Lesbók Morgunblaðsins - 16.03.2002, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 16.03.2002, Blaðsíða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 16. MARS 2002 H VAÐ hefst Þórbergur að – og hvernig farið þið að komast fyrir báðir í ekki stærri bæ en höfuðborginni við Kolla- fjörð?“ spyr Kristján Al- bertsson í bréfi til Halldórs 14. janúar 1930.1 Góð spurning. Báðir höfðu þeir lagt af stað árið 1919, Þórbergur með greininni Ljós úr austri sem birtist í Eimreiðinni og boðar ekki aðeins upphafið á ferli hans sem lausamálshöfundur, heldur einnig blábyrjun á boðun jóga á Íslandi. Halldór með Barni náttúrunnar. Þórbergur var þrítugur íslenskukennari, Halldór 17 ára unglingur. Halldór og Þórbergur, Þórbergur og Halldór – mikið sem þessir tveir eru ólíkir, að minnsta kosti eins og þeir birtast sameiginlegum kunningja þeirra, Kristjáni Albertssyni. Hann getur ekki orða bundist yfir sjálfumgleðinni í Halldóri og vekur máls á því að hann stýri montnasta penna á Íslandi. Halldór er þá 22 ára. Sami Kristján lýsir óframfærni Þórbergs í dagbók sinni frá 1914 (Þórbergur þá 27 ára): „Honum er gefið lítið þrek til að hrista af sér vonleysi og sorgir. Ráðlaus er hann alltaf, aðrir þurfa að marg-eggja hann á að gera allt sem honum er best, hann er svo ragur við allt.“2 Reyndar hafði hann umpólast í skoðun á Þórbergi aðeins tveimur mánuðum síðar: „Hann er skarpgáfaður maður, ef til vill sá vitrasti sem ég hef hitt…“3 Og enn tók skoðun hans hamskiptum við útkomu Bréfs til Láru, svo reyndar olli vinslitum – en það er önnur saga. * * * Hvernig á að skynja byltingu Bréfs til Láru nú, löngu eftir að hraunið er kólnað og blánar af berjum hvert ár. Sjálfsagt jafn vonlítið og greina frá áhrifum sem bítlalög höfðu á frum- heyrendur þeirra, nú þegar þau eru fyrir löngu orðin að lyftumúsík og vekjaraklukkustefjum. En Halldór þreyttist aldrei á að þakka Þórbergi fyrir Bréfið, „þakka honum fyrir hvað hann braut margar hömlur og opnaði margar gáttir fyrir okkur sem á eftir komum, fyrir hvað hann gerði okkur hinum marga hluti tilkvæma, leyfilega og sjálfsagða sem áður voru forboðnir og óhugsanlegir; leingi fannst mér margt sem ég gerði vera endurhljómur og stæling þess sem hann hafði gert á undan, og svipaða sögu munu segja ýmsir fleiri í hópi okkar sem einusinni voru kallaðir hinir ýngri höfundar og sakaðir um klám og guðlast og ég veit ekki hver ósköpin.“ * * * Hvað er talið að megi líða langt á milli bóka hjá rithöfundi? Helst þyrfti hann að vera með bók á ári til að falla ekki í gleymsku og dá. Annað hvert ár er lágmark. Frá Bréfi til Láru til næsta bókmenntaverks frá hendi Þórbergs líða heil 14 ár. Hinn 35 ára kolbítur var orðinn 49 ára þegar honum þóknaðist næst að láta frá sér heyra. Sofnaði hann aftur ofan í öskustóna? Mönnum ber ekki saman um ástæðurnar, sumir segja að hann hafi verið svo upptekinn við að fylgja eftir hugsjónum sínum (guðspeki, sósíalisma og esperantó) að hann hafi ekki mátt vera að því að svamla í jólabókaflóðinu. Aðrir benda á að hann hafi ekki verið kominn með Mömmugöggu til að annast dyravörslu og hotta á hann við ritstörfin. Sjálfur tilgreinir Þórbergur metnaðarleysið sem ástæðu: „Ég ætlaði mér aldrei að verða neitt.“4 En er það nú alveg víst? Ekki skortir hann metnað í bréfum og dagbókum fyrstu misserin eftir útkomu Bréfsins. Hann talar um 4–5 skáldsögur sem bíði ólmar eftir penna- stönginni. Hvað dvaldi orminn langa? Við þurfum ekki annað en svipast um á árabilinu 25–40 til að sjá ástæðuna. Vefarinn mikli, Salka Valka, Bjartur í Sumarhúsum, Ljósvíkingurinn… Hvaða höfundur hefði ekki komist í andnauð á meðan því hamfarahlaupi stóð? * * * En nú nær Þórbergur vopnum sínum á ný með Íslenskum aðli (1938) og Ofvitanum (1940–41). Og það er til marks um hve Halldór hafði gersamlega skipt um himin og jörð í íslenskum bókmenntum að Ofvitinn gæti hæglega verið bróðir Ólafs Kárasonar. (Menn beri t.a.m. saman þegar Ólafur Kárason ætlar að fyrirfara sér í Höll sumarlandsins 1938 og þegar Þórbergur leikur sama leikinn í seinna bindi Ofvitans 1941). Bæði Aðlinum og Ofvitanum var tekið tveimur höndum af aðdáendum Þórbergs, sem reyndar voru aðdáendur Halldórs einnig, þeir reru svo að segja á sömu mið, báðir róttækir vinstrimenn, lesendahópurinn sá sami, útgefandinn sá sami, einkavinirnir þeir sömu: Erlendur í Unuhúsi, Kristinn E. Andrésson… Var skrítið þótt þeir sem kunna betur við að hafa hasar í mannlífinu færu fljótlega að efna til mannjafnaðar milli skáldanna. Halldór og Þórbergur, Þórbergur og Halldór. Í vitund margra voru þeir löngum eins og samvaxnir tvíburar sem ekki yrðu aðskildir án þess að öðrum yrði fargað. En skáldunum sjálfum, hvað fannst þeim hvoru um annað? Þá á ég ekki við hátíðarræður á tyllidögum (báðir fluttu hvor öðrum afmælisávörp), heldur það sem þeim bjó í hug. Er eitthvað sem gefur þennan eljuríg til kynna? Allir vissu hvað klukkan sló þegar Þórbergur tók sig til og skrifaði einn lengsta ritdóm Íslandssögunnar (33 þéttprentaðar síður í heildarverkinu) um Hornstrendingabók Þorleifs Bjarnasonar: Einum kennt – öðrum bent. Þórbergur fer þar mikinn og hefur allt á hornum sér um lausatök í bókmenntum síðustu ára, en dæmin sem hann tilfærir eru nánast öll eins og skopstæling á stíl Halldórs Laxness: „… Kisa situr á bæjarkampinum, stolt í reisn sinni, og virðir fyrir sér nýútsprunginn skarifífil, fjarrænan í draumi sínum í hvítum þokum vorsins, ofar mannlífi og tjáningu. Kompleksína Kyndraums starir fjarrænu augnaráði í innhverfri dulúð á sólbitna elskendur fjarlægðarinnar þartil það er einsog líkami hennar leysist upp og hverfi útí víðerni dagsins. Dag einn um miðaftansbil sitja þau tvö uppí hlíðinni og horfa með dul í augum á tvö hvít ský útí fjarrænum víðernum loftsins. Og það var tungl og lambær í haga. Og svo líður upp af þeim með fjarræna tjáningu í augum, og þau leysast alveg upp og sameinast hvítum gufum fjarvíddanna, ofar goðsögn og tjáningu annars heims.“5 Í bréfi til Stefáns Einarssonar, bókmennta- fræðings, hnykkir hann enn á í útmálun á stílgöllum Halldórs: „Hann hrifsar til sín orð og orðasambönd héðan og þaðan og stillir þessu út í ritverkum sínum. En þessir útstillingar standa venjulega ekki í neinu lífrænu samhengi við umhverfi sitt og hreppa stundum þær meðferðir, að vera notaðir í skökkum merkingum, hvorttveggja vegna þess, að þeir eru rapseri, sammenskrab, en ekki lifandi gróður, sem dafnað hefir innra með höfundinum og samlagazt sálarlífi hans eins og mælt mál. Hann skrifar íslenzku eins og útlendingur, sem hefur lært málið á bók.“6 Aftur tók Þórbergur til við lítt dulbúna ádeilu á Halldór í Sálminum um blómið sem út kom í tveimur bindum 1954 og 1955. Þórbergi var alla tíð legið á hálsi fyrir að skrifa ekki skáldsögur, og þótt kalla megi Aðalinn og Ofvitann skáldævisögur (heiti sem annar Bergur fann upp hálfri öld síðar), er næsti áratugur á eftir nær allur undirlagður af dulrænum frásögnum og þjóðfræðaefni. Sálmurinn um blómið er í bland einskonar málsvörn og réttlæting Þórbergs fyrir aðferð sinni. Sem hann stillir upp andspænis aðferð skáldsagnahöfundarins (Halldórs): „Sobbeggi afi ætlar ekki að fara að útskýra það fyrir ykkur, krakkar, eins og skáldin eru vön að gera í skáldsögunum sínum, af hverju HALLDÓR OG ÞÓRBERGUR „Allir vissu hvað klukkan sló þegar Þórbergur tók sig til og skrifaði einn lengsta ritdóm Íslandssögunnar (33 þéttprentaðar síður í heildarverkinu) um Hornstrend- ingabók Þorleifs Bjarnasonar. Þórbergur fer þar mikinn og hefur allt á hornum sér um lausatök í bókmenntum síðustu ára, en dæmin sem hann tilfærir eru nánast öll eins og skopstæling á stíl Halldórs Laxness.“ Halldór Laxness Þórbergur Þórðarson E F T I R P É T U R G U N N A R S S O N

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.