Morgunblaðið - 07.09.2004, Síða 25

Morgunblaðið - 07.09.2004, Síða 25
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 7. SEPTEMBER 2004 25 dag í bíltúr til Cambridge. Við geng- um þar um og komum í hans gamla „college“ frá námsárunum og hann sagði frá. Hann hafði, fannst mér, yf- irbragð bresks menntamanns og skar sig úr á fundum og mannamót- um. Þá var það í Washington að Gunnar Scram gat skroppið í helg- arheimsókn frá New York. Við geng- um um á Capitol Hill og úr því varð mikil samræða um hæstarétt Banda- ríkjanna, sem þar er í sinni virðulegu byggingu. Mættu fleiri en ég hafa heyrt útskýringar Gunnars á þeirri sérstöðu sem sá hæstiréttur hefur til lagasetningar í okkar skilningi. En þetta voru líka alltaf tilefni til brand- arasagna og oft var hlegið dátt á okkar samverustundum þessa mörgu áratugi. Heilsu Gunnars tók að hraka eftir að við fluttum alkomin heim og vissulega syrgi ég með svo mörgum að hafa nú ekki framundan fleiri samverustundir með þessum góða, trausta vini. Sárastan harm ber Elísa og fjölskyldan öll við að hann skyldi greinast sársjúkur og eiga þá aðeins nokkrar vikur ólifaðar. Þeim sendum við Elsa og börn okkar dýpstu samúðarkveðjur. En hugur- inn hverfur aftur til fagra vorkvölds- ins á Akureyri 1950 þegar við ung- mennin hittumst í fögnuði þar á bryggjunni. Við höfum vafalaust sungið „Integer vitae, scelerisque purus“ og megi þau orð fylgja Gunn- ari G. Schram á þeirri leið, sem nú er hafin. Einar Benediktsson. Við Gunnar kynntumst í háskóla. Hann kom að norðan, ég úr MR. Leiðir okkar lágu saman í Vöku, þar var miðstöð þeirra sem töldu heim- inum stafa hætta af heimskommún- isma. Þá var vá fyrir dyrum, en marxismi í tízku og þeir sem sóttust eftir vinsældum völdu sér annað kompaní en þennan meinlausa hug- sjónahóp sem kenndi sig við lýðræði á byltingatímum. Og þóttu heldur lummulegar trakteringar, þegar stalínistar köstuðu fjöreggi heimsins á milli sín, eins og skessurnar í Hlyna kóngssyni. En þarna kynntist ég mörgum þeim sem fylgt hafa íslenzka lýðveld- inu fyrstu sporin inn í óvissa framtíð. Þessi kynslóð, hvar í flokki sem hún stóð, lét samt lítið fyrir sér fara, þótt hún væri traust og tæki hlutverk sitt harla alvarlega. Kölluð lýðveldiskyn- slóðin af fyrirferðarmeiri spor- göngumönnum sem nutu þess að losna að mestu við klámhögg kalda stríðsins. En það var góður hópur í Vöku og hvarf til ýmissa starfa landi og þjóð til heilla. Sumir urðu jafnvel verka- lýðsforingjar á vegum Sjálfstæðis- flokksins og þótti nýnæmi, þótt slíkir verkalýðsforingjar þættu heldur gamaldags í dag. Allir hafa þessir eldhugar átt sína sögu, sína miklu drauma, gleði og vonbrigði. En þó umfram allt sína miklu reynslu, sam- ofna miklum pólitískum örlögum. Og nú geta þeir horft til allra átta, ánægðir með hlutskipti sitt á viðsjár- verðum tímum, þegar engu mátti muna að jörðin yrði sprengd í loft upp eins og hver önnur hundaþúfa við Kárahnjúka. En þetta var sem sagt rúmgott samfélag, fullt af hugsjónum um af- hroð ofbeldis- og einræðisafla og margvíslegum væntingum um af- farasælt þjóðfélag hins nýstofnaða lýðveldis. En það voru mörg ljón á veginum og ekkert fagnaðarefni að takast á við stalínismann á þessum örlagaríku tímum. Og tízkan önd- verð eins og alltaf, þegar eitthvað er í húfi. En Vökuhópurinn fastur fyrir og átti þátt í því, hvernig við kom- umst klakklaust út úr logheitum átökum kalda stríðsins. Gunnar var til foringja fallinn á þessum árum. Hann var bjartsýnn og vinsæll. Hafði áhuga á öllu því sem til mannheilla horfði. Var list- rænn í eðli sínu og skrifaði góðan andríkan stíl sem lyfti undir löngun hans til blaðamennsku. Móðir hans var mágkona Valtýs Stefánssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, og því átti hann greiða leið að blaðinu. Þangað fylgdi ég honum því að hann gegndi því hlutverki m.a. að afla efnis fyrir blaðið og láta snara greinum sem þóttu hnýsilegar eins og á stóð. Slík störf voru fyrstu skref mín í blaða- mennsku og þá fyrir áeggjan Gunn- ars. Að því leyti var hann örlagavald- ur í lífi mínu. En um starf Gunnars á Morgunblaðinu skrifaði Valtýr í afar persónulegri grein um alla starfs- menn ritstjórnar í fjörutíu ára af- mælisblaðinu, 2. nóv. 1953: „Gunnar Schram hefur haft umsjón með æskulýðssíðunni, ritað um stjórn- mál, þingfréttir o.fl. Hann er meðal efnilegustu ungra manna í Sjálf- stæðisflokknum.“ Gunnar fékk snemma pata af því að ég hefði áhuga á skáldskap, þótt ég flíkaði því ekki, og tók ástfóstri við ljóðlist brezka skáldsins Dylans Thomas sem við fengum sérstakar mætur á. Þannig á ég bókina Quite Early One Morning eftir Thomas, áritaða af Gunnari. Vísbending um áhugamál þessara ára, þótt Gunnar færi í lög- fræði, en ég í norrænu sem svo var kölluð. Þegar ég blaða í þessari bók nú, hálfri öld síðar, finnst mér hún hafa verið einskonar áskorun. Veröldin var ekki bara pólitískt kviksyndi, heldur skáldlegar umbúðir um stóra drauma. Og það var víst engin til- viljun, þegar grein birtist um Dylan Thomas í Stefni, eftirmæli um skáld- ið úr Times 1953. Og þar segir í inn- gangi Gunnars: „Fá skáld hafa haft meiri áhrif á enska ljóðagerð, enda tókst honum snilldarlega að sam- hæfa gamlar venjur nýjum tíma“. Slíkt er ekki á allra færi. Þegar ég nú snögghorfi um öxl, gleðst ég yfir því sem lífið veitti okk- ur af æsku og fyrirheitum, minnugur þess að Gunnar skrifaði í Morgun- blaðið harla mikilvæga grein um frægasta menningarfund sjötta ára- tugarins, þegar Steinn Steinarr lýsti því yfir að hið hefðbundna ljóðform væri dautt, eins og hann komst að orði. Án þessarar greinar værum við merkum sögulegum bókmennta- þætti fátækari. Já, það var eftirvænting í lofti og gaman að takast á við þann hroll- kalda veruleika sem fylgdi kalda stríðinu. Engu líkara en Ísland væri einskonar miðþyngdarstaður þessa hildarleiks sem hvarvetna blasti við. Hingað komu bókstaflega allir, ekki sízt tónlistarmenn og skáld á heims- vísu og hér átti ég samtöl við ýmsa forystumenn sovézkra kommúnista. Og ekki ósjaldan orðabasl við þá sem maður átti ekkert sökótt við. Ekki sízt ef maður vann á Morgunblaðinu, þar sem rússagrýlan réð ríkjum, eins og allir áttu að vita, og lýðræðissinn- ar svo nefndir í útrýmingarhættu eins og geirfuglinn. Eða voru það ekki við sem börðust gegn góða málstaðnum og þá auðvit- að fyrir loðna krumlu auðvaldsins?! Voru það ekki við sem gegndum hlutverki hlaupastrákanna fyrir hernaðarvélina í Washington og vor- um sífelldlega að reyna að koma höggi á ástmög alþýðunnar, félaga Stalín?! Nei, við vorum ekki að hugsa um landið okkar, frelsi þess og ör- yggi; framtíð þess og fyrirheit. Eða hvað? Ég hafði ungur sjóari farið með frosinn fisk til Leníngrað og verið bólusettur við kommúnisma, svo að dugað hefur hingað til. Gunn- ar þurfti ekki slíka bólusetningu. Hann dró einfaldlega ályktun af sögu þriðja ríkisins og það fullnægði dómgreind hans. Saman fórum við Gunnar til Berl- ínar í júní 1953 og upplifðum helj- artök rauðu krumlunnar í alþýðu- uppreisninni þá og dugði okkur báðum næstu árin. Þá var Branden- borgarhliðið eins og hver annar víg- völlur, en um það var ekki hugsað, heldur þær fréttir sem Morgunblað- ið beið eftir úr þessum stríðskalda þætti nútímasögunnar. Ég minnist þess hvernig ítalskur blaðamaður var drepinn þarna á torginu, en við okkur var sagt við skyldum ekki fara austur fyrir tjald og ef við gerðum það, yrði það á okkar eigin ábyrgð. En um það var ekki hugsað, og ég sendi margar greinar heim um það sem fyrir augu bar, en á öllum mynd- um af flóttamönnum að austan sem við birtum var strikað yfir augu þeirra svo að þeir þekktust ekki. Það var til verndar ættingjum sem eftir urðu í þessu pólitíska limbói sem lesa má um í helvítiskaflanum í Gleðileik Dantes. Ekki vorum við bornir á gullstól þegar heim kom, það var nú eitthvað annað: Matthías til Berlínar með bundið fyrir augu, stóð í blaðinu sem kenndi sig við vilja þjóðarinnar. Og búinn heilagur eins og Elli Hólm hefði sagt. Í þessari ferð upplifðum við þriðja ríkið í rústum. Við bjuggum í pensjónati frú Teske sem var sér- stæð og aðsópsmikil kona, en um hana og borgina skrifaði Gunnar eft- irminnilega smásögu sem við birtum í októberhefti Stefnis 1955, mynd- skreytta af Örlygi Sigurðssyni, en okkur þremur blaðamönnum á Morgunblaðinu hafði verið trúað fyr- ir tímaritinu og við töldum nauðsyn- legt að breyta því í menningarrit vinstri mönnum til lítillar ánægju. Þriðji blaðamaðurinn var Þorsteinn Ó. Thorarensen. Margir merkir höfundar lögðu hönd á plóginn og þar birtist marg- víslegt efni sem borgarastéttin var ekki vön, en tók tveimur höndum. Þessi gráglettna tilraun var heldur skemmtileg ögrun á þröngum, for- dómafullum tímum. Og auðvitað áttu ritstjórarnir sinn metnað, þótt ekki væru þeir í neinum metsölustelling- um. Smásaga Gunnars sem heitir Borgin dimma og stúlkan, dagbók- arbrot frá Berlín, er hálfsúrrealískt myndbrot um drauma og tortímingu og sýnir rithneigð hans og listræna hæfileika og mundi sóma sér vel í sýnisbók íslenzkra smásagna. Hún var helzta afrek þessarar Þýzka- landsferðar. Mitt afrek var það að kippa Gunnari upp á gagnstétt þegar hann var á hraðri leið fyrir næsta sporvagn. Frá þeirri stundu hefur mér fundizt ég bera þó nokkra ábyrgð á lífi hans. „Maður á ekki að reyna að sigrast á lífinu, heldur sætta sig við það,“ segir í Borginni dimmu. Á ritstjórn- arárum Bjarna Benediktssonar á Morgunblaðinu kom í ljós að þeir Gunnar áttu ekki skap saman og taldi Gunnar í samtölum okkar að Bjarni hefði byggt sér út af blaðinu. Eftir það hallaðist hann að forystu Gunnars Thoroddsens og á þeim for- sendum var honum falin ritstjórn Vísis allnokkru síðar. Þegar að því kom að ég tæki að mér ritstjórn við Morgunblaðið, var Gunnar kominn til framhaldsnáms í útlöndum og ég óskaði þá eftir því að annar gamall Vökumaður kæmi að blaðinu, Eyjólfur Konráð Jónsson, en samstarf okkar hafði verið með ágætum, bæði á háskólaárunum og síðar þegar Eyjólfur var orðinn framkvæmdastjóri Almenna bóka- félagsins. Með okkur hafði þannig þróazt hin bezta vinátta og ég treysti honum vel, þegar fyrir höndum var það mikla starf að losa um tengsl blaðsins við Sjálfstæðisflokkinn. Og var Eyjólfur betri en enginn í þeirri baráttu, þótt sjálfur færi hann á þing á vegum flokksins. Þegar Gunnar hvarf til Þýzka- lands hlaut hann von Humboldt- styrk, það var í október 1957, ef ég man rétt. Síðar hélt hann til Bret- lands, þar sem við Hanna sóttum þau Elísu heim í Cambridge sem hann kallaði Kambsbryggju í anda Fjöln- ismanna, en mér sýnist dagbækur Konráðs Gíslasonar hafa haft áhrif á hann ungan, ekki sízt loftskurðurinn sem prýddi þessar hitasæknu setn- ingar í texta hans, en kannski voru það þó einkum áhrif frá umhverfinu á Akureyri og í MA. Þetta flug fannst mér einnig fylgja hugsunum vinar okkar á háskólaárum, Sveins Skorra Höskuldssonar síðar prófess- ors. En nú var hafinn undirbúningur undir lífsstarfið því að prófessors- staða í lögfræði var markmiðið. Þar var svo lífsstarf hans, en hvorki í pólitík né blaðamennsku, sem bjuggu þó með honum alla tíð. Allan þennan tíma voru tengsl okkar Gunnars hin sömu og áður eins og sjá má af bréfi sem hann skrifaði mér frá Cambridge 30. júlí 1963. Þar lýsir hann högum sínum með þessum hætti: Maður lifir hér í huggulegheitum og hefur afar hægt um sig. Dægrastytting ekki önnur en reykja pípu, spila bridge og lesa enskan litteratur nýjan sem er reyndar lakari en maður skyldi halda. Annars á lögfræðin hug minn allan eins og þú veizt. Um þessar mundir að minnsta kosti og sit ég dag hvern blýfastur á gömlu sæti Ei- ríks meistara Magnússonar og hugsa. Auðvitað er það ákaflega gott fyrir manns andlegu heilsu, en held- ur er ég samt að gerast þreyttur á vísindunum og gömlum rykföllnum skinnbókum, einangraður svo fjarri öllum mögnuðum íslenzkum lífs- hræringum, hákarli og gömlu brennivíni. En allt tekur enda ein- hverntíma og loks sé ég fyrir lokin á minni Kambsbryggjudvöl sem í mörgu hefur verið minn merkileg- asti lífstími. Ég er náttúrlega orðinn hinn mesti lögspekingur eins og þú veizt og veit meira um eitt lítið horn lögfræðinnar en nokkur annar í þessu landi, sem er ekki mikils virði á metaskál silfurs og gulls en gefur manni þó tangarhald á tilverunni á sína vísu, sem ekki er að öllu forkast- anlegt. Slíkt þarf ég ekki að skýra fyrir þér nánar.“ Annars staðar segir Gunnar í bréfi til mín, þegar hann reifar væntanlega ritstjórn sína á Vísi sumarið 1964 að Vísir og Morg- unblaðið séu „tveir kvistar á sama meiði og mikið er komið undir að starfi saman af góðvild og einlægni, en reyni ekki að reyta menn hvort frá öðru (þótt ég myndi ekki neita ef mér væri boðin ritstjórastaða við Moggann!) … afstaða mín til Mbl. er slík, eftir margra ára starf þar, að sízt sæti á mér að fara með undirmál gagnvart jafngóðum vinum mínum eins og þér, Valtý eða Sigurði (Bjarnasyni), enda mun ég aldrei reka Vísi þannig að Mbl. beri þar hallan hlut frá borði né ástæðulaust hnjóð. Ef einhvern tímann kemur að mannaskiptum milli blaðanna, með- an ég er þar, mun slíkt ekki gerast öðru vísi en með samþykki og samn- ingum milli allra aðila. Ég vona að þú takir þessi ummæli mín af þeirri einlægni sem þau eru sögð, en ég vil ekki láta það sam- bandsleysi sem stafar af því að við erum hvor í sínu landi valda hér neinum misskilningi okkar í millum.“ Þegar Gunnar tók við Vísi var hugur hans þannig bundinn Morgun- blaðinu. Hann vissi að gott uppeldi og veganesti þaðan dygði honum vel, meðan hann stundaði blaða- mennsku. Þá vorum við ritstjórar hvor á sínu blaði og samkeppni mikil á markaðnum. Lagt hafði verið upp með þann ásetning sem fyrr greinir, en lífið er hart með köflum og leikur einatt góðan ásetning okkar og vilja heldur illa. Og í þessu tilfelli kröfðust hagsmunir Vísis annars vilja en þess sem var grundvallaður á gamalgró- inni vináttu úr Vöku. Morgunblaðið þurfti einnig á öllu sínu að halda til að geirnegla forystu sína í markaðsharðri samkeppni, en það skyggði þó ekki á æskuvináttu okkar Gunnars. Allt tók þetta að vísu á við metn- aðarfullar aðstæður líðandi stundar. Og áformin eins og kvikuhlaup fyrir eldgos. En þegar fundum okkar bar saman löngu síðar á hafréttarráð- stefnunni í Genf, þar sem Gunnar var á heimavígstöðvum í fræðum sín- um, ef svo mætti segja, var engu lík- ara en tíminn hefði staðið kyrr frá miðjum sjötta áratugnum. Margt hafði að vísu farið á annan veg en við ætluðum, en kjarninn var þó heill, ef glöggt er greint, eins og Einar Bene- diktsson segir í kvæði sínu Á Njáls- búð. Og ég upplifði enn gamla vináttu okkar Gunnars og veglyndi hans. En tíminn líður eins og jökulfljót að lygnum ósi þessarar eilífu þagnar sem bíður okkar. Matthías Johannessen. Sá, sem þetta ritar, átti dr. Gunn- ar G. Schram prófessor að sam- starfsmanni við kennslu og fræði- störf við lagadeild Háskóla Íslands í hartnær þrjá tugi ára, en hann lét af starfi sínu þar fyrir um þremur ár- um. Margs er að minnast frá þessum langa samstarfstíma. Gunnar var sannarlega minnisstæður maður, víðförull, margvís og reyndur vel á mörgum sviðum. Upp í hugann koma skýrar og ánægjulegar minningar um líflegar og fjölskrúðugar sam- ræður á kennarastofunni í Lögbergi á árum áður, þar sem Gunnar gat iðulega farið á kostum, hlaðinn gam- ansemi, stundum örlítið beittri, allt eftir atvikum. Hann hafði mótaðar skoðanir á mörgum mikilvægum málefnum, svokölluðum „þjóðmál- um“ jafnt sem öðrum, og var óragur við að láta þær í ljósi. Hann hafði lif- andi áhuga á mannfélaginu öllu jafnt sem hverjum einstaklingi, er hann komst í kynni við. Mannglöggur var hann með afbrigðum og langminn- ugur á marga hluti. Að sjálfsögðu var fræðastarfið – kennsla og ritstörf – aðalstarf Gunn- ars áratugum saman, og þar sló hann sannarlega ekki slöku við. Eftir hann liggja fjölmargar bækur og ritgerðir á kennslu- og rannsóknarsviðum hans, sem m.a. beindust að stjórn- skipunarrétti og þjóðarétti. Öll ein- kenndust rit hans af skýrleika og voru rituð á góðu máli. Áttu því nem- endur yfirleitt tiltölulega auðvelt með að tileinka sér efni þeirra, eins þótt oft væri þar fjallað um flókna þætti lögfræðinnar, þar sem fræði- leg skerpa höfundarins naut sín vel. Ríkan metnað hafði hann fyrir hönd fræðigreina sinna og var jafnframt hugmyndaríkur um hvaðeina, sem mátti verða þeim til framdráttar. Hann var m.a. aðalhvatamaður þess, að Hafréttarstofnun Íslands var sett á laggirnar, í tengslum við lagadeild, og var síðan forstöðumaður hennar um árabil. En lögfræðiiðkanir, einar saman, fullnægðu aldrei starfsorku Gunn- ars. Löngum var hann virkur þátt- takandi á ýmsum sviðum samfélags- mála. Mjög munaði t.d. um framlag hans til umhverfismála, í ræðu og riti. Beindist sá áhugi hans bæði að náttúruvernd hér á landi og að haf- SJÁ SÍÐU 26 Símar 581 3300 - 896 8242 Allan sólarhringinn - Áratuga reynsla Suðurhlíð 35 — Fossvogi — www.utforin.is Sverrir Olsen, útfararstjóri. Sverrir Einarsson, útfararstjóri. Bryndís Valbjarnardóttir, útfararstjóri. Baldur Frederiksen, útfararstjóri. Guðmundur Þór Gíslason, útfararstjóri. ÚTFARARSTOFA ÍSLANDS REYNSLA • UMHYGGJA • TRAUST Þegar andlát ber að höndum Önnumst alla þætti útfararinnar ÚTFARARSTOFA KIRKJUGARÐANNA Vesturhlíð 2 • Fossvogi • Sími 551 1266 • www.utfor.is

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.