Morgunblaðið - 02.10.2004, Blaðsíða 40

Morgunblaðið - 02.10.2004, Blaðsíða 40
40 LAUGARDAGUR 2. OKTÓBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Helga ElísabetKristjánsdóttir fæddist á Ísafirði 10. maí 1922. Hún andað- ist á Fjórðungs- sjúkrahúsinu á Ísa- firði að morgni 25. september síðastlið- ins. Foreldrar hennar voru Kristján Hannes Magnússon á Ísafirði, f. 4.4. 1890, d. 13.7. 1961 og Rannveig Salóme Sveinbjörns- dóttir frá Súganda- firði, f. 9.7. 1895, d. 8.5. 1968. Systkini Helgu eru: Magnús Helgi, f. 12.6. 1916, d. 1.10. 1968, Bryndís, f. 8.9. 1918, d. 25.10. 1971, Gísli Benóný, f. 24.4. 1920, Ester, f. 9.8. 1925, d. 24.3. 1945, Elísa Fanney, f. 23.9. 1927 og Halla Pálína, f. 17.3. 1930, d. 16.8. 1992. Helga giftist 6.10. 1944 Guð- mundi Ingvari Guðmundssyni, Muggi, netagerðarmeistara á Ísa- firði, f. 16.4. 1921, d. 24.6. 1975. Foreldrar hans voru Guðmundur Salómonsson frá Bíldudal, f. 8.5. 1889, d. 26.2. 1921 og Sigrún Krist- ín Kristjánsdóttir frá Súðavík, f. 19.11. 1896, d. 11.1. 1968. Börn Helgu og Muggs eru: 1) Kristján Rafn ökukennari, bús. á Ísafirði, f. 28.5. 1944, kona hans er Ásthildur Inga Hermannsdóttir, f. 16.7. 1945, börn þeirra: Guðmundur Rafn, f. 23.11. 1966, kvæntur Jónu Lind Karlsdóttur, og eiga þau þrjú börn, Silju Rán, Heklu Dögg og Eddu Lind. Ingveldur Birna, f. 2.9. 1970, d. 3.3. 1980 og Helga Bryndís, f. 1.5. 1972, gift Jóni Viggó Gunnars- syni og eiga þau þrjú börn, Ingveldi Birnu, Emblu Katrínu og Sesselju Malínu. 2) Jónína Elísa stuðn- ingsfulltrúi, bús. á Akureyri, f. 17.7. 1949, maður hennar er Aðalsteinn Jóns- son frá Víðivöllum í Fnjóskadal, f. 10.6. 1949, börn þeirra: Helga Elísabet, f. 28.5. 1969, gift Ólafi Kristjáni Guðmunds- syni og eiga þau þrjú börn, Jónínu Elísu, Aðalstein Ásgeir og Höllu Maríu. Magnús Helgi, f. 14.1. 1971 og Guð- mundur Albert, f. 17.1. 1980, í sam- búð með Fjólu Eiríksdóttur. 3) Al- bert verkfræðingur, bús. á Sel- tjarnarnesi, f. 9.5. 1952, kona hans er Anna Þórunn Sveinsdóttir, f. 13.11. 1951, þeirra barn: Barbara Inga, f. 19.3. 1982, frá fyrra hjóna- bandi átti Anna dótturina Þóru, f. 18.1. 1971. 4) Stúlkubarn, f. 18.1. 1958, d. 5.2. 1958. Helga ólst upp í Vallarborg á Ísafirði. Á unglingsárunum stund- aði hún ýmsar íþróttir og var virk í skátahreyfingunni. Þau Muggur bjuggu allan sinn hjúskap á Ísa- firði, lengst af á Grænagarði, síðan í Fjarðarstræti 2 þar sem Helga bjó þar til hún flutti á Hlíf II á Ísafirði 1989. Lengst af vann Helga á Neta- gerð Vestfjarða en þau Muggur voru meðal stofnenda þess fyrir- tækis. Útför Helgu fer fram frá Ísa- fjarðarkirkju í dag og hefst athöfn- in klukkan 14. Pollurinn skartaði sínu fegursta, logn eins og svo oft, fjöllin svört og gapandi yfir firðinum, einhver mik- ilfengleg fegurð yfir öllu, þetta var Ísafjörður að morgni 25. september. Það voru mikil forréttindi að vera fyrsta barnabarnið, sérstaklega þeirra hjóna Helgu og Muggs á Grænagarði. Það snerist allt um barnabarnið enda mynduðust snemma órjúfanleg tengsl milli unga drengsins og ömmu og afa. Ekki spillti umhverfið á Grænagarði fyrir forvitinn strák, fjaran óspillt og ófáar ferðirnar farnar inn að Stekkjarnesi, Netagerðin með öllum sínum ævin- týraljóma og endurnar hans afa. Þær voru margar næturnar sem ég gisti hjá ömmu sem barn, sérstaklega í tengslum við fjarveru foreldrana vegna veikinda Ingu Birnu systur minnar. Ýmislegt var brallað, spilað, teflt, nú eða farið í heimsókn til Fríðu frænku. Alltaf var vinsælt að fá mjólk og heimabökuð vínarbrauð og snúða hjá ömmu, jafnvel var laumast til hennar í frímínútunum því alltaf voru til snúðar. Amma stundaði íþróttir á sínum yngri árum, m.a. handbolta á grasi. Alla tíð hreyfði hún sig mikið og varla leið sá dagur að hún færi ekki út í göngutúr. Alltaf fylgdist hún vel með íþróttum enda voru miklir íþrótta- menn í kringum hana, fyrst bræður hennar, þeir Magnús og Gísli, sem voru í fremstu röð skíðakappa í ár- daga skíðaíþróttarinnar sem keppn- isíþróttar á Íslandi, þá Muggur mað- ur hennar sem stundaði ýmsar íþróttir m.a. fótbolta og skíði, synir hennar sem voru frambærilegir á skíðum og í boltaíþróttum. Vel fylgd- ist hún með barnabörnunum í ýmsum íþróttum en mest hafði hún gaman af að fylgjast með barnabarnabörnun- um, enginn var glaðari þegar þau höfðu staðið sig vel. Nefna má að þeg- ar haldin var sprettganga í miðbæ Ísafjarðar þá kom amma að sjálf- sögðu að fylgjast með og hvetja sitt fólk enda átti hún son, sonarson og tvær langömmustelpur meðal kepp- enda. Amma var alþýðukona og eins og algengt er um fólk fætt fyrrihluta tuttugustu aldarinnar gekk hún í gegnum ýmislegt á langri ævi. Hún missti systur sína, Ester, ung kona, missti nýfædda dóttur 1958, afi fellur frá langt um aldur fram árið 1975, Inga Birna systir mín 1979 og Halla Pálína systir hennar og sálufélagi 1992. Allt þetta fékk mikið á ömmu þó að alltaf bæri hún sig vel og sýndi fá veikleikamerki út á við. Æðruleysið var algjört, allt fram á síðustu stundu hafði hún meiri áhyggjur af barna- barnabörnunum en af sjálfri sér. Hvernig gengur hjá Silju Rán eftir að hún fékk spangirnar? Er Hekla ekki dugleg að æfa sig á píanóið? Er Edda ekki að jafna sig eftir kirtlatökuna? Ekki eru margir dagar síðan þær Edda Lind og Sesselja Malin fengu sendingu frá langömmu, því auðvitað vissi hún að þær vantaði nýprjónaða ullarsokka fyrir veturinn. Amma var Ísfirðingur og hvergi leið henni betur en í faðmi fjalla blárra. Einhvern veginn hefur þetta síast inn í ungan huga og er það lík- lega eitt af því sem hægt er að þakka fyrir, en það er svo margt. Það er undarleg tilfinning að kveðja ömmu, manneskju sem ég hef þekkt alla ævi og hefur alltaf staðið traust að baki sama hvað hefur bjátað á. Nú eru þau afi og amma, Muggur og Helga, loksins sameinuð á ný eftir 29 ára aðskilnað, það eru björtu hlið- arnar. Guðmundur Rafn (Muggur). Amma var eins og ömmur eiga að vera. Hún var hlý og góð og alltaf gott að leita til hennar. Best var að fá að gista og helst fleiri en eina nótt. Þá lá lítil stelpa í afabóli og fór með fað- irvorið og aðrar bænir hjá ömmu sinni. Amma varð ekkja ung, aðeins 53 ára, og eflaust hefur lítil stelpa stytt henni stundir og var margt brallað í Fjarðarstætinu. Amma var þolinmóð kona sem sýndi sig þegar búið var að flækja í saumavélinni, stórt lykkjufall á prjónastykkinu eða snúðadeigið klesst, alltaf gat amma bjargað hlut- unum. Amma var þrjósk kona sem fór sín- ar eigin leiðir. Bara núna í sumar þeg- ar hún var að jafna sig eftir mjaðm- arbrot steig hún upp á stól og skipti vetrargardínunum út fyrir sumar- gardínurnar, hún gat þetta sjálf og bað helst ekki um hjálp. Amma var mikil hannyrðakona en vildi ekki gera mikið úr sinni vinnu. Hún saumaði út, heklaði teppi og prjónaði hosur og vettlinga og nutu langömmubörnin þess núna í seinni tíð. Amma vildi hafa hreint og fínt í kringum sig. Eitt skipti er hún var í heimsókn leist henni ekki á veggja- skraut litlu langömmustelpunnar og tók sig til og byrjaði að skrúbba vegg- inn, í sömu andrá gengum við foreldr- arnir inn með málningarfötu, svona var amma alltaf aðeins á undan að gera hlutina. Amma var fjölskyldu- og vinaræk- in kona, passaði upp á að heimsækja ættingja og vini, einnig komu margir í heimsókn til hennar. Þegar hana var farið að lengja eftir að sjá mig fékk ég iðulega að heyra það að tímaleysi væri ekki til staðar, maður gerði það sem maður ætlaði sér að gera. Þótt gistinæturnar yrðu færri með tíman- um var samband okkar ömmu alltaf náið hvort sem var með bréfaskrift- um, símhringingum, smákökusend- ingum eða heimsóknum jafnvel alla leið til Danmerkur. Amma var ein- stök kona og fyrir mig voru það for- réttindi að eiga hana fyrir ömmu. Nú legg ég augun aftur, ó, Guð, þinn náðarkraftur mín veri vörn í nótt. Æ, virst mig að þér taka, mér yfir láttu vaka þinn engil, svo ég sofi rótt. (Sveinbjörn Egilsson.) Helga Bryndís. Amma á Ísó var lífsreynd og merkileg kona. Hún var þrautseig, glaðvær og hjartgóð. Það sást vel þegar hún fór til Bandaríkjanna með pabba árið 1999. Þar átti hún margar ánægjulegar stundir með frændfólki sínu. Þá lét hún hvorki heilsufar né tungumála- örðugleika aftra sér frekar en storm- ur og stórviðri stóðu í vegi fyrir dag- legri göngu hennar eftir Seljalands- veginum. Barbara kom til hennar á sumrin og var þá oft farið í heimsókn- ir til góðu vinkvennanna hennar. Henni þótti mjög vænt um þær og vildi að Barbara myndi kynnast þeim. Þegar vinkonur hennar komu í heim- sókn var það jafnan í verkahring Bar- böru að hella upp á kaffið og svo var spilað, spjallað og hlegið. Það eru forréttindi að hafa fengið að kynnast ömmu á þennan hátt og vinkonum hennar, þetta eru ógleym- anlegar stundir. Þá eru minnisstæðar ferðirnar okkar ömmu í Völusteins- stræti í Bolungarvík. Við systurnar komum saman eitt sumarið með ömmu, eftir fjölskylduferðalag í Eng- landi, til Ísafjarðar. Það sem er okkur efst í huga frá því sumri er hvað hún var okkur eftirlát og hefur hún örugglega aldrei eldað jafnmargar fiskirendur á einu sumri. Amma var með glettið bros og góðan húmor sem kom manni alltaf til að hlæja. Þegar eitthvað bjátaði á, var hún alltaf já- kvæð. Þetta æðrulausa lífsviðhorf er það sem við systurnar minnumst best. Sorgin ristir djúpt, en við vitum jafnframt að þegar fram líða stundir þá mun þakklætið fyrir að hafa kynnst þessari merkilegu konu vera okkur efst í huga og hjarta. Þóra og Barbara Inga. Þegar ég sá langömmu síðast á sjúkrahúsinu var hún hress, eða leit allavega út fyrir að vera það. Þannig var hún alltaf. Þegar ég var lítil hélt ég að hún yrði meira en 100 ára. Hún var alltaf að prjóna vettlinga og sokka á alla og alltaf þegar ég kom í heim- sókn gaf hún mér súkkulaði, mjólk eða kók. Hún var alltaf að hugsa um aðra, hvernig okkur stelpunum gekk í skólanum, á skíðunum og píanóinu. Guð geymi Helgu langömmu. Silja Rán. Í dag verður jarðsett frá Ísafjarð- arkirkju mágkona mín, Helga E. Kristjánsdóttir, Helga frá Græna- garði, eins og við kölluðum hana gjarna. Á björtu vori fyrir 82 árum fæddist á Ísafirði lítil, falleg stelpa, sem var vel fagnað af foreldrum sín- um Salóme Sveinbjörnsdóttur og Kristjáni H. Magnússyni, hún var sú fjórða í röðinni, en alls urðu börnin sjö, fimm dætur og tveir synir. Helga var alla tíð vorsins barn, glöð, hlý og góð, vinur æskunnar, söngs og góðra bóka, hafði yndi af að ferðast, ef tæki- færi gáfust. Ung tók hún virkan þátt í ýmsum félagsmálum með góðum ár- angri t.d. í skátastarfinu á Ísafirði, sem þá stóð þar með miklum blóma og var eins og allir sem til þekkja hinn ágætasti félagsskapur barna og ung- linga. Sannaðist á Helgu sem sagt er „einu sinni skáti, ávalt skáti“. For- eldrar Helgu, Salóme og Kristján, voru heiðurshjón. Oft var á þessum árum lítið um vinnu og vinnufúsar hendur biðu oft langtímum saman eftir að flytja björg í bú. Þó hýbýli fjölskyldunnar væru hvorki háreist né víðfeðm, var alltaf nóg pláss, ef einhver þurfti á að halda, hjartarýmið var stórt og góðviljinn til staðar. Í starfi sínu öllu, þó ekki væri hrópað hátt, miðluðu hjónin dýrum arfi til barna sinna, héldu á lofti manngildi og heiðarleika í öllu sínu lífi. Syst- kinahópurinn stóri ólst upp við leik og störf í samheldni og sátt og árin liðu. Þögn sló á hópinn þegar ein systirin, Ester, dó tvítug að aldri, árið 1945. Það fer aldrei svo á langri vegferð, að ekki gefi á bátinn, þá er ekki annað til ráða en halda áfram og brosa gegnum tárin. Þegar ég, fyrir rúmlega hálfri öld, kynntist Helgu og fjölskyldu hennar tók ég strax eftir hinu nána og góða sambandi og samstöðu milli systkinanna og þó tímar liðu urðu alltaf fagnaðarfundir þegar þau hitt- ust og gaman var að hlusta á þau spjalla um liðna tíð, alltaf á glöðum nótum og aldrei hallað á nokkurn mann, frekar borið í bætifláka ef eitt- hvað var. Árið 1944 giftist Helga góð- um og vel gefnum manni Guðmundi I. Guðmundssyni netagerðarmeistara. Þau eignuðust fjögur börn og bjuggu allan sinn búskap á Ísafirði, lengst af á Grænagarði. Hjá þeim áttu foreldr- ar Helgu skjól þegar aldurinn sótti að og þrekið dvínaði. Mann sinn missti Helga langt fyrir aldur fram árið 1975. Helga ól allan sinn aldur á Ísa- firði, að lokinni lífsgöngu sofnaði hún sátt í faðmi fjallanna við lognkyrran Pollinn, umvafin elsku og umhyggju ástvina sinna. Að leiðarlokum þökk- um við Gísli Helgu fyrir allt og allt á langri samleið. Börnin okkar þakka Helgu frænku á Ísafirði alveg sér- staklega fyrir það hvað hún var alltaf jákvæð og skemmtileg. Fjölskyldu Helgu vottum við dýpstu samúð. Þeim sem lifað hafa vammlausu lífi verður gott að vakna í landi eilífðar- innar. Sigurbjörg Jóhanna Þórðardóttir. Laugardagurinn rann upp stilltur og fagur, óvenju stilltur í samanburði við vindasama rigningatíðina dagana á undan. Ég frétti að Helga frænka væri öll, hefði þá um morguninn gengið á vit feðra sinna. Laugardag- urinn var eins og Helga, hæglátur, notalegur og góður. Ég hafði átt þess kost að hitta Helgu stutta stund kvöldið áður, á sjúkrahúsinu, þar sem hún hafði dvalið í fáeina daga. Hún hafði ekki áhyggjur af sjálfri sér frek- ar en fyrri daginn en spurði mig hvort ekki væri allt í lagi hjá mér. Ég man fyrst eftir Helgu á Græna- garði, eins og við systkinin kölluðum hana ávallt þegar við vorum lítil, í eld- húsinu í húsinu við sjóinn á Græna- garði. Helga að hella uppá kaffi, en við að borða skyr með aðalbláberjum sem alltaf virtust óþrjótandi á Grænagarði. Við systkinin af Völ- usteinsstrætinu vorum þar tíðir gest- ir og þangað þótti okkur alltaf gaman að koma. Þær systurnar, Halla móðir mín og Helga, voru ávallt í miklu sambandi allt þar til móðir mín lést árið 1992. Sambandið á milli fjöl- skyldnanna var því alltaf náið. Þegar foreldrar mínir fóru af bæ um lengri eða skemmri tíma, fékk ég gjarnan að vera á Grænagarði. Það kom aldrei að sök að leikfélaga á mín- um aldri vantaði, þannig var fyrir börn að umgangast Helgu og Mugg. Mér eru minnisstæðar ferðirnar með Mugg út í bæ í tíu-kaffinu, á meðan Helga lagaði kaffi. Þá fórum við að sækja nýtt brauð og stundum mola- sykur, en Muggur, sem var sérlega hár og grannur maður, fékk sér ávallt, að mér fannst, lófafylli af mola- sykri með kaffinu, sem hann drakk ætíð úr vatnsglasi. Í miðri brekkunni upp frá Grænagarði var sígarettu- kveikjarinn í bílnum orðinn heitur og Muggur kveikti í og raulaði svo Litlu fluguna út í bæ, ég smápatti við hlið- ina á honum, í framsætinu að sjálf- sögðu, þótt ég sæi varla yfir mæla- borðið. Öryggisbelti voru á þeim tíma eitthvað sem þvældist stundum á milli stafs og hurðar en voru jafnan ekki notuð til að festa fólk. Þá er mér sérstaklega minnisstætt atvik af netagerðinni þegar frændi minn, Kristján Rafn, sem þá hefur líklega verið vel innan við tvítugt og var að vinna á neðri hæðinni, sendi litla frænda sinn, í gríni, upp á efri hæðina þar sem voru yfirstandandi rökræður, sem oft gátu orðið fjörug- ar, með þau skilaboð að segja full- orðna fólkinu, „hátt og snjallt“, að þegja. Þá fékk ég tiltal frá Helgu frænku að þannig talaði maður aldrei við fullorðið fólk, ekki einu sinni í gríni. Ekki man ég eftir í annan tíma að ég hafi fengið slíkt tiltal frá Helgu, enda var hún einstaklega barngóð. Helga ræddi sjaldan stjórnmál en ef henni misbauð eitthvað í kerfinu not- aði hún stundum orðatiltækið „að þar væri hver silkihúfan upp af annarri“. Ekki efa ég að það hafi verið rétt mat hjá Helgu. Þá var henni tamt að segja „að ekki væri öll vitleysan eins“, þeg- ar eitthvað gekk fram af henni. Ég held að Helgu hafi fundist að allir hlytu að hafa eitthvað til síns ágætis, hún lagði því aldrei slæmt orð til fólks. Mér eru ógleymanlegar stundirnar á Grænagarði á skíðavikum á þeim tíma er Gullfoss kom til Ísafjarðar á páskum. Þá fluttum við systkinin öll inn á Grænagarð og dvöldum þar alla dymbilvikuna og síðan fram yfir páska, jafnvel með vini eða vinkonur með okkur. Muggur keyrði síðan alla á skíði á morgnana og sótti aftur síð- degis þ.e.a.s. ef ekki var hægt að renna sér heim. Ísafjörður státaði á þessum tíma af nýrri lyftu upp á Gull- hól, lengstu skíðalyftu á Íslandi. Þegar ég fór í Menntaskólann á Ísafirði varð úr að ég var í fæði og leigði herbergi hjá Helgu, sem þá var flutt í Fjarðarstrætið. Muggur var þá fallinn frá og öll börnin þeirra flutt að heiman. Ef talað er í mín eyru um að lifa eins og blómi í eggi, þá verður mér hugsað til vetranna í Fjarðar- strætinu. Helga, sem þá vann ennþá á Neta- gerðinni, hafði það fyrir sið að vekja mig á morgnana svona rétt fyrir hálf átta en var þá jafnan búin að hella uppá og smyrja brauð, ekki bara í morgunmatinn heldur einnig til að ég hefði eitthvað í löngu frímínútunum. Örstutt var út í Menntaskóla sem þá var í gamla barnaskólanum. Við kom- um þá oft í kaffi ég og einn til tveir fé- lagar mínir og gengum að tilbúnu kaffi og með því, þótt Helga væri far- in til vinnu. Ennþá bjó Helga til berjasultuna góðu sem ég hafði kynnst á Grænagarði sem barn, en einnig heimabakað brauð og snúða. Ég er þakklátur fyrir þessa vetur, að hafa þarna átt mitt annað heimili. Þegar hugað er að lífshlaupi Helgu kemur upp í hugann hvílíkar regin breytingar fólk eins og Helga upplifði á sinni ævi. Alin upp á fátæku heimili í stórum systkinahópi þar sem mörg börn deildu herbergi, saltaði síld á plönunum á Siglufirði, vann við neta- gerð á Ísafirði, en í ellinni orðinn mik- ill tónlistarunnandi og lét sig yfirleitt ekki vanta á tónleika í kirkjunni á Ísa- firði. Já, Helga kunni að njóta þess að verða gömul. Hún gerði það með því að breytast einfaldlega ekki neitt síð- ustu 30 ár ævinnar, hvorki í líkam- legu atgervi né andlegu. Hægara sagt en gert, kann einhver að segja, en þannig var Helga einmitt, hún gerði ýmislegt sem var hægara sagt en gert, en alltaf án þess að flíka því við aðra. Það eru forréttindi í lífinu að fá að kynnast fólki eins og Helgu sem tók öllu mótlæti af fullkomnu æðruleysi, tók einatt velferð annarra fram yfir sína eigin, bar ávallt virðingu fyrir samferðafólki sínu og einstaka um- hyggju fyrir börnum. Hafðu þökk fyrir, Helga frænka. Börnum, tengdabörnum, barna- börnum og mökum og barnabarna- börnum votta ég samúð mína og fjöl- skyldu minnar. Elías Jónatansson. HELGA ELÍSABET KRISTJÁNSDÓTTIR
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.