Lesbók Morgunblaðsins - 13.07.2002, Side 11

Lesbók Morgunblaðsins - 13.07.2002, Side 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. JÚLÍ 2002 11 árum minnir helst á greinarnar í Elle, Harp- er’s Bazaar og Vogue þar sem inngangs- punkturinn er „Brown is the new black“ og okkur er fyrirskipað að skipta út fataskápn- um „med det samme“ af því að einhver stíl- istinn hefur fengið þá flugu í höfuðið að svart sé bara ekki að gera sig lengur. Ég gríp hér niður í eina greinina sem hinn 24 ára gamli Halldór skrifaði á Sikiley um útlit þjóðar sinnar og birti í menningar- og þjóðmála- blaðinu Verði, málgagni Íhaldsflokksins, og er að finna í Af menníngarástandi: „Íslenski séntilmaðurinn er venjulega skóaður sprúngnum boxcalfstígvélum með látúnsgul- um krókum uppeftir leggnum. En þegar hann sest niður, eða ef svo tekst til á annan hátt að buxurnar lyftast upp, þá kemur í ljós mórauður ullarsokkur í mörgum digrum fell- íngum, og væri bersýnilega kominn niðrá hæl ef leggurinn á stígvélinu hefði ekki staðið í vegi. Ég hef einu sinni séð fót á íslenskum mentamanni, eins og ég nú lýsti, teygja sig frammundan borði á Vífli í Kaupmannahöfn (Restaurant Wiefel), og ég verð að játa að það snart mig illa.“ (bls. 20) Síðan vindur Halldór sér í frásögn afþví hvað íslenskir karlmenn eru illaklipptir og ekki nóg með það, heldurlíka illa hærðir. Hann segir hárið „lint, litlítið, þvalt, sjaldan sveipað, nema ef það er beyglað og dældótt undan höfuðfati eða jakkakraga“. (bls. 20) Halldór virðist líka snemma hafa myndað sér þá skoðun að skáld ættu að vera til- hlýðilega til fara, eins og eftirfarandi frásögn úr Af menníngarástandi ber vott um: „Mér er jafnan í minni þegar ég fór í fyrsta sinni, sem sextán ára dreingur, að sjá og heyra eitt af ágætustu skáldum landsins; hann hélt fyr- irlestur í Bárunni. Ég hafði hlakkað mikið til að sjá persónu hins marglofaða stílsnillíngs augliti til auglitis, og þarna kom þá uppá pallinn hið stíllausasta samblandsfyrirbrigði sveitamanns og borgarbúa, með hárið stand- andi í allar áttir og ókliptan skeggkraga á efri vörinni eins og skrípakarl í „Strix“; í krypluðum kambgarnsfötum sem litu út fyrir að vera fermíngarfötin af syni hans, með stóreflis slaufu, rauða. Hefði maðurinn stigið í stólinn með hár niðrá herðar og skegg niðrá bríngu, klæddur í skinnsokka, vaðmálsbuxur og duggarapeisu mundi manni hafa þótt til um slíkan hreinræktaðan persónuleik og litið á skáldið sem ímynd hinnar „kjarngóðu bændamenníngar“. Í þess stað leit hann út eins og afkáralegur „parvenu“.“ (bls. 20–21) Og Halldór slettir auðvitað frönsku eins og blaðamennirnir í Vogue. Fyrir þá sem ekki hafa orðabók við höndina þýðir „parvenu“ uppskafningur. Í sömu grein segir Halldór frá því hvað kennari nokkur fyrir norðan hafi orðið hon- um ævareiður þegar Halldór atyrti hann fyr- ir að „hafa gúmmíflibba um hálsinn í gleð- skap“ (bls. 21). Kennarinn sakaði Halldór um uppskafningshátt, hégómaskap og heimsku og gaf honum ekki tækifæri til að rökræða. Reiðin yfir að hafa ekki fengið að útskýra mál sitt situr greinilega í Halldóri en þarna fær hún útrás og hann bætir við: „Siðmenn- íngarleg stílatriði er yfirleitt ekki hægt að ræða við íslending. Til þess að vera „fínn maður“ finst honum aðalatriðið að hafa stíg- vél og flibba, en hvort þessi flibbi er með vörumerkinu Radiac eða bara gúmmíhólkur sem maður getur þerað af óhreinindin með snýtuklútnum sínum á mornana, áður en maður klæðir sig, það er umræðuefni fyrir hégómadýrkendur og uppskafnínga.“ (bls. 22) Litlu síðar bætir hann um betur og full- yrðir að Íslendingar séu að náttúrufari seinir að hugsa, og það kosti þá erfiðismuni að segja, þótt ekki sé nema ómerkilega athuga- semd um daginn og veginn. En hvað gengur honum eiginlega til með þessum stöðugu aðfinnslum um útlit, mat- aræði, tannhirðu og hreinlæti landa sinna? Skýringin kemur í greininni „Gagnrýni og menníng“ sem birtist í Sjálfsögðum hlutum 1943. „Meðan hið forna er að hverfa og hið nýa að skapast er okkur mikil nauðsyn sívök- ullar menníngargagnrýni. Slík gagnrýni verð- ur fyrst og fremst að spretta af góðgirni, stjórnast af jákvæðri yfirsýn gagnrýnandans um hið gróandi þjóðlíf, en ekki ótímabærum derríngi eða geðílsku útaf einhverjum auka- atriðum sem aðeins varðar einn eða fáa. Við verðum að sjá þjóðlífið fyrir okkur sem einn stóran myndflöt þar sem við sjálfir erum málarinn. Við erum að stíga frammí ljós heimssög- unnar sem sjálfstæð og fullvalda þjóð. Hvorki með vopni gulli né höfðatölu getum við skap- að okkur virðíngu heimsins né viðurkenníngu sjálfstæðis okkar, aðeins með menníngu þjóð- arinnar. Vesalasta skepna jarðarinnar er ósiðaður maður; og hirðulaust ógagnrýnið fólk, lint í kröfum til sjálfs sín, sem kann ekki til verka og unir ómyndarskap, hneigt fyrir sukk og drabb, verðskuldar ekki að heita sjálfstæð þjóð og mun ekki heldur verða það.“ (Reykjavík 1986, bls. 189) Já, ljótir ullarsokkar eru miklu meira en ljótir ullarsokkar þegar Halldór hefur farið um þá orðum. Hann reyndi sem sagt að brýna fyrir þjóðinni að ef hún bæri ekki virð- ingu fyrir sjálfri sér gerði það heldur enginn annar. Um þetta hefur verið sungið í mörg- um dægurlögum síðan, bendi bara á „Re- spect Yourself“ með Madonnu. Sjálfur dettur Halldór heldur aldrei úr karakter. Hann er alltaf svalur. Eina eftirminnilegustu frásögn- ina í greinasöfnum Halldórs er að finna í greininni „Raflýsíng sveitanna“ sem skrifuð var 1927 og er að finna í Af menníngar- ástandi. Þar segir frá því þegar Halldór og félagar hans urðu veðurtepptir á Jökuldals- heiði og urðu að hafast við í koti einu. Þar bjó fólk „mjólkurlaust og matarlítið“, eins og það er orðað, nánast inni í jöklinum. Kúnni hafði verið slátrað svo nóg væri til handa kindunum og samt var þarna gömul og gugg- in kona sem þráði ekkert jafnmikið og fáeina mjólkurdropa. Fylgdarmenn Halldórs gauk- uðu að henni mjólk og jafnvel þótt skáldið hafi lýst eymdinni sem þetta fólk bjó við býsna vel getur hann ekki alveg hætt og tek- ur fram að inni í „kotræflinum“ hafi verið „skítugt og ljótt“. Kannski hefðu Halldór og fylgdarmenn hans átt að bjóðast til að taka til hendinni og þrífa svona það mesta fyrst þeir, fullfrískir mennirnir, voru hvort eð er fastir þarna. Það hefði aldrei hugsast. Þegar bóndinn á bænum hefur sagt Halldóri að heimilisfólkið hafi lítið að borða og aðalatriðið sé að hafa nóg handa kindunum skrifar Hall- dór: „Það fanst mér einkar lærdómsríkt.“ (bls. 134) Hann virðist koma þarna í hreinumrannsóknaleiðangri og ætlar ekki aðhafa nein áhrif á umhverfið semhann er að rýna í, eins og frétta- ljósmyndari sem tekur myndir af manni sem kveikir í sér en finnst það óþarfa framhleypni að skutla yfir hann teppi. Takið líka eftir því að það er ekki hann sem gefur konunni mjólk heldur fylgdarmenn hans. Hvað ætli hópurinn finni sér til dund- urs nóttina sem þeir kúldrast inni í jök- ulköldum sveitabæ og hlusta á veðrið ólmast fyrir utan innan um fólk sem virðist vera komið að fótum fram af hungri og vosbúð? „Við sátum uppi um nóttina, gestirnir, og spiluðum bridge.“ (bls. 135) Þetta er maðurinn sem eitt sinn var dreng- ur sem krosslagði hendurnar á brjóstinu og sagðist ekki hafa lyst á að vera með í strik og sto. Halldór er ekkert með. Það er eins og hann hafi bara aldrei haft lyst á að vera með þjóðinni í sínum heimskulegu leikjum hvort sem þeir fólust í fylleríi eða bara því að labba um bæinn með ljóta klippingu sem rokið á hvort eð er eftir að umturna. Hann vildi frek- ar hafa vit fyrir henni, stílisera hana. Og hvert sem litið er lónar hann yfir lífi þessarar þjóðar. Það þykir fínt að dást að honum en líka ógurlega fínt að dást ekki að honum. Ég er hins vegar hætt að miða líf mitt við líf Halldórs. Og þó – því á næsta ári ætla ég að dvelja í nokkra mánuði í Nice í Suður-Frakklandi. Þar dvaldi Halldór einmitt þegar hann var 33 ára gamall, sem er sami aldur og ég verð búin að ná á næsta ári. Þetta uppgötvaði ég þegar ég var að fletta í gegnum Lífsmyndir skálds. Kem ég heim með Sjálfstætt fólk eða verð ég að láta Harry Potter-gleraugu nægja? Ég gæti að minnsta kosti einhvern tímann aurað saman fyrir Eggi. Nema ég sé egg? Höfundur er rithöfundur og ritstjóri Mannlífs. „Þarna hafði ég þegar ákveðið að ég ætlaði að verða rithöfundur þegar ég yrði stór og fyrst klausturdvöl hafði virkað fyrir Halldór gat hún varla skaðað feril minn. Ég skrifaði reyndar engan skáldskap í klaustrinu.“ Er til jurt í íslenskri flóru sem ekki vex villt annars staðar? SVAR: Ef við göngum út frá því að orðið jurt vísi hér til plöntutegundar í venjulegri merkingu þess orðs, þar sem tegundarhugtakið er not- að í nokkuð víðri merkingu, er svarið við spurningunni nei. Allar íslenskar tegundir plantna eru til í öðrum löndum, einkum þó í norðlægum nágrannalöndum eins og Skand- inavíu, Færeyjum, Grænlandi eða Kanada. Nokkrum sinnum hafa tegundir fyrst fundist á Íslandi og verið frumlýst eftir eintökum héðan, en í öllum tilfellum hefur fljótlega komið í ljós, að þær eru einnig til í öðrum löndum. Nærtækasta dæmið er tungljurtar- tegundin „Botrychium islandicum“ sem er nýfundin á Íslandi. Ekki var vitað um hana annars staðar í byrjun, en við ítarlegar rann- sóknir kom í ljós að hún virðist sú sama og eitt amerískt afbrigði dvergtungljurtar. Ef við hins vegar skilgreinum tegund- arhugtakið mjög þröngt, eða lítum á afbrigði tegunda, þá eru til slík afbrigði plantna sem aðeins finnast á Íslandi. Skýringin er vænt- anlega sú, að flóra Íslands er ekki nægilega gömul til þess að hér hafi náð að þróast sjálf- stæðar tegundir. Hins vegar hafa náð að myndast hér afbrigði frábrugðin því sem annars staðar gerist, til dæmis meðal unda- fífla. Undafíflar fjölga sér við geldæxlun, en hafa misst hæfileika til blöndunar erfðavísa við kynæxlun. Þeir breyta sér tiltölulega fljótt miðað við aðrar tegundir og breyting- arnar sem fram koma eru einangraðar þar sem engin kynblöndun á sér stað. Þannig myndast afbrigði sem erfast áfram óbreytt til afkomenda og blandast ekki öðrum af- brigðum vegna geldæxlunar, og hegða sér því að flestu leyti sem sjálfstæðar tegundir. Ann- að dæmi er afbrigði burknans skollakambs, Blechnum spicant var. fallax, sem hér vex eingöngu við jarðhita. Ekki er vitað til þess að þetta afbrigði skollakambs sé til annars staðar en á Íslandi. Ef við horfum til slíkra afbrigða, má svara spurningunni á þann veg, að á Íslandi finnast afbrigði plantna sem ekki finnast annars staðar. Sumir hafa gengið svo langt að telja slík afbrigði sjálfstæðar teg- undir. Þeir sem það gera skilgreina tegund- arhugtakið þrengra en almennt gerist og ef gengið er út frá þeirri forsendu má svara spurningunni játandi. Forsenda þess að hægt sé að svara spurn- ingunni afdráttarlaust með jái eða neii er því að vita hvað felst í orðinu jurt, hvort þar er átt við tegund í venjulegri merkingu, eða af- brigði tegundar. Hörður Kristinsson, sérfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands. Hvað er þetta „babb“ sem á það til að koma í báta? SVAR: Orðtakið „það kom (er komið) babb í bát- inn“ er þekkt frá því á 18. öld. Í orðabók Björns Halldórssonar frá 1814 má finna und- ir flettiorðinu babb ’ógreinlegt tal, babbl’ og tvær merkingar orðasambandsins. Annars vegar er dæmi á latínu sem merkir ’óánægja gerði vart við sig gegn stýrimanni’ og hins vegar dæmi sem þýðir ’það brakaði í skips- hliðum af öldugangi’. Halldór Halldórsson getur sér þess til í Íslensku orðtakasafni (1991:53) að síðari merkingin sé skýring- artilgáta Björns, en fyrri skýringin sé nær upprunanum. Óvíst er hver upprunaleg merking orðtaksins var en hugsanlegt er að átt hafi verið við óánægjumuldur skipverja. Nútímamerkingin ’smávægileg hindrun hefur gert vart við sig’ er þekkt að minnsta kosti frá miðri 19. öld en heldur yngri eru af- brigðin það er kominn bobbi í bátinn, en bobbi merkir ’vandræði’. Babb í merkingunni ’ógreinlegt tal’ er þekkt að minnsta kosti frá 17. öld og sama er að segja um sögnina að babba ’tala ógreinilega’ en nafnorðið babbi í sömu merkingu er heldur yngra. Orðin hafa verið tengd nafnorðinu babbl ’ógreinilegt tal, þrugl’ og sögninni að babbla ’tala ógreinilega’. Orðstofninn er hljóðhermueðlis og leiddur af hjali ungbarna. Guðrún Kvaran, forstöðumaður Orðabókar Háskólans. Voru lítil börn á brjósti í gamla daga? SVAR: Í flestum löndum fyrr á tímum voru börn höfð á brjósti um lengri tíma. Sums staðar var þó algengt að nýfædd börn væru alls ekki lögð á brjóst eða þau væru vanin af brjósti mjög snemma. Þá var farið að gefa þeim ýmsa fljótandi og fasta fæðu strax eftir fæðingu og brjóstagjöf var þá hætt jafnvel innan nokkra vikna. Ísland var eitt þeirra svæða þar sem brjóstagjöf var afar sjaldgæf fyrr á tímum. Sennilega voru Þingeyjarsýslur og Reykjavík einu svæðin á Íslandi þar sem lítil börn voru almennt höfð á brjósti um miðbik 19. aldar. Í sveitum utan Þingeyjarsýslna var algengt að börnin væru aldrei lögð á brjóst og var þá gefin kúamjólk strax og þau fæddust. Þá bundu konur yfirleitt upp brjóstin svo engin mjólk rynni til þeirra. Í sjávarplássum var hins vegar lítið til af kúamjólk og þess vegna gáfu konur oft brjóst í stuttan tíma eftir fæð- inguna. Það var hins vegar sjaldgæft að börn- in væru lengi á brjósti og þeim var gefin ýmis konar fæða sem til féll í sjávarplássunum, hertur fiskur, fisklifur og þar fram eftir göt- unum. Vegna þess hve lítil þekking var á smitleiðum sjúkdóma og á mikilvægi hrein- lætis í meðferð ungbarnafæðu var mjög al- gengt að börn á þessum landssvæðum fengju hættulega magasjúkdóma og ungbarnadauði var þess vegna mjög hár á Íslandi á þessum tíma. Það er erfitt að átta sig á því af hverju kon- ur í fátækum þjóðfélögum þar sem matur var oft af skornum skammti kusu að hafa börnin sín ekki á brjósti. Sennilega hefur mikið vinnuálag skipt einhverju máli og svo sú stað- reynd að konur í íslenskum sveitum voru oft einar með heimilin þegar eiginmenn þeirra fóru í verið. Þá gat oft verið skynsamlegt að láta eldri systkini eða afa og ömmu hugsa um litla barnið meðan mamman sinnti bústörfum. Upp úr 1870 fór að verða algengara að lítil börn væru höfð á brjósti á Íslandi. Þá fjölgaði menntuðum ljósmæðrum hér á landi. Ljós- mæður sinntu sængurkonum í um hálfan mán- uð eftir fæðinguna og fræddu þær um barna- uppeldi, meðal annars um brjóstagjöf. Sennilega má að stórum hluta þakka ljós- mæðrum þann mikla árangur sem náðist í lækkun ungbarnadauða á Íslandi á seinni hluta 19. aldar. Ólöf Garðarsdóttir sagnfræðingur. ER TIL JURT Í ÍSLENSKRI FLÓRU SEM EKKI VEX VILLT ANNARS STAÐAR? Að venju hefur mörgum áhugaverðum spurn- ingum verið svarað á Vísindavefnum að und- anförnu, til að mynda: fengju apar mannréttindi ef hægt væri að kenna þeim að tala, hvað er fegurð og hvað er ljótleiki og ef Ísland vantar pen- inga af hverju prentum við þá ekki peninga? VÍSINDI

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.