Lesbók Morgunblaðsins - 12.07.2003, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 12.07.2003, Blaðsíða 3
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 12. JÚLÍ 2003 3 JÓN ÚR VÖR GEF OSS EI Gef oss ei gáfur og snilli, af gjöfum þeim var áður nóg, heimur vor og hjörtu eru í rústum. Gef oss trú hins einfalda manns, sem ennþá væntir sér góðs. Vitringar austurs og vesturs, þeir vita meir en nóg. Jón úr Vör (1917–2000) var einn af svokölluðum formbyltingarmönnum í ís- lenskri ljóðlist á síðustu öld. LESBOK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING LISTIR 2 6 . T Ö L U B L A Ð - 7 8 . Á R G A N G U R EFNI Oddur Björnsson er siðbótarmaður líkt og Kamban seg- ir Sveinn Einarsson í grein um leikskáldið sem hefur ekki sent frá sér leikrit síðan Þrettánda kross- ferðin var sýnd á fjölum Þjóðleikhúss- ins árið 1993 en var fram að því geysi- afkastamikið. Dieter Roth eru gerð góð skil á nýjum myndlistarvett- vangi, Schaulager, sem var nýlega opnaður í Basel en þetta er fyrsta sýningin í bygg- ingunni. Um yfirlitssýningu á Dieter Roth er að ræða. Fríða Björk Ingvarsdóttir skoðaði hana. Er fjölmenning ónýtt hugtak? spyr Sigurbjörg Þrastardóttir í seinni grein sinni um ráðstefnu er hún sat um fjölmenn- ingu og bókmenntir í Helsinki. Friedrich Nietzsche er enn til umfjöll- unar í grein Davíðs Kristinssonar og Hjörleifs Finns- sonar þar sem svar- að er ádeilu Róberts H. Haraldssonar á þá tvo fyrir að rang- túlka túlkun Ró- berts á túlkunum þýska heimspek- ingsins. FORSÍÐUMYNDIN er af verki eftir Dieter Roth frá árinu 1967, „Poetrie 2“, 301 lítið ský í minn- ingu stóra J og stóra G, 48 þungbúin ský fyrir Rudolf Reiser. Verkið er til sýnis um þessar mundir á yfirlitssýningu á verkum Dieters í Schaulager í Basel. Ljósmynd: Heini Schneebeli. U MRÆÐUR undanfarinna vikna um framtíð her- stöðvarinnar á Miðnes- heiði urðu til þess að ég tók Atómstöðina eftir Halldór Laxness ofan úr hillu og las enn einu sinni. Skáldsagan sú gerist vet- urinn sem aðild Íslands að Atlantshafs- bandalaginu var samþykkt eftir mikil átök og leynifundi, árið þegar furðulegur skrípa- leikur átti sér stað, deilurnar um bein Jón- asar Hallgrímssonar. Þá sögu hefur Jón Karl Helgason bókmenntafræðingur rakið rækilega í bók sinni Ferðalokum. Bein skáldsins voru grafin upp úr kirkjugarði í Kaupmannahöfn (ef það voru þá þau), flutt til Íslands, síðan norður í land, aftur suður og voru loks grafin á Þingvöllum. Landið logaði í átökum: selja land, kaupa bein, eins og segir í Atómstöðinni. Sennilega hefur aldrei verið skrifuð jafn mergjuð ádeilu- saga hér á landi enda heitt í kolunum og sat margur sár eftir. Það er svo ótalmargt sem fléttast inn í þessa sögu. Þar er að finna sjálfstæðisbar- áttu ungrar konu sem þarf að velja milli freistarans og framtíðar í takt við hjartslátt uppruna síns. Saga hennar blandast saman við hatrömm þjóðfélagsátök og hug- myndaágreining. Sagt er frá deilum um fé- lagslegar aðgerðir fyrir einstæðar mæður sem sagðar eru ógna fjölskyldunni. Nútíma skáldskapur var að halda innreið sína í órímuðum ljóðum og villtum skáldum. Mál- verk voru óræð, Skarphéðinn í brennunni eða Kleópatra, hver vissi það? Tilvistar- speki og mannúðarstefna organistans túlk- ar hugmyndir heimspekinga eftirstríðs- áranna og stefnu þeirra sem vildu tryggja frið og mannréttindi. Nafnleysa barnanna í ætt við amerískar kvikmyndir og reyfara kallast á við eftirhreytur „ástandsins“ og loks má nefna ógnir kjarnorkusprengj- unnar sem vofði yfir veröldinni. Átti að gera Ísland að atómstöð og skotmarki? Allt var þetta í fullkominni andstöðu við óhagg- andi ró íslensku sveitanna og allífisbrekk- unnar þar sem bændur undu sér við að byggja kirkju og dást að hrossastóði sínu á beit í haganum. Allt í einu voru sveitirnar sem Halldór hafði dregið upp svo íhalds- sama mynd af í Sjálfstæðu fólki orðnar að uppsprettu heilbrigðra hugsana og lífs- viðhorfa, rót íslenskrar menningar miðað við spillt hugarfar borgarastéttarinnar í höfuðborginni þar sem íhald og kommar tókust á. Unga kynslóðin sem nú fylgist með deil- um milli ríkisstjórna Bandaríkjanna og Ís- lands um það hvort herstöðin skuli fara eða vera eiga eflaust erfitt með að ímynda sér hversu eldheitt mál herstöðvarmálið var. Allt frá því að beiðni kom frá Bandaríkja- mönnum í lok heimsstyrjaldarinnar síðari um herstöðvar til 99 ára og þar til herstöðv- armálið hætti að vera úrslitaatriði við stjórnarmyndanir vinstri flokkanna upp úr 1980 skiptu deilur um herstöðina og aðild Íslands að NATO þjóðinni í tvær fylkingar. Göngur voru gengnar gegn her í landi og undirskriftum safnað til að halda her í landi. Upp úr 1980 tók umræðan um stríð og frið nýja stefnu með deilum um stað- setningu kjarnorkuvopna og afvopnun. Eftir að Berlínarmúrinn féll og Sovétríkin liðu undir lok hafa áherslur breyst mikið. Evrópa er ekki lengur miðdepillinn. Bandaríkjamenn eru að færa herstöðvar sínar austur á bóginn nær olíulindum og átakasvæðum. Nú hefur dæmið snúist við. Bandaríkjastjórn vill sleppa, íslenska rík- isstjórnin halda. Það er þó ekki herstöðvarmálið sem ég ætla að fjalla um hér heldur velta vöngum yfir fyrirmyndum Halldórs Laxness í Atómstöðinni og víðar. Ég fór sem sagt að hugsa um það við lestur bókarinnar hvort og í hve ríkum mæli Halldór Laxness sæki persónur sínar til samtímans eða hvort fyr- irmyndirnar tilheyri kannski fortíðinni. Það hefur verið bent á hve organistanum svipar til Erlendar í Unuhúsi og maðurinn með sorglega andlitið sem gaf út blaðið var án efa Jónas frá Hriflu. Þá sveimar Ólafur Thors þáverandi forsætisráðherra yfir vötnum í ýmsum myndum. En hver eða hverjir voru fyrirmyndirnar að mennta- manninum, hagfræðingnum, ólíkindatólinu, freistaranum og valdamanninum Búa Ár- land? Á Ugla sér ákveðnar fyrirmyndir? Hörð viðbrögð við bókinni byggðust ekki eingöngu á þeirri miklu þjóðfélagsgagnrýni sem í henni fólst, heldur einnig því að margur sá sig og sína í persónum bókar- innar, einkum valdamönnum sem fengu kaldar kveðjur með lýsingum á leynifund- um, baktjaldamakki og sviknum eiðum. Það skiptir auðvitað ekki máli fyrir verkið hver var fyrirmyndin að hverjum, miklu frekar býr að baki forvitni um vinnubrögð skáldsins og svo auðvitað hnýsni sagnfræð- ingsins um samtíma bókarinnar eða jafnvel um sýn Halldórs og þekkingu hans á gengnum kynslóðum. Margir þeirra sem fjallað hafa um verk Halldórs Laxness og hann sjálfur hafa bent á hvernig hann leitaði fanga hjá fólki sem hann þekkti eða heyrði af. Í bók Ólafs Ragnarssonar Halldór Laxness – Líf í skáldskap (2002) kemur margt forvitnilegt fram um aðföng Halldórs í bókum hans. Ég hafði t.d. aldrei heyrt eða lesið áður að fyr- irmyndin að Úu í Kristnihaldi undir Jökli hefði verið Sigríður Jónsdóttir móðir skáldsins Nonna. Konan sú átti merka og um margt erfiða ævi og liggur eftir hana fjöldi bréfa sem og dagbækur fyrri manns hennar Sveins Þórarinssonar þar sem hún kemur mikið við sögu. Kristnihald undir Jökli gerist á Íslandi nokkru eftir miðja 20. öld en samkvæmt ofansögðu var fyrir- myndin að eiginkonu prestsins Jóns prím- usar sótt til konu sem var uppi á 19. öldinni. Halldór þekkti Nonna vel og hefur eflaust heyrt hann segja frá móður sinni en ekki er ólíklegt að hann hafi kynnt sér ævi Sigríðar síðar meir. Hann hefur greinilega langað að koma persónuleika þessarar konu til skila í bókum sínum. Sigríður var fædd árið 1826 en dó í Kan- ada árið 1910. Þegar hún giftist Sveini föð- ur Nonna var hún barnshafandi eftir annan mann sem varpaði dimmum skugga á hjónabandið. Hún missti fjölda barna, varð ekkja og flutti loks til Kanada þar sem hún giftist að nýju. Hver er líkingin milli þess- arar konu og Úu, konunnar sem yfirgaf mann sinn, hélt út í heim og sneri svo til baka eins og ekkert hefði í skorist? Hvað vissi Halldór Laxness um Sigríði? Kom sú þekking frá Nonna, byggði hann á frásögn- um Íslendinga í Kanada eða kynnti hann sér sjálfur heimildir um Sigríði? Það væri fróðlegt að vita og vekur auðvitað spurn- ingar um fleiri persónur í sögum hans. Og víkur þá sögunni aftur að Búa Árland. Búi Árland er þingmaður Norðlendinga en á líka sæti í bæjarstjórninni. Hann er menntamaður, giftur inn í íslenska valda- stétt og tekur þátt í rekstri fyrirtækja fjöl- skyldunnar sem tengjast alls kyns braski í kringum herinn. Búi býr ekki í hamingju- sömu hjónabandi enda tilbúinn til kynna við aðrar konur. Hann er enn einn af þess- um karlmönnum í sögum Laxness sem hafa fórnað ástinni fyrir veraldlega velgengni (eða bækur, sbr. Arnas Arneus í Íslands- klukkunni). Hann er maður af þeirri gerð sem fær hnén á Uglu til að skjálfa. Hann segir fátt, slær úr og í en gengur svo langt að greiða atkvæði með vöggustofu, senni- lega til að þóknast Uglu, en er áreiðanlega ekki að kosta neinu til. Á meðan sjarminn drýpur af honum er hann á kafi í leyni- makkinu og landsölunni. Við sjáum það síð- ast til hans að hann tekur þátt í skrípa- leiknum kringum bein skáldsins. Heimili Búa bindur saman fyrri hluta sögunnar, þar býr borgarastéttin við allsnægtir en óhamingju, meðan umburðarlyndið, sköp- unina og skjólið er að finna á heimili org- anistans innan um skáld, löggur, gam- almenni og vændiskonu. Kannski er það út í hött að leita fyrirmynda að valdamann- inum Búa Árland en í ljósi þess sem hér hefur verið sagt um aðföng Halldórs Lax- ness er það vissulega freistandi. Hitt er víst að Atómstöðin er mögnuð bók, afar sterk lýsing á ákveðnum tíma, sprottin beint úr samtíma sínum. Það er því ástæða til að benda þeim sem nú fylgjast með um- ræðunni um framtíð hersins á Miðnesheiði á að kynna sér upphafið eins og það blasti við skáldinu og halda svo áfram því nóg er af bókunum um þetta gamla deilumál. FYRIRMYNDIR Í FORTÍÐ OG NÚTÍÐ RABB K R I S T Í N Á S T G E I R S D Ó T T I R krast@simnet.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.