Lesbók Morgunblaðsins - 12.07.2003, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 12.07.2003, Blaðsíða 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 12. JÚLÍ 2003 Í EINNI frumgerð söngleiksins Horna- kóralsins eftir Odd Björnsson lýkur leiknum á alþekktu Heimsósómakvæði Skáld-Sveins: Hvað mun veröldin vilja. Þessi söngleikur sem varð til í sam- starfi Odds, Kristjáns Árnasonar og Leifs Þórarinssonar, var frumfluttur í Þjóðleikhúsinu 1967 í leikstjórn Bene- dikts Árnasonar við góðar undirtektir, án þess að leikurinn yrði í hópi vinsælustu verka. Leik- skáldið Oddur Björnsson hafði þá þegar vakið verulega eftirtekt með einþáttungum sínum m.a. í leikhúsi Grímu í Tjarnarbæ, en þetta var í raun fyrsta verk Odds í fullri viðtekinni sýn- ingarlengd og staðfesti, að skáldið átti stærra erindi við áhorfendur sína en áður hafði komið fram. Þó að endirinn á leiknum yrði annar en erindi Skáld-Sveins þegar að sýningu kom, var þó ljóst af verkinu öllu, að þessi leikur sem sver sig eins og fyrri verk Odds í anda fárán- leikastefnunnar, bjó einnig yfir þeirri siðgæð- islegu vandlætingu sem er aðall heimsósóma- kvæða. Hér er það taumleysi mannskepnunn- ar og græðgi sem er skotspónn höfundar, hið sama og birtist í orðum Caligula keisara í sam- nefndum leik Alberts Camus: Je veux la lune, Ég vil túnglið. Camus hafði sem kunnugt er drukkið af bikar tilvistarstefnunnar, en þegar við skoðum betur höfundarverk Odds Björns- sonar verður brátt ljóst að Oddur hafnar því vali sem tilvistarstefnan eða existentíalisminn boðar og önnur öfl virðast ráða á vegferð pers- óna hans. Godot kemur ekki. Loftur, aðalpers- ónan í Hornakóralnum, segir að vísu, að eftir á að hyggja myndi sér væntanlega ganga betur að bjarga mannkyninu, ef hann fengi vel borg- að fyrir. Með öðrum orðum: höfundur er ádeiluskáld. Loftur heitir hann sem sagt, eins og nafni hans í leikriti Jóhanns Sigurjónssonar og báðir leggjast þeir í kukl, til að beisla hið illa og koma undir vald hins góða. Báðum tekst held- ur óhönduglega í þeim tilraunum sínum og Loftur Odds hefur það eitt upp úr krafsinu að magna fram skrattann sjálfan eða Djöfsa, sem tekur við að vinda fram atburði leiksins. Það felst einkum í því að skipuleggja þær flugferðir um geiminn sem eiga að vera öllu eftirsóknar- verðari. Djöfsi þessi sem er skilgetinn bróðir Feilans í Silfurtúnglinu, hefur alla þræði í hendi sér og þar mega sín einskis gamlar þjóð- legar hógværðardyggðir móður Lofts, sem satt að segja skilur nú lítið í hinum nýja hraða- heimi, né heldur bænir stúlkunnar Dísu sem biður Loft að líta okkur nær og skoða með sér blómin á mörkinni og krossfiskana í fjörunni. Líkt og leikrit Laxness frá þessum áratug, er þessi sjónleikur Odds mórölsk skemmtisaga, mótuð af pensilförum fáránleikastefnunnar, en samtölin gefa texta Halldórs lítið eftir hvað skáldlegt hugmyndaflug og orðfima fyndni snertir. Áratug síðar umskrifaði Oddur leikinn fyrir Leikfélag Akureyrar og þá urðu Kröflu- mál meginþema; kannski hefði verið rétt að draga fram þennan leik í umræðu undanfar- inna missera um virkjanir og umhverfisspjöll. Fáránleikastefnan Um Odd hefur verið sagt að hann sé hrein- ræktaðasta afsprengi fáránleikastefnunnar sem fram kom á Íslandi á síðari hluta síðustu aldar. Þessi stefna byrjaði að krauma í París upp úr 1950, einkum með verkum Becketts, Ionescos og Adamovs. Þeir voru allir aðfluttir Parísarbúar, Beckett Íri, Ionesco Rúmeni og Adamov Rússi. Í forspor þeirra fylgdu inn- fæddir franskir höfundar; Tardieu, Boris Vian, Pinget, Vauthier, Dubillard. Þessi stefna eign- aðist síðan fylgjendur í flestum Evrópulöndum og ekki að undra, enda sprottin af heimsmynd í rúst og engu að treysta. Nefna má sem dæmi Bretann N.F. Simpson, Austurríkismanninn Peter Handke og Pólverja eins og Mrozek og Rózewicz, sem reyndar byggðu á gamalli hefð frá Witkiewicz. Hér á landi fóru menn að skrifa í þessum anda upp úr 1960, eftir að leikhúsin fóru að sýna verk Becketts, Inoescos og svo Bretans Pinters og Spánverjans Arrabals. Þetta var auk Odds einkum Guðmundur Steinsson sem tókst að varpa nýju ljósi á firringu nútíma- mannsins og náði almenningshylli og út fyrir landsteinana, og einnig Erlingur E. Halldórsson, sem tekur mið bæði af Adamov og Brecht og er kannski pólitískt beittastur þess- ara höfunda. Auk þess hefur verið bent á skyldleika með þeim Jökli Jakobssyni og Harold Pinter og það áður en þeir þekktu hvor til annars, sem hefur þó væntanlega ekki verið gagnkvæm viðkynning, því að bresk leikskáld leggja það ekki í vana sinn að fylgjast með ís- lenskri leikritun. Svava Jakobs- dóttir hefur í verkum sínum einnig veður af þessari stefnu. Ekki má heldur gleyma Halldóri Laxness, þegar fjallað er um áhrif fárán- leikastefnunnar. Allir supu þessir höfundar úr brunni þeirrar stefnu með tákn- mál sitt og afskræmingu veruleikalíkingar, en vatnið varð ólíkt á bragðið í munni hvers og eins. Hver fann sína leið. Brecht með sína ep- ísku frásagnarhefð komst einnig í tísku á þess- um eftirstríðsárum, og oft varð úr þessu frjó blanda. Hjá Oddi bregður fyrir brechtskum stílbrögðum og persónurnar stilla sér stundum upp til hliðar við sjálfa sig til að ræða við áhorf- andann um sig og tilveruna. Í því felst sú Verfremdung sem Brecht boðaði og hjá Oddi oft gert með grárri glettni sem höfðar til hug- arflugs og vitsmuna í senn. Enn eitt ber að athuga. Séu þau íslensku leikskáld, sem í raun báru uppi nýja bylgju ís- lenskrar leikritunar eftir lægð sem hafði verið frá dögum Jóhanns Sigurjónssonar og Kamb- an, borin saman við starfsbræður þeirra er- lendis sem skrifa í líkum anda, er áberandi hversu ádeila er þeim töm. Á meðan fárán- leikaskáldin í Evrópu velta sér upp úr heim- spekilegum spurningum um afstæði og sann- leika allra hluta, býr þjóðfélagsádeila að baki margra þessara íslensku verka, þau eru í fár- ánleika sínum að fjalla um íslenskan veruleika. Auðvitað ber að varast alhæfingar og undan- tekningar eru til á báða bóga. Nashyrningar Ionescos verða seint taldir leikrit almenns efn- is, né heldur Þeir settu handjárn á blómin eftir Arrabal sem endurspeglar einræðið og kúg- unina í heimalandi skáldsins. En spurning er hvort þessi pólitíski þáttur í absúrd leikritun okkar verður svona ágengur vegna þeirrar staðreyndar að hið unga íslenska lýðveldi með sitt nýfengna sjálf- stæði var með erlendan her í landi sínu og þessi staðreynd skipti þjóðinni í tvær andstæðar fylking- ar. Bæði Halldór og Oddur deila auk þess á græðgi hins nýja pen- ingaveldis stríðsgróðakynslóðar- innar sem ekki kann sér hóf og býður allt falt. Sameiginlegt er öllum þessum skáldum að lifa í skugga atóm- sprengjunnar. Má til dæmis sjá þess skýr merki í verkum Odds, Hornakóralnum, Dansleik og Þrettándu krossferðinni, eigi síð- ur en t.d. hjá Laxness í Prjóna- stofunni Sólinni og Jökli í Í öruggri borg og Syni skóarans og dóttur bak- arans. Annars er svolítið merkilegt að skoða minnin hjá þeim Oddi og Jökli og finna hlið- stæður og andstæður. Þeir eru jafnaldrar og báðir prestssynir og tamt að grípa til biblíu- tilvitnana, t.d. Jökli í Í öruggri borg og Oddi í Þrettándu krossferðinni. Og líkt og Loftur í Hornakóralnum lokar höfuðpaurinn í Í öruggri borg sig af hjá Jökli til að gera uppfinningu sem breytir gangi lífs og spori himintungla. Oddur vitnar reyndar í sitthvað fleira bók- menntakyns í Hornakóral, ekki síður en t.d. sextán árum seinna í Þrettándu krossferðinni, þegar postmódernisminn með öllum sínum til- vísunum og innskotum var að komast í hátísku. Raunar má kalla Hornakóral postmódernískt verk, þó að árið 1967 hafi í reynd ekki verið bú- ið að finna upp þá stefnu, kannski hið fyrsta af því tagi í leikritun okkar ef ekki bókmenntum almennt. Leiðin í leikhúsið Oddur Björnsson er fæddur 1933 og eftir að hafa þefað af leikhúsfræðum í Vínarborg, sneri hann sér að skriftum. Sagnheimur hans er víð- feðmur og þegar í einu fyrsta verkinu, Köngu- lónni, sem sýnt var í Grímu 1962, velur Oddur sér dæmisögu frá endurreisnartímanum, sögu af Alexander páfa III sem var af Borgía-ætt- inni, sonum hans Sesari og Jóhanni (sem heitir Don Juan í þessum leik), og svo systurinni Lúkrezíu. Þetta minni verður honum að uppi- stöðu í heimsósómaleik. Og það lætur hann ekki í friði, enda má segja að í Köngulónni sé aðeins brugðið upp svipmynd af þessu kaldrifj- aða fólki. Köngulóin var sýnd ásamt tveimur öðrum einþáttungum, Við lestur framhalds- sögunnar og Partí, og frumflutningur þessara leikja varð boðun þess að eitthvað nýtt var að gerast í leikritun okkar. Næst útbjó Oddur út- varpsleik um Borgíafólkið sem nefndist Brúð- kaup furstans af Ferrara, þar sem sagan er dregin skýrari dráttum, og loks varð leikurinn fullskapaður í sjónleiknum Dansleikur sem frumfluttur var í Þjóðleikhúsinu 1974. Er það einkenni í skáldskap Odds að sömu þemun skjóta oft upp kollinum aftur og aftur, t.d. má með vissum rétti líta á hinn bráðskemmtilega einþáttung Partí sem frumgerð leiksins Eftir konsertinn sem sýndur var í Þjóðleikhúsinu 1983. Annað einkenni er að höfundur gengur lengi með söguefnið.Tvö af metnaðarfyllstu verkum Jökuls og Odds, Sonur skóarans og dóttir bakarans og Þrettánda krossferðin eiga það sameiginlegt að höfundarnir voru að glíma við efnið um áratug áður en leikirnir voru fyrst sýndir. Einþáttungurinn Partí er glettin skemmti- mynd, í raun án hauss og hala né tilraunar til að segja rökfasta sögu, og er það alþekkt úr skáldskap fáránleikastefnunnar, hin aristótel- íska bygging leiks er látin lönd og leið. Haldin er veisla þar sem flestir gestanna verða sér mátulega til skammar og helsta framlag gest- gjafa er að reka glös full af drykknum asna í partífólkið. Við lestur framhaldssögunnar er einnig svipmynd, í þessu tilviki af tveimur kyndurum; annar hefur yfir væmna ástarsögu hinum til afþreyingar. Kannski fjallar leikur- inn um flóttann í ímyndunina og skáldskapinn til að lifa af raunveruleikann. Um líkt leyti eða á fyrri hluta sjöunda ára- tugarins samdi Oddur síðan tvo merkilega ein- þáttunga, báða ívið heimspekilega. Annar þeirra, Amalía, lýsir konu (sem er leikin af karlmanni með hárkollu), sem situr fyrir fram- an spegil og í þeim spegli birtast fleiri útgáfur af þessari persónu og ekki á sama aldri, rosk- inn maður og roskin kona, daðursleg kona o.s.frv. Pirandello spurði sig forðum hvort við værum þau sem við héldum, sem aðrir héldu að við værum, eða eitthvað enn annað sem spegill spegill herm þú hver gæti ekki einu sinni svar- að. Líkt og Marschallin í Rósariddaranum reynir Amalía að ná í skottið á tímanum og gera upp við hann. Það er af engri tilviljun að hér er vitnað til tónlistar. Í sinni póstmódernu aðferð leitar Oddur ekki aðeins fanga í heims- bókmenntunum, heldur og í tónlist heimsins. Verk hans bera því skýrt vitni, hver upp- spretta honum tónlist er í verkum sínum. Ann- ars eru til tvær gerðir af leiknum um Amalíu (hann var fluttur í tvígang, 1962–3 og 1964) og kannski má segja að hgmyndin sé snjallari en útfærslan í báðum þessum tilvikum. Hinn einþáttungurinn er Jóðlíf, eitt besta verk Odds. Tvo fóstur í maga ræðast við. Varla getur það nú verið skemmtilegt. Jú, það kemur í ljós að það er nokkuð þröngt um þessi blessuð jóð, þau þrá annan heim sem þau raunar ekki þekkja, en býður í grun að til muni vera. Þessi leikur er þannig Kant-ískur í hugsun, tengdur spurningum sem hafa verið til grundvallar allri heimspekilegri hugsun síðan á dögum Kants: hvernig skynjum við heiminn, hvaða tæki og tól höfum við til að bregða á hann málbandi? Er það kannski aðeins hinn efnislegi hluti hans sem við kynnumst með okkar takmörkuðu skynfærum? Hversu næmt er skyn okkar á eitthvað sem er annað en Das Ding an Sich? Er þrá okkar eftir öðrum heimi tengd einhverju sem í vændum er eða einhverju sem er aðeins óræð tilfinning í brjóstinu sem aldrei getur orðið að veruleika? Svo sem vera bera í góðu absúrd-verki dettur skáldinu ekki í hug að koma með einhver einföld svör við slíkum spurningum, en þær verða þeim mun áleitnari og viðkynningin við jóðin er hin skemmtileg- asta, þau eru þegar farin að draga dám að full- vöxnum manneskjum með kostum okkar og göllum. Þessi leikur var sýndur á vegum Þjóð- leikhússins 1965; sömuleiðis þýddur og gefinn út í safni nýrra norrænna leikrita á ritunar- tíma. Þá verður fyrir okkur leikur sem nefnist Tíu Þrettánda krossferðin sem var sýnd í Þjóðleikhúsinu árið 1993. Leikstjóri: Þórhildur Þorleifs- dóttir. Leikmynd: Sigurjón Jóhannsson. Tónlist: Hjálmar H. Ragnarsson. Leikarar: Pálmi Gests- son (Stefán), Eggert Þorleifsson (Seppi), Baltasar Kormákur (Andrés). HINN FÁRÁNLEGI HEIMSÓSÓMI E F T I R S V E I N E I N A R S S O N Oddur Björnsson er kannski mestur heimsmaður íslenskra leikskálda, að Guðmundi Kamban undan- skildum, og sá sem leitar sér víðast fanga í sögu Vest- urlanda að minnsta kosti, segir í þessari grein sem fjallar um verk Odds í innlendu og erlendu samhengi. Oddur Björnsson

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.