Lesbók Morgunblaðsins - 12.07.2003, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 12.07.2003, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 12. JÚLÍ 2003 N ÝVERIÐ birti Róbert H. Haraldsson, dósent við Háskóla Íslands, tvær greinar í Lesbók Morg- unblaðsins (L). Undir yf- irskriftinni „Allt annar Róbert!“ (26.4.) og „Að gelda mann og annan“ (3.5.) leitast hann við að sýna fram á hvernig undirritaðir hafi skrumskælt og afbakað skrif hans um þýska heimspekinginn Friedrich Nietzsche „aftur og aftur“ og leyfir sér því „að rekja afbakanir þeirra í allnokkrum smáatrið- um.“ (L) Greinar undirritaðra, sem Róbert gerir að umtalsefni, eru „Hvers er Nietzsche megnugur? Um íslenska siðfræði og franska sifjafræði“, sem birtist ásamt þýðingu á Rísóm (1976) eftir frönsku hugsuðina Gilles Deleuze og Félix Guattari í Atviksbókinni Heimspeki verðandinnar (2002), og greinin „Nietzsche á hafi verðandinnar“ sem birtist í heimspeki- tímaritinu Hugur (2002). Þar sem undirrituðum býðst ein Lesbókar- grein til að svara tveimur greinum dósentsins verður Róberti að mestu svarað í Hug. Eitt er það þó sem óhjákvæmilegt er að drepa hér á. Róbert nýtir sér vettvang Lesbókarinnar til að kitla hláturtaugar lesenda með „sýningu“ á textabrotum meints óskiljanlegs rugludalls að nafni Deleuze. Þessi „sýning“ er ekki einstæð. Haustið 1997 hélt Kristján Kristjánsson, pró- fessor við Háskólann á Akureyri, á síðum Les- bókarinnar eftirminnilega „sýningu“ á heim- speki nokkurra annarra svonefndra franskra póststrúktúralista undir yfirskriftinni „Tíðar- andi í aldarlok“. Póststrúktúralisminn var framúrstefna andspænis þeirri heimspekihefð sem var ríkjandi í Frakklandi á eftirstríðsárun- um. Framúrstefna, sem er tilraun til að um- breyta þeim leikreglum sem eru ríkjandi á við- komandi sviði, á sér stað í heimspeki og vísindum jafnt sem í listum. Áður en skoðuð verða nokkur dæmi um það hvernig heimspeki- leg framúrstefna hefur með ólíkum hætti verið gerð að aðhlátursefni á almenningsvettvangi skal tekið til hliðsjónar dæmi af „sýningu“ á framúrstefnulist. Myndsýning á rímlausum ferskeytlum Í kjölfar harðvítugra deilna við unga lista- menn stóð Jónas Jónsson frá Hriflu á vordög- um ársins 1942 fyrir myndlistarsýningu í háð- ungarskyni. Hinn 28. mars lét hann setja upp í Alþingishúsinu sýningu á „úrkynjunarlist“. Jónas, þá formaður menntamálaráðs, fylgdi þessari uppákomu eftir með greinaröð í Tím- anum: „Margir þingmenn sögðu mér, að þeir álitu menntamálaráð brotlegt við óskráð lög smekkvísinnar fyrir að hafa keypt slíkar mynd- ir fyrir landsfé“, skrifar Jónas og fellir eftirfar- andi dóm: „Myndsýningin í þinghúsinu er sam- safn af rímlausum ferskeytlum.“ Framsæknu listamennirnir geri „leiðinlegar myndir“, „klessumálverk“ sem munu „ekki fullnægja smekk þjóðarinnar“ enda séu þau „þunglama- leg, og oft ömurleg. Tiltölulega fáir menn hafa ánægju af þessháttar list.“ Um „Þorgeirsbola“ Jóns Stefánssonar ritar Jónas: „Myndin er að efni til svo gróf, andstyggileg og ósönn í öllu eðli sínu, að hún mun ætíð þykja óhafandi bæði á almannafæri og í húsum einstakra manna.“ Myndir Jóns Engilberts og Þorvaldar Skúla- sonar eru að mati Jónasar „bein eftirstæling af því andlausasta og vesalasta, sem til er í franskri úrkynjunarlist frá síðari árum. Þar er hrúgað saman sterkum litarklessum, með svip- aðri tækni og krakkar gera, er þau hafa til um- ráða litsterka blýanta.“ Við „Kvöld í sjávar- þorpi“ eftir Jón Engilberts þykir Jónasi eftirfarandi verst: „Þegar stúlka heldur á op- inni bók, eru blaðsíðurnar öðru megin þriðj- ungi breiðari heldur en hinn hluti bókarinnar.“ Og á málverkinu „Við glugga“ eftir Þorvald Skúlason eru samkvæmt Jónasi „gluggatjöldin ósamstæðar tjáslur, og gluggapóstarnir jafn- skakkir eins og hugsun myndgerðarmannsins.“ Jónas heldur áfram: „Engu að síður er nauð- synlegt að eiga sýnishorn af tilraunum þessara hagyrðinga. Nokkuð af óláni þeirra er að kenna straumum samtíðarinnar, sem þeir hafa ekki staðizt. Sýningin í Alþingishúsinu var að því leyti sögulegur viðburður, að hún er fyrsta til- raun, sem gerð er hér á landi til að sýna hnign- un samtíðarlistarinnar [...]. Því betur sem menn kynna sér þessa hrörnun því þakklátari verða menn hinum snjöllu afburðamönnum ís- lenzkrar myndlistar.“ Jónas ályktar að lokum: „Niðurstaða sýningarinnar mun vera sú, að þingmönnum sé nú ljóst, að hér er sannarlega um að ræða innrás frá hlið kommúnista.“ Fjórum vikum síðar lét Jónas flytja sýn- inguna í útstillingarglugga skó- og klæðaversl- unar Gefjunar í byggingu Hótel Íslands í Að- alstræti. Almenningur safnaðist saman fyrir framan gluggann. Meirihlutinn tók undir með Jónasi og hló dátt. Loks hló ekki aðeins höf- uðborgin heldur landið allt þegar myndir af verkunum birtust á forsíðu Tímans undir leið- sögn Jónasar. Eftir að sýningin hafði staðið í glugga Gefjunar í viku lét Jónas sýningu á heil- brigðri fyrirmyndarlist taka sæti úrkynjunar- listarinnar. Dada-trúðurinn Derrida Hálfri öld síðar, eða hinn 9. maí 1992, birtist í laugardagsblaði Times í Lundúnum opið bréf undirritað af um tuttugu heimspekingum frá tíu þjóðlöndum. Þeir mótmæltu væntanlegri viðurkenningu póststrúktúralíska hugsuðarins Jacques Derrida við Cambridge háskóla. Hann væri ekki réttnefndur heimspekingur og því bæri fræðimönnum við háskólann að greiða at- kvæði gegn slíkri viðurkenningu. Þekktasta nafnið á listanum var bandaríski heimspeking- urinn Willard van Orman Quine. Bréfritarar segja Derrida líta á sig sem heimspeking og að skrif hans beri vissulega einhver einkenni þess sem skrifað sé á því sviði. Áhrifa hans hafi hins vegar fyrst og fremst gætt utan heimspeki, til dæmis í kvikmynda- og bókmenntafræði. Heimspekingar við fremstu heimspekiskorir um víða veröld álíti skrif Derridas ekki stand- ast viðurkennda mælikvarða um skýrleika og rökfestu. Derrida hafi náð frama með því að yf- irfæra klæki og brellur dadaista og konkret ljóðlistar á svið akademískrar orðræðu. Það sé ef til vill frumlegt en réttlæti ekki heiðursdokt- orsgráðu. Margir franskir heimspekingar skammist sín fyrir Derrida enda ýti skrípalæti hans undir það viðtekna álit að frönsk sam- tímaheimspeki sé einber fíflalæti. Yfirgrips- mikil skrif hans teygi akademíska fræði- mennsku svo langt út fyrir hefðbundin mörk hennar að þau verði óþekkjanleg. Stíllinn sé óskiljanlegur og hver sem er geti gengið úr skugga um þetta með því að lesa af handahófi síðu úr verkum Derridas. Margir haldi því fram að skrif sem séu svo erfið aflestrar hljóti að geyma djúpa hugsun. Þegar reynt sé að komast til botns í þeim verði hins vegar ljóst að þær fáu heilsteyptu fullyrðingar sem þar er að finna séu annaðhvort ósannar eða léttvægar. Derrida uppfylli því ekki skilyrði þess að vera heiðraður við virðulegan háskóla. Derrida brást við Times-bréfinu með því að benda á blaðamennskustíl þess sem einkennd- ist af heimspekilegri þjóðernishyggju sem bryti í bága við þau algildu lögmál skynsemi, sannleika og fræðimennsku sem bréfritarar þóttust standa fyrir. Meðlimir „Rannsóknar- réttarins“ rugli heimspeki saman við það sem þeim hefur verið kennt að endurframleiða sam- kvæmt hefð og stíl ákveðinnar stofnunar. Ástæða andmælanna sé ekki sú að verk hans séu framandi og virki óskiljanleg heldur sú staðreynd að heimspekileg afbygging hans dragi hefðbundnar markalínur í efa, til dæmis milli hlutleysis heimspekilegrar orðræðu og ástríðna, endurskoði viðmið og forsendur þeirrar orðræðu sem er ríkjandi svo og form- gerð akademískra stofnana, og leiti þannig við- fangsefna sem starfsbræður vildu heldur halda utan umræðunnar. Að hafa gaman af hirðfíflum Haustið 1997 birti Kristján Kristjánsson tíð- aranda-greinaflokk í Lesbókinni sem var end- urprentaður haustið 2002 í greinasafninu Mannkostir (M) ásamt svargreinum við and- mælendum. Í greinaflokknum glímdi hann við vofu póstmódernismans í kjölfar þeirrar upp- götvunar að „áhrif hans á hugarheim fólks séu fjarvirkari og lævíslegri en marxismans.“ (M 171) Kristján sagði greinaflokkinn saminn í þeirri sannfæringu að heimspekingum sé „skylt að leiða fólk af andlegum villigötum.“ (M 229) Þorsteinn Gylfason heimspekingur nefndi í svargrein sinni „Er heimurinn enn að farast?“ (TMM 1998:3) skrif Kristjáns „tíu heilar grein- ar af skömmum, upphrópunarmerkjum, upp- nefnum, háðsglósum og stóryrðum“. Kristján sagði skrif sín hins vegar knúin áfram af „óslökkvandi löngun til að uppfræða almenning um það sem er að gerast í fræðaheiminum“ (M 242). Meðal þeirra sem urðu fyrir barðinu á upp- fræðslu Kristjáns voru franskir póststrúktúra- listar. Einnar og hálfrar blaðsíðu umfjöllun um Michel Foucault fjallar frá upphafi til enda um „úrkynjaða“ kynhneigð heimspekingsins. Í fyrstu setningu fá lesendur þær upplýsingar að hann hafi látist úr eyðni, síðar er valdskenning hans sett í samhengi við „kynhvatir Foucaults sjálfs“ og að lokum upplýsir Kristján lesendur um kenningu Foucaults varðandi „samband líkama í rúmi (það er ,rúmi’ eðlisfræðinnar, ekki svefnherbergisins þó að Foucault hafi að vísu haft talsverðan áhuga á því síðara einnig)“ (M 182). Samhliða upplýsingum um úrkynjun Foucaults gerir Kristján lítið úr kenningum heimspekingsins með fullyrðingum á borð við þá að „valdskenning Foucaults sé ekki eins frumleg og margir halda“ (M 182). Í Morg- unblaðs-greininni „Tuggan í túngarðinum“ (7.12. 1997) spurði Gunnar Harðarson heim- spekingur því Kristján: „Getur það hugsast að lesandanum sé ætlað að sjá beint samhengi milli meintra lifnaðarhátta eða jafnvel óeðlis Foucaults og heimspekilegrar hugsunar hans?“ Einnar blaðsíðu úttekt Kristjáns á Derrida lýkur á þeirri fullyrðingu að afbygging hugs- uðarins hafi í seinni tíð „orðið lítið annað en efa- gjarn trúðleikur, tilgangslaust fálm.“ (M 183) Síðar segir Kristján um viðtal við Derrida sem birtist í Tímariti Máls og menningar (1994:2) í kjölfar þess að hann sótti Ísland heim haustið 1993: „Allt sem hann segir þar um heimspeki sína [...] er óskiljanlegt blaður.“ (M 216) Í „Áréttingum um póstmódernisma“ sem birtist í Lesbókinni í ársbyrjun 1998 skrifar Kristján: „Derrida var alvöru heimspekingur, en ég er ekki heldur einn um að telja þann tíma löngu liðinn. Minnist ég þar til dæmis orða Alasdairs MacIntyre [...] um að rangt sé að setja á langar fræðilegar tölur um verk Derridas; maður eigi að hafa gaman af hirðfíflum en ekki að rökræða við þau. Óskýrleiki og ólíkindalæti Lyotards og Baudrillards útiloka þá að mestu frá agaðri umræðu“ (M 230-1). Á öðrum stað talar Krist- ján um „loðmullu Lyotards og Baudrillards“ (M 254). Jean-François Lyotard var kynntur til sögunnar sem heimspekingur sem „hefur, eins og margir af hans sauðahúsi, sérstakt lag á að glypja niður langa orðalopa af efnisleysu.“ (M 184) Kenningu Jean Baudrillards um að Persa- flóastríðið hafi aldrei átt sér stað ber Kristján saman við afneitun nýnasista á helförinni og virðist ekki átta sig á því að fullyrðinguna ber að sið meginlandsheimspeki ekki að skilja bók- staflega frekar en þá fullyrðingu Nietzsches að Guð sé dauður. Í kjölfar þeirrar uppgötvunar að þessir heimspekingar hafni kenningunni um sameiginlegt manneðli sem Kristján aðhyllist, leyfir hann sér „að efast um að þeir séu upp til hópa góðir menn.“ (M 239) Rugludallurinn Deleuze Í svari til fyrsta gagnrýnanda tíðaranda- greinaflokksins bendir Kristján (Dagur 2.10.1997) Guðmundi Andra Thorssyni á að lesa „prýðilega ritgerð [„Eftirmyndir Nietzsches“] Róberts H. Haraldssonar, frænda míns, í nýjasta hefti Tímarits Máls og menning- ar“ (M 223). Lengi var erfitt að átta sig á því hvaða erindi ábendingin um frændsemi heim- spekinganna ætti í fræðilega umræðu en nýleg- ar greinar Róberts í Lesbókinni benda til heim- spekilegrar frændsemi þeirra tveggja. Þegar Kristján uppfræddi lesendur greina- flokks síns um úrkynjun Foucaults, óskiljan- lega blaðrið í Derrida og loðmullu Lyotards og Baudrillards gleymdist póststrúktúralistinn Deleuze. Nýverið bætti Róbert úr þessari yf- irsjón frænda síns með umfjöllun sinni um De- leuze í Lesbókinni. Róbert spyr „hvernig Nietzsche líti út í meðförum þeirra félaga Dav- íðs og Hjörleifs, og Deleuze“ og kemst að þeirri niðurstöðu að með nánast orðréttri útleggingu sinni á Nietzsche-túlkun Deleuze geri undirrit- aðir „Nietzsche að óskiljanlegum rugludalli“ (L). (Andstæða notkun sama orðalags er að finna hjá háskólarektor Páli Skúlasyni (TMM 1994:2) sem gagnrýnir þá lesendur Derridas er „gefast sumir upp af einskærri hugsunarleti eða bregðast jafnvel við af hreinræktaðri ill- kvittni og fullyrða að Derrida sé ,óskiljanlegur rugludallur’.“) Það þarf varla að koma lesendum á óvart að undirritaðir séu taldir rugludallar eftir að Ró- bert hefur í Lesbókar-greinum sínum ítrekað lýst ímyndunarveiki þeirra með hugtökum á borð við „heilaspuna“ og gert að umtalsefni „hugarburð og ímyndun þessara tveggja ungu manna“ sem „reyna að tengja ímyndanir og hugarburð sinn við nafn mitt“, „hugarburð þeirra félaga, baráttu við ímyndaðan Róbert Haraldsson.“ (L) Kristján Kristjánsson hefur í tvígang brugðist við gagnrýni með sambæri- legum hætti. Andmælum Guðna Elíssonar bók- menntafræðings í greininni „Dordingull hékk ég í læblöndnu lofti“ (TMM 1998:1) við tíðar- anda-greinaflokknum svarar Kristján með því að reyna að sýna fram á „hvernig Guðni skrum- skælir og afflytur flestar skoðanir mínar; sig- urgleidd hans sé yfir ímynduðum andstæðingi en ekki raunverulegum“ (M 280); Guðni deili á sig „fyrir skoðanir sem hafa aldrei verið til nema í ímyndaða pottinum hans“ (M 288). Við andmælum Þorsteins Gylfasonar – eina ís- lenska heimspekingsins sem tók upp hanskann fyrir kenningar póststrúktúralískra heimspek- inga – bregst Kristján með því að fullyrða að „höfundur greinarinnar [...] hafi alls ekki verið Þorsteinn Gylfason heldur tvígengill hans“ (M 243). Róbert reyndi meðal annars sýna lesendum AFVEGALEIDD VERK TIL SÝNIS E F T I R D AV Í Ð K R I S T I N S S O N O G H J Ö R L E I F F I N N S S O N Deilt hefur verið um túlkanir á þýska heimspek- ingnum Friedrich Nietzsche hér í Lesbókinni fyrr á þessu ári. Í þessari grein er tveimur greinum Róberts H. Haraldssonar um það efni svarað. Friedrich Nietzsche enn til vandræða.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.