Lesbók Morgunblaðsins - 12.07.2003, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 12.07.2003, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 12. JÚLÍ 2003 5 tilbrigði, frumfluttur í Lindarbæ 1968. Heitið er að sjálfsögðu úr tónmáli, enda er þemað endurtekið með nýjum og nýjum tilbrigðum hvað eftir annað. Jafnframt er í leiknum fram- vinda, þannig að tilbrigðin tíu eru ekki endur- tekning ein með viðeigandi flúri, heldur er þar sögð dæmisaga –í fáránleikastíl – sem stefnir í eina átt. Sögupersónurnar eru í upphafi stefs listamaðurinn, eiginkona hans og móðir henn- ar, en þeim hefur fækkað í leikslok. Í rauninni bregður Oddur þarna upp sjálfhæðinni mynd af brölti okkar listamanna, þar sem það heitir að við fórnum öllu fyrir listina, en við krefj- umst þess líka að okkar nánustu geri það. Þessi skondni leikur er ekki í fullri kvöldlengd, en það er algengt um verk absúrdistanna, að sjónleikir þeirra voru ekki af þeirri tveggja– þriggja tíma lengd sem hið borgaralega sam- félag hafði komið sér saman um að væri heppi- legur kvöldskammtur. Sænska tónskáldið Arne Mellnäs samdi síðar óperu sem byggð var á þessum leik og kallaði Dans på rosor, og var óperan flutt í Danmörku 1989. Hún hefur aldrei verið flutt á Íslandi. Um svipað leyti voru þeir Oddur og tónskáldið Leifur Þórar- insson með hugmynd að óperu og farnir að vinna að henni, en því miður varð sú fyrirætlun aldrei að veruleika. En ári fyrr en Tíu tilbrigði voru á fjölunum, kom enn eitt verk frá hendi Odds og í þetta sinn var það Leikfélag Reykjavíkur sem stóð að sýningunni. Þetta var barnaleikritið Snjó- karlinn okkar. Forsaga þessa leiks er býsna merkileg. Árið áður hafði Leikfélag Reykja- víkur bryddað á nýjungum í smíði barnaleik- sýninga. Þórir Guðbergsson hafði samið barnaleikrit sem nefndist Kubbur og Stubbur og í því skyni að virkja hugarflug barna við mótun sýningarinnar, höfðu nemendur Magn- úsar Pálssonar, Jóns Reykdals og Jóhönnu Þórðardóttur í Myndlistarskólanum í Reykja- vík gert frumskissur að leikmyndum. Nú var gengið einu skrefi lengra og nemendur úr sama skóla voru hvattir til að spinna söguþráð. Það kom síðan í hlut Odds að vinna úr þeim hugmyndum og koma skikk á leikinn. Meðal barnanna sem voru frumhöfundar leiksins var Hilmar, sonur Odds, sem síðar átti eftir að verða viðurkenndur kvikmyndahöfundur. Löngu seinna gaf Oddur út barnabók sem nefndist Í krukkuborg. Hún varð síðan texti samnefnds leiks sem Þjóðleikhúsið sýndi 1978 og varð ein framsæknasta og nýstárlegasta sýning fyrir börn sem sést hefur á Íslandi; þarna voru leikbrúður og margs kyns út- fjólublá litatækni notuð. Afkastamikill höfundur Á áttunda áratugnum dró til annarra tíðinda í leikritun Odds. Árið 1974 var frumfluttur í Þjóðleikhúsinu, Dansleikur, eitt veigamesta leikrit hans og verður vikið að því hér á eftir. Það leikrit átti upprunalega að koma upp á sviðinu í Iðnó, en atvik höguðu því þannig, að þegar sá sem hér heldur á penna flutti sig um fet frá Leikfélagi Reykjavíkur upp í Þjóðleik- hús, var Dansleikur með í farteskinu. Skömmu síðar, eða árið 1977, sýndi Þjóðleikhúsið enn eitt verk eftir Odd, leikritið Meistarinn. Sá leikur er líkt og Tíu tilbrigði í rauninni langur einþáttungur. Meistarinn hefur nokkra sér- stöðu í verkum Odds. Við fyrstu kynni og í upphafi leiks blasir við hefðbundið verk, en Meistarinn sver sig síðar í ætt við önnur leikrit hans og í lokin hafa persónurnar skipt svo rækilega um hlutverk að áhorfandinn þarf að taka á honum stóra sínum til að skilja hvað skáldið er að fara. Í raun á sér lítið stað nema samtal milli Meistarans sem er gamall drykkjurútur sem lítur á sig sem skáld, er að útbúa skútu og stráir um sig tilvitnunum, og ungs læknis sem í upphafi telur sig vera í vitj- un. Sömuleiðis er þar á ferli fáorð kona sem áð- ur en leik lýkur er búin að taka á sig gervi allra þeirra kvenna sem koma fyrir í lífi þessara tveggja manna. Og ungi læknirinn er þá einnig orðinn annar. Líkt og Jökull gerir í Herbergi 213 er Oddur hér að fjalla um hlutverk okkar fremur en hlutskipti, í tíma og rúmi, og gott ef ekki í lokin læðist að okkur hugmyndir um, ef ekki endurfæðingu, þá að minnsta kosti þá hlekki sem halda áfram í lífskeðju tímans, og nýjar og nýjar kynslóðir taka að sér hlutverk- in. Þó að efnið sé ekki ósvipað eru efnistökin auðvitað ólík og penni skáldanna tveggja pers- ónulegur. Árið 1983 var svo frumsýnt í Þjóðleikhúsinu verk eftir Odd sem kannski stendur næst því að geta kallast hefðbundið í byggingu, áður- nefnt Eftir konsertinn. Enn kemur tónlist við sögu í gervi pólsks píanista sem hefur flutt byltingaretýðu Chopins með bravúr, en annars hljómar adagióið úr fimmtu hljómkviðu Mahl- ers í tíma og ótíma í leiknum líkt og í mynd Viscontis, Dauðinn í Feneyjum. Svipað þema, með þann sem kemur og flytur boð frá fyrri kynnum og veldur síðan umtalsverðu uppþoti í lognmollu dagsins, er býsna algengt í íslensk- um leikskáldskap þessara ára. Nægir þar að minna á Dómínó Jökuls, Klukkustrengi og Í öruggri borg, kannski líka Prjónastofuna Sól- ina (Sine Manibus). Fyrri þátturinn af tveimur er hjónabandsdrama af næstum strind- bergskri heift, þar sem eiginkonan linnir ekki látum að niðurlægja mann sinn. Síðan koma hljómleikagestirnir og upphefst fáránlegt partí. Áður hefur óboðinn gestur laumað sér inn í hjónabandsvígið, gamall skólafélagi eigin- mannsins og nýuppgötvaður heimilisvinur, læknir frúarinnar öðrum þræði og garðyrkju- maður í hinn þráðinn – að sögn. Partíið er reyndar ekki sá hreinsunareldur sem kannski var stefnt að, en nú er það eiginmaðurinn sem spennir boga kaldhæðninnar og skotspónninn er Jóhannes, hinn nýi heimilislæknir. Í lokin hverfa frúin og læknir hennar á braut, en eftir situr eiginmaðurinn tónelski með hálfruglaða ömmu, nýtrúlofaðan 15 ára soninn og dætur sínar. Hann spáir í það að morgundagurinn kunni að verða betri. Hallarbylting? Eða er byltingaretýðan bara orðin stofugaman fagur- keranna? Dansleikur Auk Hornakórals eru veigamest verka Odds Dansleikur og síðasti leikurinn, Þrettánda krossferðin, sem frumsýnd var í Þjóðleikhús- inu 1993. Þetta eru heimsósómaleikir, ólíkir í aðferð og efnisvali en öllum sameiginlegt að velferð mannkyns er meginviðfangsefni. Hornakórall er bráðfyndinn söngleikur og þar er spjótum beint að græðgi og skammtíma- gróða – sem gæti verið á kostnað þess sem aldrei verður bætt. Dansleikur gerist eins og áður segir á endurreisnartíma og persónurnar eru þekktar úr sögunni. Leikurinn hefst á því að persón- urnar ganga fram á sviðsbrún og stilla sér þar upp til að segja deili á sér, en skjóta um leið inn athugasemdum hver um aðra. Sú mynd sem Oddur bregður upp af Borgia-fjölskyldunni á þó ekkert skylt við einhverjar raunsannar fyr- irmyndir sögupersónanna, þær eru mótaðar með pensli sem tekur meira svipmót af sögu- tíma höfundar. Það er undarlegur léttleiki og þokki yfir þessum grimma leik, þar sem flærð og svik eru daglegt brauð, og ef vill má líta á hann sem táknmynd af heimi nútímans. Þann- ig er til dæmis erfitt að sniðganga þá hugsun að ambátt páfa og ástkona sé táknmynd þriðja heimsins andspænis takmarkalausri spillingu þeirra sem völd og ríkidæmi hafa í fyrsta heim- inum. Grimmdin tekur til aðalpersónanna sjálfra; Lúkrezía er til dæmis notuð sem tál- beita á hjónabandsmarkaði og síseld fyrir auð og völd, en brúðgumunum með hagleik komið fyrir kattarnef. Höfuðpaurinn, Alexander páfi, er þó öðrum þræði beinlínis lýrískur og fer með sonnettur sem eru meðal þess fegursta sem Oddur hefur ort; við þennan leik gerði Atli Heimur Sveinsson forkunnlega tónlist. Annar kveðskapur er hins vegar í kýrhalastíl. Andi úrþvættisins Sesars his unga svífur yfir at- burðarásinni og allt endar með ósköpum, fórn- ardauði Jóhanns sem reynir að hamla gegn tíð- arandanum er marklaus og slær ekki í á gleðina í þeim Hrunadansi sem leiknum lýkur á. Þrettánda krossferðin Leikurinn um krossferðina þrettándu er annars konar. Aðalpersónurnar eru þrír her- menn í leit að stríði. Seppi heitir einn þeirra, í senn bernskur og óheftur villimaður. Mál hans er bjagað, líkt og við kynntumst fyrst í einþátt- ungnum Við lestur framhaldssögunnar; kannski er það vísbending um að hugsun hans sé ekki fullþroskuð. Andrés heitir annar þeirra félaga; hann er sá sem þráir hugsjónir og regl- ur til að fylgja en þó breyskur þegar á hólminn er komið. Sá þriðji ber heitið Stefán og er vits- munavera sem spyr um rök og tilgang, en slæst þó í hópinn í leit að svörum. Þessir þrír kumpánar eru mannkynið í hnotskurn, frá stigi villimennsku um skikkun og umgengis- reglur samfélags til leitar að æðra tilgangi. Leikurinn lýsir krossgöngu þeirra, en kross- ferðirnar frægu á miðöldum urðu aldrei þrett- án, sennilega sjö. Á baksýn birtist hinn eilífi riddari, líkt og í mynd Bergmans um sjöunda innsiglið, á annarri leið en þeir félagar. „Ridd- arinn er eins konar stef við verkið sem það svo endurtekur í heilli sinfóníu sem er óður til mannsins í endalausri smæð hans – sem er samt svo stór, göfug, uppnumin, hundsleg, heimsk og hversdagsleg,“ eins og Sigurjón Jó- hannsson leikmyndahönnuður kemst að orði í eftirmála með prentaðri útfgáfu leiksins. Leikritið er margslungið og tilvísanir marg- ar, sumar spunnar í mystík. Líkt og oftast hjá Oddi eru ýmis tilbrigði og sum atriðin marg- rituð. Í einni frumgerðinni hefst leikurinn á því að móðir Andrésar syngur eftirfarandi kvæði með harmóníkuundirleik: Eitt sinn var ungur maður sem ólmur vildi fara í stríð. „Farðu nú varlega væni,“ vældi hans móðir blíð. „Stattu þig drengur í stríði og stráfelldu óvinafans. Til forystu ertu fallinn,“ faðirinn mælti til hans. Ofurhuginn sá ungi óð fram með herdeild sín. Svo skaut hann í allar áttir og olli þar dauða og pín. Og fyrir hugprýði og hreysti heiðursmerki hann hlaut. Svo birtist einn djevilsins dóni, hann dátann í bakið skaut. Svo enda sum ævintýri. Og áin, hún streymir enn lygn. Og kappinn var dysjaður dauður og dubbaður upp í tign. Í hinni prentuðu gerð leiksins er þetta kvæðiskorn ekki með, hefur væntanlega þótt of Brechtskt og í raun einfalda efnið um of. Því að þó að stríðið – krossferðin sé uppistaða og umgjörð, hangir svo miklu fleira á þeirri spýtu sem við köllum vegferð og velferð mannkyns. Því að leikurinn er eins konar vegakvikmynd. Á vegi þeirra verða álfadrottning, sem að hætti íslenskra álfameyja vill tæla þá til fylgilags, Klukku-Kalli sem er Spánarkonungur og keis- ari í tilbót (fyrsti eða fimmti eftir því hvort starfið talið er), sem er að reyna að hafa enda- skipti á tímanum með hjálp nútíma gangverks, gestrisin bóndahjón, sem skroppin út úr mynd eftir Breugel, skemmtistjóri sem stýrir darr- aðardansi – eitt af eftirlætisþemum skáldsins – og blindur hershöfðingi. Er skemmst af því að segja að þeir félagar finna aldrei stríðið sem átti að gefa lífinu tilgang – kannski bjó svarið við lífsfyllingu í öðru en stríðsrekstri. Þessari auðugu krossferð gegn stríði lyktar svo þannig að þeir félagar fyrirgera hver öðrum. Viðtökur við þessum leik sem er eitt frum- legasta framlag til íslenskra leikbókmennta á síðari árum voru blendnar, og má það furðu gegna. Svo óvægin var gagnrýni í einu dag- blaðanna, að manni býður í grun að það hafi haft áhrif á, að síðan hefur ekkert verk komið frá hendi Odds Björnssonar. Er það með ólík- indum, því eins og við höfum séð í þessu yfirliti hefur Oddur verið mjög frjór og mikilvirkur höfundur og lífsverk hans meira að vöxtum en marga grunar. Til marks um það eru að auki tvö sjónvarpsleikrit og ekki færri en 25 út- varpsleikrit sem ekki verða gerð að umræðu- efni hér, en eru sannarlega efni í sérstaka könnun. En hver eru þá einkenni á skáldskap Odds Björnssonar? Í fyrsta lagi er hann kannski mestur heimsmaður íslenskra leikskálda að Guðmundi Kamban undanskildum og sá sem leitar sér víðast fanga í sögu Vesturlanda að minnsta kosti. Líkt og Kamban er hann siðbót- armaður, en lengra nær samlíkingin ekki. Stíll Odds er ýmist léttur og leiftrandi eða ljóð- rænn, jafnvel tregafullur, en tilsvörin koma oft á óvart, vegna þess að skáldið stendur álengd- ar og hefur gagnrýna afstöðu til persóna sínna, líkt og Brecht boðaði. Þessar persónur verða oft táknmyndir eiginleika eða samfélagsþátta, líkt og táknlegar persónur í siðbótarleikjum miðalda. Framsetningarmátinn er auðvitað meira í ætt við fáránleika en raunsæi, en í sam- tölum er þó ákveðin rökvísi sem síðan er brotin upp með hliðarstökki eða tilvísun. Það er mikil músík í þessum verkum, jafnt ytra sem innra, sum, eins og Tíu tilbrigði eru beinlínis byggð eins og tónverk, önnur eins og Þrettánda krossferðin eru rapsódísk, en þó í föstu formi sem fúga væri og með tilvísun í miðaldamess- ur. Tilsvörin eru oft tvíræð og gefa sýn í fleiri en einn heim. Stundum fer skáldið langa vegu til að komast stuttan spöl. En sú langferð gerir ferðalagið auðugra. Og hvað er þá skáldið að fara? Þessi heims- ósómakvæði Odds Björnssonar eru ekki boð- unarbréf, ekki páfabúllur, ekki stjórnmálayfir- lýsingar. Og þó eru þarna skilaboð til okkar sem búum í þessum skrýtna heimi. Þau skila- boð felast í dæmisögum sem skáldið bregður upp af listfengi. Síðan eftirlætur hann okkur að velja hvort við deilum áhyggjum hans eða ekki. Höfundur er leikstjóri, leikskáld og leiklistarfræðingur. Dansleikur. Þjóðleikhúsið 1974. Upphafsatriðið. Leikstjóri: Sveinn Einarsson. Leikmynd: Iván Törok. Tónlist: Atli Heimir Sveinsson.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.