Morgunblaðið - 25.07.2004, Page 22

Morgunblaðið - 25.07.2004, Page 22
22 SUNNUDAGUR 25. JÚLÍ 2004 MORGUNBLAÐIÐ J ane Ann Blumenfeld er á ní- ræðisaldri en lætur það ekki stöðva sig í að fljúga þvert yf- ir hnöttinn og heimsækja í fyrsta sinn ættjörð föður síns. Hún settist í helgan stein fyrir nærri 20 árum en starfaði áður við sérkennslu og hefur doktorsgráðu í því fagi. Hún ólst upp í New York, þar sem faðir hennar bjó lengst af, en hefur í um sextíu ár haft búsetu í Nýju Mexíkó. Jane Ann byrjar á að taka fram að hún tali ekki íslensku, því faðir henn- ar hafi aldrei kennt henni móðurmál sitt. Hann hafi raunar aldrei haldið ís- lenskum uppruna sínum mikið á lofti. Sveinn Kristján Bjarnason fæddist á Breiðabólstað á Skógarströnd 1887, en foreldrar hans, Vigdís Bjarnadótt- ir og Björn Björnsson, fluttu með hann í frumbernsku til Kanada. Jane Ann segir að margt sé á huldu um æsku föður síns, en víst sé að hún hafi ekki verið neinn dans á rósum. Fjölskyldan fluttist fljótlega frá Kanada til bæjarins Pembina í Norð- ur-Dakóta í Bandaríkjunum og bjó þar við mikla fátækt. Faðirinn yfirgaf fjölskylduna og móðirin neyddist til að láta son sinn í vist til bónda sem mun hafa beitt hann miklu harðræði. Hann virðist síðan hafa dvalið um skeið á munaðarleysingjaheimili, en hóf ungur að sinna margvíslegum störfum, seldi til dæmis alfræðiorða- bækur, vann sem skrifstofumaður hjá Northern Pacific Railway og sigldi um heimsins höf á flutningaskipum. Sveinn Kristján settist að í New York 1912 og tók þar upp nafnið Edg- ar Holger Cahill. Hann lifði og hrærð- ist meðal lista- og menntamanna í Greenwich Village, ritaði greinar í blöð, las sér til í listasögu og sótti tíma í New York University og Columbia- háskóla, meðal annars hjá hinum kunnu fræðimönnum John Dewey og Thorstein Veblen. Cahill kvæntist ár- ið 1919 Katherine Gridley, sem var af auðugum ættum í Michigan. Jane Ann dóttir þeirra fæddist 1922, en þau skildu nokkrum árum síðar. Komst áfram af eigin rammleik „Faðir minn var maður sem komst áfram af eigin rammleik,“ segir Jane Ann. „Hann var að mestu sjálfmennt- aður, en tveir háskólar buðu honum síðar heiðursdoktorsnafnbót, sem hann hafnaði. En hann hélt áfram að lesa og viða að sér þekkingu alla ævi og lærði til dæmis að tala kínversku. Hann brýndi alltaf fyrir mér að það mikilvægasta af öllu væri að halda heilastarfseminni við. Ég reyni að fylgja þessu ráði, sem og dóttir mín. Hún er meiri heimspekingur í sér en ég,“ segir hún og hlær. Dóttir Jane Ann, Willow Harth, fylgir móður sinni í förinni til Íslands. Hún býr í Madison í Wisconsin og starfar að kennslumálum. Jane Ann segir að í hjarta sínu hafi faðir hennar verið rithöfundur. „Ég held að dálæti hans á rituðu máli og skáldskap geti hafa tengst íslenskum uppruna hans, íslensku skáldahefð- inni. Hann skrifaði mikið um listir og menningu og gaf út þrjár skáldsögur auk sjálfsævisögu.“ Hreifst af bandarískri alþýðulist Í byrjun þriðja áratugarins hóf Cahill störf hjá Newark-listasafninu og gat sér með tímanum orð sem einn fremsti sérfræðingurinn á sviði bandarískrar alþýðulistar. „Ef faðir minn festi hugann við eitthvað hætti hann ekki fyrr en hann var orðinn fullnuma í því. Hann hreifst af banda- rískri alþýðulist og list frá nýlendu- tímanum, verkum listamanna sem máluðu myndir af fólki við dagleg störf, sveitabýlum og landslagi. Hann hafði næmt listrænt auga og átti gott með að greina verk sem voru innblás- in af sannri sköpunargáfu. Hann fann til dæmis mikinn dýrgrip í fornbóka- verslun einni, mynd sem hafði hangið þar uppi í næstum heila öld án þess að vekja nokkra athygli. Þegar frú John D. Rockefeller ákvað að byggja upp safn með list nýlendutímans fékk hún föður minn sér til ráðgjafar. Hann og stjúpmóðir mín, listfræðingurinn Dorothy Canning Miller, ferðuðust um og viðuðu að sér listaverkum sem leyndust í kjöllurum og háaloftum, öllum gleymd, og þegar hann lést átti hann orðið töluvert safn.“ Skipaður af Roosevelt Cahill var einnig vel að sér í nú- tímalist og gegndi um skeið stöðu for- stöðumanns Nútímalistasafnsins í New York, MoMA. En kunnastur varð Cahill fyrir að stýra Federal Art Project, átaki sem hófst um miðjan fjórða áratuginn og var liður í New Deal-stefnu Franklins D. Roosevelts til að knýja Bandaríkin út úr viðjum kreppunnar miklu. Sem stjórnandi FAP var Cahill orðinn einn helsti áhrifamaðurinn í bandarísku myndlistarlífi, og sem slíkur birtist hann á forsíðu tímaritsins Time í sept- ember 1938. Verkefnið náði til allra ríkja Bandaríkjanna og var ótal söfn- um og listamiðstöðvum komið á fót fyrir tilstilli þess. „FAP var merkilegt framtak sem hafði langvarandi áhrif á bandarískt myndlistarlíf,“ segir Jane Ann. „Í starfi sínu komst faðir minn í kynni við marga helstu listamenn þess tíma, meðal annars Jackson Poll- ock og Diego Rivera. Ég hygg að hann hafi verið góður stjórnandi, því hann setti listamönnunum ekki list- rænar skorður heldur hvatti þá til að gera hlutina eftir sínu höfði.“ Einhvers konar snilligáfa Spurð hvernig faðir hennar, sonur fátækra innflytjenda, hafi farið að því að verða einn áhrifamesti maðurinn í bandarísku menningarlífi svarar Jane Ann að hann hafi líkast til búið yfir einhvers konar snilligáfu, auk stað- festu og dugnaðar. „Hann hungraði í þekkingu og öðl- aðist hana. Það er ekki nóg að hafa góðar gáfur, heldur verður maður að hafa hæfileika og þor til að nýta þær. Ég býst líka við að gengi okkar í lífinu hljóti alltaf að ráðast að einhverju leyti af heppni. Faðir minn komst í kynni við áhrifamikið fólk þegar hann fluttist til New York, kynntist til dæmis konu sem rak gallerí og gerð- ist viðskiptafélagi hennar, myndaði tengsl í starfi sínu sem blaðamaður, kynntist móður minni sem var af góð- um ættum, og seinni eiginkona hans var einnig af auðugri fjölskyldu sem var í vinskap við Rockefeller-fólkið. Hann bjó líka yfir persónutöfrum og var lipur í samskiptum.“ Náði sambandi við móður sína og systur eftir áratugi Jane Ann segist telja að faðir henn- ar hafi verið of upptekinn af því að komast til metorða í bandarísku sam- félagi til að leggja mikla áherslu á ís- lenskan uppruna sinn. Hann hafi þó umgengist nokkra Íslendinga í New York, til dæmis Vilhjálm Stefánsson landkönnuð og Nínu Tryggvadóttur listmálara, og hafi komist í kynni við Halldór Laxness. „Hann misstir sjónar á móður sinni og systur í nokkra áratugi og það var honum mikið ánægjuefni þegar hann hafði loks upp á þeim aftur. Ég heyrði hann tala við þær á íslensku eftir öll þessi ár, eins og hann hefði engu gleymt. Þá skildi ég virkilega merk- ingu hugtaksins „móðurmál“. Það var reyndar algjör tilviljun að hann fann þær. Þegar hann fór að heiman sem unglingur hafði fjölskyldan búið í Norður-Dakóta, og hann hafði marg- sinnis reynt að senda þeim bréf þang- að en fékk þau alltaf endursend. En einhverju sinni fór póstmeistarinn í bænum í frí og svo heppilega vildi til að vinkona hennar sem leysti hana af vissi um afdrif fjölskyldunnar og gat sent bréfið áfram til móður hans og systur, sem þá höfðu flust til Winni- peg í Kanada. Ég hygg að æska föður míns hafi verið mjög erfið. Fátækir innflytjend- ur á þessum slóðum bjuggu í óhrjá- legum kofum og drógu fram lífið með erfiðismunum. Afi minn var drykkju- maður og faðir minn sagði mér einu sinni að hann hefði sennilega ekki verið rétta manngerðin til að gerast landnemi. Hann talaði um föður sinn sem „skáld“ sem hefði unað sér vel sem sögumaður á flakki milli bæja. Hann fyrirgaf föður sínum, eins og börn gera svo oft.“ Æskuárin minna á sögu eftir Dickens Jane Ann kveðst ekki vita hvers vegna Sveinn Kristján hafi tekið upp nafnið Edgar Holger Cahill, en senni- lega hafi hann viljað undirstrika að hann væri réttur og sléttur Banda- ríkjamaður. Willow dóttir hennar bætir því við að líklega hafi afi sinn þegið nafnið frá manni sem skaut yfir hann skjólshúsi eftir að hann hljópst að heiman og reyndist honum vel. „Afi var afskaplega góðhjartaður og hlýr maður,“ segir Willow. „Hann kynntist bæði grimmd og góð- mennsku – segja má að æska hans minni á sögu eftir Charles Dickens – og hann skildi því gildi náungakær- leikans.“ Willow segir jafnframt að afi henn- ar hafi verið mikill áhugamaður um kínverska heimspeki og búddisma. „Hann var mjög heillaður af Kína og kínverskri menningu, ekki síst bók- menntum. Sagan segir að hann hafi á yngri árum unnið við kolamokstur á flutningaskipinu Empress of China, en stokkið frá borði í Shanghai og dvalið þar um tíma. Hann lærði síðar að tala mandarín, sem ku vera eitt- hvert erfiðasta tungumál veraldar, og skrifaði töluvert um austurlenska menningu og listir. Afi hafði líka mikla unun af því að ferðast um heim- inn, líkt og víkingarnir forðum, og var mjög áhugasamur um að kynnast framandi mannlífi og menningar- heimum.“ Heimildarmynd í undirbúningi Mæðgurnar segjast hafa haft það í hyggju um langt skeið að heimsækja Ísland, en hér sækja þær meðal ann- ars ættarmót ömmusystur Jane Ann á Lýsuhóli á Snæfellsnesi. Sjálfur sneri Holger Cahill aldrei aftur til fæðingarlands síns. Halldór Laxness mun hafa boðið honum til Íslands árið 1960, en hann lést sama ár, áður en af ferðinni gat orðið. Gestgjafi Jane Ann og Willow hér á landi er Hans Kristján Árnason, en hann hefur um nokkurt skeið unnið að gerð heimildarmyndar um Cahill. Hans Kristján kveðst hafa heyrt hans getið fyrir tilviljun þar sem hann var staddur erlendis og orðið forvitinn um líf þessa merka Íslendings, sem kom- ist hefði til metorða í bandarísku þjóð- lífi af eigin rammleik. Hans Kristján hlaut styrk til undirbúnings að gerð myndarinnar frá menningarsjóði út- varpsstöðva, sem gerði honum kleift að fara til Bandaríkjanna í efnisöflun, en segir að sér hafi enn sem komið er ekki tekist að tryggja nægilegt fjár- magn til að ljúka við verkið. Ýmsir að- ilar hafi þó sýnt myndinni áhuga, þar á meðal bandaríska almenningsút- varpið PBS vegna hlutverks Cahills í bandarískri menningarsögu. Íslendingurinn sem komst á forsíðu Time Holger Cahill á efri árum. Hann fluttist með foreldrum sín- um til Kanada í bernsku og sneri aldrei aftur til Íslands. Morgunblaðið/Árni Torfason Jane Ann Blumenfeld segir föður sinn alla tíð hafa haft óslökkvandi þekkingarþorsta. Jane Ann Blumenfeld er dóttir eina Íslendingsins sem prýtt hefur forsíðu bandaríska tímaritsins Time, Sveins Kristjáns Bjarnasonar, öðru nafni Edgars Holgers Cahills. Aðalheiður Inga Þorsteins- dóttir ræddi við Jane Ann í fyrstu heimsókn hennar til fæðingarlands föður síns, sem stóð framarlega í bandarísku menningarlífi á fyrri hluta síðustu aldar. Holger Cahill á forsíðu Time í september 1938. ’Faðir minn var mað-ur sem komst áfram af eigin rammleik.‘ ’Það er ekki nóg aðhafa góðar gáfur, heldur verður maður að hafa hæfileika og þor til að nýta þær.‘ adalheidur@mbl.is

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.