleiri framhalds- skólar boðið upp á nám í iðn- og tæknigreinum. Fleiri nemendur munu finna nám við sitt hæfi í heimabyggð og síðast en ekki síst mun atvinnulífið uppskera sveigj- anlegra vinnuafl sem hefur fjölbreytilegri hæfileika og á auðveldara með að aðlagast breyttum vinnubrögðum og nýrri tækni. MENNTUN IÐNAÐARMANNA RABB A T L I H A R Ð A R S O N atli@ismennt.is GRÍMUR THOMSEN ENDURMINNING Endurminningin merlar æ í mána silfri hvað, sem var, yfir hið liðna bregður blæ blikandi fjarlægðar, gleðina jafnar, sefar sorg; svipþyrping sækir þing í sinnis hljóðri borg. Lágt þótt þeir hafi, heyri eg allt, sem hvísla þeir í eyra mér; segja þeir: „Verða svipur skalt þú sjálfur líkt og vér; kvöldroði lífsins kenni þér, að kemur skjótt en svala nótt og svefn í skauti ber.“ Í æsku fram á lífsins leið vér lítum, en ei annað neitt, vonandi að breiða gatan greið grænum sé blómum skreytt; en – aftur horfir ellin grá. Sólar lag liðinn dag laugar í gulli þá. Grímur Thomsen (1820–1896) var eitt helsta ljóðskáld rómantísku stefnunnar. Ljóð hans eru stundum stirðkveðin en Endurminningin er dæmi um hið gagn- stæða. LESBOK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING LISTIR 1 1 . T Ö L U B L A Ð - 7 7 . Á R G A N G U R EFNI Messa heilagrar Sesselju eftir Joseph Haydn verður flutt í Lang- holtskirkju á morgun, sunnudag, og þriðju- daginn af Söngsveitinni Fílharmóníu. Messan er í sex þáttum sem skiptast í 18 undirkafla en kórinn syngur í 12 þeirra, ýmist einn eða ásamt einsöngvurum. Fjórir einsöngvarar taka þátt í flutningnum með kórnum ásamt hljómsveit. Halldór Hauks- son fjallar um verkið. Marshall McLuhan féll af stallinum sem einn af áhrifamestu fjölmiðlafræðingum aldarinnar í byrjun átt- unda áratugarins en hefur hin seinni ár fengið uppreisn æru og er nú einn af helstu kennismiðum sýndarverunnar þótt honum hafi ekki enst aldur til að kynnast þróun hennar á tölvu- og Netöld. Þröstur Helga- son heldur áfram að segja sögu mannsins og kenninga hans. Halldór og Þórbergur er umfjöllunarefni fjórðu greinar Péturs Gunnarssonar um tengsl Halldórs Laxness við nokkra samtímamenn sína. Heim- speki, til hvers? Gunnar Hersveinn skrifar sjöundu grein í umfjöllun Lesbókar um heimspeki í byrjun nýrrar aldar, markmið hennar, aðferðir og stöðu í fræðaheiminum. Gunnar spyr hvort heimspekin sé komin að fótum fram. FORSÍÐUMYNDIN er tekin á Reykjanesi. Ljósmyndari: Brynjar Gauti.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.