Lesbók Morgunblaðsins - 16.03.2002, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 16.03.2002, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 16. MARS 2002 5 I. Skoðun H ver er lífsspekin þín? Hvert er lífsmottóið þitt? Er til einhver setning sem þú get- ur gert að einkunnarorðum þínum? Brjóttu heilann um þetta og ritaðu niðurstöð- una á pappír.“ (Um það fer tvennum sögum.) (Gunnar Hersveinn. Reykjavík. útg. 1990, bls. 13) „Hvert er viðhorf þitt til dauðans? Hvaða merkingu hefur hann gagnvart þér? Hvað er dauðinn að þínu mati?“ (65) „Sérhver maður ætti að spyrja sig: Trúi ég á guð? Er guð til? Hef ég reynslu af guði? Hvað er guð? Og þegar spurt er skal spurt fordóma- laust. Íhugaðu nú, hvert viðhorf þitt til guðs er, þitt eigið persónulega viðhorf? Ekki rekja við- horf annarra, kirkjunnar, heldur þitt eigið. Notaðu skóflu skynseminnar og grafðu eins djúpt og þú þorir.“ (77) Í þessum þremur verkefnum eru lesendur beðnir um að grafast fyrir um og gera grein fyrir afstöðu sinni til lífsins, guðs og dauðans. Er það ekki sjálfsagt mál, fyrir lifandi mann sem mun einn góðan veðurdag deyja? Ég kenndi heimspeki í framhaldsskólum í nokkur ár og var aðalmarkmið mitt að knýja nemendur til að hafa skoðanir sem þeir gátu með réttu kallað sínar eigin skoðanir. Ekki skoðanir tíðarandans, ekki skoðanir annarra, ekki skoðanir sem eru órannsakaðar fullyrð- ingar, heldur skoðanir sem þeir höfðu lagt eitt- hvað á sig til að skilja. Einnig vildi ég kenna þeim að láta af þrjósku sinni og fordómum. Nemendur voru vanir að vera spurðir um hvað hinn eða þessi sagði eða gerði á hinum eða þessum tíma, ég vildi ekki kenna þeim staðreyndir eða sögu, og bannaði þeim að styðjast við heimildir í ritgerðum. Nokkrum fannst þetta afar ósanngjarnt og heimskulegt enda væru þeir ekki komnir í skóla til að segja eigin skoðanir, heldur til að læra. Öðrum fannst sem þeir hefðu engar skoðanir eða skömmuðust sín fyrir þær. Flestir kvöldust yf- ir fyrsta verkefninu, en fylltu stílabækur með eigin íhugunum í leit að eigin skoðunum um mannleg gildi. Þetta var fyrir tíu árum, og í valdabarátt- unni um hvaða greinar eigi að kenna í grunn- og framhaldsskólum, hefur heimspekin orðið undir. En einmitt í skólum má finna brýnasta verkefni íslenskrar heimspeki á nýrri öld. II. Klámvæðing „Því er haldið fram að ekki sé auðvelt að vera unglingur nú til dags vegna þess að þjóð- félagið sé orðið mun flóknara en fyrir til dæmis 20–30 árum þegar foreldrar þeirra unglinga sem nú eru að alast upp voru að glíma við til- vistarvandann sem fylgir oft þessu æviskeiði.“ (Morgunblaðið. 10/2/2) Samtíminn er laus í reipunum; hugsunar- leysi, skoðanaleysi, skeytingarleysi, væru- kærð, viljaleysi. „Fólk nennir ekki lengur að reiðast,“ heyrði ég sagt um daginn. Einstaka sinnum rísa þó upp hópar og koma af stað átaki gegn hinum eða þessum ósómanum, svo líður það undir lok og ósóminn heldur áfram. Átak er bara átak, áróður áróður. Verkefnið er að bjarga heiminum, en heim- speki er ekkert merkilegri en aðrar greinar, og hún getur ekki bjargað heiminum ein. Hún sit- ur við sama borð og allar aðrar fræðigreinar. Hún hefur ákveðna sögu og tæki í þjálfuninni að verða manneskja, tæki sem gjarnan mætti nota meira í skólum, þótt þau standi öllum til boða. Siðfræðistofnun hefur oft skapað samtöl milli fræðigreina og almennings, og oft taka líka fræðimenn úr öðrum greinum frumkvæðið með því að horfast í augu við nútíðina og leggja eitthvað til málanna. Skýrt dæmi um það er viðleitni kynjafræð- inga og feminista til að vekja fólk við vondan draum klámvæðingarinnar á Íslandi. Þeir (eða þær) varpa myndinni upp, greina hana, færa rök fyrir því að hér sé um ranga hegðun að ræða og leggja til ráð í baráttunni gegn henni. „Klámiðnaðurinn þverbrýtur öll „velsæmis- mörk“, hann sýnir allt og ber ekki virðingu fyr- ir neinu, og þverbrýtur því öll samfélagsleg mörk um hvað má sýna og hvað má tala um,“ sagði Þorgerður Þorvaldsdóttir sagn- og kynjafræðingur, til dæmis, á ráðstefnu Rann- sóknarstofu í Kvennafræðum um kynjamyndir í klámi, 16/11 01. Í þessum orðum birtast næg verkefni fyrir siðfræðinga: Velsæmismörk, virðing, mæli- kvarði um hvað má og hvað má ekki. Price- waterhouseCoopers gerði könnun sem sýndi að helmingur þjóðarinnar taldi klám vera vandamál. Könnun Hildar Fjólu Antonsdóttur og Gunnhildar Kristjánsdóttur (Nýsköpunar- sjóður námsmanna/Rannsóknarstofa í kvenna- fræðum) síðastliðið haust sýndi að varnirnar gegn klámi eru að bresta. „Í ljósi þess hve auð- veldlega kynlífsiðnaðurinn hefur rutt sér til rúms á Íslandi mætti e.t.v. álykta sem svo að orðið klám sé að öðlast nýja og jákvæðari merkingu. Niðurstöður rannsóknarinnar benda aftur á móti til þess að svo sé almennt ekki.“ (bls 63). Enn heldur eitthvað, enn er von og enn eru verkefni. „Á Netinu hefur unga fólkið líka að- gang að efni sem sýnir brenglaða mynd af kyn- lífi þar sem aldrei er talað um virðingu eða væntumþykju heldur litið á kynlífið sem hverja aðra neyslu.“ (Mbl. 10/2 02). Hvað er virðing? Hvað væntumþykja? Hvenær eru velsæmis- mörk brotin? Hvenær verður maður reiður? Sofandi fólk verður ekki reitt. Sofandi fræði- menn eru utan-við-sig. Klámið er í hverri vél, hverjum GSM síma, hverju sjónvarpi . . . versl- un, heimili. Og: klám í blöðum, tímaritum og kvikmyndum ýtir undir kynferðislegt ofbeldi gegn konum og jafnvel börnum, samkvæmt rannsóknum dr. Díönu E.H. Russell, prófess- ors í félagsfræði við Mills-háskóla í Kaliforníu. Öfugt við það sem oft er sagt. III. Leikskólar Hvar lærir maður um hugtök eins og gleði, ást, sorg, vingjarnleiki, eða dygðir eins og hóf- semi, hugrekki, samkennd og ábyrgð, eða til- finningar eins og von, afbrýðisemi, stolt og ótta? Hvar er kennt að hugsa um mannlega mælikvarða um rétt og ranga hegðun? Hvernig er hægt að koma í veg fyrir að ungt fólk frétti ekki af hinum ýmsu dygðum og til- finningum fyrr en eftir tvítugt og heyri þá loks um ráð til að rækta þær? Ég veit að það er hægt að leggja drög að þessu í skólum lands- ins, ég hef orðið vitni að því í leikskóla á Ak- ureyri: Þar fá tveggja ára börn fyrstu kennslu- stund í dygðinni vingjarnleika með því að nota nuddolíu. Í úthugsað lífsleikniverkefni í Leikskólunum Krógabóli, Síðuseli og Sunnubóli á að veita hverju barni tækifæri til að þroska: „Hæfileikann til að tjá hugsanir sín- ar og skoðanir og þar með vera við stjórnvölinn í eigin lífi. Hæfileikann til að taka ábyrgð á gerðum sínum og umhverfi. Hæfileikann til að skilja og bregðast við á málefnalegan hátt, með því að taka þátt í margvíslegum samskiptum og ákvörðunum. “ (Mbl. 18/1/2). Í þessu lífsleikniverkefni, sem Sigríður Síta Pétursdóttir leikskólakennari stjórnar, er von, og um leið áframhaldandi verkefni fyrir heim- spekina, en þarna eru sammannlegar dygðir í öndvegi. Klukkan glymur, jafnvel vekjara- klukkan hringir, en vaknar einhver? Fyrir grunnskóla hefur Hreinn Pálsson heimspekingur ofl. hannað heimspeki handa börnum og í framhaldsskólum er vísir að sið- fræðikennslu. Er þá rétt að hugsa: „Þetta ger- ist hægt og sígandi, heimspekin/siðfræðin nær fótfestu á næstu 20 árum. Hún nær ef til vill að skjóta rótum í námsgreininni lífsleikni.“ Klukkan tifar; skjótra viðbragða er þörf. Mér er alveg sama þótt heimspekin sem markviss aðferð gangi til liðs við aðrar greinar í skólum, ég vil bara að gagnrýnin hugsun verði örugglega kennd. Í bókinni Hvers er sið- fræðin megnug? (Siðfræðistofnun/Háskólaút- gáfan, 1999) eru fjórar greinar um hvernig kenna megi heimspeki og siðfræði í skólum og hvers vegna það ætti að gera. Þar skrifar Sig- ríður Þorgeirsdóttir heimspekingur að skólinn geti ekki lengur skorast undan því að kenna siðfræði, og einnig „Ef henni [siðfræðikennsla] tekst ætlunarverk sitt með því að efla siðvit barna og unglinga eru þau síður berskjölduð gagnvart áreitum þessum öfga menningar okkar.“ (bls. 92). Hér dugar engin linkind, verkefni heim- spekinnar eru til staðar, og hefur ætíð verið það: Að gæta þess að enginn sofni á verðinum, gleyma sér ekki í hártogunum, „andæfa hugs- unarleysi, klisjum og innantómu orðagjálfri og vefengja ýmislegt sem er haft fyrir satt vegna þess eins hvað það lætur vel í eyrum.“ (Atli Harðarson, Lesbók 9/1/2). O.s.frv. Ég tel með öðrum orðum að heimspekingar geti rétt hjálparhönd í viðleitninni til að reka út púkana úr samfélaginu og styrkja það sem heillavænlegra er. Ég veit að þeir hafa t.d. lagt starfstéttum úrvalslið í að semja siðareglur, þökk sé Siðfræðistofnun HÍ, og mér finnst að næst eigi að glíma við skuggalegar stéttir eins og þær sem tengjast klámiðnaði. Og heimspek- ingar eiga að suða sig inn í alla skóla, suða sig inn í skólanámskrár! Á síðasta áratug var verkefnið í samtalsformi við almenning og fyr- irtæki, á þessum að smjúga inn í skólastarfið. IV. Internet Eraser Hversu alvarlegt er ástandið? Kynfræðslan í skólum hrekkur of skammt. Ég veit ekki hvernig heimilin standa sig (foreldrar sagðir önnum kafnir), en klámframleiðendur á Net- inu og í kvikmyndum eru með á nótunum, eða þannig. Ég opnaði leitarvélina www.leit.is, rit- aði „klám“ og niðurstaðan varð ljós á svip- stundu. Þar kom meðal annars í ljós að sterk- lega er mælt með forritinu Internet Eraser, en það er varnarforrit fyrir klámnotendur. For- ritið á að koma í veg fyrir að hægt sé að rekja klámslóðina. „Þegar þú hefur náð þér í forritið ertu skotheldur og besta við þetta allt saman er að yfirmaðurinn veit ekki að þú sért að skoða sóðalegar myndir á Internetinu!“ er skrifað handa klámáhugamönnum. Sögð er (flökku)saga um mann sem var rekinn úr vinnunni af því hann var alltaf í klámsíðunum, og öðrum sem konan rak út af heimilinu sökum klámfíknar á Netinu. En nú geta þeir andað léttar: Internet Eraser strokar út slóð þeirra jafnóðum. Gallinn er bara að ekkert forrit strokar út mannlega hugsun eða hegðun. Unglingar horfa á klámmyndir á myndbönd- um, og þar fer meginkynfræðslan fram, og birtist síðar í hegðun. Ætlast er til ákveðinna hluta og búist er við ákveðinni þjónustu. „Ég get ekki neitað því að við á Neyðarmóttökunni finnum fyrir því að strákar beita ungar stúlkur sífellt meiri þrýstingi á að hefja snemma kynlíf og taka þátt í kynferðislegum athöfnum, t.d. endaþarmsmökum og munnmökum,“ segir Eyrún Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Neyðarmóttöku nauðgunar á Landspítalanum í Fossvogi, í samtali við Daglegt líf 9. mars sl., og tekur fram að skýringanna sé m.a. að leita í hinni svokölluðu kynlífsvæðingu. „Kynlíf blas- ir alls staðar við. Allt er sýnt og ekkert heilagt. Sjaldnast er áherslan lögð á eðlilegan aðdrag- anda ástarsambands þar sem ást og traust skipta mestu. Kynlífið er hlutgert og tilfinn- ingunum ýtt til hliðar.“ Mbl. 9/3/2) Heimspekingar geta lagt málinu lið með því að kenna eða rækta sjálfsaga og hugrekki. Einnig miðlað einhverju um siðfræði kynlífs; hvaða hugtök (tilfinningar, dygðir) komi helst við sögu. Sjálfsagi er með eftirsóttustu verð- mætum; að hafa stjórn á tilfinningum sínum og skapi. Sjálfsagi skiptir sköpum varðandi vel- gengni í námi og starfi. Hvers vegna ekki að rækta hann með börnum? V. Siðfræðikennarinn Ég lít svo á að heimurinn sé ævinlega skakk- ur, og að verkefnið sé að gera tilraunir til að rétta hann af. Þetta er þó ekki hugmyndafræði viðgerðamannsins, í mínum augum er þátttak- an sköpun. Klámiðnaðurinn skekkir myndina af konum og körlum, hann kallar fram ákveðna hegðun sem dregur úr virðingu og veldur kvöl. Sífelld barátta gegn honum getur gert hann linan, aðeins með stranslausri vinnu finnst vopnið sem banar honum. Hugmyndin um að allt sé leyfilegt er aðeins hugmynd, og tóm- hyggjan hugmynd hinna lifandi dauðu. Frumhugmynd siðfræðinnnar og ákvörðun- in er að vinna með lífinu en ekki á móti því, af þessari hugmynd spretta ótal aðrar; að vinna með lífverunun, náttúrunni, að hamingjunni, gleðinni, vináttunni, virðingunni, frelsi ein- staklingsins. Þegar best tekst upp færist þungamiðjan: Hvíti gagnkynhneigði karlmað- urinn var í brennidepli, konan og náttúran öll í skugganum. Hann var hugmynd, en þegar hún er rannsökuð molnar hún. (Ósegjanleg ást. Geir Svansson. Skírnir. 1998). Verkefnið er vinna gegn heimskunni, lyginni og fordómunum, rækta samkennd og þjálfa hjálpsemi. Og einnig gleymskunni: Gæta að því sem enn er í hendi og muna að ekkert er sjálfsagt eða gefið. Árið 1859 gaf John Stuart Mill út bókina On Liberty (Frelsið. HÍB. Reykjavík 1970) um ofureinfalda regu: „Því að- eins er öllu mannkyni, einum manni eða fleir- um heimilt að skerða athafnafrelsi einstak- lings, að um sjálfsvörn sé að ræða“ (Frelsið, 45). Hann greinir regluna svo í tvo þætti, „ein- staklingur ber enga ábyrgð gagnvart sam- félaginu á þeim athöfnum, sem varða einungis hann sjálfan“ (168) og „að einstaklingur ber ábyrgð gagnvart samfélaginu á þeim athöfnum sínum, sem skaða hagsmuni annarra.“ Róbert H. Haraldsson heimspekingur skrifar um ástæður þess að Mill velur sér þetta efni, í bók sinni Tveggja manna tal. (HÍB. Reykjavík 2001). Mill skrifaði verk um reglu sem átti að vera augljós sannindi og samtímamenn furðuðu sig á því. Mér finnst að fleiri ættu að feta í fótspor Mills og skapa umræðu um það sem fólk telur sjálfsögð sannindi og réttindi. Róbert orðar ástæðuna í þessari bók, því þótt fólk brýni skoðanir sínar þá væri enn „eftir sú mannraun að tileinka sér það siðferði og þá trú sem höfðar til skynseminnar.“ (230). Þetta er kjarni málsins. Ég vil að heimspeki/ siðfræði sé kennd í skólum, svo nemendur geti enn betur glímt við skoðanir sínar, grafið þær upp, horfst í augu við þær og síðan með tím- anum tekist á við þá mannraun að tileinkað sér þær, og loks tekið fullan þátt í því með öðrum greinum/kennurum að gera heiminn mannúð- legri og farsælli. Hugmyndin er að skoðun fylgir ábyrgð. Raunveruleg skoðun er ekki létt verk, hún þarf að fullnægja „þeim kröfum sem við gerum til rökstuddra skoðana og gildra geðshræringa. Þar á siðfræðikennarinn verk að vinna.“ (Kristján Kristjánsson. Erindi sið- fræðinnar. 1999. Bls. 55). Nokkuð ljóst er að þeir einstaklingar sem leggja til klám handa öðrum í hvaða myndum sem það birtist takast ekki á við regluna „að einstaklingur ber ábyrgð gagnvart samfélag- inu á þeim athöfnum sínum, sem skaða hags- muni annarra“. Einhvern veginn tekst þeim að horfast ekki í augu við ábyrgðina sem athæfinu fylgir. Fyrst þá vantar siðferðið, er eina ráðið að efla varnirnar í manneskjunni. Ég tek svo undir þá skoðun að siðfræðikennarinn í skólum landsins hafi verk að vinna – ekki einn, heldur með öðrum. Hann getur lagt þeim lið. HEIMSPEKI OG KLÁM E F T I R G U N N A R H E R S V E I N Verkefnið er að bjarga heiminum. Siðfræðingar eiga að knýja dyra í öllum skólum landsins og suða um að fá að vera með í baráttunni. Hér er varpað ljósi á hvernig skefjalaust klám brýtur niður varnir mann- eskjunnar, og hvernig kveða má niður ósómann. Höfundur er heimspekingur og blaðamaður á Morgunblaðinu. HEIMSPEKI , T IL HVERS? guhe@mbl.is Teikning/Andrés

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.