Lesbók Morgunblaðsins - 16.03.2002, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 16.03.2002, Blaðsíða 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 16. MARS 2002 H ANN hefur verið að í þrjá áratugi, samið leikrit, skáldsögur, ljóð og lög, löngu landsþekktur fyrir þetta allt saman en hefur þó haldið sig utan sviðs- ljóssins og unnið að sínu, fjölskyldumaður í 101 Reykjavík. Ólafur Haukur Símonarson, maðurinn á bakvið Hafið, Gauragang, Þrek og tár, Bílaverkstæði Badda og Vitleys- ingana svo nokkur af leikritunum hans séu nefnd; skáldsögurnar eru m.a. Vatn á myllu Kölska, Gauragangur og Rigning með köfl- um. Sönglögin og textarnir hafa verið á hvers manns vörum Ryksugan á fullu og Eninga meninga. Samkvæmt þessu er hann óskabarn þjóðarinnar, alltaf að slá í gegn, sí- vinsæll og síungur. Í vetur eru á fjölunum tvö ný leikrit eftir hann, í Borgarleikhúsinu var frumsýnt í janúar Boðorðin níu og eftir páskana verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu Victoría og Georg. Ritþing og tónleikar Um helgina verður ýmislegt gert til að samfagna 30 ára rithöfundarafmæli Ólafs Hauks. Í Gerðubergi er efnt til Ritþings undir stjórn Kristjáns Þórðar Hrafnssonar og spyrlar eru Stefán Baldursson og Guðrún Gísladóttir. Í Borgarleikhúsinu verða tón- leikar á morgun fyrir „Krakka með hár og kalla með skalla“ þar sem Olga Guðrún Árnadóttir, Edda Heiðrún Backman og Jó- hanna Guðrún koma fram ásamt mörgum fleirum. Efnisskráin er að sjálfsögðu sam- sett úr lögum og textum Ólafs Hauks. Það fyrsta sem ég rek augun í þegar Ólaf- ur Haukur býður mér inn í vinnuherbergið sitt, sem eitt sinn var reiðhjólaverkstæði Arnarins við Spítalastíg, er spánnýr rafgít- ar, sem Ólafur tekur varlega úr kassanum og sýnir mér andaktugur á svip. „Þetta er fyrsti rafmagnsgítarinn sem ég eignast. Ég keypti hann hjá Magga í Rín. Hann er fal- legur finnst þér ekki?“ Ég játa því enda er þetta allra fallegasti gripur. „Gulla tekur fyrir eyrun þegar ég sting í samband og hækka allt í botn.“ Það hvarflar að mér að hæfileiki Ólafs til að end- urnýja sig og koma sífellt á óvart sé einmitt fólginn í þessu; hér stendur hann rúmlega fimmtugur maðurinn með fyrsta rafmagns- gítarinn sinn ljómandi eins og fermingar- drengur, og segir frá því að konan hans (Guðlaug María Bjarnadóttir leikkona) eigi það til að biðja hann í guðsbænum að lækka þegar hávaðinn keyrir úr hófi. Seinna í sam- tali okkar lýsir hann því einmitt hversu mik- ilvægt honum sé að tengjast yngra fólki til að festast ekki í hugmyndum einnar kyn- slóðar. „Það er öruggasta leiðin til að skrifa sig útúr lífinu í kringum sig. Ég fæ gríð- arlega mikið út úr því að vinna með mér yngra fólki, leikurum og leikstjórum. Á hinn bóginn er ómetanlegt að njóta reynslu þeirra sem eldri eru og ég treysti fáum bet- ur en reyndum leikurum til að meta hvort setningu er ofaukið í leiktexta eða ekki.“ Gríðarlegur reynslubolti Leikrit Ólafs Hauks eru orðin hátt í tutt- ugu talsins og hann liggur ekki á þeirri skoðun sinni að ef leikritahöfundur á að ná tökum á leikritsforminu verður leikhúsið að taka leikritin hans til sýninga. „Leikrit er ekki tilbúið fyrr en búið er að frumsýna það. Handritið er nauðsynlegur grunnþáttur en vinnan við uppsetningu verksins er ekki síð- ur mikilvæg.“ Ólafur hefur einmitt getið sér orð fyrir að taka virkan þátt í uppsetningu verka sinna, fylgjast vel með æfingum og er óþreytandi við að breyta og umskrifa meðan á æfingum stendur. „Þetta er mitt tækifæri til að starfa með öðru fólki. Ég hef ánægju af því og það á vel við mig að vinna náið með hópi fólks um ákveðinn tíma og síðan fara allir sína leið. Þetta er áreiðanlega ein af ástæðunum fyrir því hvað ég hef enst við leikritaskrifin. Sumum höfundum líkar þetta ekki og eru viðkvæmir fyrir verkum sínum. Þeim finnst kannski óþægilegt að ræða efni þeirra við leikara og leikstjóra og er mein- illa við að gera breytingar. Þeir snúa sér þá frekar að ljóðagerð eða skáldsagnaskrifum.“ Einn af yngri leikstjórunum sem unnið hefur með Ólafi Hauki á síðustu misserum hefur lýst samstarfinu þannig að Ólafur sé „gríðarlegur reynslubolti sem láti fátt koma sér úr jafnvægi“. Ólafur Haukur hefur í gegnum tíðina ver- ið orðaður við vinstri pólitík og afstaða hans til þjóðmála litast enn af því. „Ég er þó ekki pólitískur í leikritum mínum á annan hátt en að vilja segja sögur sem skipta einhverju máli. Leikrit verða þó ekki skrifuð útfrá pólitík. Það hefur komið á daginn að mín skásta hlið sem höfundur er að skrifa sam- töl. Mér hentar vel að lýsa fólki í gegnum samtöl. Það er kjarni leikritunar.“ Ég rifja upp þau orð Ólafs Hauks frá ráð- stefnu í New York í fyrravor að leikritun sé í eðli sínu mjög staðbundin listgrein. Hvað átti hann við? „Leikrit sem lýsa því umhverfi og fólki sem höfundur þekkir hljóta að vera bæði menningarbundin og svæðisbundin. Auðvit- að koma alltaf reglulega fram leikrit sem brjóta sig frá þessu og verða útflutnings- vara. En það er undantekning fremur en regla. Ef við skoðum framboðið í löndunum í kringum okkur sjáum við að lítið er leikið af þýskum leikritum í Bretlandi eða t.d. frönskum í Þýskalandi. Leikritahöfundar eru að skrifa fyrir sitt menningarsvæði. Ég skrifa mín leikrit fyrir íslenska áhorfendur um íslenskt fólk. Ég hef ekki heldur viljað eyða tíma mínum í að selja verkin mín er- lendis. Það er mjög tímafrekt og árangurinn óviss. Við gætum vafalaust náð betri og markvissari árangri ef hér væri til staðar skipulagt sölu- og kynningarkerfi fyrir höf- unda erlendis en eins og staðan er í dag verða höfundarnir að standa í þessu sjálfir hver fyrir sig. Ég vil miklu heldur skrifa ný verk.“ Spegill á eigið samfélag Ólafur hefur um árabil verið virkur í rétt- indabaráttu rithöfunda og leikskálda og set- ið í stjórn Rithöfundasambandsins og verið formaður Leikskáldafélags Íslands. „Þrátt fyrir að margt hafi áunnist þá er það ennþá svo að sem listamaður er leikskáldið ennþá utangarðs í leikhúsinu. Það er varla gert ráð fyrir höfundum í skipulagi leikhúsanna og ekkert atvinnuleikhúsanna hér á landi hefur höfund eða höfunda á föstum samningi til að skrifa leikrit. Eins sjálfsagt og manni finnst að það ætti að vera. Ég tel líka lífsnauðsyn- legt að Listaháskólinn stígi það spor að taka leikritun inn sem sérstaka námsbraut við Leiklistardeildina. Það þarf að kenna ungum leikritahöfundum að vinna í leikhúsinu og hvar er betra að gera það en í leiklistarskóla þar sem ungir leikarar og leikstjórar vinna með efniviðinn í samvinnu við höfundinn. Þetta hefur verið gert í Finnska leiklist- arháskólanum með mjög góðum árangri og þeir hafa eignast marga mjög góða unga höfunda á undanförnum árum. Þessu má þó ekki rugla saman við höfunda sem náð hafa fullum þroska og þurfa bara að fá réttar að- stæður til að skrifa. Leikhúsin eiga að taka þeim opnum örmum. Leikritahöfundur sem hefur tekið af öll tvímæli um að hann eigi er- indi er mjög verðmætur. Leikhúsin eiga að taka að sér þessa fáu leikritahöfunda sem við eigum og halda þeim að skrifum. Og síð- an á að setja upp leikritin þeirra. Það er megintilgangurinn með því að eyða stórum fúlgum af almannafé í rekstur leikhúss á Ís- landi. Ég sé enga algjöra nauðsyn á því að halda úti leikhúsum hér á landi með ærnum kostnaði ef aðeins er verið að sýna erlend verk. Á sama hátt sé ég ekki hvers vegna ríkið er að vasast í því að halda úti sjón- varpsstöð sem sýnir nánast ekkert nema er- lenda framleiðslu. Opinber leikhús og rík- issjónvarp eiga að leggja alla áherslu á frumsköpun á innlendu efni. Okkur vantar spegla á samfélagið okkar. Við þurfum að spegla það sjálf og halda því uppi til skoð- unar. Ekki gera aðrir það.“ Ólafur brosir nánast afsakandi í lok þess- arar ræðu og segist vera farinn að hljóma eins og Cató gamli. „En dropinn holar stein- inn og líklega hefur aldrei verið meiri þörf en einmitt nú að snúa við þessu blaði. Það vill líka oft gleymast hversu stór hagstærð í samfélaginu listsköpunin er orðin. Það er rætt um listir og menningarstarfsemi einsog einhverja aukagetu við raunverulega verð- mætasköpun. En sannleikurinn er allur ann- ar. Listsköpunin er atvinnuskapandi á ótal vegu og skapar verðmæti sem er hægt að mæla í beinhörðum peningum ekki síður en í andlegri velferð þjóðarinnar.“ Ritþing Gerðubergs um höfundarferil Ólafs Hauks Símonarsonar hefst í dag kl. 13.30. LÝSI FÓLKI MEÐ SAMTÖLUM Morgunblaðið/Ásdís Þau sjá um ritþingið. Guðrún Gísladóttir, Olga Guðrún Árnadóttir, Stefán Baldursson, Kristján Þórður Hrafnsson og Ólafur Haukur Símonarson. Ólafur Haukur Símonar- son leikskáld með meiru verður í sviðsljósinu um helgina í tilefni af 30 ára höfundarafmæli. HÁVAR SIGURJÓNS- SON átti stefnumót við hann einn morgun í vikunni. Morgunblaðið/Sverrir Við ritstörf í 30 ár. Ólafur Haukur Símonarson. havar@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.