Lesbók Morgunblaðsins - 16.03.2002, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 16. MARS 2002 7
Axlið ok hins hvíta manns:
sendið bestu börn yðar fram
dæmið í útlegð unga syni
til að líkna föngum yðar í neyð
til að þjónusta í þungum hertygjum
villtar og frávita þjóðir
yðar þrjóska nýfangna fólk
djöfla að hálfu, að hálfu börn.
Axlið ok hins hvíta manns:
þolinmóðir skuluð þér líða,
draga dul á ógn og grimmd
og láta stolt yðar ekki sjást.
Í ljósu máli og einföldu
útskýra allt hundrað sinnum
aðeins með annars hag í huga
þér erfiðið öðrum til gagns.
Axlið ok hins hvíta manns:
grimmar styrjaldir fyrir friðinn.
Fyllið ginnungagap hungursins
og stöðvið framgang sjúkdómanna
og þegar markmið er í augsýn
(úrslitin sem unnið er að fyrir aðra)
varist heiðna heimsku og seinlæti
sem gerir allar vonir að engu.
– – –
Axlið ok hins hvíta manns:
og berið úr býtum launin:
ásökun þeirra sem þér bætið
hatur þeirra sem þér verndið
hróp þeirra sem þér leiðið
(hægt, ó svo hægt) á ljóssins veg:
„hví rifuð þér oss út fjötrum
vorra elskuðu arabísku nátta?“
– – –
Axlið ok hins hvíta manns:
leggið bernskuna að baki.
Lárviðarkrans í léttúð boðinn,
hið auðsótta öfundlausa hrós.
Dómur jafningja yðar
kemur nú að grandskoða gerðir yðar
í öll þessi vanþakklátu ár
svo köld, brydd dýrkeyptri visku.
RUDYARD KIPLING
(1865–1936)
HELGA K. EINARSDÓTTIR ÞÝDDI
OK HINS HVÍTA
MANNS
Rudyard Kipling var Englendingur, fæddur á Indlandi. Hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels
árið 1907. Þýðandi er bókasafnsfræðingur.
Janúarél
Mæðinni hrotti hurðin knýr,
heiftarþrútinn syngur,
hæðinni glottir, hagli spýr,
harður útsynningur.
Góugróður í febrúar
Vakin af dvala viðkvæm strá
víða um balann græna
suður dalinn dömur á
dagatalið mæna.
Hríð í marz
Gnístir storðir, grös og dýr,
grimmdarorðin þylur,
drýgir morð og frá þeim flýr
fólskur norðanbylur.
Aprílgola
Aprílgolan unaðshlý
andar í nöktum runni,
streymir út um borg og bý
beint úr drottins munni.
Stemning í maí
Iðkar böðin Esjan glöð,
eyðast fannadílar,
greikka spor og gusa for
gamlir mjólkurbílar.
Dagur í júní
Gróin tún á gullnum skóm
gengur brúnafagur,
litlar í dúnalogni blóm
ljúfur júnídagur.
Júlínótt
Blóma gætir, brosir föl,
birtu lætur doka,
daginn grætur dul og svöl,
döpur næturþoka.
Búsæld í ágúst
Sumarblíðan blessar sveit.
Bústið kál í garði,
lax í hyl og lamb á beit
lofa góðum arði.
September við flóann
Æðir um flóann öldumergð,
ólmast sveipir vinda.
Breið og skafin skýjaverð
skera gráa tinda.
Október í Borgarfirði
Orðalaut við eyru mér
ótal raustum syngur,
ilm um haust af birki ber
blíður austæringur.
Nóvemberstormur
Hvetur gandinn, hnyklar brá,
hvessir brandinn slyngur.
Mörgum grandar geislum sá
grimmi landsynningur.
Jólastilla
Himnasetra skrúði skín,
skýin letrið gylla,
fer í betri fötin sín
fögur vetrarstilla.
Höfundur er veðurfræðingur.
VEÐRABRIGÐI
UM ÁRSINS HRING
PÁLL BERGÞÓRSSON
litla manneskjan svaraði svona. Sobbeggi afi er
ekki að skrifa skáldlegt listaverk. Hann er að
skrifa sanna sögu af lítilli stúlku sem var að
byrja að hugsa eins og heimurinn.“7
Og gleymir ekki orðaleppunum úr safni
Halldórs:
„Litla manneskjan leit svolítið skrýtilega á
Sobbeggi afa. Skáldin myndu segja að það hefði
verið óskýrgreint augnatillit.“8
Húmorinn er þó ævinlega yfir og allt um
kring:
„Líffæraverkfallið hans Sobbeggi afa var
búið þennan daginn. Öll líffærin hans voru aftur
byrjuð að gera eitthvað nema eitt. En hann
Sobbeggi afi segir ekki hvaða líffæri það var því
að hann er ekki að skrifa ástarróman.“9
* * *
Seinna bindi Sálmsins kom út árið sem Halldór
þeysir úr augsýn á Nóbelnum. Við það hverfur
Þórbergur alfarið inn í sína einkaveröld:
Suðursveitabækurnar eru viðfangsefni hans
það sem eftir lifir ævinnar.
Má ekki segja að hann leysist úr viðjum?
Hann gefur sig á vald áum sínum og æsku og
horfir á þá veröld leysast upp og hverfa um leið
og hann bjargar því sem bjargað verður.
Halldór er víðsfjarri.
Þegar Þórbergur hafði lokið við
Rökkuróperuna (1958) var hlutverki hans í
raun lokið. Hann stóð nú á sjötugu og í tilefni af
þeim tímamótum varð til samtalsbók þeirra
Matthíasar Johannesen: Í Kompaníi við allífið,
einstæð heimild um Þórberg og metfé í
íslenskum bókmenntum. Það er fróðlegt að
bera hana saman við hliðstætt kver sem
Halldór og Matthías höfðu samvinnu um á
sjötugsári Halldórs: Skeggræður gegnum
tíðina.
Það virðast engin takmörk fyrir því sem
getur borið á góma í samtölum Matthíasar og
Þórbergs: kynlíf, framhaldslíf, dægurþras,
eilífðarmál, hátt og lágt, hátíðleiki í bland við
fíflalæti og öfugt… Kompaníið er karneval.
Skeggræðurnar í samanburði settlegar,
Halldór er fjarlægur, brynjaður, briljant.
Þórbergur aftur á móti opinskár og afvopnandi
einlægur. Halldór er viðkvæmur fyrir persónu
sinni, Þórbergi er tíðrætt um afnám
persónuleikans:
„Hann er hnútarnir í sálarlífinu. Þegar menn
hafa leyst hnútana, ljóma þeir eins og fagurt
ljós… Þá er persónuleikinn dauður að eilífu og
menn eru komnir í kompaní við allífið…“10
Halldór, sem brá sér í allra kvikinda líki í
skáldverkunum, hvarf á bak við gervi sitt þegar
hann kom fram í eigin nafni. Þórbergur, sem
var gersamlega fyrirmunað að hnoða saman
skáldsagnapersónu, fór léttilega úr einu
gervinu í annað í daglega lífinu.
Meðal annarra orða: hvenær hefði Halldór
látið Osvald Knudsen kvikmynda sig nakinn
niður í fjöru að gera Müllersæfingar? Aftur á
móti hafði hann látið gera sér sundlaug og stillti
sér gjarnan upp í forgrunni í nýjum og nýjum
jakkafötum. Þórbergur aftur á móti var alla tíð
með lífið í lúkunum yfir að Margrét myndi
henda „jakkanum“ sem hann kunni best við sig
í, en var skipað að klæða sig úr ef komu gestir
og harðbannað að láta sjá sig í á almannafæri.
Eða segjum glæsikerrur Halldórs sem voru
hans annað vörumerki.
Í Kompaníinu berst talið að bílum:
– Þú hefur aldrei keyrt bíl, Þórbergur?
– Nei.
– Hvers vegna?
– Mig hefur aldrei langað til að eiga bíl. Einu
sinni heyrði ég sögu af manni, sem hafði gert
hitt með kvenmanni inni í bíl, stoppandi á
Miklubraut, mitt í umferðinni. Þá langaði mig
svolítið að eignast bíl. Síðan ekki söguna meir.11
* * *
Árið 1963 gefur Halldór út Skáldatíma með
frægu uppgjöri sínu við Sovétríkin. Sennilega
gera menn sér ekki lengur grein fyrir hvílíkt
reiðarslag bókin var fyrir samherja Halldórs í
pólitíkinni. Eftirskjálftanna var enn að gæta
áratug síðar í Enginn er eyland, Kristins E.
Andréssonar.
En Þórbergur beið ekki svo lengi, hann sest
niður að bragði og skrifar og birtir í Tímariti
máls og menningar grein sem bar heitið:
„Rangsnúin mannúð“ – 30 þéttprentaðar síður í
bók. Þessi allsherjarárás á Halldór hefur einn
skurðpunkt: Erlend í Unuhúsi, eða öllu heldur
umfjöllun Halldórs um þennan sameiginlega
gúrú þeirra Þórbergs.
Við sem vorum ýmist hugarfóstur Guðs eða
fóstur í móðurkviði þegar Erlendur lést og
höfum gert okkur mynd af honum eftir
vitnisburði samtímamanna, sitjum uppi með
Jesú Krist, svo lygilega er hann líkur
fyrirmyndinni eins og hún er dregin upp á
Biblíumyndum, með sitt síða jarpa hár og
skegg – á tímum þegar hársídd takmarkaðist
við efri brún eyrnanna. Annað sem hann virðist
hafa átt sameiginlegt með Kristi er að kynhvöt
hans hneigðist ekki í neina átt, heldur bjó innra
með honum og gerði hann að þeirri
móttökustöð sem hann var gesti og gangandi.
Þegar Halldór endurskapar Erlend í
Skáldatíma er hann löngu orðinn að goðsögn.
Og vitað eða óafvitað ljær Halldór honum þá
drætti sem er honum sjálfum syndaaflausn og
réttlæting eins og lessið stóð þá stundina.
Erlendur opinberast sem austræn goðvera,
taóisti, utan og ofan við breyskleika mannanna,
ópólitískur og afskiptalaus.
Þetta lætur Þórbergur ekki viðgangast:
„… þegar ég las kapítula Halldórs í
Skáldatíma um Erlend og móður hans, rann
mér svo í skap, að ég gat ekki haldið aftur af
mér. Þar óð uppi svo mart, er gerði mér gramt í
geði sem gömlum stórvini Unuhúss og
kunningja sannleikans: ónákvæmni, ósannsögli,
leiðinleg tilgerð og ankannaháttur, að því litla
ógleymdu, að Erlendur er gerður í aðra röndina
að flóni, honum lýst sem pólitíku viðrini og allt
að því glæpamanni og við hann skilið minni og
leiðinlegri mann en hann var […]
Þetta er að sönnu ekki gert í því skyni
vísvitandi að minnka Erlend og afflytja… Hér
eru að verki annars konar vankantar
höfundarins, sem hann virðist varla vera sér
vitandi eða ekki vilja viðurkenna fyrir sjálfum
sér, kannski óviðráðanlegir…“12
Í þessum punkti reka þeir saman hornin:
Þórbergur, ástmögur sannleikans, með alla
sína ástríðufullu nákvæmni og Halldór með
ofnæmi sitt fyrir veruleikanum og
áráttubundnu þörf til að skálda.
* * *
Sama ár og Þórbergur las honum pistilinn gaf
Halldór út Sjöstafakverið, safn sjö smásagna.
Næstsíðasta sagan í bókinni ber heitið Jón í
Brauðhúsum (en svo íslenskaði einn af
liðsmönnum Unuhúss Jesús frá Nasaret).
Tveir lærisveinar hittast áratug eftir að
meistari þeirra hefur verið tekinn af lífi og þeir
settir út af sakramentinu. Þeir taka tal saman
um fyrri tíma og þar kemur að meistarann ber á
góma. Þá kemur í ljós að þeir eru ekki sammála
um nokkurn skapaðan hlut: þegar annan rekur
minni til að augu hans hafi verið blá segir hinn
að þau hafi verið brún, hárið rauða var orðið
svart í minningu hins… Og ekki bara hin
líkamlegu einkenni, einnig sjálf breytni
meistarans verður þeim að ásteytingarsteini.
Þetta var Halldóri líkt. En því miður ekki
lokasvar. Í Íslendíngaspjalli sem kom út
þremur árum síðar og var hugsað sem
einskonar „appendix“ við Skáldatíma hyggst
hann gjalda Þórbergi rauðan belg fyrir gráan.
Hann dregur hann sundur og saman í háði fyrir
píslarvættið í Ofvitanum og því næst fer hann á
loft með kutann og nú er engu líkara en hann
ætli í eitt skipti fyrir öll að skilja á milli
Síamstvíburanna: „Í íslensku blaði má helst
ekki nefna nafn þolanlegs rithöfundar nema
hann sé spyrtur við eitthvert safn af mönnum
sem verður að vernda sérstaklega af því þeir
gánga lausir til reynslu…“13
* * *
Og samt, að Þórbergi látnum kaus Halldór að
kalla minningarorðin: „Við Þórbergur“.
„… Við héldum áfram að vera vinir í fjarska
eftir fall Unuhúss, og á þá vináttu brá ekki
skugga þó hann væri sá maður sem mér hefur
fundist einna óskiljanlegast saman settur allra
sem ég hef kynst; og honum áreiðanlega sýnst
hið sama um mig…“ segir þar.14
Halldór og Þórbergur, Þórbergur og
Halldór. Við skulum ímynda okkur að þeir séu
einhvers staðar á astralplaninu að bera saman
bækur sínar.
Halldór:
„Ég er alveg trylltur í mátt! Ísland gæti
aldrei svalað að hálfu þeirri ambition sem ég er
fullur af. Það er ekki til fyrir mér nema tvær
andstæður: annaðhvort að sigra svo
eftirminnilega að ég eigi alls kostar við heiminn
eða þá að fara gersamlega í hundana. Og þótt
ég fari í hundana þá skal ég úr þeim aftur! Það
er ekki til í mér neitt sem heitir að gefast upp.“15
Þórbergur:
„En ég var þannig saman settur af
náttúrunnar hendi, að ég gat aldrei hrapað
nema niður að ákveðnu marki. Þegar fallið var
komið að þeim punkti, risu æfinlega upp í mér
innri kraftar, sem hófu mig, líkt og fjöður slyppi
af haki, aftur á móti brattanum og
undantekningarlaust ívið hærra upp á við en
viðleitni mín til fullkomnara lífs hafði nokkurn
tíma lyft mér áður […] Nei, það var eitt, sem
aldrei hefði getað hent mig. Ég hefði aldrei
getað „farið í hundana“.“16
Heimildir:
1 Handritadeild Landsbókasafns.
2 Margs er að minnast, Jakob F. Ásgeirsson
skráði, s. 41.
3 Sama, s. 41.
4 Í kompaníi við allífið, s. 13.
5 Birtist upphaflega í tímaritinu Helgafelli árið 1944.
6 Bréfið er skrifað árið 1953 en birtist fyrst
í Helgarpóstinum, 28. ágúst 1981.
7 Sálmurinn um blómið, 2. útg. s. 112.
8 Sama, 2. útg. s. 134.
9 Sama, s. 379.
10 Í kompaníi við allífið, s.52.
11 Sama, s. 208.
12 Ýmislegar frásagnir II, s. 217.
13 Íslendíngaspjall, s. 119.
14 Seiseijú, mikil ósköp, s. 56.
15 Halldór í bréfi til unnustu sinnar, 1927, sbr. Peter
Hallberg, Hús skáldsins I, s. 36
16 Ofvitinn (1975), s. 341–342.
Höfundur er rithöfundur.