Morgunblaðið - 01.12.2004, Blaðsíða 11

Morgunblaðið - 01.12.2004, Blaðsíða 11
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 1. DESEMBER 2004 11 FRÉTTIR S amspil tungu og tækni er yfirskrift ráðstefnu um tungutækni sem haldin var í Salnum í gær. Á ráðstefnunni var kynntur afrakstur tungutækniverkefnis sem menntamálaráðuneytið hratt af stað árið 1998 og lýkur nú um áramótin. Markmið tungutækniverkefnisins var að koma fótum undir tungu- tækni á Íslandi. Í því fólst að byggja upp þekkingu á viðfangsefninu og þá gagnagrunna sem til þarf til þess að hægt verði að nýta íslensk mál, bæði ritað og mælt, í nýjustu tölvutækni. Verkefnisstjórn skilaði skýrslu um verkefnið, en Rögnvaldur Ólafs- son, dósent við Háskóla Íslands, hef- ur verið verkefnisstjóri frá upphafi. Rögnvaldur var spurður að því hvers vegna farið hefði verið af stað með þetta verkefni. „Ný samskiptatækni; tölvutækni og fjarskiptatækni leiða af sér vax- andi notkun á tungumálinu í tækja- búnaði. Til þess að hægt sé að nota tungumálið á þennan hátt þarf að vera til staðar ákveðin þekking á mjög mörgum þáttum tungumálsins, þekking sem ekki var þá til. Menn sáu fram á að hér á landi myndu til dæmis flæða yfir alls konar síma- þjónustur, tækjabúnaður í bíla og hús, þar sem við myndum, ef ekkert yrði að gert, lenda í sömu vandræð- um og við gerðum gagnvart letrinu í byrjun tölvualdar. Íslenskan væri undir það búin að vera notuð í þess háttar búnaði. Menn óttuðust að við færum að tala við símann, bílinn og húsin á ensku eða öðrum tungu- málum. Þetta er ástæðan fyrir því að verkefninu var hrundið af stað. Það þurfti að aðlaga þekkingu okkar á tungumálinu þessari nýju sam- skiptatækni.“ Bella símamær verður tölva Erlendis er tungutæknin að ryðja sér mjög til rúms. Sem dæmi má nefna að þegar hringt er í símaupp- lýsingar í Stokkhólmi svarar tölva, og sá sem vill fá upplýsingar um símanúmer les inn nafn viðkomandi. Tölvan skilur talaða málið og spyr hvort sá sem hringir geti nefnt heimilisfang til að gera leitina auð- veldari. Ef hringjandinn hefur þær upplýsingar ekki á takteinum, leiðir tölvusímsvarinn hann í gegnum allar manneskjur með sama nafni þar til sú rétta er fundin. Rögnvaldur segir að tungutæknibúnaður af þessu tagi sé óðum að komast í notkun, og á ráðstefnunni hafi Helga Waage tölv- unarfræðingur einmitt kynnt verk- efnið Hjal, þar sem unnið er að svip- uðum lausnum. „Helga lýsti tilraunaverkefni sem unnið var í sumar fyrir Vegagerðina. Þá var hægt að hringja í símanúmer hjá Vegagerðinni til að spyrjast fyrir um færð á ákveðinni heiði. Þú færð svo hringingu í símann þinn til baka, þar sem tölvan sendir mynd af veg- inum á viðkomandi heiði. Þetta er allt talað mál – þú þarft ekki að gera eins og venjan er, að ýta á einn fyrir eitthvað og tvo fyrir annað. Ef þú segir: „Mig langar að vita um færð- ina á Holtavörðuheiði,“ þá skynjar tölvan orðið Holtavörðuheiði og leit- ar upplýsinganna sem hún sendir svo til baka í símann þinn.“ Rögnvaldur segir að talgreining af þessu tagi skiptist í tvennt. Ann- ars vegar er um að ræða stakorða- greiningu, sem skilur einstök orð hjá helst öllum – að geta greint „Holta- vörðuheiði“ hjá nánast hverjum sem er, hvernig svo sem talandinn er. Hins vegar er um að ræða búnað eða tæki sem skilur mál einnar mann- eskju. Erlendis eru læknar og lög- fræðingar byrjaðir að nota slíkan búnað. Þá þarf að aðlaga og þjálfa búnaðinn í því að skilja mál og tal- anda einnar manneskju til hlítar eða því sem næst. Sú greining sem gera þarf á tungumálinu þegar nota á það í tungutækni er að jafnaði miklu ná- kvæmari en sú sem við lærum í skóla. Eitt verkefnanna sem unnið hefur verið að fyrir tilstyrk tungu- tækniverkefnisins er beygingalýsing íslensks nútímamáls sem Orðabók Háskólans hefur unnið og skoða má á heimasíðu þeirra. „Þetta er fjöl- þættari og nákvæmari greining en áður hefur verið gerð á málinu. Í beygingarlýsingunni eru allar beyg- ingarmyndir 175 þúsund orða og þar er til dæmis búið að skrá hvern ein- asta möguleika á hverri orðmynd. Ef það eru til tvær beygingarmyndir – þá verður að skrár þær báðar svo tölvan geti fundið hvora sem er.“ Rögnvaldur segir að sér hafi fund- ist að málfræði hafi átt á brattann að sækja á liðnum árum. „Mér finnst mjög gaman að kynna tungutækni- verkefnið vegna þess að það er erfitt og krefjandi. Ég held að það höfði sérstaklega til ungs fólks sem vill hafa áhugaverð, ögrandi og nýmóð- ins verkefni að glíma við. Mín trú er sú að í framtíðinni muni fleira ungt fólk fá brennandi áhuga á málfræði.“ Talmálsþekkingin var lítil Grunnverkefnin sem unnið hefur verið að fyrir tilstilli tungutækni- verkefnisins eru nokkur. Þörf var á að byggja upp gagnagrunna sem ekki voru til. Rögnvaldur segir Ís- lendinga gjarnan standa í þeirri trú að þeir viti allt um tungumálið, en svo hafi ekki reynst vera. Við séum góð í nýyrðasmíði, en málfræðiþekk- ing og grunnar um tunguna og orðin hafi verið af skornum skammti. „Þegar kom svo að talmálinu, var bókstaflega ekkert til. Í Hjal- verkefninu voru unnir fyrstu grunn- ar íslensks talmáls. Þekking okkar á töluðu máli var mun minni en gerð- ist í öðrum löndum. Því var nauðsyn- legt að byggja upp talgrunna sem fyrirtæki gætu nýtt í tungutækni- verkefni, án þess að þurfa að vinna alla fræðilegu grunnvinnuna.“ Eitt verkefni sem tungutækni- verkefnið hefur styrkt er svokall- aður markari, sem er hugbúnaður sem greinir orð í íslenskum texta í orðflokka. Annað málfræðiverkefni fólst í því að greina setningar í orð- flokka. Slíkan búnað má til dæmis nota til þess að leiðrétta villur í mál- fræði. Einnig var unnið að endur- bótum á Púka Friðriks Skúlasonar sem leiðréttir stafsetningu og skipt- ir orðum milli lína. Hjal-verkefnið tilheyrir þeim flokki verkefna sem tengist tölvutali og tölvuheyrn eins og að ofan er lýst. Í skýrslu tungu- tækniverkefnisins kemur fram að þegar Hjali lauk, snemma á þessu ári, hafi helstu grunnatriði talskynj- unar verið komin í viðunandi horf. Þar kemur einnig fram að samstarf milli íslenskra fyrirtækja, Háskóla Íslands og erlenda fyrirtækisins Scansoft, hafi gengið ákaflega vel. „Þetta hefur allt gengið einstaklega vel. Í Hjali unnu fjögur fyrirtæki, lít- il og stór, saman, auk erlenda fyr- irtækisins og Háskóla Íslands. Verkefnið gekk mjög vel og sam- vinnan var mjög góð. Erlenda fyr- irtækið taldi fræðilegu vinnuna hér á landi mjög góða, en þetta var 48. tungumálið sem þeir unnu í sínum búnaði. Við erum mjög hreykin af því.“ Norrænn tungutækniháskóli Eitt af markmiðum tungutækni- verkefnisins var að efla nám í tungu- tækni. Haustið 2002 hófst meist- aranám í tungutækni við Háskóla Íslands fyrir tilstuðlan verkefnisins. Nú hefur fyrsti nemandinn útskrif- ast úr Háskóla Íslands með meist- arapróf í faginu. „Þekkingin á fræði- greininni var mjög lítil og það var mjög brýnt að efla menntunina. Aðr- ar Evrópuþjóðir glíma við sama vandamál. Það er erfitt að fá mennt- að fólk á þessu sviði. Við höfum einn- ig verið að vinna með öðrum þjóðum á norrænum vettvangi. Við fengum fljótt aðgang að sænskum háskóla sem sérhæfir sig í tungutækni, og samnorræna verkefnið styrkti okkar nemendur sem vildu sækja aukna þekkingu í þennan skóla. Um tíu Ís- lendingar hafa tekið einstök nám- skeið þar. Fyrir tilstilli norræna tungutækniverkefnisins var unnið að því að stofna norrænan tungu- tækniháskóla, sem er samstarfs- verkefni Norðurlandaþjóðanna. Norræna ráðherranefndin leggur fé í hann og það er notað til þess að styrkja kennara og nemendur til þess að fara milli landa og deila þekkingu sinni. Hvergi á Norð- urlöndum er enn til þekking á öllum þáttum tungutækni og því er þessi háttur hafður á.“ Rögnvaldur segir að hingað til hafi flestir þeirra sem sækja meist- aranámið í tungutækni komið úr ís- lensku og málfræði, en þó eitthvað líka úr tölvunarfræði. „Við reynum að fylgjast með nemendum í faginu. Sumir fara héðan beint í dokt- orsnám, og þar á meðal eru verk- fræðingar, sem eru þá gjarnan að vinna í merkjafræði og vinnslu hljóðs.“ Rögnvaldur Ólafsson kveðst bjartsýnn á framtíð tungutækninnar á Íslandi. „Við erum að ná fótfestu í þessu. Við viljum ekki vera eft- irbátar annarra og ég held að okkur sé að takast það.“ Tungutækniverkefni menntamálaráðuneytisins að ljúka, með góðum árangri Grunnur lagður að góðum möguleikum íslenskunnar í nýrri samskiptatækni Morgunblaðið/Ómar Rögnvaldur Ólafsson hefur stýrt tungutaksverkefninu frá upphafi. begga@mbl.is ’Tungutækni er sútækni sem meðferð tungumálsins í tölvum og hugbúnaði byggist á. Þar er um að ræða að koma rituðu og mæltu máli inn og út úr tölvum og að meðhöndla það í tölvum og hugbúnaði. Til tungutækni teljast til dæmis vélrænar þýð- ingar milli tungumála, leiðrétting á texta og fleira.‘ KONA og barn sem voru í jeppa sem valt á Fróðárheiði á Snæfells- nesi síðdegis í gær sluppu með minni háttar meiðsl, að sögn lög- reglunnar í Ólafsvík. Hálka og snjór var á veginum. Jeppinn fór heila veltu og er tals- vert skemmdur. Bílbelti og barna- bílstóll eru talin hafa bjargað því að ekki fór verr. Vegfarandi flutti konuna og barnið til byggða en símasambandslaust er þar sem slys- ið varð. Á Fjarðarheiði slapp maður um þrítugt ómeiddur þegar jeppi hans rann út af og valt. Kona og barn lítið meidd RANNSÓKN á láti rúmlega fertugs karlmanns sem varð fyrir bíl á Eyr- arvegi á Selfossi um klukkan 6 á sunnudagsmorgun stendur yfir hjá lögreglunni á Selfossi. Að sögn öku- manns sem ók yfir manninn lá hinn látni í götunni þegar slysið varð en var ekki á gangi eins og sagt var í frétt Morgunblaðsins í gær. Rannsókn lögreglunnar beinist m.a. að því hvernig á því stóð að maðurinn lá í götunni. Vitað er um ferðir hans þar til um hálfri annarri klukkustund fyrir slysið. Mun hann hafa verið í heimahúsi um nóttina og hefur fólk sem með honum var gefið skýrslu hjá lögreglu. Rann- sóknardeildin lýsir eftir vitnum sem voru í nágrenni við slysstað um það leyti sem slysið varð. Lá á götunni TVEIR Íslendingar, þeir Þórir Mar- inó Sigurðsson og Þórjón Péturs- son, sem báðir hafa starfað hér á landi sem lögreglumenn, starfa nú við friðargæslu í Írak á vegum bresks fyrirtækis. Þeir munu hafa dvalið um einn mánuð í landinu. Fram kom í frétt Stöðvar 2 um málið að utanríkisráðuneytið hefði engar upplýsingar um dvöl tví- menninganna í Írak. Þeir væru ekki á vegum opinberra aðila, SÞ eða Rauða krossins. Íslendingar við friðargæslu í Írak

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.