Lesbók Morgunblaðsins - 12.07.2003, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 12.07.2003, Blaðsíða 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 12. JÚLÍ 2003 ENN dignar sjóður íslenskra kórverka þegar sönghópurinn Hljómeyki, Ólafur Rúnarsson tenór, Hildigunnur Rúnarsdóttir sópran og slagverksleikarinn Frank Aarnink frumflytja sjö verk eftir Óliver Kentish á Sumartón- leikum í Skálholti í dag, en þar er Óliver stað- artónskáld. Stjórnandi Hljómeykis er Bern- harður Wilkinson. Dagskráin hefst kl. 14.00 með erindi í Skál- holtsskóla þar sem Óliver kynnir tónverkin sem frumflutt verða. Tónleikarnir hefjast svo í kirkjunni kl. 15.00. „Þetta er allt trúarlegs eðlis,“ segir Óliver um verk sín, en undanskilur þó eitt þeirra, Einn, sem hann samdi við samnefnt ljóð Jóns Helgasonar. „Þetta eru átta verk, allt frum- flutningur, að undanskildu Jubilate deo, sem Hljómeyki frumflutti í vor. Öll eru verkin án undirleiks, nema tvö, þar sem slagverkið er.“ Óliver sækir ljóð sín í ýmsar áttir. Flestir textanna eru latneskir, tveir íslenskir og einn á hebresku. Verkin heita Beatus vir, Pater peccavi, Veni sancti spiritus, Þrír Davíðs- sálmar, nr. 23, 133 og 117 og Jubilate deo auk fyrrnefnds ljóðs Jóns Helgasonar. „Mest eru þetta latneskar bænir, textar sem ég hef rekist á hér og þar. Sálm 133 læt ég syngja á hebresku einfaldlega vegna þess að mig langaði til þess. Sálmar 23 og 117 verða sungnir á íslensku, og sá á hebreskunni á milli þeirra – þetta er lítil syrpa hjá mér. 23. sálmurinn er hugleiðing fyrir einsöngv- ara við textann Drottinn er minn hirðir. Ég kaus að hafa bara karlaraddir og slagverk í þeim 133. Það minnir mann á kantora í bæna- húsum gyðinga og textinn fjallar um það að bræður eigi að lifa í sátt og samlyndi. Þriðji sálmurinn er svo sunginn af öllum kórnum.“ Óliver samdi Veni sancti spiritus sér- staklega fyrir þessa tónleika, en segist hafa sótt hin verkin í skúffuna. Þau eru þó öll ný- leg og ekkert eldra en frá árinu 2000. „Ég held að það sé mikil breidd í þessu og verkin hvert öðru ólíkt, og það gerir það spennandi að vinna að tónleikunum. Hljómeyki er núna í stærri kantinum, um tuttugu manns, og nokkur ný andlit þar. Þetta er eiginlega allt annar kór en áður. Kórinn var mjög góður, en þessi endurnýjun er góð og eðlileg.“ Verkin ekki lengur eign manns Óliver hefur dvalið alla vikuna í Skálholti og fylgst með æfingum, og segir það ákveðin tímamót að heyra verkin öðlast líf í með- förum tónlistarmannanna. „Hingað til hafa verkin bara verið til í höfðinu á mér. En nú eru aðrir farnir að tala um þau og hugsa um þau, og það finnst mér alltaf svolítið skrýtið. Þetta er eins og að börnin mín séu farin að heiman – svolítið súrsætt. Verkin verða ekki leng- ur eign manns, og verða að gjöra svo vel að standa á eigin fótum. En það er alltaf gaman að fylgjast með þessu. Það er líka gaman fyrir mig að heyra aðra tala um verkin, maður uppgötvar kannski eitthvað nýtt sjálfur við það að upplifa annað sjónarhorn. Hljómeyki tekur þetta mjög alvarlega og það er gífur- lega gaman.“ Slagverkið verður með í Davíðssálmunum, en einnig í Jubilate deo, þar sem Óliver notar röraklukkur. „Ég nota slagverkið til að styðja við sönginn og gefa lit.“ Þetta er í þriðja skipti sem Óliver Kentish er staðartónskáld í Skálholti. Í sumar á hann óvenjumörg verk þar, því um daginn frum- flutti Contrasti-hópurinn enn nýtt verk eftir hann, og um verslunarmannahelgina frum- flytur Rúnar Óskarsson nýtt verk Ólivers fyr- ir bassaklarin- ettu í Skálholti. „Jú, þetta er ansi mikið í ár, og það er frá- bært að eiga kost á þessu. Hér er mikið af nýrri tónlist frumflutt, en ég er mjög hissa á því að Ríkisútvarpið skuli ekki vera á staðnum. Það verður ekkert hljóðritað af tónleikum í Skálholti í ár. Auð- vitað má maður ekki ganga að því vísu að Út- varpið komi, en þegar það er jafn mikið af verkum frumflutt og nú í sumar, þá finnst mér þetta vanhugsað, og ég er ekki sáttur við þetta. Ef ekkert er tekið upp og spilað, þá er þetta bara búið eftir tónleika, og erfitt að koma verkunum á framfæri. En um þetta þýðir ekki að fást.“ Sembalverk barokkmeistaranna Á seinni tónleikum dagsins kl. 17.00 leikur Helga Ingólfsdóttir verk eftir þrjú barokk- tónskáld. „Ég byrja á sembalsvítu eftir Louis Coup- erin,“ segir Helga. „Hann var uppi á miklum blómatíma sembaltónlistarinnar í Frakklandi og náði mjög góðum tökum á sembalnum. Hann er þekktur fyrir frjálsar prelúdíur, sem voru skrifaðar án ákveðinnar nótnalengdar og taktsktrika. Þetta eru snilldarverk og frjáls. Ég hef alla tíð haft miklar mætur á Couperin, eins og flestir semballeikarar. Ég leik líka verk eftir Georg Böhm sem var dá- lítið eldri en Jóhann Sebastian Bach. Þeir tengdust töluvert. Böhm var með stöðu í Lüneburg, og þegar Bach kom þangað ungur kórdrengur, tók Böhm hann upp á sína arma og aðstoðaði hann mikið. Bach hefur því áreiðanlega spilað fyrir Böhm og Böhm kennt honum ýmislegt. Böhm er mér nýr höf- undur, ég hef ekki fengist við verk hans fyrr en á þessu ári, en ég hef hrifist mjög af hon- um. Þetta er allt annar stíll en hjá Bach. Böhm dregur meira dám af söngröddum og pólýfónískri tónlist.“ Að lokum leikur Helga svo uppáhaldsverk eftir Bach, Krómatíska fantasíu og fúgu. Helga Ingólfsdóttir átti frumkvæði að Sumartónleikum í Skálholtskirkju árið 1975 og hefur verið listrænn stjórnandi hátíðar- innar æ síðan. Hún segir að tónleikahaldið í sumar hafi gengið afskaplega vel. „Aðsóknin hefur verið alveg frábær. Skálholtsstaður dregur að sér fólk, og hingað hafa komið hópar frá Reykjavík, ferðamenn og fleiri ár eftir ár, helgi eftir helgi. Innan um er fólk sem kemur reglulega, en líka heilmikið af nýju fólki – til dæmis sumarbústaðafólki. Það er orðið meira um það að sumarbústaðafólk sæki tónleika.“ Helga segir Hljómeyki vera einn af föstu punktunum á Sumartónleikum í Skálholti, en sönghópurinn hefur sungið þar allt frá sumr- inu 1986, enda segir hún Skálholtskirkju besta sönghús landsins. „Þau hafa frumflutt verk hér á hverju sumri, í það minnsta eitt og oftast fleiri. Nú eru þau til dæmis með heila dagskrá með nýjum verkum Ólivers Kentish. Það er komið svo margt ungt fólk í Hljóm- eyki núna og geysigóður hljómur í kórnum.“ Á morgun kl. 15.00 leikur Helga aftur sama prógramm og í dag, en tónlistarstund hefst kl. 16.40 þar sem Hljómeyki flytur verk eftir Óliver Kentish frá tónleikum dagsins í dag. Messa með þátttöku tónlistarmannanna hefst svo kl. 17.00. Aðgangur er ókeypis á alla tónleika í Skálholti. VERKIN VERÐA AÐ STANDA Á EIGIN FÓTUM Morgunblaðið/Sigurgeir Sönghópurinn Hljómeyki kemur fram á tónleikum í Skálholtskirkju um helgina. Óliver Kentish Helga Ingólfsdóttir begga@mbl.is ÆSKAN ehf. hefur á undanförnum árum gefið út verkefnabókina Geitunginn. Nú þegar hafa komið út fjögur hefti og í sumar kom út sér- stakur Ferðageitungur sem ætlaður er börn- um er leggja land undir fót með fjölskyldum sínum. „Ég hef lengi haft áhuga á lestrar- kennsluefni, en markmiðið með Geitungnum var fyrst og fremst að búa til kennsluefni sem jafnframt væri skemmtilegt. Mér finnst mik- ilvægt að krakkarnir hafi gaman af bókunum og upplifi lesturinn fyrst og fremst sem skemmtun, en ekki sem þraut eða pínu,“ segir Árni Árnason, rithöfundur og grunnskóla- kennari, sem ásamt Halldóri Baldurssyni teiknara er höfundur Geitungsins. Þeir Árni og Halldór hafa unnið saman við gerð barnabóka í rúm fjórtán ár. „Við höfum unnið hátt í tug barnabóka saman, þeirra á meðal Ævintýri á nýársnótt, Pétur og Krumma og Ljótasta fisk- inn í heimi. Árni þekkir mig vel og er meðvit- aður um hvernig texti og myndefni getur unnið vel saman,“ segir Halldór og bætir við að þetta sé með því skemmtilegra sem hann geri. „Ég legg metnað minn í að gera vel fyrir börnin, en þau gera nokkuð aðrar kröfur en fullorðnir. Vissulega er alltaf gaman þegar maður nær að hitta í mark hjá börnunum en þau virðast hafa mjög gaman af þessum bókum,“ segir Halldór. Að sögn þeirra Árna og Halldórs ætti Geit- ungurinn að höfða til barna á aldrinum fjög- urra til átta ára, en verkefnaheftin þyngjast smám saman. „Í fyrsta Geitungnum er byrjað á byrjuninni, annað heftið er litabók sem hugs- uð er til stuðnings við fyrstu bókina og í þriðja og fjórða hefti má finna framhald af því sem lagt var upp með í fyrsta heftinu. Í Ferðageit- ungnum ríkir hins vegar miklu meiri breidd, auk þess sem í honum er mun meira lesmál. Þar má t.a.m. finna þjóðsögur og ýmsan fróð- leik um landshlutana og skemmtilegar þrautir sem eru svolítið flóknari en í fyrri bókunum,“ segir Árni. Viðtökur við Geitungnum hafa ver- ið góðar og hefur hann verið ofarlega á met- sölulistum Pennanns-Eymundssonar frá því í byrjun árs. „Það kemur í rauninni ekki á óvart því ég þóttist vita að þörfin væri fyrir hendi og að það vantaði bara efni,“ segir Árni. Geitungurinn byrjaði upphaflega sem þró- unarverkefni sem styrkt var af Þróunarsjóði leikskóla og unnið var á leikskólanum Tjarn- arborg. „Ég er þeirrar skoðunar að krakkar eigi að fá að læra að lesa um leið og þeir eru til- búnir. Fjöldi barna er reiðubúinn strax í leik- skóla og þá eiga þau í raun rétt á að fá að læra að lesa. Þau börn sem læra snemma að lesa búa að því alla ævina og eru þá miklu fyrr tilbúin í ýmislegt annað í grunnskólanum,“ segir Árni. Nú þegar eru nokkrir skólar farnir að nota Geitunginn til kennslu, en fyrst og fremst eru það foreldrar sem kaupa heftin handa börnum sínum. „Mín reynsla er að flest börn eru ákaflega fljót að læra að lesa, þetta er bara náttúrulegt ferli sem þarf að örva. Geit- ungurinn er til þess fallinn að gefa öllum möguleika á að kljást við lesturinn og foreldrar þurfa ekki flóknar leiðbeiningar til þess að að- stoða börnin sín. Þetta virðist koma meira eða minna að sjálfu sér þegar barnið sest niður með foreldrunum,“ segir Árni. Spurður um nafnið segir Árni að hann hafi viljað finna titil sem vekti upp sterkar tilfinningar. „Mér var mikið í mun að bækurnar hefðu ekki „lestr- arkennslubókarlegan“ titil. Geitungurinn var einmitt að hasla sér völl á svipuðum tíma og fyrsta heftið var í þróun. Hann vekur tilfinn- ingar því það eru ekki allir jafnhrifnir af geit- ungnum sem slíkum, en okkar Geitungur er sérstakur því hann kennir börnum ýmislegt.“ Geitungurinn á ferð og flugi Morgunblaðið/Golli Árni Árnason og Halldór Baldursson, höfundar Geitungsbókanna.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.